Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Hvernig getur Þorsteinn Pálsson?

kallað það svik af hálfu Sjálfstæðisflokksins að Alþingi dragi aðildarumsóknina til ESB til baka? Alþingi sótti um aðild. Alþingi er sá aðili sem getur dregið umsóknina til baka. 

Landsfundur ályktaði að aðildarviðræður yrðu ekki hafnar aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri vilji Sjálfstæðisflokksins. Að tala um svik í þessu sambandi er mjög óviðeigandi og stenst enga skoðun.

Fundur JÁ-hópsins í tilefni af þessari tillögu er góðra gjalda verður. Þar fengum við að sjá mest allan " Evrópusambands-arminn " í einu og foringjann Benedikt Jóhannesson. Fjöldi fundarmanna var mjög í samræmi við atkvæðagreiðsluna á Landsfundi en dugnaður hópsins við áróður er í engu hlutfalli við fjölda félagsmanna. En ég gat ekki talið mikið fleiri en 20 hendur á lofti af fundi JÁ-hópsins.

Ég fæ ekki séð að Þorsteinn Pálsson geti kallað það svik Sjálfstæðisflokksins í afstöðunni til aðildarviðræðna að hann standi við samþykktir landsfundar. Það eru miklu frekar svik flokksmanns að fylgja ekki stefnu flokksins. Geti Þorsteinn Pálsson og þeir Benedikt Jóhannesson ekki sætt sig við stefnu flokksins geta þeir þá verið flokksmenn áfram?


Meiri fáránleiki

birtist manni dag eftir dag við að hlusta á umræðurnar á Alþingi um skýrsluna.

Morgunblaðið lýsir þessu vel í leiðara sínum í dag:

 Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið er skýr um það að engar varanlegar undanþágur eða varanlegar »sérlausnir«, eða hvað annað sem menn vilja kalla undanþágurnar, eru í boði fyrir umsóknarríki. Þetta á sérstaklega við um sjávarútveg og landbúnað vegna þess að »[s]ameiginleg evrópsk stefna hefur náð sérstaklega langt á þessum sviðum,« eins og segir í skýrslunni.

Þar er kafli sem heitir Möguleikar nýrra aðildarríkja á undanþágum varðandi landbúnað og sjávarútveg þar sem þetta kemur ótvírætt fram. Þar segir: »Skoðun á aðildarlögum einstakra ríkja staðfestir að hingað til hefur ekki verið um varanlegar undanþágur að ræða hvorki á sviði sjávarútvegsmála né landbúnaðarmála.«

Svo er fjallað um tilraunir Norðmanna til að fá slíkar undanþágur vegna sjávarútvegs í norðanverðum Noregi: »Norðmenn kröfðust þess að fá undanþágur fyrir tiltekin hafsvæði í samningum sínum við bandalagið 1994. Kröfur Norðmanna fólu í sér að þeir skyldu áfram stjórna öllum hafsvæðum norðan 62. gráðu norðlægrar breiddar og að auki að allar fiskveiðiauðlindir í norskri lögsögu væru áfram tryggðar Norðmönnum. Norðmenn byggðu þessa kröfu m.a. á því að sjávarafurðir væru mikilvæg útflutningsvara og að sjávarútvegur hefði afgerandi þýðingu fyrir búsetu og atvinnustarfsemi á strandsvæðum Noregs. Þau sjónarmið voru viðurkennd af hálfu sambandsins. Niðurstaða aðildarviðræðnanna varð sú að Norðmenn fengu í engum greinum varanlegar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins.«

Þetta gæti ekki verið skýrara. ESB viðurkenndi að sjávarútvegur hefði »afgerandi þýðingu« fyrir Norður-Noreg, en Norðmenn fengu samt engar varanlegar undanþágur. Og þetta var fyrir tuttugu árum, en síðan þá hefur afstaða ESB orðið enn eindregnari að þessu leyti. Þegar málið er jafn augljóst, hvernig stendur þá á því að aðildarsinnar halda áfram með sínar röngu fullyrðingar? Í samtali við Morgunblaðið í fyrradag segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, til að mynda: »Umsóknarríki geta náð fram lausn á brýnum hagsmunamálum í gegnum sérlausnir.« Dæmið sem hann nefnir máli sínu til stuðnings er það norska um 62. breiddargráðuna og hann dregur af því þá ályktun að »Íslendingar myndu einnig ná séríslensku fiskveiðistjórnunarsvæði umhverfis Ísland fram sem sérlausn.«

Getur verið að fyrrverandi utanríkisráðherra þekki reglurnar ekki betur en þetta og sé svo illa læs á skýran texta að honum hafi óafvitandi orðið á þau mistök að fara rangt með? Eða er þetta liður í þeim ósannindaspuna sem varð til þess að þingið samþykkti að sækja um aðild og hefur síðan verið notaður til að halda aðlögunarferlinu gangandi?

Nú getur hver svarað þessum spurningum fyrir sig, en við þetta má bæta, til að reyna að fyrirbyggja frekari útúrsnúninga og rangfærslur, að í skýrslunni er einnig talað um breytingar á reglum ESB í þágu einstakra aðildarríkja og tekið dæmi af landbúnaði norðan 62. breiddargráðu. Sú heimild sem veitt var um stuðning við landbúnað svo norðarlega »er bundin reglugerðarákvæðum sem framkvæmdastjórnin setur,« segir í skýrslunni. Í reglunum eru skilyrði um heildarstuðning og tegund stuðnings og í skýrslunni er einnig bent á að stuðningurinn »getur eftir atvikum alveg fallið í burtu með breyttri stefnu og löggjöf sambandsins í landbúnaðarmálum.« Hann er sem sagt fjarri því að vera varanlegur og aðeins háður vilja ESB.

Reynslan fyrir og eftir að skýrsla Hagfræðistofnunar var birt segir að ósannindin um undanþágurnar muni halda áfram. Smám saman munu þó fleiri átta sig á hvernig í málinu liggur og hvílíkum málflutningi hefur verið haldið uppi hér á landi af hálfu heitra aðildarsinna. Fyrrnefndur fyrrverandi utanríkisráðherra hefur ef til vill ekki áhyggjur af trúverðugleika sínum í framtíðinni, en einhverjir baráttufélagar hans hljóta að hafa það og ættu því að reyna að færa málflutning sinn nær sannleikanum. "

Hvernig geta sumir háttvirtir Alþingismenn haldið áfram að túlka niðurstöður fræðilegrar skýrslu um staðreyndir á annan hátt en í henni segir berum orðum? Engar undanþágur í fiskveiðum í tuttugu ár.

Og það sem meira er að ætlast til þess að við trúum þeim þeim mun meira sem fáránleikinn birtist skýrar? 


Lágmarksrefsing

þarf að vera 6 mánuðir. Betur væri að hún væri 12 mánuðir.

Verkfallsboðendur sem hafa gefist upp á skilningsleysi stjórnvalda á kaupkröfum sínum og neyðast til að svipta þjóðfélagið þjónustu sinni í refsingarskyni eiga ekki að láta bjóða sér skemmri tíma en 6 mánuði í verkfalli  til þess að kenna þjóðfélaginu þá lexíu sem það verður að læra og kunna.

Nú ætla framhaldskólakennarar í verkfall vegna þess hve svirðilega þjóðfélagið leyfir sér að vanmeta framlag þeirra. Þjóðfélaginu veitir ekki af að læra að umgangast framhaldsskólakennara að verðleikum. það er alveg óviðunandi að þjóðfélaginu sé gefinn kostur á að ganga að kröfum kennara eftir eitthvað sýndarverkfall. Það sýnir sú staðreynd að verkföll kennara hafa verið nauðsynleg með fárra ára fresti. Því þeir eru alltaf látnir sætta sig við sýndargerninga í stað varanlegra kjarabóta. Þetta gengur ekki lengur. 

það á ekki að umgangast verkalýðsfélög með léttúð og hroka. Ef lýst er yfir verkfalli er það ómark ef það stendur stutt. 6-12 mánuðir eru nauðsynlegir svo að við hin lærum hæfilega respekt fyrir þessari nauðvörn hinna ýmsustu félaga sem sjá sig nauðbeygð til að tugta þjóðfélagið til með þessum hætti. 

Það er af og frá að leyfa embættismönnum  að skrifa undir nýja samninga eftir svona óvirðulegar vinnustöðvanir. Þjóðfélagið verður að læra sína lexíu sem til dæmis myndi lærast með því að opinberir framhaldskólar verði einfaldlega ekki fyrir hendi eða opnir fyrir heilan árgang nemenda. Aðeins þannig er hægt að skapa framhaldsskólakennurum  þá virðingu sem þeim ber. þannig læra allir það sem á vantar um þjóðfélög og gildi menntunar.

Tökum nú slaginn einu sinni eins og Svíar gerðu 1905.  Það er lágmarksrefsing fyrir eitt þjóðfélag að það verði án þjónustu þeirra hópa í heilt ár eða meira, sem vinna annars vaki brotnu að velferð þess án þess að fá laun í hlutfalli. 

Hættum sýndarmennskunni. Höfum aðeins alvöru verkföll eftirleiðis. Lágmark þarf að vera 6 -12 mánuðir án vinnuframlags þeirra sem svo verst hafa kjörin.


Fáránleiki

finnst mér birtast í beinni útsendingu frá Alþingi í dag sem berst mér til Flórídu.

Þar koma menn í pontu og skilja ekkert í því hversvegna ríkisstjórnarflokkarnir, sem voru kosnir með miklum meirihluta í apríl á síðasta ári út á það meðal annars, að vilja hætta aðildarviðræðunum við Evrópubandalagið, sem síðasta Alþingi þar áður setti þjóðina í, alveg án þess að spyrja hana í einhverju þjóaratkvæði, vilji slíta viðræðum? Þetta sé bara þjóðarvoði að halda ekki áfram að sjá hvað í boði er?  Finnst engum þetta fáránlegt?

Að hlusta á réttkjörinn minnihlutann fimbulfamba um nauðsyn þess að kíkja í einhverja pakka hjá bandalaginu er í besta falli fáránlegt. Þegar það liggu kýrskýrt fyrir að þjóðin vill ekki sjá að koma nálægt þessu bandalagi, hvað svo sem í boði er?

Það er það sem fyrir liggur. Þjóðin vill ekki ganga í ESB. Hún vill vera sjálfstæð. Hún kaus ríkisstjórn sem vill ekki ganga í ESB.  Því ber að hætta þessu endemis tali um áframhald aðlögunarviðræðna.  Þetta kjörtímabil verður ekki reynt að ganga í Evrópusambandið . Sama hvað í boði er. Við viljum ekki sjá Evrópusambandið og hananú!

Líklega viljum við líka bæði ganga úr EES og Schengen ef út í það er farið. Þorir einhver að láta á það reyna? Til er ég að fara í þann slag.

Íslendingar eru engin sérstök Evrópuþjóð.  Við erum ekki landlukt ríki. Við erum úthafsríki og stórveldi á hafinu  sem býr yfir margföldum möguleikum umfram þessar gömlu hrjáðu þjóðir litlu Evrópu. Allt það tal um einhvern skyldleika er bara út í bláinn. Við erum heimsborgarar Íslendingar en ekki heimalningar.

Við erum í fyrsta lagi sjálfstæð þjóð sem er engum háð og viljum eiga vinsamlega samskipti við þær þjóðir sem eru sama sinnis. Að við berum einhverjar sérstakar tilfinningar til Búlgara, Rúmena og Sígauna umfram Bandaríkja-og Canadamenn, þar sem býr jafnstór íslensk þjóð og á Íslandinu gamla, er mér óskiljanleg krataumræða sem ég gef ekkert fyrir.

Alþingi á að taka af skarið og tilkynna ESB kurteisilega að á þessu kj0rtímabili sé því miður ekki hægt að halda aðildarviðræðum áfram þar sem pólitískur vilji til aðildar sé ekki finnanlegur í landinu um þessar mundir. Sklíkt verði því að bíða betri tíma og sinnaskipta þjóðar. Samfylkingin getur þá farið að tala um einhver raunhæf málefni í stað þessarar þráhyggju um ESB.

Hættum þessu óarðbæra bulli. Það er bara fáránlegt og til einskis gagns.  


Fíkn

er einhver þrá mannsins í eitthvað betra ástand en veruleikinn býr yfir. Ég man vel þegar okkur Valda þótti okkur ekki of gott að reykja Philip Morris sígarettur í girðingavinnu í mígandi rigningu út í Straumsvíkurhrauni löngu fyrir Ál. Úr þessu fékk maður tóbaksfíkn sem entist langt fram á ævina, Svo var brennivínsfíkn og stelpufíkn, aurafíkn, valdafíkn og svo matarfíkn. Og svo íþróttafíkn og ég veit ekki hvað. 

Það var ekki búið að finna upp hassi eða neitt svoleiðis þegar maður var ungur. Það var bara seldur spíri í maltflöskum á Hreyfli þegar maður var of ungur til að fá afgreiðslu í Ríkinu. Það ískraði í korktappanum þegar honum var snúið og táknaði að varan var ósvikin.. Drukkið í Spör á ellefu. Þá var nú gaman mar. 

Sumir urðu svo fíklar út úr leiðindum líklega, þótti meira gaman að vera fullir en ófullir og svo framvegis. Flestum þótti gaman að vera edrú og njóta lífsins á annan hátt þegar fram í sótti,Drykkjan varð einkamál hvers og eins,

Nú er þetta orðið ábyrgð þjóðarinnar allt saman. Maður er glæpamaður ef maður keyrir fullur. Veerður að fara í meðferð. Bara af því að lítill minnihluti  þjóðarinnar er brjálaður bæði fullur og ófullur og getur ekki keyrt fullur. Sem er ekkert vandamál fyrir venjulegt siðað fólk sem keyrir bara enn varlegar ef það hefur fengið sér smá.Það má ekki selja Parkódín í apótekum af því að einhverjir fíklar nota það í óhófi eða brennsluspritt.

Þannig stjórna fíklar daglegu lífi yfirgnæfandi meirihluta venjulegs fólks á Íslandi sem verður að láta persónuréttindi sín af hendi vegna vitleysinganna. Hér í Ameríku er það þitt einkamál hvenær þú keyrir og enginn skiptir sér af þér meðan þú gerir ekkert af þér. En gerirðu það þá veistu hvað bíður þín. Þessvegna ferðu í bílinn á eigin ábyrgð, Það eru engar löggur í leyni sem vilja bara þefa af þér. Þeir vilja bara að þú keyrir af ábyrgð og valdir ekki slysum. Bíllinn er þitt heimili og þú ert friðhelgur í honum svo lengi sem þú ert ekki að skaða aðra né ferð ekki að réttum lögum. Þessvegna keyra menn yfirleitt varlega og vel og passa uppá drykkina áður en þeir setjast í bílinn. En nostalgían á Íslandi er svo óralangt frá allri þessari hugsun. Kvikinska og skynheilagaleiki er löggæsluhugmynd landans.Auðvitað á enginn að keyra fullur sjálfs sín vegna ekki síst og auðvitað meðborgaranna.

En það er fíknin sem er vandamálið. Að geta ekki látið vera að súpa á glasi ef þú sérð það. Að geta ekki stjórnað sér. Það er allt í einu orðið vandamál mitt og þitt að þesi eða hinn sé með þeim hætti. Þessvegna verðum við að sníða okkar líf eftir þeim. Við skiptum ekkki lengur máli heldur fíklarnir. Þeirra er ríkið og mátturinn.Minnihlutarnir eru orðnir að aðalatriðum.

Fíknin ræður förinni. 

 

 


Að hengja bakara

fyrir smið er vinsælt úrræði þegar öðrum sleppir.

Þetta kemur manni í hug þegar Sérstakur birtir Lárusi Welding hverja ákæruna af annari sem flestar lúta að því að gleyma að láta stjórn Glitnis vita um stórlánveitingar til félaga sem óneitanlega tengjast einhverjum  stjórnarmönnum sama Glitnis.

Það var verið að auglýsa hús Al Capones til sölu hérna í Flórídu. 400 m2 á einn milljarð. Mig minnir að á dögum Als sáluga  hafi verið til hugtak sem nefndist "Fall-Guys". Það voru svona prammakallar sem voru leigðir til að tapa í boxkeppnum sem veðjað var um, taka á sig skelli fyrir séffana gegn greiðslu og svo fram eftir götunum. Séffarnir sluppu þannig við truflanir.

Ég á bágt með að Lalli Welding sé svona mikið staðfastur fjármálatöffi eins og Séerstakur virðist halda. En hann kann kannski að þegja betur en margir aðrir. Ég trúi því svona mátulega að hann sé bakarinn allra brauða. 

 


DV kemur út

reglulega. Marga þyrstir í að lesa um ávirðingar annarra. Margur góðborgarinn  verður skiljanlega uppnæmir að lesa um sig feitletur í því blaði. Sama þó hallað sé réttu máli og logið víða til eins og sagt var eitt sinn. Þeir sem meira sjóaðir eru kæra sig kollótta um greinar um sig í DV. Sjálfur les é ekki það blað fremur en Fréttablaðið þar sem ég marka aðeins það sem stendur í Mogga.

Útundan mér hef ég þó séð DV. Því til hróss skal ég segja að Layout-ið á því er til fyrirmyndar. Blaðið er fjölbreytt og skemmtilega uppsett og því læsilegt. Margt þykir þó orka tvímælis sem þar gefur að lesa og mörg málaferli á blaðið að baki.

Prófkjörsbaráttan í Kópavogi hefur náð verulega inn í skrif blaðsins að undanförnu um meintar ávirðingar formanns Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna þar í bæ. Bragi Michelsson  er borinn mörgum sökum vegna starfa sinna fyrir Skógræktarfélag Kóapvogs sem hann hefur farið fyrir um langt árabil. En félagið hefur m.a.staðið í mikilli skógrækt við Fossá í Kjós og selur þaðan nú jólatré í stórum stíl sem Bragi hefur starfað við að höggva og selja.  Ennfremur hefur það gróðursett víða og sjást tréin frá þeim meðfram götum Kópavogs.

Félagið hefur staðið í húsbyggingu í Guðmundarlundi sem fer fyrir brjóstið á DV vegna kostnaðar. Látið er að því liggja að Bragi hafi ráðist í byggingu allt of stórs húss vegna enhvers mikilmennskubrjálæðis. Ég hef hinsvegar fyrir satt að í húsbygginguna hafi verið ráðist að frumkvæði Kópavogbæjar og þáverandi bæjarstjóra sem vildi nýta sér svona hús í sambandi við skólastarf í Kópavogi. Skógræktarfélagið  per se vantaði í hæsta lagi skóflu-pg hakageymslu. En þetta varð að ráði. Það er því langsótt að kenna Braga einum alfarið um að húsið sé ekki nýtt ennþá vegna fjárskorts til að ljúka því.

Bragi er hættur í pólitík nema að vera í þessu formennskuhlutverki. Það er hinsvegar heldur ófriðsamt um ýmsar embættisfærslur hans í sambandi við prófkjörsframkvæmdir sem ekki öllum líkar. En þar er um hreina smámuni að ræða  sem engu máli skipta fyrir DV eða lesendur þess þó að heimildarmenn skorti sjálfsagt ekki til að þylja þær upp.

Bragi lætur þetta sem vind um eyru þjóta því hann telur sig engu hafa að leyna í sambandi við afskipti sín af Skógræktarfélagi Kópavogs. Mér finnst það félag hafa verið til gagns fyrir Kópavog og vil styðja það og efla.. Ég treysti því alveg að Bragi hafi raunverulegan skógræktaráhuga eins og ég, fyrir utan það að vera blátt íhald eins og ég líka. Það er stundum reynt að hengja bakara fyrir smið en gefst misjafnlega eins og gengur.

Það er alveg sama hvað DV skrifar um hann Braga. Hann breytist ekkert við það nema ef vera kynni til hins betra. 

 


Florida here I come!

í dag. Þar sem bensíngallónið kostar minna en einn lítri hérna og á EES. Þar sem skattar eru miklu lægri en hérna og allt verðlag líka. Þar sem viskíflaskan kostar innan við þúsundkall og fatnaður er nánast gefins.

Ég skal skrifa tíðindi ef ég finn eitthvað fréttnæmt á næstunni hér á bloggið ef einhver nennir að lesa.

Florida here I come!


Samhengi hlutanna

í Borgarstjórn Reykjavíkur birtist manni í fréttum um að Aðalskipulagið hafi nú verið staðfest þar sem taka á Vatnsmýrina undir byggingarland og flugvöllurinn fari.

Nú á hinsvegar að ala upp æðarfuglsunga í Húsdýragarðinum og sleppa í Vatnsmýrina svo að Sílamávurinn sem Gísli Marteinn vildi skjóta en VG stöðvaði, fá nú væntanlega fylli sína af æðarfuglsungum.

Gísli Marteinn er í brott. Sílamávurinn er að koma. Dagur er í nánd því hann var kjörinn Borgarstjóraefni Einsmáls-flokksins með mun  færri atkvæðum en Ármann Kr. fékk í fjórum sinnum minna bæjarfélaginu Kópavogi.

Það er um að gera að forystan njóti óskoraðs trausts. Þar er samhengi hlutanna að finna. 


Glæpur og refsing

eru hugtök sem þarft er að velta fyrir sér og ungir menn sérstaklega mega hugleiða.

 Heimdallur, félag ungra Sjálfstæðismanna, virðist manni óneitanlega eiga einhvern þátt í því að hlutfall þeirra 16-29 ára sem styðja Sjálfstæðisflokkinn er aðeins 14 % í Reykjavík. Ákveðin þreytumerki hafa mönnum fundist koma fram í málflutningi félagsins til margra ára. Ef maður spyr gamlan jálk eins og mig hverju hann muni eftir af slíku, þá er það helst krafa um vín í matvörubúðirnar og að  selja RÁS 2 sem í hugann koma. En auðvitað er þetta alhæfing af versta tagi. Heimdallur er gott félag en hefur samt ekki náð nauðsynlegum takti til að laða að sér félaga í seinni tíð eins og fylgiskannanir sýna.

 Nú síðast hafa félagsmenn dregið í efa að refsingar fyrir fíkniefnabrot skili árangri. Þetta verður hæstaréttarlögmanninum og löggiltum endurskoðandanum  Einari S. Hálfdánarsyni umhugsunarefni í Mbl. Í dag.

Einar segir:

„Virkar refsistefnan gegn fíkniefnum? - Heimdallur stendur fyrir opnum fundi um stöðu refsistefnunnar gegn fíkniefnum. Einhvern veginn kemur ekki á óvart að þessi smái hópur ungs fólks spyrji þessa. Virkar refsistefnan; fækkar hraðakstursbrotum, nauðgunum, og morðum á Íslandi og hefur gert vegna refsinga, nú eða þá brotamönnunum, t.d. pervertum? Hvaða ályktanir á að draga af því ef ekki dregur úr brotum í einhverjum brotaflokkum, svona yfirleitt? Afnema refsingarnar?

 

Eiturlyfjasmyglara má líkja við mann sem varpar sprengju inn í hóp fólks. Hann ætlar svo sem ekki að drepa neinn sérstakan. En hann myrðir ákveðið hlutfall þeirra. Enginn unglingur »kaupir« hlutskipti eiturlyfjaneytandans. Oft og iðulega eru fórnarlömb nauðgarana óvarkárari en gengur og gerist um fólk. Minnkar það sök nauðgarans? Reyndar á það við um fórnarlömb allra glæpa, því miður. Ég hefði ekki átt að bóna bílinn, þá hefði ég ekki freistað þjófsins. - Því er skemmst frá að segja að auðveldara er fyrir unglinga að verða sér úti um amfetamín en að komast inn á bannaða bíómynd. Eiturlyfjasalan fer fram nokkurn veginn fyrir opnum tjöldum, gjarnan úr bílum þar sem viðskiptavinirnir geta gengið að þeim vísum. Þórólfur Þórlindsson prófessor telur ástæðu þess að unglingar verðaeiturlyfjaneytendur oftar en ekki sé um að ræða að vera á röngum stað á röngum tíma.

Á áttunda áratug liðinnar aldar hófust hryðjuverk til nýrrar hæðar. Stalín hafði að vísu, löngu fyrr, sem ungur maður gert sé grein fyrir og hafið hryðjuverk til vegsemdar í stjórnmálabaráttunni. Árangurinn var auðvitað framar vonum. Ráðstjórnarríkin voru fyrsta uppskeran, og svo koll af kolli.

Ég skal fyrstur manna viðurkenna að ég ber ekki fullkomna virðingu fyrir öllum ungliðum í flokknum sem ég hef verið félagi í frá 15 ára aldri. Framkoma gagnvart samherjum, »lýðræðisleg« framkvæmd kosninga til forystu og ýmislegt fleira hefur sem sé ekki ýtt undir aðdáun mína á þeim öllum. Ekki bætir úr skák að hafa orðið vitni að þröngum hópi ungra manna gera hróp að félaga okkar á sjálfum landsfundi okkar sem vildi standa vörð um kristni okkar og kristna menningu.

- En nóg um það.

Davíð Þorláksson er ekki einn um að efast um áhrif refsinga. Hann ku vera lögfræðingur og á að vera kunnugt um mismunandi skoðanir þar um. Þar sýnist sitt hverjum. Ég er á hinn bóginn viss um að refsingar hafa áhrif. En það er næsta víst að refsingar hafa ekki áhrif á fíklana, brotaþolana, eins og allir aðrir sem eru fórnardýr glæpamannanna eru nefndir. Refsingar hafa áhrif (eða sömu áhrif) á eiturlyfjasala og aðra þá sem brjóta lög, vitandi vits, hvorki meiri né minni. Ekkert liggur fyrir í aðra veru.

Það liggur fyrir að þessi Davíð Þorláksson telur 5% flokk með »réttar skoðanir« betri en okkar flokk sem bara hefur staðið vörð um Ísland, íslenskan almenning og íslenska hagsmuni í nærfellt eina öld. Kannski verður honum að ósk sinni, hver veit?“

 

Í framhaldi af þessu má velta fyrir sér hvort búið sé að afflytja merkingu fangelsisrefsinga í áranna rás. Hugtakið betrun er komið í stað refsingar. Er ekki Dolvipar pillan  komin í stað timburmanna sem eru auðvitað refsing sem menn eiga að taka út svikalaust að því að Guðni frændi minn segir?

 Svo er sagt að ellilífeyrisþegi sem gæti skipt hlutskipti við fanga á LitlaHrauni færi mikið upp á við í lífsgæðum. Frítt húsnæði, frítt sjónvarp, frír matur,frí læknis-og lyfjaþjónusta, félagslíf, útivera, starf, námstækifæri og vasapeningar.  Allt hlutir sem sem ellil-og örorkulífeyrisþegi hefur af skornum skammti.

Í stað þess að fangelsisvist sé refsing eins og maður skynjar óþyrmilega af bandarískum bíómyndum þar sem 2 glæpamenn gista saman í rimlabúri með kojum eða af fréttum frá Frakklandi þar sem 9 fangar nútímans deila 12 m2 klefa, þá virðast íslensk fangelsi vera hágæða mennta-og uppeldisstofnanir þar sem refsingin er víkur fyrir umhyggjunni.

Ber þá yfirleitt að dæma fólk í fangelsisrefsingu? Er hýðing betri eða handarhögg? Dauðarefsing? Hvað er sannleikur spurði maðurinn forðum?

 

Hugleiðingar Einars og samlíking eiturlyfjasalans og hryðjuverkamannsins sem hendir sprengju, er skörp. Það er afleiðingin en ekki handahreyfingin sem er refsiverð ef eitthvað er. 

Það er glæpurinn og refsingin sem vefst fyrir manni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband