Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Hólmsheiðin

er eins og Lífeyrissjóðirnir okkar. Hægt að nota mörgum sinnum. Þaðer nefnilega ekki til sá vandi í þjóðfélaginu  að einhverjum stjórnmálasnillingi detti ekki í hug að fá peninga hjá Lífeyrsisjóðunum, sem þeir þó eiga enga kirkjusókn í. Þar er auðsuppsprettan óþrjótandi.

Helga í Góu hefur fundist þeir lífeyrissjóðamenn hafa verið duglegri við hlutabréfabrask heldur en að sinna samfélagsverkefnum. Hann vill að þeir fjármagni elliheimili fyrir landsmenn. Áreiðanlega er þörfin ærin og kannski brýnni en margt annað sem nú er fyrirhugað á Hólmsheiðinni.

Þangað á sem kunnugt er að flytja Reykjavíkurflugvöll á Hólmsheiði fái Gísli Marteinn einhverju um þð ráðið. Þar ætlar Ögmundur líka að byggja svokallað fangelsi sem mun þá standa við eina flugbrautina og fer í sjálfu sér ekkert illa á því. Árni Johnsen mun þó ekki hafa mikið álit á hugmyndum Gísla Marteins ef marka má blöðin.

En það er þetta fangelsi. Ég tók í bríari og vitleysu þátt í samkeppni um hönnun á þessu fangelsi.Ætlaði ekki að leggja neina vinnu í það sem héti.En ég hafði lítið að gera hvort eð var og stuttan tíma líka.  

Málið var hinsvegar að það var búið að teikna fangelsið að hætti ráðamanna sem hafa líklega mjög frábrugðnar hugmyndir um fangelsi hekldur en til dæmis Bandaríkjamenn. Þeir líta á fangelsi sem refsivist en ekki endurhæfingarstöð. Hér var verið að dæma einn kynferðisglæpamann og barnaníðing í lífstíðarfangelsi og svo 30 ár til viðbótar.

Því kom fram hjá Júlíusi Sólnes að vinur hans sem er sérfræðingur í  að byggja og reka fangelsi að kostnaðartölur Bandaríkjamanna per fanga eru brot af því sem þarna á að byggja. En þetta var allt búið að ákveða á æðri stöðum og Danir búnir að teikna fangelsið. En Arkitektafélagið krafðsit samkeppni og því var teikning Dananna skrumskæld , teygð og toguð og notuð sem fyrirmynd.

Forskriftin sem við keppendur fengu var að byggja minnir mig vera einhverja  3000 fermetra byggingu fyrir 55 fanga. Fangaklefinn sjálfur minnir mig samt ekki hafa verið stærri en einhverjir 10 m2 . Allskyns athafnarými fylgdu þessu svo sem kynlífsíbúðir fyrir fanga, viðtalaherbergi , sálfræðingar, læknar, líkamsræktir, verslun, bókasafn kaffihús og hvaðeina. Kapella var þó engin enda lítt vitað um ágæti trúarbragða fyrir fanga.

Ég áttaði mig of seint á því að þetta var hefðbundin samkeppni í grafískri hönnun og sá sem sýndi mesta litadýrð í Revit þrívíddarteiknun komst lengra. Ég reyndi að búa til fangelsi sem myndi virka tæknilega með öllu, lagnagöngum í kjallara fyrir  frárennsli og loftræsingu og sem hægt væri að bæta við svona 200 föngum með því að byggja ofaná það  sem fyrir væri  fyrir lítinn pening án þess að nema að benda á möguleikann með óskaðri lausn. Þessvegna  vildi  ég ekki sleppa kjallaranum til að auðvelda tæknimálin en það mátti ekki því kjallari væri svo dýr.  

En það var greinilega gefið í prógrmamminu að slíkra hugmynda væri ekki óskað og  ég var því eiginlega sjálfdauður strax.

Dómnefndin hélt svo sýningu og 1. verðlaun fengu flottir  arkitektar sem komu með það snjallræði að snúa glugganum á fangaklefanum um 45 gráður án frekari breytinga á honum. Og skiluðu virkilega fallegum teikningum. Hinir hlutar fangelsins voru  nánast eins og forskriftin. Ég fékk þá umsögn að dómnenfndin eiginlega skildi ekki hvað ég væri að fara. Þó bætti hún við neðanmáls að kannski gæti þetta fangelsi virkað hjá mér.

Sem ég er auðvitað alveg klár á núna,  að nýtingarlega hefði mátt hafa hana til hliðsjónarmeð öðrum fallegri hugmyndum,  þó auðvitað sé ég bara aumur verkfræðingur með öngvan löggiltan smekk.

En eftir á að hyggja þá held ég að þessi fangelsisteikning sem þarna á að byggja myndi henta mun betur fyrir hjúkrunarheimili og held að peningunum væri mun betur varið til þess í samstarfi við Helga í Góu. En láta Bandaríkjamanninn og Júlíus Sólnes  búa til fangelsi fyrir glæpamennina fyrir brot af upphæðinni sem þarna á að kála. Fyrir útlenska fanga að miklum meirihluta nóta bene. 

En þetta er auðvitað að stýra fortíðinni. Þarna kemur alþjóðaflugvöllur svo að fangarnir geta komið með flugi til afplánunar frá heimalöndum sínum og farið beint úr flugstöðinni í viðtöl og sálfræðiþjhónustu og svo hitt á eftir eins og meistari Þórbergur hefði haft fullan skilning á.

Hólmsheiðin, já þar munu sannarlega rísa hallir sumarlandsins.


Tala minna en gera meira!


 Ný starfsgrein er hugsanlega í uppsiglingu á Íslandi. En það eru ýmsir snúningar í sambandi við olíuiðnað á norðurslóðum.

Steingrímur Erlingsson af Seltjarnarnesi sem einu sinni var talið lítið og lágt og allt það er að kaupa dýrasta skip Íslendinga til þessa allavega síðan Vanadísin sigldi upp Ölfusá undir stjórn Stefáns Jónssonar fréttamanns þess mikla snillings.

Svona skip er svonefnt dpv skip, eða dynamic positioning vessel. En það hefur þá náttúru að geta haldið nákvæmri stöðu í sjó með mörgum  skrúfum sem útúr því standa og tölvur stýra. Enda dugar víst ekki að keyra á olíborpallinn sem er verið að þjónusta. En þangað þarf að flytja hinar aðskiljanlegustu vistir svo sem olíu !, já díselolíu, sement, borstangir, kost osfrv.

Þetta skip líkist óneitanlega helst pikkupp bíl sem verktakar keyra gjarnan nema all miklu rösklegra og kostar líklega eins og svona 10 000 stykki af dýrustu gerð slíkra bíla. Skipið hefur óhemju dælur og getur slökkt elda á löngu færi, það hefur geyma fyrir sement, olíu ofl.Um borð geta búið 25 manns,ss. vísindamenn en ég held að að hafi gat í miðjunni til að sleppa niður kafbát. Og svo getur það slegið upp þyrlupalli miðskips fyrir stærstu apparöt. Ég held að fáir menn annars þurfi til að stýra svona skipi  þar sem allt er sjálfvirkt með nýjustu tækni til allra hluta

Steingrímur þessi er lærður vélstjóri og líka flugvirki og var útgerðarmaður í Canada um langt árabil og gerði út frystitogara fleiri en einn, hætti því og ætlaði í land til að ala upp börnin sín og setja upp búgarð og vindmyllur á Skeiðunum. En þeim á Skeiðunum gast ekki að því og vildu ekki myllurnar mest fyrir mótmæli einnar konu úr Kópavoginum sem á sumarbústað undir háspennulínuflækjunni sem liggur um Vorsabæ. Hún taldi að myllurnar gætu truflað sig með slætti sínum á KYRRUM kvöldum þó að þær væru í mílufjarlægð frá henni. Þetta nægði sveitarstjórninni til að slá málið af.

Myllurnar fara því líklega upp við Þykkvabæ þar sem þær munu knýja vélarnar í verksmiðjum  Þykkvabæjar bestu og auka hagkvæmni raforkukaupa  verksmiðjunnar þar um allt að fimmtung. Vonandi kemur þar engin kona ú Kópavoginum óvænt til skjalanna og myllurnar fái að rísa þar.Allavega er sveitarstjórnin mun jákvæðari en þeir á Skeiðunum sem í hvoruga löppina gátu stigið þegar kom að atvinnumálum og fjárfestingu á landi Steingríms. En hann keypti þarna stórt land á flóðasvæði sem ekki mátti nota nema til grasnytja. Það reyndist ókleyft að fá sveitarstjórnina og skipulagið til að fallast á breytta landnotkun og því situr allt óbreytt eftir. Forfeður þeirra Skeiðamanna riðu til Reykjavíkur 1905 til að mótmæla símanum.

En allt um það, það eru margir óþreyjufullir að eitthvað meira sé gert til að leita að olíu við Ísland. Gammasvæðið útaf Skjálfanda bíður eftir frekari rannsóknum. En Bjarni Richter jarðfræðingurog fleiri hjá Orkurannsóknum hafa skrifað merkar skýrslur um rannsóknir á svæðinu sem eru allrar athygli verðar, meðal annars hefur verið staðfest útstreymi olíugass á hafsbotni.  Þetta skip hefur tæpast áhrif á rannsóknarhraðann þar sem er á snigilsskala vegna landlægs fjárskorts. En Bjarni og félagar hans eru samt hafsjóir af fróðskap um svæðið og synd að þeir skuli ekki fá tæki í hendurnar til að rannsaka þetta meira fyrir þjóðina eða þann hluta hennar sem ekki er í VG.

En meðfylgjandi hér er síða úr Tradewinds: 

Erlingsson’s Fafnir Offshore also claims the distinction as the buyer of Iceland’s most expensive ship having paid NOK 330m ($56.47m) for the vessel.

Icelandic Foreign Minister Ossur Skarpheoinsson revealed the contract yesterday, explaining the vessel has been ordered with the view to climate change opening up more resources.

Huge potential in both oil and minerals in East Greenland and elsewhere is coming to the stage of utilization while oil potential on the Jan Mayen ridge is with the present knowledge not only probable but possible, a statement from the shipyard explains.

“This brings about vast opportunities as Iceland is in a central position for offshore services and offers an excellent location for an air and maritime rescue services centre,” the minister says.

Following the Havyard 832L L WE design, the ship already has financial backing from Íslandsbanki and GIEK.

Erlingsson said: “After exiting the Canadian fisheries in 2011, I had the opportunity to explore the offshore business in Norway.

“I am determined in building an offshore business in Iceland. This is the first 

Og Steingrímur er ekki billegur með sig, boðar fleiri skip. Og því ekki, ungur maðurinn. Er ekki óhætt að óska þjóðinni til hamingju með þetta nýja skip. Gangi því allt í haginn.

Veitir þjóðinni af því að tala minna en gera meira? 


20 Laugardalshallir af sandi?

"Frá því að rekstur Landeyjahafnar hófst árið 2010 er búið að dæla um 650 þúsund rúmmetrum af sandi úr höfninni. Við gerð hafnarinnar voru fjarlægðir um 400 þúsund rúmmetrar af sandi. Samtals eru þetta yfir milljón rúmmetrar en það jafngildir sandi sem nægir til að fylla 20 Laugardalshallir."

Svo segir í Mogga.

Hvað myndi gerast ef Markarfljót  væri látið renna af og til í gegnum höfnina? Er það kannski billegra en dæluskip sem virðast hafa þarna eilífðarverkefni sem er náttúrlega mælt sem hagvöxtur?

Ætli Markarfljót geti ekki borið með sér einhverjar Laugardalshallir af sandi? 


Katrín fyrir Landsdóm?

eins og Geir H. Haarde.

Var ekki Geir akkúrat sakfelldur fyrir að hafa ekki kynnt málin nægilega í ríkisstjórn?

Er ekki Katrín uppvís að því að ræða ekki flugvallarsöluna í ríkisstjórn áður en hún svívirti Reykjavíkurflugvöll með því að velja flugstöðina gömlu sem stað fyrir kratasamsærið gegn þjóðinni með því að selja Reykjavíkurborg í birtingarmynd erkikratans Dags B. land flugvallar þjóðarinnar. Var það ekki Hitler sem lét sækja gamla járnbrautarvagninn frá 1918 til að niðurlægja Frakka sem mest eftir uppgjöf þeirra 1940? 

Bæði Jón Bjarnason, Leifur Magnússon og Elín Hirst hafa gert þessu máli góð skil í Morgunblaðinu. Hafi þau bestu þökk fyrir.

En eiga ráðherrar ekki að vera jafnir fyrir lögunum?

Sannarlega ræddi Katrín ekki við Ögmund  innanríkis fyrir gerðina, því hann sagðist koma af fjöllum.

Hvað með Landsdóm núna fyrir Katrínu Júlíusdóttur? 


"Hræðslubandalagið"

var merkilegt útspil og merkilegt fyrirbæri í íslenskri pólitík árið 1956 .Rifja má upp helstu atriðin í þessari sögu með því að taka fróðleik ófrjálsri hendi af netinu:

"Andstæðingar kosningabandalagsins sem Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur gerðu með sér fyrir alþingiskosningarnar 24. júní 1956 kölluðu það gjarnan Hræðslubandalagið. Forsvarsmenn bandalagsins kölluðu það ýmist Umbótabandalagið eða Bandalag umbótaflokkanna. Með sameiginlegu framboði í öllum kjördæmum freistuðu flokkarnir þess að ná meirihluta á Alþingi. Hugmyndin var að nýta kjördæmaskipunina til að ná meirihluta þingmanna án þess að hafa meirihluta kjósenda á bak við sig. Það mistókst naumlega því að Hræðslubandalagið hlaut 33,9% atkvæða og 25 þingmenn af 52, en í kosningunum 1953 höfðu sömu flokkar fengið samanlagt 37,5% atkvæða og 22 þingmenn."

" Forsaga málsins var að árið 1956 sleit Framsóknarflokkurinn stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og hóf samvinnu við Alþýðuflokkinn. Til að ná meirihluta og mynda stjórn undir forystu Hermanns Jónassonar urðu þeir að leita stuðnings hjá Alþýðubandalaginu sem þá var undir forystu Hannibals Valdimarssonar. Alþýðubandalagið var stofnað rétt fyrir kosningarnar 1956, úr bandalagi Sósíalistaflokksins og félaga í Málfundafélagi jafnaðarmanna.

Meðal helstu stefnumála þessarar nýju vinstri ríkisstjórnar var að senda bandaríska herinn úr landi, en ekkert varð úr því. Samvinna flokkanna tveggja í kosningabaráttunni var fólgin í því að flokkarnir buðu ekki fram hvor gegn öðrum. Í kjördæmum þar sem Alþýðuflokkurinn var sterkur voru stuðningsmenn Framsóknarflokks hvattir til að kjósa Alþýðuflokk og öfugt.

Þetta þýddi í raun að Alþýðuflokkurinn bauð ekki fram í dreifbýli en Framsóknarflokkurinn ekki í Reykjavík og kaupstaðakjördæmum að Seyðisfirði undanskildum. Önnur samvinna flokkanna kom til að mynda fram í því að fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, Rannveig Þorsteinsdóttir, settist í þriðja sæti á lista Alþýðuflokksins í Reykjavík en skemmst er frá því að segja að hún náði ekki kjöri.

Nafngift andstæðinganna á bandalaginu festist, enda drógu framsóknar- og alþýðuflokksmenn ekki dul á að hræðsla rak þá saman. Hermann Jónasson vildi gera allt til að bola Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Það sem rak Framsóknarflokk út í kosningabandalag var andúðin á Sjálfstæðisflokknum, en auk þess höfðu framsóknarmenn ekki gleymt því að litlu munaði að Sjálfstæðisflokkurinn næði hreinum meirihluta á Alþingi í kosningunum árið 1953. Alþýðuflokksmenn sáu sér leik á borði með bandalaginu að geta útilokað Sósíalistaflokkinn eða Alþýðubandalagið frá stjórnarþátttöku. Alþýðuflokksmenn vildu koma á fót vinstri stjórn með Framsóknarflokknum en án sósíalista og það voru því ýmsum sár vonbrigði að þurfa að leita til Alþýðubandalagsins um stjórnarmyndun eftir kosningarnar..."

Husganlega gæti slík bandalagsmyndun til dæmis Samfó l og ll  og VG gert einhvern usla.Meiri ef þeir tækju Framsókn með sér.

Hugsanlega gætu Framsókn og Sjálfstæðisflokkur komið sér í sterkari stöðu með bandalagi til dæmis með að setja Framsóknarmann á lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík og Sjáflstæðismann á Framsóknarlista þar sem D er hlutfallslega veikara fyrrir og skorað yrði á flokksmenn að vinna saman að kosningu. En líklega er þetta heldur ólíklegra dæmi en fyrri leiðin.

En er ekki pólitíkin ólíkindatík of oft til alls vís? 

Ég hef nú ekki spekúlerað lengra í þessu en þetta. En hugsanlega eru aðrir mér fróðari um hvaða lærdóm gamla "Hræðslubandalagið" skildi eftir sig. Allavega lifði sú stjórn sem á eftir kom ekki lengi. Var þetta kannski kosningabandalagið sem batt enda á öll kosningabandalög eins og fyrri Heimstyrjöldin átti að binda enda á öll stríð?   

 


STRAX !

á þetta ömurlega Alþingi að hypja sig heim.

Það er skelfilegt að horfa á Alþingi úr fjarlægð. Venjulegur borgari skilur ekki upp né niður til hvers menn eru að geysa sig í ræðustólnum þarna niðurfrá. Það er hamast við að afgreiða einhver mál inni í framtíðina sem er þar með verið að vísa til afgreiðslu alls annars fólks. Allt vegna var sagt að væri vegna einhvers stjórnarskrármáls sem engin bráðaþörf né nauðsynlegur einhugur er um að klára. 

Það er skiljanleg herkænska af stjórnarliðum að reyna að stytta kosningabaráttuna sem allra mest með því að halda fókusnum á sér sem lengst sem ráðamönnum en þurfa ekki að fara að standa í vörn sem óbreytt fólk en ekki ráðherrar.

Össur þeysist um heiminn til að nota síðustu dagana í sínu stjórnmálalífi þar sem hann getur látið eins og einhver taki mark á honum og hlusti á það sem hann segir. Það eru ekki margir dagar eftir fyrir hann, aðeins 30 dagar í dag, 20.mars,  frá afmælisdegi Jóns Ólafssonar skálds, þingmanns og ritstjóra til 20.apríl sem er afmælisdagur  listmálara og þingmanns sem var nokkuð þekktur á sinni tíð. Báðir þessir töluðu og skrifuðu ekki minna en Össur.Þó verður Össur líklega fyrr gleymskunni að bráð en þessir tveir.

Nú er stjórnarskrármálið víst loksins dautt. Er þá eftir einhverju að bíða?Ætti ekki þingið að snauta heim ? Nei, eru  þá ekki ráðherrarnir að hrúga inn málum og halda bullinu áfram við að reyna að framlengja áhrif sín langt inn í framtíðina?

Er ekki búið  að bulla nóg í fjögur ár ? Er ekki sagt að sá lati hreyfist aldrei í vinnunni fyrr en kemur kvöld og hættutími?

Er ekki kominn hættutími? 

STRAX! 


Þjóðaratkvæði um

hvort eigi að halda aðildarviðræðunum að ESB áfram eða ekki er gagnlegt fyrir þjóðina sjálfa. Þorgerður Katrín hefur lagt fram tillögu í þessa veru og finnst mér afbragð að tímasetja slíka afgreiðslu með skýrum hætti.

Ekki ætti Sjálfstæðisflokknum að  líka þetta illa  þar sem greinilega það fer illa í of marga hversu einbeitt tillaga Landsfundar um slit viðræðanna án niðurstöðu var.  Í þessu máli er gott að skýra línurnar strax og það eer áreiðanlega það sem Þorgerður skynjar.

Þingkosningarnar í apríl eru einn möguleikinn til að greiða atkvæði. En líklega er heppilegra að blanda þessu máli ekki saman við þau önnur þýðingarmeiri sem við þurfum að taka afstöðu til. Það væri þessvegna allt í lagi að hafa þessar kosningar síðar árinu en hafa það alveg skýrt hvenær þær verði.

Hreinsum loftið um strax og ákveðum tímann fyrir þjóðaratkvæði um áframhald aðildarviðræðna Íslands að ESB.  


Af hverju að byrja á lóðagjöldum?

 Þegar rætt er um húsnæðisvanda ungs fólks?

Ef fólk vill koma sér upp þaki yfir höfuðið á höfuðborgarsvæðinu þá byrjar maður á að borga 6-15milljónir fyrir lóð. Húsnæðislánið er 20 millur.

Hér í Orlando eru mörg hverfi þar sem ódýr hús standa og jafnvel trailerar, svo koma önnur hverfi þar sem húsin kosta milljónir dollara. Allir geta fengið íbúð sem hentar fjárhagnum. Íbúðir á öllum verðum. Margt annað til lífsins kostar 1/pí  miðað við Ísland eins og bensín, áfengi,heimilstæki, margar matartegundir. Kaupið er lágt og atvinnu vantar víða. Af hverju þurfum við að pína okkur svona?

Það er illa hægt á Íslandi að  fá að byggja svona ódýrt og áreiðanlega batnar það ekki með nýrri byggingareglugerð. Það er ein og enginn hafi áhuga fyrir neinu svona. Menn geta fengið pláss fyrir hjólhýsi á Flúðum og Laugarvatni en ekki í Kópavog.

Hvernig væri að t.d. Hafnarfjörður sem á nóg hraun myndi skaffa pláss undir öðruvísi hús sem menn mættu byggja á ef þeir borguðu tengigjöldin . Mættu til dæmis byggja úr gámum sem hægt er að kaupa nýja og notaða. Koma upp einbýlishúsum fyrir 10 millur?. Malbik á götuna gæti ekki kostað þau ósköp og götulýsing.  

Slömm segir einhver, braggarnir komnir aftur. En hvað er betra, eitthvað eða ekkert? 

Af hverju byrjar allt á að kaupa lóð? 

 

 


Sóðaskapur

Íslendinga miðað við Bandaríkjamenn er nokkuð sem ég tók fyrst eftir í gær.

Ég fór á bíó í stóru verslunarhverfi á Alafaya Trail hér í Orlando. Ég fór af því að mig langaði að sjá I-Max bíó. Ekki  að mig langaði í bíó að sjá eitthvað sérstakt. Við komum klukkutíma of seint og vildum samt kaupa miða sem kostaði 15 dali á manninn. Stúlkan sem seldi miðana vakti athygli mína á þessu en ég sagði sem er að ég myndi sætta mig við það ég hefði meiri áhuga á tækninni en  myndinni, hafði raunar ekki hugmynd um hvað var verið að sýna. Þá sagði hún skyndilega, ég get ekki látið þig borga miða þar sem svona mikð er liðið af myndinni. Fáðu bara minn miða. Og inn fórum við frítt. Þarna var verið að sýna galdrakallinn í Oz í nýrri útgáfu.  Þetta var feikilega falleg og vel gerð mynd og örvarnar og eldkúlurnar komu fljúgandi beint í andlit okkar svo að maður beygði sig ósjálfrátt. Stórkostleg mynd.

Svo fórum við út og ég veifaði stúlkunni og sendi henni fingurkoss. Og svo  fór ég að horfa á gangstéttirnar þarna í kring. Það veru engir tyggjóblettir neinsstaðar. Í föðurlandi tyggjósins.Allstaðar hreint og sópað. Ég man að ég var með steinaframleiðanda í Bretlandi sem var að lýsa þessum vandamálum allstaðar og hvaða leiðir væru tl að ná þessum óþrifum í burtu. Kostnaðurinn var svo gríðarlegur að menn létu þetta bara óhreyft.

Ég minnist plansins í Salalauginni þar sem ég syndi á morgnana. Útbíað í tygjóklessum. Auk allskyns rusls sem fólk fleygir frá sér. Ég helt áfram að horfa á göturnar þegar ég keyrði heim. Þá sá ég að þær eru hreinar þó víða væri draslaralegt inná lóðum meðfram götunni.

Mér er sagt að það liggi við myndarleg sekt við því hérna í Orlando að svína út eða fleygja rusli. Er það þetta sem þarf hjá okkur? Maður sér unglinga mölva flöskur vísvitandi á gangstéttum heima og komast upp með  það. Sérstakar sveitir manna þrífa miðbæinn í Reykjavík eftir næturfylleríin. Svínin borga ekki neitt. Hinir gera það fyrir þá með sköttunum. Er ekki augljóst hvernig hægt er að breyta þessu?

Væri okkur ekki hollt að líta í eigin barm áður en við förum að segja Bandaríkjamönnum til syndanna?Vantar ekki að gera átak í að siðvæða þjóðina okkar?

Taka á þessum sóðaskap allstaðar okkar sjálfra vegna.

  


Kýpur lexían

er heillandi. Hún eiginlega opnar augu mín fyrir því að kannski sé hægt að taka upp erlendan gjaldmiðil á Íslandi. Eða líka að þess þurfi alls ekki. Krónan getur verið besti gjaldmiðill í heimi ef hún fær að stjórna en við látum hana í friði.

Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að þetta væri ekki hægt á Íslandi. Þar væru nefnilega ekki löglega kjörin stjórnvöld sem réðu heldur Alþingi götunnar að miklu leyti.

Þjóðfélagið okkar  úir og grúir í stéttarfélögum sem hvert um sig hefur stöðvunarvald og heimild til að taka annað fólk í gíslingu í fjárkúgunarskyni.

Kennarar hætta að kenna og börnin fá ekki kennslu nema gengið verði að kröfum kennara. Ljósmæður hætta að ljósast og allir sjá að það er ekki forsvaranlegt að ganga ekki að leiðréttingarkröfum fyrir þessa afturúrstétt eða aðrar stéttir eins og rafiðnaðarmenn sem annars slökkva fyrir okkur ljósin í skammdeginu.

Kýpurstjórn hefur sýnt okkur að stjórnvöld eiga að stjórna. Hún fer einfaldlega í bankabækur fólksins og tekur til sín útgjaldaaukann. Hún þarf ekki einu sinni að lækka kaupið. Hún hetur látið taxtahækkanir fara fram en þær verða allir að borga strax. Aldraðir, öryrkjar,þeir sem kúga í það og það sinnið og allar aðrar stéttir líka sem ekki eru að krefjast hækkana. 

Þessvegna er allt þetta fár í Evrulöndunum. Það er bara þar sem fólk hefur sjálfsaga sem vel gengur.Horfum á Þýskaland og berum það saman við Grikkland. Eða öllu heldur hinn dæmigerða Þýskara og Grikkja eða Íslending.

Með kýpverku aðferðinni fæst stöðugur gjaldmiðill sem allir þrá. Og lágir vextir að sjálfsögðu í kjölfarið.Og engin verðtryggð lán og allur sá jazz. Og ætli menn að stinga af með kaupið sitt og grafa það í garðinum þá er skatturinn bara tekinn af með lífeyrissjóðsgjaldinu. Allir taka þátt í stjórn efnahagsmála á sanngjarnan hátt.

Þetta er eiginlega stórkostlegt. Stjórnvöld geta nú stjórnað efnahagsmálum í fyrsta sinn. Þeir geta horfst í augu við hvern sem er og sagt.: Jæja vinur, þorirðu í mig og þann sem við hlið þér stendur ? Eigum við ekki heldur að hafa þjóðarsátt? Krónan verður kóngurinn.

Þetta er kýpverska lexían ! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 3417956

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband