Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Eru þessir menn með öllum mjalla ?

Svavar Gestsson er án efa eini maðurinn í heiminum sem hefur verið sagður tékkheftislaus vegna fjjármálamisferlis daginn sem hann tók  við embætti viðskiptaráðherra  fullvalda vestræns lýðræðisríkis.

Þessi sami Svavar Gestsson nennti, að eigin sögn,  ekki að hanga lengur yfir Icesave samningnum og henti honum því fullgerðum í Alþingi til stimplunar.

Í samningnum um Icesave er eftirfarandi grein;

"16.3 Waiver of sovereign immunity

Each of the Guarantee Fund and lceland consents generally to the issue of any process in connection with any Dispute and to the giving of any type of relief or remedy against it, including the making, enforcement or execution against any of its property or assets (regardless of its or their use or intended use) of any order or judgment. lf either the Guarantee Fund or lceland or any of their respective property or assets is or are entitled in any jurisdiction to any immunity from service of process or of other documents relating to any Dispute, or to any immunity from jurisdiction, suit, judgment, execution, attachment (whether before judgment, in aid of execution or otherwise) or other legal process, this is irrevocably waived to the fullest extent permitted by the law of that jurisdiction. Each of the Guarantee Fund and lceland also irrevocably agree not to claim any such immunity for themselves or their respective property or assets"

Mér er til efs, að Gizur  Þorvaldsson jarl, hefði samþykkt að setja slíka tryggingu í Gamla Sáttmála fyrir skuldbindingum Íslands gagnvart Noregskóngi. Og ekki hefði Einar Þveræingur verið mikið hrifinn af því að veðsetja honum Grímsey á þennan hátt.

En núna velta núlifandi Íslendingar því alvarlega fyrir sér að skrifa undir veðsetetningu  ættjarðarinnar minnar.  Og ég fæ ekki rönd við reist. Ég er ekki einu sinni spurður. Ég má hugsanlega bara kjósa íhaldið eftir fjögur ár ef ég er fúll. Og svo á ég til viðbótar að taka þátt í byrjuðu fullveldisafsali þjóðarinnar án þess að hafa fengið að ríða til þings.

Getur þetta bara gerst svona ? Hversu lágt á ég að leggjast ?

Ég spyr mig í angist sem Íslendingur;

 Eru þessir menn niður við Austurvöll allir með öllum mjalla ?


Ásmundur bóndi !

Það var Kastljósþáttur  í kvöld þar sem saman komu Siv Friðleifsdóttir fyrir Framsókn, Illugi Gunnarsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Ásmundur bóndi fyrir VG , Helgi Hjörvar fyrir Samfylkingu og Margrét fyrir Borgarahreyfinguna.

Mér þykir dapurlegt að verða að viðurkenna það, að sá eini sem virtist skilja hvað um var rætt, þegar EB málið kemur á dagskrá, var Ásmundur bóndi frá VG. Hinir þingmennirnir allir virtust halda að til stæði að greiða atkvæði um að fara í óskilgreindar aðildarviðræður.

Það var  eins og enginn nema Ásmundur hafi lesið bók Björns Bjarnasonar:"Hvað er Íslandi fyrir bestu " Einskonar Gagn og Gaman fyrir fólk sem vill kynna sér Evrópumálin.

Bóndinn Ásmundur kvað uppúr með það, að það væri ekki verið  að fara í neinar aðildarviðræður heldur væri verið að sækja um aðild að EB. Viðræðurnar myndu snúast um hvað Ísland gæti fengið undaþágur frá að láta yfir sig ganga. Menn sæktu ekki um inngöngu nema vilja fara inn.

Björn Bjarnason lýsir þessu ferli skilmerkilega í bók sinni. Undanþágur, eins og frá sjávarútvegsstefnu bandalagsins eða innflutningi á landbúnaðarvöru,  yrðu ávallt tímabundnar og algerlega á valdi ráðherranefndarinnar að framlengja eða afturkalla eins og raunar um öll frávik frá sáttmálum bandalagsins.  Það er stundum eins og Íslendingar haldi að EB. sé eitthvað nýstofnað apparat,  sem bíði þess bara að Íslendingar komi og umskrifi regluverk þess eftir sínu höfði.

Helgi Hjörvar hélt því svo blákalt fram, að gagnstætt Sjálfstæðisflokknum væru Samfylkingin og VG lýðræðisflokkar. Fulltrúinn  frá Sjálfstæðisflokknum lét þetta yfir sig ganga. ómótmælt. Þetta þótti mér harta að þola af hálfu þessa fyrrum Þjólífsrukkara. Orð hans  stóðu því óhögguð í þáttarlok. Ég held að þessi fulltrúi ætti að fara í endurhæfingu sem Sjálfstæðismaður og glöggva sig á þeim skyldum sem því fylgja fremur en að vera að skrifa langlokur í Morgunblaðið um efni sem hann skilur varla sjálfur.

 Mér finnst á skorta að fólk skýri fyrir sér að það er verið að greiða atkvæði á Alþingi Íslendinga, hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu.

Hvort fólki finnist það í lagi á þeim tímamótum, að jafnvel eitt atkvæði geti skipt sköpum þegar um er að ræða mesta fullveldisframsal Íslendinga frá 1262.

Í slíku máli hefði ég kosið að sjá aukinn meirihluta Alþingis eða þá að þjóðin kvæði upp afgerandi dóm í málinu. Mér finnst það varla sæmandi, að láta jafnvel eitt atkvæði, misjafnlega þroskaðs manns, mögulega ráða úrslitum í svo gífurlega miklu máli fyrir alla framtíð Íslands, hvort heldur er á Alþingi eða í þjóðaratkvæði.

Mér finnst skautað fram hjá því, að árið 2007 var Evrópunefndin, þverpólitísk nefnd undir formennsku Björns Bjarnasonar,  sammála um það, eftir þriggja ára vinnu, að telja hagsmunum Íslands best borgið utan EB. Einnig fram hjá því að  andsfundur Sjálfstæðisflokksins árið 2009 komst að sömu niðurstöðu  þó að það kostaði að einir tveir gengju úr flokknum eftir þau málalok.Samt berja sumir fulltrúar flokksins enn höfði við steininn og þrugla um aðildarviðræður þegar ekkert slíkt er á dagskrá.

Ég lýsi hér og nú aðdáun minni á  Ásmundi bónda og málflutningi hans . Svoleiðis menn vildi ég hafa fleiri í mínum flokki.

 

 

 

 

 

 


Mig vantar leiðtoga !

Mig vantar leiðtoga !

 

Mig vantar leiðtoga,  sem segir við heiminn hingað og ekki lengra !

 

Þjóð okkar er í nauðum. Fjármálakerfi hennar er hrunið. Við verðum að grípa  til örþrifaráða varðandi fjármálaviðskipti við umheiminn. Þeir sem ekki eru vinir okkar eru óvinir okkar. Við verðum að komast af án þeirra.

 

Við  munum ekkert greiða af erlendum skuldum landsins nema það sem við getum og teljum nauðsynlegt hverju sinni. Við getum ekki greitt erlendar skuldir óreiðumanna, til þess skortir okkur afl. Við getum ekki og viljum ekki veðsetja framtíð hins óborna jóðs.

 

Í hundrað áratugi þraukaði þetta fólk sem nú er hnípið við hið yzta haf. Stundum lá við að náttúruhamfarir, drepsóttir  eða hörmungar af mannavöldum myndi slökkva hin síðasta lífsneista á landinu. Kjarkur þjóðarinnar og lífsvilji lá í dvala um dimmar aldir. En hún braust þó áfram í þeirri trú að á morgni nýrrar aldar myndi hún aftur upp rísa og menningin vaxa í lundi nýrra skóga.

 

Skógarnir hafa margfaldast og innviðir þjóðarinnar hafa styrkst. En þjóðin hefur sundrast og misréttið hefur margfaldast. Fáir menn hafa leikið hina mörgu grátt. Þeir hafa tekið eyri ekkjunnar til sín og sóað honum í fjárhættuspilum um víða veröld. Þeir hafa lagt það land sem  við köllum ættjörð okkar undir og tapað. Nú segjast þeir hafa haft til þess fullt umboð og krefja okkar þjóð um að hún standi upp af staðfestum sínum. Leggi aleigu sína og óborinna kynslóða á spilaborð manna sem fæst okkar þekkja. Þjóð sem ekki vissi hvað undir var  lagt eða hvað spilað var um.  Engum einum þegni þjóðar getur verið heimilt að leggja ættjörð sína undir í eiginhagsmunaskyni. Hvorki hjá okkar þjóð né  með öðrum þjóðum. Sá tími er liðinn að einstakir menn geti selt þjóðir og lönd í þrældóm.

 

Tími er því kominn til þess að við rísum upp og segjum nei. Forfeður okkar komu til þessara stranda í leit að betra lífi og frelsi frá skuldheimtumönnum erlendra ríkismanna. Til lítils höfum við þá farið um aldir ef þau  eiga að verða okkar  örlög, að glata landinu okkar og ættarjörð í fánýtum fjárhættuspilum hinna fáu. Þeir skulu  svara til saka  fyrir okkar æðsta dómstól vegna gjörða sinna, sem eru svik við ættjörðina og þjóð sína um leið og þær eru herfileg svik við ykkur sem þeir hafa skaðað í ranglega okkar nafni.

 

Við þá erlendu ríkismenn, sem nú að okkur sækja segjum við :  

 Í fyllingu tímans skulum við reyna að bæta ykkur á einhvern hátt þær sakir sem þér  nú teljið til skuldar hjá okkar þjóð.   En börnin okkar og framtíð þeirra  ganga fyrir því að við látum af hendi lífsbjargir þeirra til ykkar hér og nú.  Við getum það hvorki né megum.  Meira getum við ekki gert á þessari stundu fyrir ykkur sem við biðjum ykkur að virða.

 

Þjóð okkar er ung og starfsfús. Hendur hennar munu skapa auð á ný sem mun verða okkur öllum til gagns. Hrindið ekki okkur hrasandi til falls þér göfugu  herrar.  Reynist okkur heldur vel í raunum okkar og við heitum ykkur vináttu í staðinn. Því að vinátta okkar sem  kúgaðrar og sigraðrar þjóðar myndi heldur ekki reynast ykkur annað en stundarfró sem fyrr en varði hefði  getað snúist í andhverfu sína..

 

Íslenzk þjóð mun lifa áfram við hið yzta haf. Hún er frjáls og á ein sitt stríð og sín opnu sund.  Fyrr en varir mun henni aftur skína sól úr skýjum,  þó svo að þið teljið hana á þessari stundu ekki tæka í samfélag ykkar.

Það sólskin mun einnig ná til ykkar í fyllingu tímans.  Og þá  munuð þið fagna með okkur,  að lengra var ekki gengið á þessum tíma í að beygja okku hina sigruðu  í svaðið.

 Hver þjóð verður að fá tækifæri til þess að sjá fyrir sér og börnum sínum fyrst áður en hún getur hugað að hag annara.

Því miður miklu herrar, við getum ekki annað ! 

 

Mig vantar leiðtoga !         


Vonlaust !

GREIÐSLUR samkvæmt Icesavesamningnum verða mestar árið 2017 þegar þær munu nema um 3,5% af vergri landsframleiðslu. Þá er gert ráð fyrir að verg landsframleiðsla verði 2.141.361 milljón króna og Icesave- greiðslur verði 75.529 milljónir króna. Þetta kemur fram í mati á efnahagslegum áhrifum Icesavesamningannasem fjármálaráðuneytið vann og lagt var fyrir fjárlaganefnd Alþingis í gær.

Afborganatímabilið á Icesavesamningnum hefst 5. júní árið 2016 og lýkur 5. júní árið 2024. Í matinu er gert ráð fyrir að greiðslurnar vegna samningsins fari lækkandi með hverju ári það sem eftir er afborganatímabilsins frá árinu 2017 og verg landsframleiðsla vaxi jafnt og þétt um leið. Samkvæmt matinu verða afborganir vegna cesave tæplega 2% af vergri landsframreiðslu í lok lánstímans.

Hvernig dettur svavari Gestssyni og Steingrími J. Sigfússyni að ber þetta á borð ? Þessi þjóð er dauðadæmd ef svona fer fram.

1 % af þjóðarframleiðslu árlega í þrjátíu ár   er það alhæsta sem nokkur þjóð getur á sig lagt fyrir slíka syni sína sem þeir Björgólfar og Sigurjón Digri eru.

Annað er vonlaust !


Er krónublinda varanleg örorka ?

Nú þurfti ég, og þú,-íslenzka ríkið, að setja 16 milljarða inní SJÓVÁ, til þess að það gæti talist vera að tryggja það sem það á að tryggja. Forstjórinn ljómar af ánægju. Launin hans og jeppinn tryggð. 

Eigendurnir, Dalton bræður,  voru óvart búnir að stela 2/3 af bótasjóðnum skattfrjálsa, sem félagið er búið að nurla saman frá stofnun fyrir nærri öld síðan. Þeir eru líklega með krónublindu.

 Nú borgar bara Rauðgrani og Andersen fyrir mína hönd og þína. Enda en er þetta slikk hjá Icesave, þar sem allir sjá stórkrónurnar.   Það er ekkert verið að senda tilsjónarmenn í SJÓVÁ og setja einhverja af,  eins og í Lífeyrissjóði Kópavogs, þar sem engu var þó stolið heldur verið að passa uppá peningana.

Megum við svo eiga von á að álíka milljarðar verði lagðir inní Tryggingamiðstöðina hinn daginn. Þar er víst nefnilega búið að stela bótasjóðnum líka. Það er hreint ekki vitað hvort menn séu eitthvað tryggðir sem eru með tryggingar hjá því  félagi frekar en í SJÓVÁ. En þar voru bara hinir krónublindu Bonanzafeðgar og vinir þeirra  á ferð.

Og svo eru það aumingja Bjöggarnir. Þeir eru bara svo góðir að þeir ætla að borga bara heilmikið uppí skuldirnar hjá Kaupþingi. Kannski eru þeir líka orðnir krónublindir og þekkja ekki muninn á milljón og milljarði?

Ég er að hugsa um að bjóða mínum banka bara sömu prósentu. Þeir hljóta að samþykkja það þar sem um hreint skítterí er að ræða miðað við Bjöggana.  

Hvernig er með þessar krómuðu mansjéttur, sem maður sá forstjórann í Enron með  ? Fást þær ekki hérlendis ? Veit Eva Joly ekki hvar þær fást ?

Er  krónublinda að verða viðurkennd örorka á Íslandi ? Auðvisarnir fái því bráðum örorkuframfærslu frá okkur hinum. Var manni ekki kennt  að vera góður við öryrkja ?


ÚTRÁS !

Ríkisstjórnin ætlar að endurfjármagna bankana 20 júlí.  Loksins !

Hún ætlar þá fyrst að prenta  handa þeim 320 milljarða af peningum .   Segja þeim að fara að lána þá út á stýrivöxtum með álagi ?  Koma brátt  tífaldri þessari upphæð í umferð með bankmultipliers.

Var það þá  til einhvers að láta Seðlabankinn vera jafnþrúgaðann af verðbólgumarkmiðunum eins og í tíð Davíðs ? Var ekki sú efnahagsstjórn tóm della sem verkaði bara öfugt með innflæði erlends fjár ? 

Af hverju var beðið svona lengi með þetta ? Er ekki alt  betra en þetta andskotans ástand  sem nú er búið að ríkja í bráðum ár ? Þetta er samstofna við kreppuvíxlana sem ég talaði fyrir í vetur en enginn vildi skilja þá.  Það verður að gera þetta strax. Annars  heldur atvinnuleysið áfram að aukast og kreppan að dýpka.

En þetta er ekki nóg. Krónan verður að fara á flot og gjaldeyrisfrelsi að taka við. Það er ekki hægt að lifa svona mýldur og geltur eins og almenningur og fyrirtæki hafa orðið að þola svo lengi. Það er ekki hægt að hafa gjaldeyrishöft og tvöfalt gengi á 21.öld  þó að það sé við lýði enn  á Kúbu og í Norður Kóreu.

Afleggjum kvótakerfið ! Frjálsar veiðar !  

Geymum Hafró á ís þangað til eftir ár. Árið 2010  á ríkið allan fiskinn og kvótakerfið heyrir sögunni til. Bankarnir halda bara veðunum í bókum sínum óbrettum, það er hvort sem er engin eign í yfirverðsettum eignum.

Beitum fyrir útlenska fjárfesta með virkjunum og stóriðju.

Fellum Icesave.Heimtum samninga og styrki frá sjóðum ESB.   

 Nú verður að gera ÚTRÁS !


"Nennti ekki að liggja yfir þessu lengur. "

var haft eftir Svavari Gestsyni varðandi lok samningsin um Icesave.

Elvira Mendes Pinedo er doktor í Evrópurétti. Hún nefnir nokkur atriði sem vert er fyrir Svavar að skoða, -ef hann þá nennir.

7. Samningarnir sem nú hafa verið kynntir við Bretland og Holland eru alþjóðlegir viðskiptasamningar sem eru mjög í hag lánveitenda og endurspegla vantraust gagnvart Íslandi (löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvaldi). Frá sjónarhóli ESB/EES réttar eru þessir samningar mjög umdeilanlegir.

8. Þar sem ESB veitir fjárhagsaðstoð til ríkja sem eiga í erfiðleikum (bæði aðildarríkja og ríkja utan sambandsins) á höfundur þessarrar skýrslu erfitt með að skilja hvers vegna Ísland á ekki í samningaviðræðum við ESB um lausn málsins. Alþingi ætti að óska eftir lögfræðilegum og stjórnmálalegum skýringum frá ríkisstjórninni.

9. ESB hefur veitt þriðju ríkjunum alþjóðlega fjárhagsaðstoð þegar um er að ræða verulegan halla á greiðslujöfnuði. Þá hefur ESB ennfremur stofnað sjóð sem nefnist Guarantee Fund for External Actions sem tekur að sér að axla ábyrgð er ríki lenda í vanskilum eftir að hafa fengið lán frá ESB og sjá sér ekki fært að verða að fullu við skuldbindingum sínum. Ísland ætti að óska eftir áþekkri meðferð frá ESB.

10. Ákvæði í samningnum sem kynntur hefur verið eru mjög gagnrýniverð. Þau staðfesta valdsvið dómstóla Bretlands til að fjalla um deilur varðandi samninginn og til að framfylgja ákvæðum samningsins ef um vanrækslu verður að ræða. Í honum er fallið frá friðhelgi á grundvelli fullveldis varðandi íslenskar eignir. Þessi ákvæði samræmast ekki þeim stöðlum sem tíðkast í Evrópurétti (t.d. lán þau sem ESB hefur boðið Lettlandi og Ungverjalandi). Ef Íslandi reynist ókleyft að standa undir skuldum samkvæmt samningum ættu að vera fyrir hendi áform um aðstoð og um nýjar samningaviðræður eða frest. Allur ágreiningur varðandi  framkvæmd samningsins ætti að vera borinn undir Evrópudómstólinn skv. ESB/EES rétti. Afsal friðhelgis á grundvelli fullveldis varðandi eignir er ekki til staðar í öðrum ESB samningum.

Auðvitað er leiðinlegt fyrir upptekna menn að liggja yfir svona smáatriðum þegar menn eru búnir að boða "glæsilega niðurstöðu."

Nennum við nokkuð að liggja yfir þessu lengur ?  Skrifum bara undir svo við getum sótt um inngöngu í ESB.


Mátulegt á þá ?

 

Hversvegna eigum við að vera að borga Icesave ? Hvað koma athafnir íslenzkra glæpamanna mér við ? Eða þjóðinni allri ? Ekkjunni með eyririnn sinn ? Öryrkjanum með ómegn sitt ? Einstæðu móðurinni ? Ófæddu börnunum ?

Mér finnast ráðamenn okkar vera ráðalaust fólk. Fáráðlingar og rolur. Að detta í hug  að leggja tvöfalda  Versalasamninga á okkar bognu bök ! Okkur sem vorum ekki einu sinni í stríði !

Krimmarnir í Landsbankanum beittu með galdraþulum  fyrir meðaljóninn  í Bretlandi og Hollandi með loforðum um hærri vexti. Gróðafíknin tældi þeirra heimskingja til þeirra íslenzku  bófa, sem flögguðu með " The National Bank of Iceland" . Hver treysti ekki þjóðarbanka Íslands  til að borga hæstu vexti ? 

Það var galið að selja  Björgólfi þetta nafn með bankanum, nýkomnum frá Rússlandi. Hann var líka fljótur að opna útibú í Pétursborg eftir kaupin.  Þetta er eins og selja einhverjum íslenzka fánann og segja honum að fara í víking með hann. Leyfi Buccaneers  til að ræna yfir heimshöfin  með ríkisábyrgð ? 

Hvað gátu þeir Sigurjón Digri og hinir í Landsbankanum ekki svikið marga bara með svona stóru nafni,  sem beinlínis ber í sér fyrirheit um ríkisábyrgð ?  Var þetta ekki stór þáttur í því að fá útlendinga til að leggja inná Icesave ?

Við sem þjóð getum hinsvegar ekki borið ábyrgð á því að íslenzkir krimmar féfletti útlendinga. Ekki frekar en Nígería tekur ábyrgð á að einhverjir Nígeríumenn lofuðu Íslendingum sem öðrum líka gulli og grænum skógum. Þeir plötuðu marga Íslendinga sem ég þekki. Þeir titluðu sig sem einhverja Prof.Dr.UmbaGumba og sögðust vera beint inni í ráðuneytunum og þyrftu að koma peningum  inná íslenzka reikninga. Gegn furstalega  háum vöxtum. Og jafnvel greindustu menn féllu fyrir gróðafíkninni.  Alveg eins og litlir og stórir Bretar og Hollendingar fyrir Icesave.

Sem var bara the big Icescam ! Samstofna við hið alsvarta Nigeriuscam,  nema þeir eru hvítir í framan í Landsbankanum.

Þeir sömu Íslendingar og létu ginnast af Nígeriscamminu vilja ekkert tala um þetta. En áreiðanlega datt þeim aldrei í huga að lögsækja Nígeríustjórn fyrir. Hvað þá svörtu þrjótana sjálfa.

Þessvegna er það svo arfavitlaust að halda að Íslendingar eigi að borga fyrir Icesave sem bankakrimmarnir okkar fundu upp.  Þeim var bara nær þessum ösnum sem létu þá gabba sig.

Mátulegt á þá !

Þessi helvíti í íslenzku bönkunum göbbuðu mig til að kaupa hlutabréf í þessum bönkum sínum. Allt tapað og ég sit uppi með það að hafa verið reyktur! En ég er ekki að heimta að Seðlabanki Íslands eða Fjármálaeftirlitið eigi að bæta mér skaðann.  Ég var fíflið ! Og ég vissi líka að Murphy segir að það sé ósiðlegt að láta fífl halda peningunum sínum og hefði þessvegna átt að gruna þá um græsku. Allt kom fyrir ekki, þeir náðu mér helvítin atarna þó að ég sæi við Nígeríubófunum á sínum tíma .

Til hvers á ég þá að vera að borga fyrir bresk og hollenzk fífl ?

Mátulegt á þá !


Hvernig les skrattinn biflíuna ?

Í frönsku  seðlabankaskýrslunni um innistæðutryggingar  segir svo :

  „It is accepted that deposit guarantee schemes are neither meant nor able to deal with systemic banking crises, which fall within the remit of other parts of the "safety net", e.g. supervisors, central bank, government."

Lausleg þýðing setningarinnar hljóðar þá svo: Það skal viðurkennt að innistæðutryggingakerfið er hvorki ætluð né möguleg til þess að takast á við kerfishrun banka, sem falla fyrir utan annarra þátta „öryggisnetsins", það er, eftirlitsaðilar, seðlabanki og stjórnvöld.

Aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Kristján Guy Burgess segir málsgreinina fjalla um það " að verði bankahrun þá geti ekki tryggingasjóður einn og sér staðið undir skuldbindingum heldur þurfi ríkisstjórnin og seðlabanki að koma þar til hjálpar."

Hvort á samþykkt Icesave að ráðast af túlkun Burgess eða Davíðs á þessari málsgrein ?

Í þjóðsögunum er sagt frá því að skrattinn lesi biflíun öfugt. Er ekki óþarfi að láta Burgess einan um að útleggja textann  til grundvallar smámáli eins og Icesave ? 


Hversvegna sleppa þeir en ekki ég ?

Þeir Hreiðar Már og Sigurður Einarsson veittu sjálfum sér og fjölda lykilstarfsmanna Kaupþings lán til að kaupa hlutabbréf í Kaupþingi. Þeir felldu svo sjálfir niður persónuábyrgðir sínar á lánunum og þar sem eina trygging lánanna voru bréfin í Kaupþingi er það Kaupþing þrotabú  sem situr uppi með ónýtu bréfin í stað peninganna sem fóru út úr því til bréfakaupanna, hjá hverjum sem það nú var.

Mér buðust ekki svona  lán  hjá Kaupþingi. Mér var því mismunað sem hluthafa. Þeir voru með önnur kjör í gangi en öðrum hluthöfum buðust. Þeir höfðu þarna fríðindi sem mér ekki buðust. Mér var mismunað.

Mismunun í hlutabréfaviðskiptum innan banka  hefur verið dæmt ólöglegt athæfi af hálfu Glitnis gagnvart Vilhjálmi Bjarnasyni.   Ég og Vilhjálmur urðum að nota sparifé sem búið var að skattleggja svo og lánsfé  annarsstaðar frá til að kaupa hlutabréf í bankanum.  Við verðum að borga lánin að fullu.   Bréf okkar eru hinsvegar núna jafnónýt og þeirra. Engin mismunun þar í. 

Eigum við að tapa öllu sem lögðum okkar fé í Kaupþing meðan þeir stjórnendurnir tapa engu persónulega á því að setja fyrirtækið okkar á hausinn ?

Þeir þurfa ekki að borga lánin því að þeir eru ekki í ábyrgð vegna þess að þeir fella hana niður sjálfir.Þeir fella ekki niður ábyrgðir hjá mér.  Við hinir verðum að borga allt það sem við lögðum fram.   .

Voru þessi forréttindi þeirra,  að fá að taka svona ábyrgðarlaus lán handa sjálfum sér, ekki sérstök fríðindi þeirra sem aðrir nutu ekki ? 

Eru fríðindi starfsmanna skattskyld ?

Við almennir hluthafar urðum auk þess að að borga hærra verð fyrir okkar bréf af því að þeir veittu sjálfum sér þessi lán til að hækka gengið á bréfunum fyrir okkur. Notuðu þeir ekki kaupin til þess að leiða til innistæðulausrar verðhækkunar á bréfunum á markaði ? Voru þeir að blekkja okkur og aðra hluthafa á markaði ?

Var tilgangurinn sá, að blekkja viðskiptamenn bankans til þess að trúa einhverju allt öðru um bankann en sannleikanum ?  Var það eitthvað öðruvísi með  Enron ?

Hversvegna sleppa þeir en ekki ég ? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband