Leita í fréttum mbl.is

Umræðustjórarnir

eru hugtak sem veltist fyrir mörgum án þess að þeim gangi sérstaklega vel að festa reiður á því.

Það er nefnilega svo að flestum finnst að allt annað sé í forgangi í þjóðfélaginu heldur en þeirra eigin hlið eða skoðanir á málunum. Í fersku minni er Icesave málið. Umræðustjórarnir í þjóðfélaginu hótuðu þjóðinni eld og brennisteini ef hún hlýddi ekki og borgaði. Þeir urðu eftirminnilega undir og þjóðin var endanlega sýknuð af dellunni sem þeir héldu að henni.

Kjör Donalds Trump er angi af byrjun á undanhaldi þessa háværa lýðs. Demokratar komast ekki yfir ósigurinn í kosningunum og eru farnir að hóta skrílslátum við innsetninguna á föstudaginn ef ekki bara að drepa Trump vegna fýlu sinnar yfir óförum Hillary. Hún var handhafi hins gamla réttrúnaðar allra kommatitta Bandaríkjanna og einstefnu í utanríkismálum sem heimurinn baslar með.

Óli Björn Kárason gerir þetta umræðustjórahugtak að yrkisefni í Morgunblaðinu í dag á sinn glögga hátt. Óli Björn segir:(Og bloggari feitletrar að vild sinni aða vanda án leyfis Óla)

"Líklegast eru »umræðustjórar« til í flestum frjálsum samfélögum - fólk sem er sannfært um að það sé best til þess fallið að ákveðna um hvað skuli fjallað, hvað skuli krufið til mergjar í fjölmiðlum og hvert kastljósið skuli beinast hverju sinni. Umræðustjórarnir eru ófeimnir við að fella dóma yfir mönnum og málefnum og óhræddir við fordæma »rangar« skoðanir.

 

Umræðustjórarnir eru eða vilja a.m.k. vera hluti af valdastéttinni - elítunni sem telur sig hafa meiri burði og þekkingu en almenningur til að ákveða rétt og rangt. Þröngur hópur embættismanna, sérfræðinga og vel menntaðra háskólamanna hafa lengi talið sér það skylt að »leiðbeina« almenningi til að komast að réttri niðurstöðu. Umræðustjórnir leika undir og gefa oft tóninn.

 

Hinir upplýstu og hinir fávísu

 

En það er margt sem bendir til þess að almenningur sé að brjótast undan elítunni og að áhrif umræðustjóranna sé að minnka. Við höfum orðið vitni að því hér á Íslandi m.a. í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave. Þá gekk þjóðin á hólm við sérfræðingana, álitsgjafana og umræðustjórana sem boðuðu efnahagslegar hamfarir og einangrun ef skattgreiðendur samþykktu ekki að axla skuldir einkabanka.

 

Meirihluti breskra kjósenda samþykkti Brexit - úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Áhrifamestu fjölmiðlar landsins máttu sín lítils, almenningur tók ekki mark á dómsdagsspám sérfræðinga og David Cameron, sem barist fyrir áframhaldandi aðild, varð að játa sig sigraðan og sagði af sér sem forsætisráðherra.

 

Elítan jafnt í Bretlandi sem í öðrum löndum brást illa við niðurstöðunni. Reynt var að gera hana tortryggilega - því haldið fram að meirihluti fólks með háskólapróf vildi vera áfram í Evrópusambandinu, aðeins þeir sem væru með litla menntun hefðu gefið Brexit atkvæði sitt. Sem sagt: Hinir upplýstu tóku rétta ákvörðun, hinir fávísu ranga.

 

Svipað var upp á teningnum þegar niðurstaða forsetakosninganna í Bandaríkjunum lá fyrir. Hinir fáfróðu og ómenntuðu studdu Trump en hinir upplýstu Clinton.

 

Tengslin rofin

 

Umræðustjórarnir vita vart sitt rjúkandi ráð. Þeir vita að það fjarar undan áhrifum þeirra líkt og annarra í valdastéttinni. Almenningur leitar ekki lengur leiðsagnar heldur tekur sjálfstæða ákvörðun. Æ stærri hópur kjósenda í Evrópu og Bandaríkjunum telur að stjórnmálastéttin, embættismannakerfið og fjölmiðlar, hafi rofið tengslin við alþýðuna - skilji ekki lengur hvað það er sem brennur á óbreyttum borgurum, hvað skipti máli og hvað ekki. Um leið hefur skapast hættulegur farvegur fyrir öfga, hörku, umrót og upplausn.

 

Á Íslandi hefur grimmdin og virðingarleysið aukist í opinberri umræðu undir handleiðslu umræðustjóranna. Einstaklingar eru sakaðir um föðurlandssvik, þeir eru sagðir fífl, kjánar, apar, asnar, heimskingjar, bófar, glæpamenn og siðblindingjar. Um leið er herferð gegn öllu því sem er íslenskt. Fulltrúar þjóðarinnar eru »vælandi aumingjar«. Ísland er »bananalýðveldi« sem er vanþroska og of fámennt til að standa sem sjálfstæð þjóð meðal þjóða.

 

Margir umræðustjórarnir eru dugmiklir við að kenna sig við umburðarlyndi, víðsýni og frjálslyndi. Þeir eiga hins vegar erfitt með að bera virðingu fyrir andstæðum skoðunum - þversögnin blasir við öllum en fáir ræða hana. Þetta á ekki síst við þegar kemur að málefnum útlendinga og hælisleitenda.

 

Fjöldi hælisleitenda hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári og þrefaldaðist á milli ára. Langflestir komu frá Makedóníu og næstflestir fá Albaníu. Þeir fáu sem tala til máls og færa rök fyrir því að nauðsynlegt sé að spyrna við fótum eru úthrópaðir af umburðarlyndum umræðustjórum.

 

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur bent á að tilgangur þeirra Makedóníumanna og Albana sem leita eftir hæli á Íslandi sé þríþættur: 1. Að dveljast hér að minnsta kosti í þrjá mánuði á kostnað ríkisins. 2. Að stunda svarta vinnu. 3. Að njóta íslenskrar heilbrigðisþjónustu.

 

Í dagbókarfærslu á heimasíðu sinni síðastliðinn sunnudag, segir Björn að tregða sé að ræða þessi mál á opinberum vettvangi eins og ber að gera:

 

»Ættu Íslendingar í hlut og reyndu þannig skipulega að hafa fé út úr íslenska ríkinu á ólögmætan hátt eða stunda svarta vinnu yrði þess strax krafist að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana til að stöðva svindlið. Í tilviki Makedóníumannanna og Albananna er staðið þannig að málum að fjárveitingar eru auknar með því að fara dýpra í vasa skattgreiðenda. Meira að segja er reynt að koma rasistastimpli á þá sem benda á ósómann.«

 

Dagskrárvald og þjóðmálaumræðan

  

Ég hef haldið því fram að við hægrimenn höfum afhent vinstrimönnum dagskrárvaldið - annaðhvort vegna leti eða skorts á pólitísku sjálfsöryggi. Þess vegna hafa áhrif vinstrisinnaðra og neikvæðra umræðustjóranna líklega verið meiri hér á landi en víða annars staðar. Þeir móta og stjórna þjóðmálaumræðunni að stórum hluta. Vísbendingar eru hins vegar um að dagskrárvaldið og áhrifin fari minnkandi eins og kom í ljós þegar þeim mistókst að koma í veg fyrir myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

 

Enn eru hins vegar mál tekin á dagskrá en önnur ekki. Þannig skiptir miklu að gera tortryggilega dagsetningu og birtingu á skýrslu um aflandsfélög sem unnin var að frumkvæði fyrrverandi fjármálaráðherra. Upplýsingar um hvernig staðið var að skuldauppgjöri fyrirtækja, félaga og einstaklinga, eftir hrun fjármálakerfisins, virðast litlu skipta. Rökstuddur grunur um að jafnræðisreglan hafi verið brotin og ekki hafi allir setið við sama borð, vekur enga löngum hjá handhöfum dagskrárvaldsins að leggjast í rannsóknir. Af hverju skyldi það vera?"

Tökum eftir þessum orðum Óla Björns:

"Fulltrúar þjóðarinnar eru »vælandi aumingjar«. Ísland er »bananalýðveldi« sem er vanþroska og of fámennt til að standa sem sjálfstæð þjóð meðal þjóða."

Herferðin gegn þjóðkirkjunni sem stofnunar af hálfu umræðuelítunnar er lýsandi dæmi um ofbeldið sem þessi lýður beitir, Það er ráðist á börnin og þeim meinað að skoða kirkjur ef þau langar til. Það má ekki gefa þeim vissa bók þó að það eigi að fræða þau um hommerí og lespíur hvort sem þau eða foreldrarnir vilja eða ekki. 

Tiltölulega fáir kommatittir á RÚV eru langt komnir með að eyðileggja traust þjóðarinnar á þessari stofnun sem hún á og ætti að þykja vænt um. Það er ömurlegt til að vita að þessum litla hópi skuli líðast að rangupplýsa þjóðina og skrumskæla staðreyndir jafnt oft og raun ber vitni. Þessir "umræðustjórar" hafa unnið margt ógagn í vissum málum. En svo standa þeir sig vel í öðrum málum inn á milli sem eru þess eðlis að trufla ekki beinlínis elítusjónarmið þeirra sjálfra og þá geta þeir hegðað sér með eðlilegum og fagmannlegum hætti.Enda yfirleitt enginn bara alvondur.

Fólk þarf hinsvegar að vera á varðbergi gagnvart umræðustjórunum sem sitja um að fella allt að sérviskusjónarmiðum sínum sem yfirleitt eru þveröfug við þjóðarviljann eins og flugvallarmálið hans Dags Bergþórusonar er í Reykjavík svo dæmi sé tekið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel mælt Halldór.

Frábær pistill.

M.b.kv.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 18.1.2017 kl. 09:32

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir það Siggi vinur. Hvar heldurðu þig þessa dgana?

Halldór Jónsson, 18.1.2017 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 3418160

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband