Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðisflokksfóbían.

Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins er í tveimur greinum:
  • 1. „Að standa vörð um frelsi og sjálfstæði Íslands"
  • 2. „Að vinna í innanlandsmálum að þjóðlegri og víðsýnni umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum."

Þessi stefna hefur dugað stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar án þess að þurft hafi breyta einum staf í 80 ár á meðan vinstri flokkarnir hafa stöðugt málað yfir nöfn og númer eins landhelgisbrjótar gerðu eftir því sem vindarnir blésu á miðunum. Það er ömurlegt að hlusta á fólk sem hefur það sem æðsta pólitískt stefnumark, að koma Íslandi undir erlend yfirráð snúa út úr þessari stefnu og rakka Sjálfstæðisflokkinn með því niður í svaðið. Fólk sem á pólitíska fortíð í Kommúnistaflokki Íslands, Sameiningarflokki Alþýðu-Sósíalistaflokknum, Alþýðubandalaginu, Vinstri Grænum, Alþýðuflokkurinn,Bandalagi Jafnaðarmanna,Þjóðvaka, Samfylkingu. Alltaf gamalt vín á nýjum belgjum til að reyna að lauma meðalinu ofan í trúgjarnt fólk.

Þessi stefnuskrá hefur auðvitað ekki komið í veg fyrir að misjafnir sauðir hafi verið valdir til forystu í Sjálfstæðisflokknum.  En löngum hafa þeir reynst þjóðinni skár en sumir forystumenn annarra flokka. Og svo mun enn verða því að hugsjónagrundvöllurinn er sá sami og hefur ekki breyst.Til Sjálfstæðisflokksins hefur frjálsborið fólk leitað á öllum tímum, fólk sem hleypur ekki á eftir ismum og tískubólum heldur vill hafa báða fætur á jörðinni, trúa á landið sitt og treysta hvoru öðru.

Sjálfstæðisflokkurinn undir stjórn Þorstein Pálssonar fékkst við aðra tíma en Sjálfstæðisflokkur Ólafs Thors og Sjálfstæðisflokkur Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde og núna Bjarna Benediktssonar. Ásýnd flokksins útivið kann að breytast í augum fólks eftir viðfangsefnum líðandi stundar. En grunnstefið er það sama. Frá því hefur ekki verið kvikað þó einhverjir hafi reynt að skrifa eigin tilbrigði um stefnuna með miklum orðaflaumi. Það breytir ekki grunninum sjálfum. Það verður því þungt fyrir fæti fyrir Evrópubandalagssinna að koma því í gegnum landsfund Sjálfstæðisflokksins að ganga í bandalagið.

Í öllu pólitísku starfi gildir að það verður að vera sátt um forystufólkið. Það má ekki geyma beinagrindur inn í skápum sem hringlar í við hvert fótmál. Á Norðurlöndum hafa menn haft þann háttinn á að menn sem lenda í vondum málum, jafnvel upplognum og ósönnuðum eða minniháttar á okkar mælikvarða, stíga umsvifalaust til hliðar til að skaða ekki flokkinn sinn og hans trúverðugleika. Ef til vill verður þróun mála í þessa veru hérlendis ef maður lítur til nýlegra afsagna þingmanna. Þetta hæfileikafólk á yfirleitt greiða leið inn í stjórnmál að nýju þegar andrúmsloftið er orðið öðruvísi og fólk tilbúið að taka það í sátt aftur.

En að rjúka upp eins og kommatittanna er háttur og öskra "niður með stóra Satan Sjálfstæðisflokkinn, bannfærum hann til eilífðar með öllu sem honum fylgir" , er náttúrlega álíka vitlaust og geta ekki átt vini í öðrum flokkum, unnað fólki sannmælis eða unnið með því að sameiginlegum málum.  Menn verða að skyggnast undir yfirborðið og reyna að leita sannleikans og greina hismið frá kjarnanum.

Sjálfstæðisflokksfóbían er nefnilega verst fyrir þá sem eru haldnir henni.  Vonandi  batnar þeim með tímanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Halldór. Þú verður að eyða þessum pistli. Þú ert miklu greindari en svo að þú getið leyft þér þann munað að segja fólki eiithvað annað um þennan flokk en það sem við öll vitum. Íslenska þjóðin var viðstödd allan þann tíma sem þessi flokkur hafði áhrif á Íslandi.

Stjórnuðu forystumenn flokksins þá í andstöðu við stefnumál hans? Varðar einhvern um stefnuskrá ef hún er að engu höfð?

Ef flokkurinn starfaði undir fölsku flaggi þá skánar nú varla andlitið.

Engu máli skiptir þótt hægt sé að tengja flokkinn við einhver framfaramál þjóðarinnar. Það urðu framfarir í flestum ríkjum heims á ævitíima Sjálfstæðisflokksins. Í mörgum þessara ríkja hefur fólk ekki haft og hefur ekki hugmynd um tilveru Sjálfstæðisflokksins á Íslandi.

Tveir af forystumönnum þessa flokks eru að vísu nokkuð mikið umtalaðir í tengslum við hrun íslenska fjármálakerfisins. Báðir fyrir fordæmalausa glópsku á hverju því augnabliki sem á þá reyndi.

Hugmyndafræði sú sem flokkurinn byggði á sína stjórnsýslu reyndist vera hugmyndafræði dauðans í höndum þeirra sem flokkurinn bar einhverra óljósra ástæðna vegna mest traust til..

Verra getur þetta ekki orðið og stefnuskrá flokksins, einföld eða ekki skiptir engu í þeirri slæmu niðurstðu að eitt brýnasta mál þjóðarinnar er að losna við þennan skelfilega klúbb og flýta sér við að fela hann gleymskunni.

Árni Gunnarsson, 18.4.2010 kl. 15:39

2 Smámynd: Alfreð Dan Þórarinsson

Sæll Árni.

  Ég hélt fyrst þegar ég sá þig blogga að þú værir sæmilega víðsýnn, en miðað við þessi skrif þín þá þá veldur þröngsýni þín mér vonbrigðum, ég fæ ekki séð að stefna sjálfstæðisflokksins sem slík hafi brugðist heldur fólkið sem var við stjórn.

Mér virðist af framsóknarflokkunum 5 þá sé Samfylkingin einna slökust og reyndar svo léleg að meira að segja lítur Hreifingin betur út.

Alfreð Dan Þórarinsson, 18.4.2010 kl. 16:28

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Alfreð Dan. Þannig að þegar fólkið bregst þá varðar óbreytta flokksmenn ekkert um það á meðan. Óbreyttir eiga þá bara að halda sig við sömu forystu og sömu stjórnarstefnu.

Mér skilst að þín víðsýni skyggi afar mikið á mína svo ég er niðurbrotinn. Mín þröngsýni segir mér að óbreytt stefna flokks í anda þeirra kennisetninga sem lagt var upp með segi einhverja sögu.

1 Kannski um kennisetningarnar.

2. Kannski um forystu flokksins.

3. Mjög líklega um pólitíska dómgreind þeirra sem velja forystuna á landsfundum með lófataki.

4. Að þjóðin eigi ekki að hlusta mjög mikið á þá sem bera hag flokksins síns meira fyrir brjósti en örlög fóksins í landinu.

Ég öfunda þig ekki af víðsýni þegar ég horfi á hana með minum þröngsýnu augum.

Hinsvegar bendi ég þér á að ég veit nokkuð um sjúkdóm sem kallast alkaholismi. Ég veit að eitt það fyrsta sem hann dregur með sér er annar sjúkdómur og ekki miklu betri en heitir bara meðvirkni.

Þegar alkahólistinn er þunnur eða blindfullur heima þá segir meðvirka eiginkonan vinnuveitandanum að hann sé veikur.

Af minni þröngsýni skynja ég þenna sjúkdóm afar sterkt á bloggsíðum sjálfstæðismanna þessa dagana og finnst það raunalegt þegar ég veit að þeir sem skrifa eru prýðilega greindir og málefnalegir þar sem þeir koma að efninu heilbrigðir og óskemmdir.

Sumir ganga svo langt að fullyrða að við meðvirkni á háu stigi dugi ekkert minna en meðferð af sama toga og alkaholisma.

Ég hallast að því að þetta sé rétt greining. 

En það sem stendur upp úr er auðvitað það að sú greining þín á mér að mín þröngsýni varni mér þess að sjá ljósið í Sjálfstæðisflokknum, þó ekki væri vegna annars en hans frábæru stefnuskrár er hárrétt. 

Árni Gunnarsson, 18.4.2010 kl. 16:57

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þegar Sovétríkin féllu varð mönnum þar eystra að orði: "Það var ekki stefnan sem brást heldur fólkið sem átti að framfylgja henni."

Svo mörg voru þau orð. Sjálfstæðismenn, samfylkingarfólk, framsóknarfólk og VG eru staddir á sama stað og menn austur frá á þeim tíma.

Kveðja að norðan og megi hinn mikli eilífi andi eilíflega vaka yfir velferð ykkar.

Arinbjörn Kúld, 18.4.2010 kl. 17:15

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Arinbjörn

Þetta er skarpt svar hjá þér. En það er akkúrat þessi munur að alræði öreiganna og jafnaðarstefnunni að hvorugt er framkvæmdanlegt, þar sem sumir eru alltaf sífellt jafnari en aðrir og stela fyrir sig ef þeir geta.  Sjálfstæðisstefnan er hinsvegar framkvæmanleg þar sem hún talar um allar stéttir, þar með talda þá sem minna mega sín.

Árni minn,

Þetta gengur nú ekki upp hjá þér þar sem þú ert akkúrat að hamra það sem ég er að reyna að leiða þér fyrir sjónir að er stenst ekki. Alhæfa vegna afmarkaðra mistaka afmarkaðs hóps manna.

"Íslenska þjóðin var viðstödd allan þann tíma sem þessi flokkur hafði áhrif á Íslandi.Stjórnuðu forystumenn flokksins þá í andstöðu við stefnumál hans? Varðar einhvern um stefnuskrá ef hún er að engu höfð? Ef flokkurinn starfaði undir fölsku flaggi þá skánar nú varla andlitið. "

Nákvæmlega þetta. Þú persónugerir flokkinn í einhverjum köllum sem fóru útaf sporinu og sprungu á limminu.Flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn laxérar og þetta fólk er sett frá. Skaðinn er auðvitað skeður en þetta jafnar sig aftur.

 Ekki lagaðist mikið hjá okkur við að horfa á Ingibjörgu Sólrúnu grenja á fundinum. Jón Baldvin var búinn að segja að það gengi ekki fyrir flokksformann að þykjast ekki vita hvert hefði stefnt eins og hún var búin að segja. Formaður yrði að fylgjast með. Hún fattaði það og brast í grát.

Alveg eins og þú yfir brennivínsmissinum. En við vorum báðir meðvirkir því við föttuðum ekki hvert stefndi fyrr en það krassaði. Og til dæmis fall Lehmansbræðra var varla Sjálfstæðisflokknum einum að kenna.

Greining þín á sjálfum þér er all góð og gæti verið frsta skrefið til afturbata.

Halldór Jónsson, 18.4.2010 kl. 19:16

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auðvitað var það dómgeindarleysi af mér að gera ráð fyrir því að trúarbrögð væri unnt að leysa upp með rökum. Gunnar í Krossinum var ónæmur fyrir slíkum smámunum og vitnaði einlægt í að Guðs orð væri öllu æðra af því Guð hefði sagt það sjálfur og það stæði í Biblíunni að það skyldi enginn rengja.

Og auðvitað er hin undurfagra stefnuskrá ykkar það sem máli skiptir en ekki það sem af henni hlaust í höndum þeirra sem fengnir voru til að framfylgja henni í umboði ykkar og óáreittir af ykkur við það.

Björn Bjarnason dómsmálráðh. og Árni M. fjármálaráðh. voru dæmdir og áminntir fyrir stjórnsýslubrot en sögðust bara ekki taka mark á dómunum. Þeir væru á annari skoðun. Og auðvitað voru báðir sjálfstæðismenn.

Það verður að vera lágmarkskrafa að dómstólar skilji það að þrátt fyrir allt er ekki ætlast til þess að þeir skori siðgæðisvitund Flokksmanna á hólm með ávítunum eða einhverju ennþá verra.

Og svo ein tilvitnun í kommúnistann Stefán Jónsson frétta-og síðar alþingismann úr bókinni Gaddaskata.

"Runólfur sagðist ekki þvarga við Kalla gæzk um stjórnmál; aðeins ræða við hann um beituna ómótstæðilegu. "Það var himnesk forsjón að hlífa svo viðkvæmri sál við kvölum efasemdanna," - sagði hann. - "Kalli er nefnilega einna líkastur skelfiski,- ekkert nema beinlaus manngæskan innan í brynju úr vígðu stáli." 

Og hérna vitnar hann til orða Runólfs Péturssonar kommúnista sem kenndur var við Iðju og sá sem um var rætt var grandvar einstaklingur úr verkamannastétt sem auðvitað var líka kommúnisti.

Kannski er ekki svo mikill munur á kommúnista og kapítalista þegar kemur að gagnrýnni hugsun.

Og hreinu hjartalagi og trúfestu vil ég ekki eyða úr íslensku samfélagi. Í það minnsta ef það stefnir ekki mannlífinu á Íslandi í mikla ógæfu.

Ætti ég kannski að fara að dæmi Þorgerðar K. og Ingibjargar S. og biðjast afsökunar á framhleypni minni og dómgreindarskorti?

Árni Gunnarsson, 18.4.2010 kl. 20:37

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég ætla rétt að vona að það hafi ekki verið tilgangur þinn Halldór að gera grín að mér og öðrum lesendum þessa pistils. Þessi fáu tilvitnuðu orð um stefnu flokksins eru auðvitað ekki sú stefna sem boðuð var eða fylgt. Enda gætu þessar setningar verið teknar úr flestum helgiritum vegna þess að þær eru almenn vísun í mannasiði.

Þannig að nú gæti vinstri stjórnin haldið sig við það að hún væri í óða önn að búa til notrænt velferðarsamfélag. Það væri auðvitað hið besta mál ef hugtakið væri ekki misskilið og vinnubrögðin stefndu ekki allri velferð fólks í voða.

Hugmyndafræði kemur í ljós í vinnubrögðum en ekki rituðu máli.

Þess vegna var stefna Sjálfstæðisflokksins einfaldlega eins og H.H.G. orðaði svo fallega: "að græða á daginn og grilla á kvöldin."

Og svo var þjóðin grilluð.

Árni Gunnarsson, 18.4.2010 kl. 22:02

8 Smámynd: Alfreð Dan Þórarinsson

Sæll Árni.

Já þetta með meðvirknina, dætur mínar segja mig illa haldna af henni eftir áralanga baráttu konu minnar við veikindi og dragi að mér þess háttar vesen svo þú hittir naglann beint á höfuðið þar.  Enn hvað um það ég er ekki að afsaka það hvernig sjálfstæðisflokkurinn lagðist á hliðina og þar kemur að því að það var fólkið sem brást en ekki sjálfstæðisstefnan sem slík.  Ég skil ekki hvers vegna Þorgerður Katrín þarf að segja af sér en ekki formaðurinn sem er ef til vill enn verr flæktur í hrunadansinn, varla afsökun að hafa ekki lesið pappíra sem hann hafði kvittað upp á.

Þessi dans hér í kringum gullkálfinn á landi fannst mér sem venjulegum manni vinnandi með tveimur höndum skrítinn og skildi ekki hvernig hægt var að búa til alla þessa peninga í verðbréfum en auðvitað var þetta tálsýn.

Svo er annað sem oft leitar á huga minn eru laun alþingismanna of úr takti við almenn laun í landinu sem getur valdið því að við erum að fá of ungt og reynslulítið fólk inn á þing, launin draga að.

Eitt sinn kom Eysteinn Jónsson heim til foreldra minn sem oftar og  vorum við eitthvað að ræða málin og sagði hann mér að laun alþingismanna mættu aldrei verða meiri er tvöföld verkamanna laun því að í því fælist ákveðin verðtrygging.

Alfreð Dan Þórarinsson, 18.4.2010 kl. 22:17

9 Smámynd: Halldór Jónsson

ÞAð er alveg sama hvernig ég reyni að skýra út fyrir þér mitt sjónarhorn Árni, þú þverskast við.

Segðu mér þá hvernig þú myndir stofna flokk.

1. Þú boðar til fundar ?

2. Þú leggur fram áætlun?

3. Þú leggur fram stefnuskrá?

4. Þú lætur kjósa þig formann?

5.Þú ferð og sökkvir þér á kaf í spillingu ?

6. Þú heldur aldrei fund aftur í flokknum?

Eða geturðu ekki stofnað flokk vegna hnýflanna á þér sjálfum? Stendur úti í horni og galar ókvæðisorð að öllum öðrumeins og götustrákarnir gerðu í gamla daga ?

 Hann Baldur hermannsson lýsti þér á einhvern þannig hátt  sem illa rækist með öðru fólki. Er það satt ?

Alfreð Dan

Það er ekki fólkið sem hækkar í launum við að fara á þing, það er hversu við erum helvíti vitlausir að sjá ekki hvað það er vitlaust og tilgangslaust að kjósa það á þing. Ekki feer það þangað án kjósenda.

Halldór Jónsson, 18.4.2010 kl. 22:25

10 Smámynd: Alfreð Dan Þórarinsson

Auðvitað er það rétt og kannski best að segja að þjóðin sé fífl.

Alfreð Dan Þórarinsson, 18.4.2010 kl. 23:22

11 Smámynd: Dingli

Þegar ég einu sinni sem oftar heimsótti gamlan bónda, vin minn, sem  með naumindum gat keypt sig inn í litla íbúð á hjúkrunarheimili fyrir afrakstur strits margra kynslóða með því að selja jörðina, virtist hann ekkert sérlega glaður að sjá mig.

Er ekki allt í la.... NEI! Nú ætla helvítin að gefa auðvaldinu fiskimiðin. Jæja, sagði ég og var hálf hissa þar sem ég mundi vart eftir því að karlinn, sem ég hafði þekkt frá því ég var barn, talaði um pólitík hvað þá að hann æsti sig yfir henni.

Fljótt komst ég að því að reiði hans beindist gegn Framsóknarflokknum sem hann taldi hafa svikið sig, ekki bara með kvótakerfinu sem kórónaði þó allt, heldur mörgu öðru líka.

Þar sem ég vissi að sá gamli hafði kosið flokkinn frá upphafi og jafnvel lengur læddi ég því að ( þegar hann hafði tekið gleði sína og gletni á ný og við sötruðum kaffi og mauluðum jólaköku) hvaða flokk hann myndi þá kjósa næst. Þegar ég var lítill drengur, kom eftir nokkra þögn, þá hugsaði ég stundum um árið tvöþúsund og hversu óralangt væri þangað til. Ég hét þá mömmu og Guði því að ég skyldi lifa þau merku tímamót einkum til að geta sagt mömmu frá því þegar ég dæi sjálfur, hvernig umhorfs hefði verið á jörðinni í óra fjarlægri framtíð.  Ég er nú ekkert viss um að geta efnt þetta loforð, en verð að reyna, sagði hann svo og var nú farinn að hlæja. Ég lagði því í að endurtaka spurninguna um hvað hann ætlaði að kjósa næst, fyrst Framsókn hefði svikið hann og fékk nú svarið undanbragðalaust.

Samvinnuhugsjónin á eftir að lifa lengur en til ársins 2000 og hún mun lifa lengur en Halldór og pílátar hans.

Ég fann það strax að málið var útrætt og hann ætlaði að kjósa flokkinn sinn til dauðadags, og þrátt fyrir að langa til að stríða honum svolítið hætti ég við það.  

p.s.  Þessi gamli vinur minn náði markmiði sínu og lifði til ársins 2000 og einu betur, við góða andlega heilsu og var rólfær fram að banalegu sem betur fer var ekki löng.

Dingli, 19.4.2010 kl. 07:50

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Tilvitnuð orð Baldurs Hermannssonar um mig eru vottur um hefðbundna afstöðu til manna sem leyfa sér að tala um pólitík út frá eigin dómgreind.

Ekki er mín dómgreind skarpari en annars fólks. Um fermingaraldur var ég talinn bera þess vott að ég ætti glæsta framtíð sem pólitíkus og var valinn til forystu í mínum hreppi fyrir FUF í Skagafirði. Svo kom að því að sá ágæti flokkur sveigði af sinni pólitískt afmörkuðu leið og ég kvaddi hnugginn og vonsvikinn. Síðan þá minnir mig að ég hafi tekið þátt í stofnun flestra nýrra stjórnmálasamtaka hér á landi.

Veistu það Halldór að ég er stoltur af þessu. Sá sem samþykkir einhverja geldstöðu í sínu samfélagi og lætur moka sér eins og hlassi á bíl til að greiða atkvæði er ekki mikill bógur í mínum huga. Ríkjandi ástand er aldrei svo gott að það sé ekki brýnt að bæta það.

Ég mun standa upp og mótmæla rangindum og spillingu hvenær sem ég kem auga á það. Og ég hef tamið mér að forðast að vera hæverskari en þörf er á.

Mér leiðist þegar ég sé skarpgreinda menn og konur niðurlægja sig með því að sýna "flokknum sínum" meðvirkni og grípa til varna fyrir heimskulegar stjórnsýsluathafnir. Enda eru svona tilburðir dæmdir til að mistakast og þeim sem á þessu flaska alltaf til niðurlægingar.

Ég" rekst ekki með fólki." En þér að segja þá á ég afskaplega gott með að umgangast fólk og er þekktur fyrir að laða að mér fólk nokkuð umfram meðallag. Og ég er flestum mönnum forvitnari um fólk og kemst upp með það.

Árni Gunnarsson, 19.4.2010 kl. 09:06

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikið andsk. er ég langorður. Þetta er eiginlega bilun.

Árni Gunnarsson, 19.4.2010 kl. 09:07

14 Smámynd: Halldór Jónsson

Þú hefur sem sagt trú á því Árni að svona kverúlantar eins og við sem fáir taka mark á í flokkunum geti einhverju breytt með því að gala mótmæli?

Ég held að það séu alltaf samtök fólks sem einhverju breyta fyrir þjóðir. Þó aðég standi með pott og sleif á Austurvelli og öskri niður með Steingrím þá fer hann ekki frá.´Jafnvel þó við værum báðir þá fera hann ekki. En komi fullur Austurvöllur og grýti þinghúsið, þá kannski færi hann.

Þú sérð mátt samtakanna.

Halldór Jónsson, 19.4.2010 kl. 17:47

15 Smámynd: Dingli

Þá má gefa þeim sem svíkja þjóð sína "steypumeðferð" og þar ert þú nú spesíalisti Halldór minn.

Dingli, 19.4.2010 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband