Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

www.pallvil.blog.is

Ég held að ofangreint blogg séu orð í tíma töluð til að reyna að sjá í gegnum það sem er að gerast núna í sambandi við fjörbrot Baugsveldisins og Björgólfs líka. Ég pasta  eftirfarandi texta Páls sem lýsir mínum hugrenningum líka hvað varðar fjölmiðlun á Íslandi, nú þegar allt stefnir í alþýðulýðveldið Ísland, með Alþingisvæddum ríkisbönkum, ný Fjárhagsráð og Planökonómí, gjaldeyrisnefndir og endalok almenningshlutafélaga og Kauphallarviðskipta.

 

Páll segir:

" Blaðamenn Morgunblaðsins geta hrundið atlögu tveggja helstu skúrka útrásarfirringarinnar, Björgólfs Guðmundssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, að faglegri blaðamennsku á Íslandi. Í nafni borgaralegrar óhlýðni ættu blaðamenn Morgunblaðsins að neita gefa út blaðið fyrr en sameining Árvakurs og 365 miðla hefur verið afturkölluð.

Á Morgunblaðinu starfa blaðamenn sem alla starfsævi sína hafa byggt upp trúnaðarsamband við lesendur blaðsins. Trúnaðurinn byggir á því að vinna að faglegri fréttaöflun með hagsmuni almennings í fyrirrúmi.

Sameining Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, við lygamaskínu Baugs sem heitir 365 miðlar er blaut tuska framan í andlit allra blaðamanna Morgunblaðsins, lífs og liðinna.

Helsti eigandi Morgunblaðsins, Björgólfur Guðmundsson, fer í sögubækurnar sem maðurinn er tók íslenska þjóðarbúið í gíslingu innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi. Björgólfur er rúinn æru og trausti heiðvirðra manna. Sameining Morgunblaðsins við lygaverksmiðju Baugs sýnir svo ekki verður um villst að dýpt spillingareðlisins á sér engin takmörk.

Blaðamenn Morgunblaðsins ættu að leggja niður vinnu þangað til sameiningin hefur verið afturkölluð. Björgólfur er ekki í neinni stöðu til að standast samtakamátt blaðamanna.

Þegar búið er að hrinda atlögunni ættu blaðamenn að stofa almenningshlutafélag um kaup á hlut Björgólfs í Árvakri. Maðurinn til að leiða það félag heitir Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins. "

Ég held nú að Styrmir sé nú engin forsenda fyrir því að Morgunblaðið geti starfað áfram sem objektívt blað þó að vissulega sé eftirsjá í brotthvarfi hans úr röðum blaðamanna.  Hvort að Árvakur lifir af veit ég ekki en sumir segja að fjárhaguinn sé erfiður.. En hitt veit ég að Fréttablaðið er miðill sem ég mun aldrei sakna ef það hætti að koma út og því fyrr því betra. Blaðið er bara hundleiðinlegt og hefur aldrei staðið Mogganum á sporði. Þeir sem vaða uppi í Fréttablaðinu eru menn sömu skoðana og Jón Ásgeir hvað varðar ráðstafanir á framtíð Íslands. Ég deili ekki þeim skoðunum. Þó að þær séu svosum líka á síðum Mogga þá eru þær ekki  beinlínis ritsjórnarstefna heldur tekur blaðið þátt í umræðum þjóðar í vanda.

Lesið endilega bloggið hans Páls Vilhjálmssonar blaðamanns

 


Endalok almenningshlutafélaga ?

Fyrir atburðina sem leiddu til endaloka bankana var stemningin svona hjá mér. Ætlaði að setja þetta í Mogga en það fórst fyrir

   

Eyjólfur Konráð Jónsson átti sér draum um almenningshlutafélög, sem yrðu lyftistöng framfara þjóðarinnar. Þessi félög áttu að starfa á breiðum grundvelli og bera hag allra hluthafa fyrir brjósti. Hann hefði aldrei getað gert sér í hugarlund hvaða örlög fjárglæframenn myndu búa þessum félögum í skjóli skuldsettra yfirtaka og glæpsamlegum yfirgangi gagnvart öllum meðeigendum.

 

Ríkisbankarnir voru seldir einkaðilum. Þeir gerðu útrás og blésu sig út í yfirskilvitlegar stærðir. Enginn nema Ragnar Önundarson hafði rænu á að vara við hvert stefndi. Og enginn ráðamaður hlustaði á hann heldur. Nú fellur Krónan  og mun halda áfram að falla meðan  íslenzku bankarnir  kaupa upp hvert einasta cent sem Seðlabankinn setur á markað. Og leyfa sér svo að neita að selja fólki gjaldeyri.

 

Hvað á að horfa uppá þetta lengi ?  Olíufélag fær ekki dollara fyrir olíufarmi. Fólk fær ekki úttekt af eigin gjaldeyrisreikningum. Er þetta nokkuð betra en hjá Mugabe í Zimbawe ? Þeir færa upp ársreikningana sína með ágætum gengishagnaði  Fyrir hverja ?. Ekki trúa hluthafarnir einu orði sem stjórnendur þeirra segja. Bréfin í þeim falla í Kauphöllinni vegna algers trúnaðarbrests milli hluthafanna og eigenda almenningshlutafélaganna og þeirra ósífnu fjárplógsmanna sem stjórna þeim í krafti illa fengins  meirihluta.

 

Lárus Welding, bankastjóri Jóns Ásgeirs,  kemur í Silfrið hjá Agli og segir okkur blákalt að Glitnir sé í fínum málum. Viku seinna er bankinn kominn í þrot. Og svo kemur það í ljós, sem Ragnar Önundarson velti fyrir sér, hvort núverandi stjórnendur og eigendur einkabankanna væru á nauðsynlegu siðferðisstigi til þess að fara með innlán almennings.  Svo var ekki. Sjóður 9, sem er sjálfstæð stofnun innan Glitnismerkisins, er gripinn með að hafa ráðstafað sparifé fólksins sem kaupir í þessum göfuga sjóði , í að kaupa skuldabréf gjaldþrota fyrirtækja í eigu stærsta hluthafans, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og föður hans Jóhannesar í Bónus.  Gaukurinn verpti í hreiður litla sparifjáreigandans. Hugsið ykkur hvílík skítmennska ! 

 

Sjóðurinn stöðvar viðskiptin á meðan þeir í  Glitni reyna að klóra yfir þetta. Taka tapið á Glitni. Fyrir mína hönd. Skrifa svo um það á heimasíðuna að þetta hafi allt verið misskilningur og allt eðilegt. Sem er hrein og klár lygi og brot á öllum heiðvirðum bankareglum. 

 

Nú á þjóðin, líka við sem töpuðum okkar hlutum,  að leggja fram stórfé til að kaupa almenningshlutafélagið Glitnir af þeim sem sönkuðu að sér ráðandi meirihlutum. Þessum gersimum sem segjast eiga fullt af peningum til að kaupa fleiri félög í útlöndum. Þeir eiga bara ekkert afgangs handa aumingja Glitni. Mínum gamla Iðnaðarbanka sem ég verslaði við allt lífið.  Nú á ég að axla tapið en ekki þeir.Þeir svífa á vængjum vindanna meðan ég á ekki fyrir benzíni á mína rellu.

 

Hvað þeir gerðu við valdið, sem fylgdi  meirihlutanum,   er núna að koma í ljós.  Er enginn af þjóðinni að velta fyrir sér hvað er verið að kaupa ?   Hvað er mikið af útistandandi fé bankans komið á hendur hinn fjölmörgu fyrirtækja þeirra feðganna ?  Er uppistaðan hugsanlega ónýtir pappírar á fallíttfyrirtæki feðganna ? Megum við biðja FME að birta listann yfir öll útlán Glitnis til feðganna ?. Ætli það verði ekki borin fyrir sig bankaleynd ?

 

Hefur enginn spurt um það hvernig það eignasafn bankans lítur  út sem við þjóðin erum að kaupa  ? Það er enginn vandi að telja skuldirnar sem eru á gjalddaga á næstunni.  Hitt er líklega flóknara og ekki að búast við að þar sé allt jafn kristalltært eins og bæjarlækur. Því lengi er hægt að hræra í skjölum ef menn fá frið og frelsi til þess . 

 

Einusinni var mér að gefnu tilefni kynnt sú  bankaregla að ekki mætti neinn viðskiptavinur banka skulda eða vera ábyrgur fyrir nema sem svarar 1 % í bankanum. Og stjórnarmenn og aðaleigendur ættu alls ekki að vera í teljandi viðskiptum við sinn eigin banka heldur aðra banka.  Í Glitni skulda æðstu stjórnendur og stjórnendur bankans 63 milljarða. Og færa síðan upp einhverja goodwill á móti uppá sömu upphæð.  Og fyrri forstjóri Bjarni Ármannsson  fluttur til Noregs með hundruðir milljóna úr sjóðum Glitnis í starfslokasamninga.

 

Hvert erum við komin frá hugsjónadögum Eykons og frjálshyggjunnar ? Oligarkar eiga ekkert sameiginlegt með frjálshyggjunni frekar en Tony Soprano stjórnarskrá Bandaríkjanna.

   

Endalok almenningshlutafélaga ?-Niðurlag

 

Íslendingar hafa aldrei fyrr staðið frammi fyrir jafn gríðarlegu tjóni á efnahagskerfi sínu og núi vegna framferðis örfárra. manna. Bæði löglausra og siðblindra.

 

Það er eiginlega furðulegt að líta  yfir söguna frá  gjaldþroti Hafskips.  Það var líka almenningshlutafélag. Þá voru yfirmenn þess  settir í gæsluvarðhald til þess að þeir gætu ekki spillt sakargögnum.  Þannig fóru Bandaríkjamenn að við forstjóra Enron þegar grunur féll á að hann hefði ekki sagt rétt frá eða fært bækurnar rétt.

 

 Hér gat Hannes Smárason stjórnarformaður tekið 4 milljarða úr sjóðum almenningshlutafélagsins Flugleiða og farið með þá Luxemburgar án frekari skýringa.  Í krafti ráðandi hlutar Bónusarfeðga. Að vísu sagði forstjórinn samstundis lausu starfi sínu og margir stjórnarmenn sögðu sig úr stjórninni.  Allir voru þeir samt þöglir sem gröfin og ekki vitað til þess að neinn opinber aðili hafi spurt þá hvað var á seyði. Af hverju þegir þetta fólk ? Er ekki hægt að hressa uppá minni þess með einhverjum ráðum ?  

 

Mánuði síðar en Hannes fer með milljarðana  kemur Pálmi Haraldsson í Fons heim frá Luxemburg með flugfélagið Sterling og selur Flugleiðum,.  á eina 16 milljarða að því maður heyrði.  Milljarðarnir komnir aftur í í hús.  Enginn veit um kaupverðið hjá Pálma. En Sterling var nú frekar talið verðlítið um þessar mundir ef ekki fallítt.   En maður getur sjálfsagt getið í eyðurnar. Maður ársins 2006 var í flugtaki með FL Group, sem var ekki lengur flugfélag landsmanna heldur fjárfestingafélag í eigu aðalleikendanna.

 

Henry Ford hafði sitt mottó þannig í viðskiptalífinu: " Never complain, never explain"

 

Okkar drengir kunna vel að skýra ekkert út. Hitt kunna þeir ekki að kvarta ekki heldur  hrópað hátt yfir rangindum heimsins í gerfi Davíðs Oddssonar og hins mikla Satans Sjálfstæðisflokksins. Fái þeir ekki peninga eftir þörfum þá er bara verið að ræna þá eignum sínum. Af hverju borga þeir þá ekki sjálfir þegar Glitnir er í vandræðum ? Þeir segjast vera vel stöndugir og geta keypt mörg fyrirtæki í útlöndum ennþá. Bara ekki í greyinu Glitni. Hann eigum við að sjá um.

 

Hingað til hefur enginn  krafið þá sagna af neinni alvöru um þeirra viðskiptasögur eins sumstaðar er  gert. Eftir atburðinn hjá Sjóði 9 þá set ég orðið spurningarmerki við íslenzka Fjármálaeftirlitið sem mér finnst lítils virði.. Öll álagsprófin sem þeir gerðu, síðast í ágúst 2008 og kunngerðu að bankarnir væru ekkert að fara á hausinn Ekki sá það neitt athugavert við reikninga Glitnis áður en hann fór í þrot.  Og eftir að þeir Hannes Smárason og Kári Stefánsson gátu látið 9 milljónir dollara gufa beinlínis upp í gegnum Luxemurg fyrir nokkrum árum í tengslum við hlutabréfasölu í DeCode, þá sýnist mér önnur yfirvöld eins og   íslenzka skattakerfið til dæmis heldur lítils megnugt. Það getur hinsvegar ágætlega skrifast á við minni spámenn í leit að tuttuguogfimmeyringum.

Stofnanir íslenzka ríkisins sem lúta fjármálum og sköttum  ráða ekki við ofurmenni viðakiptalífsins. Og dómsvaldið má sín einskis gegn  og lögfræðingahernum  eins og dæmin sönnuðu í réttarhöldunum yfir Bónusfeðgum. Sem þó höfðu klárlega notað peninga almenningshlutafélagsins Baugs til þess að leggja það undir sig sjálfa. Þessasr stofnanir standa sig þó afburða vel í viðskiptum við litla Hafskipsmenn eða tilfallandi sjoppueigendur.

 

Sem meðeigandi þeirra Hannsesar Smárasonar,  Bónusfeðganna  og Pálma Haraldssonar í Fons hef ég verið bjargarlaus áhorfandi  að gjörðum þeirra. Nú tapa ég mínum hlutum eftir þeirra prógrammi.  Mér finnst ekki að hvorki Davíð né  ríkið sé ræninginn í þessu máli.  

 

Ég held því miður, að afstaða margra til almenningshlutafélaga muni breytast verulega og lengi  eftir þessa dagaog   að framtíð kauphallarviðskipta  á Íslandi með hlutabréf almenningshlutafélaga verði seint söm  aftur.  Almenningur á hvergi að koma nálægt hlutabréfum því að ræningjarnir eru sífellt á kreiki til að rupla og eyðileggja. Ef íslenzk almennigshlutafélög  lenda alltaf átölulaust í ræningjahöndum eða þá bara fífla sem setja þau á hausinn með tómri vitleysu þrátt fyrir ofurlaun sem séní, þá er varla hægt að búast við að almenningur treysti nokkru sinni aftur á slíkt félagaform.

 

Þá höfum við farið langan frá þeim hugsjónum sem hann Eykon trúði á og boðaði okkur fylgendum sínum í þá daga  


« Fyrri síða

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 62
  • Frá upphafi: 3418165

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband