Leita í fréttum mbl.is

Vilhjálmur Bjarnason

VILLIskrifar merka vísindalega grein um vægi landbúnaðar í þjóðarframleiðslu. Þar sem vinstri menn lesa ekki Moggann og heyra ekki hagfræðilega útreikninga um þátt landbúnaðar í krónusköpun þjóðarinnar, er þörf á að vekja athygli á þeim staðreyndum sem Vilhjálmur dregur saman.

Hann segir:

"Það er aldrei talað illa um nokkurn mann í skýrslu. Það sem logið er, er oft merkilegri staðreynd en sönn saga sem sögð er í einlægni. Og menn verða skynskiptingar á því einu að flytja úr sveit á möl. Þegar á mölina er komið vilja menn halda búskap sveitarinnar áfram með sauðfé og hænsn.

 

Jón heitinn Sigurðsson, sá er stendur á Austurvelli og situr fyrir á fimmhundruðkallinum, var gagnmerkur hagfræðingur. Meðal hans öndvegisrita eru Landshagskýrslur. Það er í raun undravert hverju Jóni heitnum tókst að skrapa saman af gagnlegum upplýsingum um landshagi án þess að tala illa um nokkurn mann.

 

Landshagur

 

Það hafa verið haldnir þjóðhagsreikningar með misskipulegum hætti nú á aðra öld á Ísland. Þannig er hægt að sjá að hagvöxtur á Íslandi hefst á síðasta tug 19. aldar og iðnbylting hefst með vélvæðingu bátaflotans og togurum í upphafi 20. aldar. Með ályktunum og lestri gagna virðist sem framleiðni í landbúnaði hafi ekki haldið í við framleiðni í sjávarútvegi í upphafi 20. aldar. Það var endanlega staðfest með gengishækkun 1924.

 

Á sama tíma byrjar Thor Jensen á framkvæmdum við fyrirhugaðan stórbúskap á Korpúlfsstöðum með aðkeyptu vinnuafli í formi heiðursmannabúskaps að erlendri fyrirmynd. Sá búskapur bar sig aldrei og gat aldrei gengið nema með því að togaraútgerð Kveldúlfs borgaði með. Þegar harðnaði í ári hjá togaraútgerðinni eftir 1930 varð búskapur á Korpúlfsstöðum vonlaus. Skáldið Gunnar Gunnarsson gerði sér grein fyrir því hvað hafði gerst þegar hann var búinn að sturta niður nokkur hundruð milljónum á núvirði á Skriðuklaustri nokkru síðar. Þannig er hver maður sinn eigin heimur.

 

Nýbýlalög 1924

 

Það var mikil bjartsýni eða draumórar sem nálguðust brjálsemi í nýbýlalögum frá 1924 þar sem gert var ráð fyrir því að á næstu 50 árum myndu verða stofnuð tvö nýbýli í hverri sýslu landsins næstu 50 ár. Þannig yrðu lögbýli á landinu um 7.500 árið 1975. Sennilega eru þau nær 2.700 í dag þar sem framleiðsla er stunduð.

 

Vissulega voru stofnuð nýbýli og jafnvel heilt hverfi vestan Ingólfsfjalls í Ölfusi. Nú er engin mjólk framleidd í nýbýlahverfinu. Mjólkurframleiðendur á landinu eru nú 665, en nautgripir eru á 853 búum. Sauðfjárbændur eru 2.191, af þeim eru 2001 með greiðslumark. Áhersla virðist lögð á að mjólk sé keyrð á nagladekkjum sem lengstan veg til afurðastöðva.

 

Margar þingræður voru fluttar á síðasta kjörtímabili um glæsta möguleika í landbúnaði.

 

Landshagskýrslur árið 2015

 

Samkvæmt landshagskýrslum fyrir árið 2015 er landsframleiðslan röskir 2.200 milljarðar króna en að frádregnum vöru- og framleiðslutengdum sköttum og styrkjum, nettó, námu vergar þáttatekjur þjóðarbúsins rúmum 1900 milljörðum.

 

Vergar þáttatekjur landbúnaðarframleiðslu, sem mæla hlutdeild í landsframleiðslu, eru 1,07% en ef beingreiðslur eru taldar frá eru hlutdeild landbúnaðar í landsframleiðslu 0,44%.

 

Af þessum 0,44% má rekja um 0,05% til nautgripa- og mjólkurframleiðslu en sauðfjárbúskapur er neikvæður um svipað hlutfall.

 

Hlutur alifuglaræktar er eins og þokkalegs vertíðarbáts, en hlutfall eggjaframleiðslu er eins og lítils togara. Í þingræðum er þetta talið til undirstöðu landsframleiðslu.

 

Til samanburðar má geta þess að hlutdeild Icelandair Group hf. er sem næst 3,6% af landsframleiðslu. Þar eru engar beingreiðslur. Þetta er mikil umbreyting frá þeirri sálaruppörvun fyrir annnesjamenn að hugsa til þeirra tíma þegar þjóðin var og hét þjóð og lifði af landinu.

 

Skattspor

 

Nú er mjög rætt um hvernig megi ná meiri tekjum hér og þar. Vert er að huga að því hvað ýmis fyrirtæki og starfsmenn þeirra greiða í opinber gjöld. Þá kemur í ljós að tvö sjávarútvegsfyrirtæki í Vestmannaeyjum og starfsmenn þeirra greiða um 6 milljarða í opinber gjöld árið 2015. Á sama hátt kemur í ljós að IcelandairGrouphf. og starfsmenn þess fyrirtækis greiða um 24 milljarða í opinber gjöld á þessu viðmiðunarári.

 

Ógæfa landbúnaðar

 

Sennilega er það ógæfa íslensks landbúnaðar að hafa ávallt búið við það að forsjá landbúnaðar hefur ávallt verið í höndum Framsóknarflokks eða Sjálfstæðisflokks á stjórnarheimilinu. Það hefur leitt til þess að reynt hefur verið að viðhalda stöðnun í landbúnaði í sveitum landsins með verndaraðgerðum. Í þeim tölum, sem hér eru birtar er ekki fjallað um lífskjör þeirra, sem hafa landbúnað að aðalstarfi. Það er sérstakur kafli. Þó má nefna að einn félagsmálaráðherra sagði eitt sinn að ekki væri til fátækt á Íslandi nema ef vera skyldi fátækir bændur. Reyndar var það svo þegar búið var að þýða skáldverkið Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness á rússnesku, að þarlendir fundu það út að hlutskipti íslenskra bænda væri svipað og hlutskipti bænda í Rússlandi á keisaratímanum. Ekki hefur verið mælt hvort breyting hafi orðið á.

 

Nú hefur það gerst að stjórnarmálefni landbúnaðar heyra ekki undir þessa tvo flokka. Þá er að sjá hvort atvinnugreinin og þeir sem að henni starfa eiga sér glæsta framtíð, eða hvort aldarlöng þróun heldur áfram. Eða hvort fegurðin stendur nær hinu ljóta en nokkuð annað.

 

Lífskjör og lifnaðarhættir

 

Tölur úr landshagskýrslum eru vísbending um lifnaðarhætti. Hagvöxtur liðinna ára, sem hefur lagt grunn að góðum lífskjörum, sem veita þann munað að beingreiðslur til landbúnaðar nema 0,6% af landsframleiðslu, byggjast á vexti framleiðslu- og þjónustugreina í landinu. Sjálfsþurftarbúskapur landbúnaðarsamfélagsins var leystur af framleiðslusamfélagi og síðar þjónustusamfélagi. Enginn saknar þeirra 5.000 lögbýla og grasbýla sem reiknað var með í nýbýlalögunum frá 1924.

 

Lífskjör verða ekki bætt með ofuráherslu á landbúnað. Framleiðsla á samkeppnishæfri vöru og þjónustu bætir lífskjör. Þar á ný ríkisstjórn og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn tækifæri."

Vilhjálmur fjallar ekki um það, hvað á að koma í staðinn fyrir landbúnaðinn sem rekinn er með aðstoð ríkisins. Ætlar hann þjóðinni að lifa á innfluttri vöru sem framleidd er með þeim yfirburðum að vera í nábýli við sól og koltvísýrings í meira mæli en við eigum kost á? Og þrælavinnu hálfánauðugs fólks í þriðja heiminum sem við stefnum á að flytja hingað skv. "stefnu ríkisstjórnarinnar og sérstaklega Sjálfstæðisflokksins."

Vilhjálmur gerði vel í að skrifa um það hvernig hann vill aðlaga landbúnaðinn þjóðarhag og hvað Íslendingar eiga að éta svo að falli vel inn í þjóðhagsreikninga Vilhjálms og Jóns Sigurðssonar heitins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband