Leita í fréttum mbl.is

Villi Bjarna

sá sem fólki dettur fyrst í hug ef það vill æsa sig yfir einhverju, skrifar grein í Morgunblaðið  í dag.

Það er orðið lengra síðan að ég hef haft eins gaman að lesa skrif eftir Alþingismann.  Þar sem stór hluti góða fólksins stærir sig af því að lesa ekki Mogga þá er greinin hér:

"Það var eitt sinn að það kom lesandabréf í Norsk Ukeblad þar sem spurt var hvort konur gætu orðið ófrískar af undanrennu. Svar blaðsins var: Já, konur geta orðið ófrískar af undanrennu ef undanrennan fer fyrst í gegnum mjólkurfræðing, eða bankastjóra.

 

Hvað á þetta skylt við okur? Samhengið er það að í marga áratugi var óheimilt að stunda lánaviðskipti á annan veg en þann að taka sömu vexti og Seðlabanki Íslands ákvað. Einkabankaviðskipti voru stunduð engu að síður, með því að stunda affallaviðskipti með kröfur á þriðja aðila. Bein og milliliðalaus viðskipti með hærri vöxtum en Landsbankavöxtum og síðar Seðlabankavöxtum voru óheimil og glæpsamleg.

 

Okur fyrir rétti og í bókmenntum

 

Það hefur ýmsum reynst erfitt að ákvarða það hvað er okur. Á sjötta áratug síðustu aldar var sett á stofn nefnd til að fjalla um okur. Í gögnum máls sem fór fyrir Hæstarétt er að finna merkilega málsvörn lögmanns, sem var sakborningur í okurmáli. Sú hagfræði er í raun leiðsögn til dómsins um vaxtamyndun. Það dugði ekki til; lögmaðurinn var sakfelldur!

 

Í einni af skáldsögum Einars Más fjallar hann um »einkabankastarfsemi« frænda síns. Í öðru bókmenntaverki frá síðustu öld er einnig fjallað um fjármálastarfsemi undir rós. Tómas fjallar um lífshlaupið og uppgjörið á efsta degi og ber það saman við gjalddaga;

 

<ljóð>Þá verður oss ljóst að framar ei frestur gefst

 

né færi á að ráðstafa nokkru betur.

 

Því alls sem lífið lánaði dauðinn krefst

 

í líku hlutfalli&#39; og Metúsalem og Pétur.

 

Metúsalem og Pétur eru ekki persónur úr Svörtu Bókinni, þeir voru fjármálamenn í Reykjavík sem stunduðu einkabankastarfsemi og lánuðu með markaðsvöxtum.

 

Í Svörtu Bókinni

 

Það er fjallað um okur á nokkrum stöðum í Svörtu Bókinni, þ.e. Biblíunni sem er helgirit kristinna manna. Þannig segir í 2. Mósebók;

 

»Lánir þú peninga fátæklingi af þjóð þeirri sem hjá þér er máttu ekki reynast honum eins og okrari. Þið skuluð ekki krefjast vaxta af honum.«

 

Í 3. Mósebók talar Drottinn við Móses og segir;

 

»Honum ber þá að skila þýfinu eða hagnaðinum af okrinu eða því sem honum var trúað fyrir eða því sem var týnt og hann hefur fundið eða bæta að fullu þann skaða sem hann hefur valdið með meinsæri.«

 

Enn er fjallað um okur í Esikel, þar er gengið nokkuð langt og kveðinn upp dauðadómur;

 

»beitir fátæka og hjálparvana ofríki, fremur rán, skilar skuldunauti ekki veði sínu, hefur augu sín upp til skurðgoða, fremur viðurstyggilegt athæfi, veitir lán gegn vöxtum og stundar okur, á hann að halda lífi? Nei, hann á ekki að halda lífi. Þar sem hann hefur framið alla þessa svívirðu skal hann deyja. Blóð hans skal koma yfir höfuð hans.«

 

Okur í fornbókmenntum

 

Í sögu Árna byskups segir frá atburðum, sem gerðust sennilega 1281:

 

»Þið byskuparnir heimtið tíund af sylgjum og silfurbeltum, koppum og keröldum og öðru dauðu fé, og undra ég mjög hví landsbúar þoli yður slíkar óhæfur og gerið eigi norræna tíund að eins og þá sem gengur allan heiminn, og ein saman er rétt og lögtekin«

 

Hér er Loðinn leppur sendimaður konungs að finna að framkvæmd tíundarlaga Gizurar biskups Ísleifssonar, en tíundarlögin voru sett tveimur öldum fyrr. Loðinn leppur hefur komist að raun um að skattheimta á Íslandi er ekki í formi tekjuskatts heldur eignarskatts og bendir á að verið er að reikna skatt af dauðu fé í andstöðu við lögmál Móse.

 

Herra Árni byskup mælir þá:

 

»Af orðum Innocenti páfa vitum vér að sú tíundargerð er eigi okur og vinnur engum manni sálutjón.«

 

Í löggjöf

 

Í íslenskri löggjöf er nú hvergi fjallað um okur. »Okurlög« frá 1933 voru afnumin í kjölfar þess að vextir voru gefnir frjálsir árið 1984 og með vaxtalögum árið 1986. Þá er rétt að líta í aðrar áttir og huga að því á hvern hátt er fjallað um neyð og bágindi í löggjöf.

 

Í hegningarlögum segir; »Hafi maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér með löggerningi hagsmuna eða áskilja sér þá, þannig að bersýnilegur munur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því, sem fyrir þá koma eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum.«

 

Enn fremur segir í lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga;

 

»Hafi nokkur maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða léttúð eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því er fyrir þá kom eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, skal gerningur sá, er þannig er til kominn, ógildur gagnvart þeim aðila er á var hallað með honum.«

 

Innihald þessara lagagreina er í nokkru samræmi við Móselög en ganga þó ekki eins langt og Esikel. Það er ávallt mat dómara hvenær um misneytingu er að ræða.

 

Siðaskipti

 

Það er ekki fyrr en eftir siðaskipti að lánastarfsemi þykir eðlileg viðskiptastarfsemi. Gyðingar gagnályktuðu, þeir máttu ekki lána eigin þjóð og bræðrum með vöxtum en þeir máttu lána öðrum. Kalvin taldi að hinar mælanlegu einingar um iðjusemi og sparsemi væru fólgnar í því hve mikið maðurinn léti eftir sig á efsta degi.

 

Í Svörtu bókinni koma fram svipuð viðhorf og í íslenskri löggjöf; að nýta sér ekki neyð og bágindi í hvers kyns mannlegum samskiptum.

 

Lánaviðskipti dag

 

Á það verður ekki fallist að lánaviðskipti á Íslandi feli í sér okur. Í 99% tilvika í lánaviðskiptum er nokkurt jafnvægi með aðilum, þó ávallt sé lánveitandi sterkari aðilinn í samningum.

 

Stærstur hlut peningalegs sparnaðar á Íslandi er lífeyrissparnaður. Það væru umboðssvik ef lífeyrissjóðir lánuðu skyldusparnað launafólks með þeim hætti að sjóðirnir gætu ekki greitt sjóðsfélögum þann lífeyri sem þeim er ætlað að standa undir við eðlilegar aðstæður. Það kann að vera að vextir séu háir á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Það er ráð að efla sparnaðarhneigð í átt við kenningar Kalvins, fremur en að hvetja til lántöku eins og viðgengst í lífi og löggjöf.

 

Það verður ekki hjá því komist að nefna starfsemi smálánafyrirtækja. Þar er lítt jafnræði með aðilum í lánaviðskiptum. Spurning er hvort lánveitandi er að nýta sér neyð og bágindi lántaka. Víst er að vextir og kostnaður er ekki í neinu vitrænu samhengi sem venjulegt fólk lífir í. Sennilega er þar um okur að ræða í skilningi þess texta sem að framan er rakinn."

Ég man þá tíð að maður þurfti að eiga viðskipti við markaðsmenn í viðskiptum. Selja víxla gegn hærri forvöxtum en opinberum  þar sem mann vantaði pening upp á lífið til að borga út.

Voru þeir Methúsalem og Pétur þá vondir menn?

Nei, þeir voru að hjálpa fólki sem í skorti á öðrum leiðum sá sér hag í að fara til þeirra?

Er þá verðtryggingin vond?

Ef um er að ræða hana eða engin lán ella eins og við eldri munum best, þá er hún til hagsbóta fyrir báða aðila Eiga ekki öll viðskipti að vera þannig að báðir hafi af þeim hag?

Nú hafa íslenskir bankar með sér greinilegt samráð fyrir opnum tjöldum sem engum dylst nema eftirlitsaðilum. Þeir hafa samráð um að bjóða ekki verðtryggð innlán nema bundin séu í þrjú ár. Mjög fáir venjulegir menn treysta sér til þess. Þeir eru því dæmdir til að tapa verðbólgunni með því að leggja aurana sína inn á samræmda vexti af óverðtryggðum innlánum. Peningalegur sparnaður er því utan seilingar hjá venjulegu fólki. 

Ólafslög, sem heilög Jóhanna meira að segja samþykkti, voru tilraun til að stöðva þjófnaðinn sem þá var í gangi af peningum eldra fólksins. Þá fuðraði allt sparifé upp eins og í auðlegðraskattinum seinna.

Svo kemur fyrirbrigðið fjármagnstekjuskattur og tekur kúfinn af vöxtunum til viðbótar. Og það skondnasta af öllu, þá tekur hann sama toll af verðbótum af þriggja ára bókinni.Alveg eins og verðbætur séu tekjur svo vitlaust sem það er nú.

Verðbætur eru hreinlega bara vísitala kaupgjalds. Þú færð lánaðan ost og skilar jafnstórum osti til baka. Auðvitað langar þig til að eiga hann sjálfur eða bíta í hann. 

Nú talar enginn þingmaður um  það að tryggja þurfi möguleika fólks til að spara. Leggja pening sinn í banka án þess að stolið sé jafnt og þétt af honum og innistæðan rýrni að raungildi dag frá degi. Hinsvegar er ramakveinið daglega í allri umræðunni um afnám verðtryggingar á lánum, nauðsyn afskrifta, nauðsyn vaxtabóta, nauðsyn húsnæðisbóta, nauðsyn fjölskyludbóta og þar fram eftir götunum. (Aðallega er verið að styrkja bankana með þessu öllu).

Eins og lífshamingjan byggist á láni. Ekki lánseminni sem felst í því að þurfa ekki að taka lán. Vera sjálfum sér nógur eins og flesta dreymir um.

Villi Bjarna á mínar þakkir fyrir fróðlega grein og þarfa hugleiðingu um eðli fjármagnsins.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki verðtryggingarinnlánasamráðið ættað frá Austurvelli? Mig minnir að bönkum sé bannað að lána verðtryggt nema til a.m.k. sex ára og taka við verðtryggðum innlánum nema til a.m.k. þriggja ára.

Það er hins vegar örugglega heilmikið til í því að það sé a.m.k. ein ástæða hárra vaxta hér að hvertja til lántöku en ekki sparnaðar.

ls (IP-tala skráð) 9.10.2015 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband