Leita í fréttum mbl.is

Halldór byrjar vel

í Borgarmálunum. Það má lesa í Morgunblaðinu.

Þar segir :

 

"»Þegar við förum í meirihluta í vor, þá tökum við aðalskipulagið til endurskoðunar. Heildarplaggið er gott að mörgu leyti og margir hafa komið að þessari vinnu á löngum tíma, meðal annars við sjálfstæðismenn, en það þarf að laga alvarlega galla og þá fyrst og fremst flugvöllinn,« segir Halldór Halldórsson, nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, um aðalskipulag Reykjavíkurborgar til ársins 2030, sem samþykkt var í borgarstjórn sl. þriðjudag.

 

Athygli vakti að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins klofnuðu í afstöðu sinni til aðalskipulagsins. Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir lögðust gegn samþykkt aðalskipulagsins, á meðan Áslaug María Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir samþykktu skipulagið.

 

Spurður um þennan klofning segir Halldór:

 

»Auðvitað vill maður að fólk sé sammála um þessa hluti en þetta endurspeglar að aðalskipulagið er unnið á svo löngum tíma, og við sjálfstæðismenn höfum einnig komið að þessu. Afstaðan sýnir ákveðna breidd hjá okkur í málefnaflórunni, ég sé enga hættu þó að þetta hafi farið svona. Þessi hópur er að fara inn í kosningavetur og á eftir að stilla saman strengi sína varðandi stefnumálin. Þá þurfum við að vera á sömu línu hvað þetta varðar, ég trúi því að það takist.«"

 

Þarf alvöru samgöngumiðstöð

 

Varðandi aðalskipulagið segir Halldór að það hefðu ekki verið eðlileg vinnubrögð að afnema heildarplaggið í tengslum við aðalskipulagið og byrja upp á nýtt.

 

»Þarna liggur mikil og góð vinna að baki en að því sögðu tiltek ég mikilvæga þætti sem ég boða, með Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta frá og með næsta vori, að verði teknir til endurskoðunar. Það er fyllilega í samræmi við skipulagslög, sem gera ráð fyrir því að á nýju kjörtímabili sé tekin ákvörðun um endurskoðun eða ekki endurskoðun,« segir hann og nefnir einkum þrjá þætti sem þarf að skoða í aðalskipulaginu: Reykjavíkurflugvöll, þéttingu byggðar og samgöngumálin.

 

»Ég vil sjá að flugvöllur verði tryggður í Reykjavík, það er útgangspunktur. Borgin þarf að vera alvöru samgöngumiðstöð. Í samræmi við samkomulagið um flugvöllinn er farin af stað vinna sem við munum taka tillit til. Engin borg getur látið sér detta í hug að henda í burtu sinni aðalsamgöngumiðstöð Borgin hefur byggst upp vegna þess meðal annars að hún hýsir nær alla sameiginlega þjónustu landsmanna. Þegar Reykjavík sinnir sinni höfuðborgarskyldu, meðal annars með því að vera með greiðar samgöngur, þá græða Reykvíkingar mest og best á því,« segir Halldór.

 

Hann segist vera mikill áhugamaður um þéttingu byggðar og bætt borgarsamfélag, en þar þurfi fólk að hafa val.

 

»Ég vil endurskoða ákveðna þéttingarreiti og ákveðin markmið um þéttingu byggðar. Ef fólk vill búa í úthverfunum, og þétta byggðina þar, þá á slíkt val að vera raunverulegt. Við verðum einnig að passa okkur að markmið um þéttingu byggðar bitni ekki á atvinnulífi eins og kringum hafnarsvæði,« segir Halldór og tekur dæmi af Vesturbugt og Nýlendureitnum. Þar hafi meirihlutinn í borgarstjórn farið of geyst. Passa þurfi upp á gamla hafnarsvæðið og það líf sem þar hafi skapast í bæði útgerð, hvalaskoðun og ferðaþjónustu. »Byggðin má ekki fara of nálægt hafnarsvæðum. Vítin eru til að varast þau, bæði erlendis og hér heima eins og í Hafnarfirði, þar sem byggingarnar eru á bryggjunni og ekkert hafnarlíf eða starfsemi. Það er gott að byggja nálægt hafnarsvæði en ekki skemma með því fyrir hafnarstarfseminni.«

 

Bæta þarf umferðarmálin

 

Halldór segir jafnframt að bjóða þurfi upp á alvöru valkosti í samgöngumálum þannig að borgarbúar hafi raunverulegt val ef þeir vilja nýta aðra kosti en einkabílinn.

 

»Á löngum tíma í Reykjavík hefur verið komið upp góðum reiðhjóla- og göngustígum, og við eigum að halda áfram á þeirri braut, en það þarf ekki endilega að gerast á kostnað bílanna. Ég styð markmið um að hægja á umferð í íbúðahverfum, eins og íbúar hafa kallað eftir, en það er klaufalegt að gera það þannig að það dragi úr umferðarflæðinu líkt og hefur gerst, t.d. í Borgartúni og á Hofsvallagötu. Aðrar lausnir eru til. Það er til dæmis óþarfi að láta strætó stoppa alla umferð í Borgartúni og það er hægt að bæta flæðið um Hofsvallagötu. Svona mál þarf að endurskoða.«

 

Halldór segir aðalskipulagið þurfa að endurspegla meira umferðaröryggi og vísar þar til framkvæmda við mislæg gatnamót, stokk á Miklubraut og fleira. Ekki sé t.d. hægt að útiloka mislæg gatnamót ef sýnt er fram á að þau tryggi meira umferðaröryggi og betra flæði.

 

»Það er mikilvægt að reyna að finna aðra og hagkvæmari leið. Ég vil láta vinna fullkomið umferðarmódel fyrir allt höfuðborgarsvæðið og sem dæmi vil ég sjá hvaða áhrif það hefði að tengja Álftanes við Suðurgötuna í Reykjavík um Löngusker. Það gæti létt á umferð um Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Þetta er hugmynd sem mér finnst að ætti að skoða,« segir Halldór og er jafnframt hlynntur því að ráðist verði í gerð Sundabrautar í einkaframkvæmd. "

Þær Áslaug María og Hildur mega ekki komast upp með það að eyðileggja árangurinn sem við Sjálfstæðismenn viljum ná fram. Það færi best á því að þær fari af listanum enda eiga þær ekkert erindi á honum, slíkir taglhnýtingar Samfylkingarinnar og Gnarrsins þær eru.  Þær eiga að fylgja fordæmi Þorbjargar Helgu og Gísla Marteins og segja sig frá. Þær geta engan veginn rúmast í alvöru stjórnmálaflokki eins og Sjálfstæðisflokkurinn þarf að verða aftur.

Áfram Halldór, Júlíus, Kjartan og Marta. Þið eruð alvöru Sjálfstæðisfólk.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 3417960

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband