Leita í fréttum mbl.is

Gunnar Rögnvaldsson og myntbandalög

Mér barst eftirfarandi bréf frá Gunnari Rögnvaldssyni. Mér finnst ég verði að birta það hér þannig að hans hugsun varðandi myntbandalög fái sem víðustu dreifingu:

"Sæll Halldór og þakkir fyrir góð orð og innlitið.

 

Þegar Seðlabankinn flytur úr landi þá flytst einnig hagstjórnin með til útlanda og stór hluti möguleika þjóðarinnar á að skapa velmegun til handa þegnum sínum. Þetta er kallað nýlendustjórnun. Hagstjórn, sjálfsbjargarviðleitnin, frelsið og sjálfsábyrgð flytst úr landi. En frelsið og sjálfstæðið er stærsta auðlind Íslands.

Þegar myntin er ekki þín þá ertu ofurseldur mynt annarra og hagstjórn annarra. Til dæmis þá væri ríkisgjaldþrot eina leiðin í núverandi ástandi Íslands, þ.e. ef Ísland hefði ekki sína eigin mynt - því þá hefðir þú ekkert gengið til að vinna þig út úr vandamálunum.

Ríki með eigin mynt geta ekki farið á hausinn. Þau fella bara gengið. Einu ríkin sem raunverulega geta orðið gjaldþrota eru ríki í myntbandalögum og ríki með mynt annarra. Þau geta farið á hausinn og munu fara á hausinn og hafa farið á hausinn.

Það hafa víst fáir tekið eftir því en það er búið að loka á fjármögnun til spánskra bankageirans núna - mitt ínni í galdra gjaldmiðlinum henni evru. Það standa núna 1.000.000 tómar fastiegnir á Spáni. Spánverjar bíða, - þeir bíða og vona og geta ekkert gert. Sama með Lettland. 15% verðbólga þar og 4% stýrivextir. Reyndu að geta þér til hvernig þeir ætla að ná þessari verðbólgu niður, lausnarorðið er auðvitað atvinnuleysi og félagslegar hörmungar, hvað annað!

Myntbandalög og mynt annarra tryggir EKKI fjármagn. Það gerir hinsvegar góð og hófsöm hagstjórn. Þetta hefur Seðlabanki Íslands margoft bent á í ræðu og riti. En enginn hlustar.

Haldór - það þýðir ekkert að skipta um áfengistegund eða fá einhvern annan til að halda á flöskunni fyrir sig. Góð hagstjórn er forsenda alls.

Núna er búið að sólunda auðæfum Íslands í holu ofaní jörðina í útlöndum. Er ekki kominn tími til að halda áfram með uppbyggingu landsins? Hvað er eiginlega að mönnum? Eru menn búnir að gleyma gömlum og góðum gildum? Það þarf að framleiða framleiða og selja og selja og byggja upp. Það er svo auðvelt að vera alltaf kaupandi, kaupandi af drasli, það krefst nefnilega engra hæfileika - maður eyðir bara.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 17.11.2008 kl. 23:06 "

Ég vil þakka Gunnari sérstaklega fyrir þetta skrif til mín. Þó að ég hafi ekki fengið leyfi hjá honum til að pósta þetta hér,  þá vona ég að hann fyrirgefi mér framhleypnina.En  þetta geta líka allir lesið á hans heimasíðu . 

Mér finnst að í þessu svari hans felist mörg rök,  sem við verðum að svara áður en við bara æpum á Evrópusambandið og evruna. Eins og báðir Samfylkingarflokkarnir, annar með kindur,  kýr og krata og hinn bara með krata, gera núna. O g væntanlega bráðum  hálfur Sjálfstæðisflokkurinn líka.

En ég get ekki orða bundist,  þegar maður skoðar þetta í kjölinn. Það verða allir að hugleiða hvað þetta og hitt þýðir.   Eigin mynt er auðvitað alltaf  sú nauðvörn sem hverri þjóð er tiltæk í neyð,  sbr. Þýzkaland eftir Versalasamningana og óðaverðbólgan síðar. Og saga lýðveldisins Íslands.

Maður sér Spán, Lettland , Ítalíu  og Írland engjast núna sundur og saman af evrukvölum.  Þjóðverjar eru stífir á því að þeirra kassi sé ekki fyrir aðra meðlimi bandalagsins heldur þá sjálfa. Þeirra evrur séu betri en hinna.   Ætli við gætum  ekki orðið uppiskroppa með evrur einhverntímann ef við til dæmis tvöfölduðum kaupið hjá þeim verðugu í næstu aflahrotu, sem tæki skyndilega enda eins og núna ?    Ef einhver heldur öðru fram þá svari hann því hversvegna við setjum ekki dollarann bara núna aftur í 60 kall og lækkum vextina í 4 %. Yrði það allra meina bót ?  

Ég vil undirstrika það sem ég hef áður sagt um krónuna, að hún er bara við sjálf og hvernig við förum með hana. Við höfum bókstaflega traðkað á henni alla tíð með óskynsamlegum kjarasamningum í góðærum fyrst og fremst.  Af því að við fórum sjálf svona illa með hana þá rjúkum við upp núna og ætlum að kenna henni um okkar eigin misgerðir og  fíflaskap.  Slík er örvænting okkar og fjallheimska,  að við leitum að öllum öðrum leiðum nema þeirri að horfast í augu við okkur sjálf. Átsandið er ekki mér að kenna heldur öðrum. Þetta segjum við öll þó að við vitum betur innst inni. Önnur mynt er auðvitað fær leið eins og þeir Ársæll og Heiðar hafa bent á. En hún er heldur ekki gallalaus þó að maður sé stundum uppgefinn þegar þjóðargjaldþrot blasir við.

Það verður alltaf stærri sveifla í litlu hagkerfi en stóru. Stórt kerfi dregur þá bestu niður en tosar eitthvað í þá sem verr gengur. Litla kerfið er fljótara að svara áreiti, bæði upp og niður en getur verið mun skilvirkara til hagsældar eins og við þekkjum. Þessvegna er hugsanlegt að Ísland verði fyrr til að rífa sig uppúr hjólfarinu en margir aðrir. Af hverju gengur Spánverjum svona illa núna þrátt fyrir evruna ?  Það er aðeins af því að þeir hafa fengið og mikið af auðfengnu fé túristanna og búið til spennu í kringum það.  Verð á þjónustu gleðipinnanna og meyjanna hefur rokið upp. En  allt fer í klessu um leið og andar á móti. Alveg eins og hjá okkur  í kringum fjármálaútrásina, Kárahnjúkavirkjunina og Fjarðarálið, byggt með flýtiKínverjum að stórum hluta. Alltaf smi gusugangurinn hjá Íslendingum.

 Það hlaut að koma krass eftir svona veizlu.  Spánverjar  þyrftu að fella gengið til að berja ofan í kollinn á liðinu, sem er búið að hækka standardinn hjá sér uppúr þakinu. Þeir bara geta það ekki og nú súpa þeir  beizkara seyðið í framhaldi. Við erum búnir að því svo um munar.

Ég man, þegar  Ludwig Erhard þrumaði alltaf til Þjóðverja frá 1957 -1962  þegar "das Wirtschaftswunder" (þýzka efnahagsundrið) var í fullum gangi. "Masshalten "  - Hófstilling og meinti eyðslu og launakröfur. Það var nefnilega svo mikið af þenslugjöfum í umferð eins og alltaf er þegar vel gengur og mikið aflast að kallinn var sífellt á verði og Adenauer líka. En á þann virðulega gamla mann trúðu Þjóðverjar á þessum tíma miklu heitar en á Hitler á sínum tíma.

Í slíku ástandi mikils hagvaxtar  þarf að hækka skatta eða "kajólera" eða "hrósþvinga"  almenning til sparnaðar sem er auðvitað  betri leið á endanum. Allstaðar voru Bausparkassen, hvetja fólk til eignamyndunar en ekki eyðslu.  Auðvitað laut Erhard í lægra haldi fyrir Hannesönum. Bjórinn kostaði 50 pfenniga þegar ég kom en held ég 1 mark  þegar ég fór og miklu meira núna.  En ég sá þýzka efnahagsundrið innanfrá,   sem var svo stórt að gömlu nasistarnir hristu hausinn og sögðu, þetta getur ekki gengið svona áfrram, þetta hlýtur að enda með ósköpum.  Núna syrgja Þjóðverjar markið sitt gamla og myndu henda evrunni strax ef þeir fengju að greiða atkvæði. En það fá þeir bara ekki frekar en fyrir hjá Hitler fyrir heimstyrjöldina síðari, sem hefði auðvitað verið felld. En það var eitt sem skildi okkur og Þjóðverja að. Þýzk bankahefð krefst þess að vextir séu greiddir í reiðufé á hverjum mánuði- ekki bætt ofana á skuldina NB Engin vaxtagreiðsla-engin framlenging.

Auðvitað veit maður ekki allt og sumt af því sem maður er að hugsa gengur ekki eftir nánari athugun . En mér dettur í hug að sé  hugsanlega hægt að sigrast fljótar á kreppunni  hér núna eftir einhverjum af eftirtöldum leiðum. Sumir liðir eru kannske barnaleg mýrarljós sem standast ekki nánari skoðun, annað myndi virka :

1. Taka stóru lánin og líka þennan milljarð dollara sem þeir tala núna um að sé of mikið.

2. Skammta gjaldeyrir strangt til að byrja með og stýra genginu niður á við til að bremsa verðbólguna. Ná þjóðarsátt um launastopp í 1 ár og passa að opinberir aðilar hækki ekki nema miklu minna en þeir vilja.

3. Kyrrsetja jöklabréfin á háum vöxtum í ríkisbréfum og tilkynna um að ca. 10-20 % geti  verið greidd út  á næstu 5 -10  árum þeim sem um það sækja á hverju ári.  Þeir sem það ekki vilja verði að greiða sérstakt  sólarlagsyfirfærslugjald vegna neyðarástandsins núna.   Vera kann að þetta sé ófær leið vegna EES þannig að aukamilljarðurinn gæti farið í þetta gengisskot, sem þá er óhjákvæmilegur forleikur að endurreisninni. 

4. Taka upp verðtryggingar og lága vexti á öll  lengri lán t.d. sem ná lengra en 1 ár. Og borga auðvitað verðtryggingu á altl sparifé til sama tíma. 

5. Taka aftur upp verðbólgureikningsskil fyrirtækja.

6.  Kreppa  er  huglæg að uppruna . Hún byrjar sem  skortur á trausti og tiltrú á náunganum. Þessi tortryggni fer stigmagnandi og versnar með degi hverjum þangað til að allir eru uppgefnir á að hata.

Sem flestir finni sér vin  til að lána fimm, tíu, fimmtíu, eða hundraðþúsundkall til að lána gegn löggiltum verðtryggðum kreppuvíxli með lágum %u vöxtum til eins árs. Þennan víxil má leggja í bankann sem greiddi hann út til innleggjandans með sérstöku lánsfé úr Seðlabankann, segjum kannske 80 %  til baka strax.  Bankinn innheimti svo kreppuvíxilinn ef lántakandinn þá getur borgað. Sem eigandinn hefur  jú áður valið  að hætta á með persónugreiningu sinni.

 Þúsund manns,  sem lána náunganum fimmtíuþúsund hafa bæði gert góðverk við núverandi aðstæður og örfað  efnahagslíf landsins um 50 milljónir í fyrstu umferð og nærri 200 milljónir ef þeir endurtækju  leikinn nokkrum  sinnum .   Tíuþúsund manns gætu gert mjög mikið fyrir fólkið og efnahagslífið á þennan smáa hátt í stað þess að láta nýju  kommissarana í ríkisbönkunum  bara lána Jóni Ásgeiri sömu peningana í  milljarðaformi  til að hefta samkeppni á fjölmiðlamarkaði.

7. Fyrirtæki gætu á sama hátt valið sér einhvern álitlegan aðila til að taka við láni eftir öðrum reglum en þau nota venjulega. Selja kreppuvíxlana á sama hátt. Leita að  trausti og gera eitthvað til að byggja persónuleg tengsli við valinn nýjan viðskiptavin.  Allt þetta þyrfti kannske aðeins að standa í stuttan tíma eða þar til að lifnað hefði yfir landinu.

Lesendur fyrirgefi mér að ég set þennan spuna svona fram kannske meira  til gamans í fyrstu lotu. En orð eru til alls fyrst og það er svo mikið sagt af óyfirveguðu máli á blogginu að ég bara skelli þessu svona fram og lofa að ég  mun taka öllum skömmum af stóískri ró.

En meginmálið og kvekjan að þessu skrifi er að hvetja menn til að lesa blog Gunnars Rögnvaldsonar og kynna sér hvað hann hefur að segja um ESB og evruna. Það verður enginn verri maður af þeim lestri.

Honum sendi ég bestu kveðjur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband