Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Skríplar eða Strumpar

geta manni dottið í hug þegar maður verður agndofa.

"Ég hef sjaldan hlustað á ómaklegri ræðu en þá sem Helgi flutti í morgun. Hann veit jafn vel og ég að eina leið okkar stjórnarþingmanna til að hafa áhrif er í gegnum ræður á Alþingi og svo með því að sannfæra félaga okkar á þingflokksfundum..."

Þetta segir Lilja Mósesdóttir um skammaræðu samstjórnarþingmanns síns Helga Hjörvar, um hana sjálfa. Flestar yfirlýsingar hennar benda því miður til þess að hún tali fyrir daufum eyrum á þingflokksfundum því ekkert af því sem hún segir á þinginu kemur nokkru sinni út aftur. Eins og hverfur í eitthvað svarthol þaðan sem ekkert sleppur út aftur.

Eiginlega skaði, því mér finnst að Lilja Mósesdóttir segir margt skynsamlegt og sannfærandi þegar aðrir en VG þingmenn hlusta á. Skyldi það hljóma svipað að hlusta á fundi í þingflokki V.G. og að hlusta á Skríplana syngja? Ógurlegt magn af upplýsingum og skjótri hugsun sem enginn getur samt fangað? Eða hétu þeir Strumparnir sem sungu?


Bubbi

var í útvarpinu áðan, þrælkvefaður blessaður. Hann sá ekki annað en hér yrði kreppa í 4 ár í viðbót. Honum fannst Steingrímur og Jóhanna ekki vera að meika það. Hann boðaði byltingu gegn fjórflokknum sem hann kenndi um allt illt.

En góði Bubbi, varstu ekki að græða fullt undir fjórflokknum fyrir hrun? Þarftu ekki að rifja upp söguna af frönsku stjórnarbyltingunni, Napóleon og allt það. Þá át byltingin börnin sín eins og oftast skeður.

Batni þér kvefið Bubbi minn.


Steingrímskan

komin til Írlands þó í útþynntri mynd. Virðisaukaskattur hækkaður úr 21 prósenti í 23 prósent en skattur á fyrirtæki verður þó óbreyttur í 12,5 prósentum. Það hlýtur að hafa verið slæmt samband þegar þeir símuðu hingað því að vaskurinn hækkaði hér í 25.5 % og fyrirtækjaskattar eru hærri hér. 

Og svo ætla Írar að segja upp þúsundum af opinberum starfsmönnum. Hér virðist Steingrímur stefna að því að skattlagning ríkisstarfsmanna standi undir norræna velferðarkerfinu sem hann vill koma á fót.  Írar hafa evru og geta ekki breytt genginu. Íslendingar geta farið þá leið að lækka laun allra í stað stórfellds atvinnuleysis um leið og vöruskiptin verða hagstæð.

Gengisfellingar voru kölluð "gömlu íhaldsúrræðin" einu sinni.  Íslendingar  kunna að prenta sér peninga til að brúa bilið innanlands og halda kerfinu í gangi.  Það geta Írar ekki frekar en Grikkir, Spánverjar, Portúgalar. Þjóðverjar hinsvegar búa til evrur sjálfir með meiri framleiðslu en hinir. Misgengið er augljóst. Hvernig hefði ástandið hér orðið án krónunnar?

 Paul Krugman virðist vera allavega ánægðari með Steingrím en Gowan um þessar mundir. Skyldi Steingrímskan eiga eftir að verða Nóbelsverðlaunakenning í hagfræði ? 


Staðgreiðslu af lífeyrissjóðsgjöldum

finnst mér eigi að taka af öllum inngreiðslum. Síðan verður lífeyrisgreiðslan skattfrí þegar þar að kemur. Engir ríkispeningar til að tapa í ávöxtunarbraski forstjóranna. Þetta þýðir skattalækkanir almennings og fyrirtækja  núna þegar þörfin er mest að vekja atvinnulífið upp frá dauðum.

Af hverju ekki?


5097

er mitt númer sem frambjóðanda til Stjórnlagaþings. Síðustu daga eru vinir mínir í Sundlaugunum að gera grín að mér fyrir að ég sé ekki nógu duglegur að agítéra. Það er auðvitað rétt hjá þeim enda líst mér mátulega á blikuna. Ég fór nefnilega og kaus utankjörstaðar. Þá taldist mér til að kosningin gengi svona sjösinnum hægar fyrir sig en venjulegar kosningar.

Mér hrýs því hugur við því hvernig ástandið verður á kjördag. Mun fólk ekki hreinlega hætta við þegar að það sér biðraðirnar ? Svo spyrst þetta út og magnast.  Þáttakan verði því óásættanlega lítil í kosningunni og grafi þar með undan trúverðugleika þingsins og niðurstöðum þess ? Allt þetta góða fólk hefur gefið sig fram til vonbrigða einna ? Það verður hreinlega sorglegt. Ég myndi leggja til að vera viðbúinn til að bæta við sunnudeginum sem kosningadegi. Það liggur hvort sem ekkert á með talninguna.

Jæja, hvað sem er, þá er ég í framboði. Ég er þar með valkostur á fínu máli en varla nægilega í hópi fræga fólksins til að fljúga inn. Fell þá líklega og verð ekki tiltakanlega fúll.  Búinn að svara spurningum á DV og reyndist vera 75 % líkur sjálfum mér samkvæmt áður innsendri greinargerð. 

Ætti ég að setja að setja fram stefnuyfirlit á bloggsíðunni ? Það er allavega ódýr auglýsing fyrir 5097. Finnst fóki það fúlt?


Hvað er að heyra

Steingrímur bara í kjördæmapoti eins og hinir. Árbót og Kirkjuferjuhjáleigan. Og landsbyggðarþingmennirnir með honum. Ekki séns að Bragi geti staði upp í hárinu á Steingrími. Ekk séns að neinn vilji breyta kjördæmaskipuninni.

Og svo er Gylfi Arnbjörnsson bara í félögum á Tortola. Það er eins gott að þeir Steingrímur verði saman við kjarasamningana. Ekki megum við missa þá við þessar aðstæður.

Hvað er að heyra þetta allt saman um blessaða mennina. Eru þeir ekki örugglega í Sjálfstæðisflokknum?


Ólafur bullar

ennþá í morgun í Baugstíðindum um það, að Sjálfstæðisflokkurinn sé klofiinn í Evrópumálunum. Það er ekki klofningur í flokki sem er yfir 90 %  skýr á stefnu  sinni um Evrópusambandsaðild eins og sá flokkur er.

Það er alveg óþarfi að vera að skrifa svona eins og ritstjórinn gerir og heldur ef til vill að hann sé að skrifa fyrir Sjálfstæðismenn. En það þarf meiri menn til þess að valda hugsjónalegum skaða í Sjálfstæðisflokknum en þá leigupenna auglýsingablaðs auðvaldsins sem Evrópuaðildina mæra á hverjum degi.

Þeir sem vilja bulla um Ólaf kóng ættu fyrst að hafa heyrt hann eða séð.


Pólitískar ofsóknir

hafa alltaf fylgt kommúnistastjórnum.  Nú kvartar Geir H.Haarde réttilega yfir afgreiðsluleysi kerfisins  sem sem er beinn þáttur í herferð ríkisstjórnarflokkanna á hendur honum. Reynt er að valda fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins sem mestum skaða með því að draga málið á langinn. Allur málatilbúnaðurinn eru auðvitað hreinar pólitískar ofsóknir sem þingmennirnir Helgi Hjörvar og  Ólína Þorvarðardóttir bera höfuðábyrgð á.

Aðfarirnar gegn Geir Haarde eru í stíl við það sem Steingrímur J. Sigfússon stóð fyrir í herferð sinni gegn Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi á síðasta ári.  Þá rak hann stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogs fyrirvaralaust að næturlagi fyrir þá útblásnu sök að hafa reynt að varðveita verðmæti sjóðsins á hættutímum. En sjóðurinn skilaði þá  bestu ávöxtun allra lífeyrissjóða landsins þennan umrædda tíma. Glæpurinn var fólginn í því að helsti ávaxtarinn var ábyrgðaraðili sjóðsins, bæjarsjóður Kópavogs.Engu var stolið og engu var spillt.

Steingrími tókst síðan með hjálp öflugra sveita lyga og undirferlis að flæma oddvita Sjálfstæðisflokksins Gunnar Birgisson úr starfi bæjarstjóra Kópavogs og gera saklausan og duglegan framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins atvinnulausan til lengri tíma. Framkvæmdastjórinn fær ekki vinnu vegna þess að málinu lýkur ekki og er látið hanga yfir henni sem öðrum.  Málið er látið sitja fast í kerfinu og fæst ekki lokið þrátt fyrir þrýsting þolenda. Mörgum finnst glytta í rauðu úlfshárin þar að baki.  

Ríkisstjórn Íslands er núna að meirihluta til skipuð gömlum kommúnistum. Enginn þeirra sem í henni sitja hefur étið annað en ríkisbrauð um sína daga.  Hjá slíku fólki líður tíminn hægt og það gefur sér góðan tíma til að valda andstæðingum sínum í pólitík sem mestum skaða.


Útundan mér

heyrði ég á slitrur af samtali Vilhjálm Bjarnasonar aðjunkts og dr.Péturs Blöndal í útvarpi. Margt fróðlegt var þar að finna en því miður missti ég af mörgu. Þarf eiginlega að spila það fyrir mér ef það er þá hægt.

 Vilhjálmur taldi að lífeyrissjóðir yrðu að fjárfesta í fasteignum  þegar annað væri ekki í boði og þeir hefðu átt að fjárfesta meira í útlöndum þegar þeir gátu. Ég hef ekki lengi verið trúaður á fjármálahæfileika þessa liðs sem stjórnar lífeyrissjóðunum. Maður fær skerðingu ofan á skerðingu lífeyrisins síns  af því að maður var ekki opinber starfsmaður í lifanda lífi meðan  þeir fá allt sitt á þurru. Ég fæ skerðingar vegna útlánatapa sjóðsins míns sem einhverjir afglapar sáu um með vitlausum fjárfestingum. Þeir opinberu fá siitt af fjárlögum án skerðinga, fimm milljarða frá fjármálaráðuneyti Steingríms. Þessar sjóðsstjórnir voru heldur aldrei bornar undir mig og ég fékk aldrei að kjósa þær. Ég gat ekki einu sinni rekið þá þó ég vildi þó mér væri sagt að ég ætti sjóðinn.

 Svo náði ég  náði ég því að  Pétur sagði það skoðun sína að ef allar nýjar skattahækkanir yrðu dregnar til baka þá myndi  efnahagslífið hrökkva í gírinn og fara í gang.

Ég gargaði á þá félaga  framan í útvarpið( sem náttúrlega svaraði öngu) : "Af hverju tökum við ekki skatta af öllum inngreiðslum í lífeyrissjóði ? Til hvers erum við að leyfa öllum þessum þorgeirum og hröfnum að dandalast með þessa peninga ríkisins  til þess að tapa þeim á vitlausu braski?  Af hverju hirðir ríkið ekki strax það sem því ber og þá fái lífeyrisþegar sinn lífeyri án skatta þegar þar að kemur?"

Af hverju breytum við þessu ekki strax Herr doktor Pétur ? Er þá ekki allur vandi ríkissjóðs leystur og við getum lækkað alla skattana?

Þetta kom svona útundan mér.


28:38

fór atkvæðagreiðslan á flokksráðsfundi VG um aðlögunarviðræðurnar við Evrópubandalagið. Þett er grasrótin sem Steingrimur hefur á bak við sig. 66 manns. Lítill og huggulegur flokkur má segja. 57 % fylgi við það starf  aðlaga Ísland að Evrópuhugsjóninni með því að gera lög landsins samrímanleg. Sem sr. Þórir Stephensen "alene vider " í grein í Mbl. að sé sama og að kíkja í pakka eða þukla undir jólatréinu.

Steingrímur  lýsti við þetta tækifæri hneykslun sinni á kjaftæðinu í stjórnarandstöðunni um að ekkert væri verið að gera. Það væri verið að gera heilmikið og búið að gera heilmikið og það væri allt á uppleið. Fundarmenn klöppuðu Steingrími lof í lófa og hylltu foringja sinn þegar hann krafðist hollustuyfirlýsingar. Maður minnist helst tilfinningahitans í Sportpalast í Berlín þegar dr. Josef spurði fundarmenn hvort þeir fylgdu sér ekki í því að heyja algjört stríð.

Það má líklega halda því fram að maður sem hrærir í potti án þess að nokkuð sé í honum eða moki sama sandbingnum fram og til baka sé mikið að vinna. Steingrímur var nýbúinn að lýsa því yfir á pallborðinu   með Má Seðlabankastjóra, að hans hlutverk væri alltaf að vera á bremsunum. Sem getur varla þýtt annað en að halda niðri hagvexti og vera á móti allri starfsemi í þjóðfélaginu. Sem hlýtur að þýða sama og það að hagvöxtur til lengri tíma skuli vera minni á Íslandi en í nágrannalöndunum. 

Þessi stjórnarstefna aðgerðaleysis í atvinnumálum var harðlega gagnrýnd á álíka fjölmennum fundi Sjálfstæðismanna  í Kópavogi fyrir hádegi í gær, þar sem Illugi Gunnarssona hélt afbragðs erindi um aðdraganda hrunsins og lýsti þeirri þróun í hagstærðum sem menn ættu að draga lærdóm af. Framhald línuritanna sem menn máttu ímynda sér gaf ekki mikla von um að Íslendingar væru að spyrna sér frá botninum upp í ljósið. Einhver fundarmanna sagði sér finnast að járntjald  hefði lagst utan um Ísland og hér yrði ekki frjáls markaðsbúskapur í langan tíma enn.  

Það er íhugunarefni að framtíð Íslands veltur í rauninni á hallelújasamkomu 66 manna sem eiga það helst sameiginlegt að hata Sjálfstæðisflokkinn meira en þeir óttast Evrópusambandið, 28:38.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 3418162

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband