Leita í fréttum mbl.is

Sagan öll !

23. feb. 2010 - 17:12 Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri í Kópavogi, hafnar því alfarið að hafa átt frumkvæðið að því að koma upplýsingum um viðskipti Halldórs Jónssonar við Kópavogsbæ í hendur fjölmiðla.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Gunnsteins, sem hann sendir eftir að Gunnar lét að því liggja að upplýsingunum hafi verið lekið í fjölmiðla til að leggja stein í götu hans fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins síðustu helgi. DV greindi frá því í byrjun þessa mánaðar að Halldór, sem er einn nánasti bandamaður Gunnars, hafi þegið 71 milljón í greiðslur frá Kópavogsbæ á fimm ára tímabili í starfi sínu sem skoðunarmaður bæjarins.

Í yfirlýsingu Gunnsteins segir að bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hafi þann 29. janúar óskað eftir upplýsingum um viðskipti Halldórs og fyrirtæki hans við Kópavogsbæ sex ár aftur í tímann. Hafi þeirri fyrirspurn veirð svarað þann 3. febrúar. Hinn 9. febrúar barst beiðni frá blaðamanni DV um sömu upplýsingar áratug aftur í tímann. Þeirri beiðni var hafnað  þar sem ekki er skylt samkvæmt upplýsingalögum að taka saman gögn vegna almennra fyrirspurna eða vinna úr þeim, heldur veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum eða skjölum hjá stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Með hliðsjón af því fékk blaðamaðurinn aðgang að þeim upplýsingum sem þegar höfðu verið teknar saman fyrir bæjarfulltrúann og náðu yfir árabilið 2003 til 2008 að báðum árum meðtöldum. Hinn 12. febrúar barst hliðstæð beiðni frá fréttamanni Stöðvar 2 og var henni svarað á sömu leið.Í yfirlýsingunni segir Gunnsteinn jafnframt:„Undirritaður hafði ekki frumkvæði að því að láta fjölmiðlum í té umræddar upplýsingar. Þær voru afhentar í samræmi við upplýsingalög nr. 50/1996 sem kveða á um rétt almennings til aðgangs að opinberum gögnum og skjölum.“

  Aðkoma mín að störfum fyrir Kópavog (Sendi Mogga svipaða grein en þeir birtu hana ekki )

Undirritaður hefur  stundað verkfræðiþjónustu síðan 1962, Starfað mikið fyrir Steypustöðina  og fyrirtæki henni tengd ásamt því að starfa alla tíð á almennum hönnunarmarkaði. Verkefni mín hafa verið fjölbreytt  og listinn orðinn langur yfir þau mannvirki og fyrirtæki  sem ég hef komið að víða um land.

 

Ég varð formaður í Fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins 1986 til bráðabirgða í eitt ár meðan þeir fyndu einhvern skárri sagði Guðni frændi.  Árin urðu ein sautján  og urðu mér dýrmæt  fyrir áhrif frá öllum þeim aragrúa af fólki sem ég kynntist. Ég varð annar af tveimur skoðunarmönnum bæjarreikninga, frá minnihluta og meirihluta,  einhvern tímann á þessum árum, sem felst í álitsgjöf á bæjarreikningunum, ekki fitli með fylgiskjöl eins og Guðríður lætur að  liggja, nú þegar Baugsmiðlarnir virðast beintengdir inní bókhald bæjarins.

 

Á þessum árum fór ég að skrifa í Voga um pólitík og hef haft af því gaman að stíga á tærnar á þeim vinstrimönnum.  Það er stundum eins og það hlaupi í mann einhver stríðnispúki þegar maður fer í slíkt, eitthvert gamalt gen frá gengnum forföður hugsanlega.

 

Árið 1989 bar fundum okkar Gunnars Birgissonar saman þegar ég dekstraði hann til að gefa kost á sér í prófkjör, bara svona í 4. Sæti fannst mér hæfilegt, mér fannst vanta endunýjun á listann . En Gunnar tók stefnuna strax á 1. Sætið. Þá var fjör maður. Eitt sinn man ég að við Gunnar fengum okkur sítrón og vorum að spekúlera í „gömlu götunum“ sem þeir eldri muna. Allar lagnir ónýtar  , vatnsveitan míglek, drulla í gatnastæðinu og allar frárennslislagnir  einsfaldar, þ.e.regnvatnið spúlaði kúknum út á baneitraðar leirurnar. Við teiknuðum upp prófíla í allar göturnar og reiknuðum út kostnaðinn við endurnýjunina. Við fengum okkur svo meira sítrón og þá urðum við fljótt vel mæltir á franska tungu og til varð það sem við nefndum Le.Plan Grande. Upphæðin sem við fengum  út var furðulega lík endanlegum kostnaði nema við gleymdum einhverjum stubbum sem er varla búnir enn. Enn fengum við okkur meira sítrón og nú urðum við bara sammála um að klára þetta helvíti á kjörtímabilinu ef við kæmumst að. Sigurður Geirdal dempaðiþetta í tvö kjörtímabil og þetta er varla búð efti 5 kjörtímabil.

 

En með Gunnari kom maður í fyrsta sinn í bæjarstjórn í lengri tíma sem gat rökrætt við tæknideildina á þeirra tungumáli. Það þurfti enginn að reyna að segja honum sögur af verktakamarkaði, framkvæmdum eða reynslu, þar sem Gunnar var þegar víðfrægur verktaki, formaður verktakasambandsins og meðhöfundur þjóðarsáttarinnar ´samat Einari Oddi og Guðmundi Jaka. Jarðvöðull , sprengjari og doktor við Háskólann og alþekktur kaplaslítari,  sem öllum lagnafyrirtækjum stóð stuggur af.

 

Kosningarnar fóru fram eftir að Gunnar hafði sigrað í prófkjörinu, flokkurinn fékk fimm menn  og  Gunnar komst í bæjarstjórn og flokkurinn í meirihluta með Sigurði Geirdal,  sem var frábær bæjarstjóri  í hálft fimmtánda ár.  Þá var nú ljóta baslið á bænum og langur vegur uppúr forinni. Afganginn þekkja allir.

 

Ég var því búinn að þekkja Sigurð Geirdal í þrjú kjörtímabil þegar ég  hætti  störfum fyrir Steypustöðina 2002 um haust.  Fór þá að leita að nýjum verkefnum og sótti um auglýst sérhæft starf hjá Kópavogskaupstað.  Ég komst í að vera einn tveggja umsækjenda sem hæfastir þóttu en samt númer tvö. Sigurður heitinn Geirdal kallaði mig á fund til sín á aðfangadag 2002 til að skýra mér frá því að ég hefði ekki fengið stöðuna. Honum var sjálfsagt fullkunnugt um mín vistaskipti   og að mig vantaði vinnu.  Hann sagði eftir langar ógleymanlegar samræður um pólitík , og líka kuldans á skrifstofunni því hann hafði gluggann galopinn í frostinu,  að hann skyldi athuga hvort hann gæti útvegað mér eitthvað dútl   á vegum bæjarins.

 

Ég fékk svo kost á eftirlitsstarfi með nýbyggingu norðurálmu MK.,  væntanlega fyrir tilstilli Sigurðar sem sá aumur á mér atvinnulausum. Einnig fékk ég hönnunar og eftirlitsverk með Sambýli við Roðasali sem ég þakka honum líka.Hans mun ég jafnan minnast þegar ég heyri góðs manns getið.

 

Ég hafði mikla unun af þessum störfum og kynntist nýju fólki,  fagmönnum sem og frábærum yfirmönnum á tæknideild bæjarins. Ég leyfi mér að vona að störf mín hafi ekki þótt svo afleit því að þeir fólu mér síðar að taka þátt í ýmsum   hönnunarverkefnum á vegum bæjarins.. Yfirleitt voru  slík verk unnin af teymum hönnuða,  sem önnuðust hver sinn verkþátt. Ég kynntist mörgum fagmönnum,  sem höfðu langa reynslu af  slíkum störfum fyrir Kópavog og var ég skiljanlega mjög hreykinn að fá að starfa með þeim .  Ég gat leitað til bæði erlendra og innlendra verkfræðinga í undirverktöku  hjá mér við þessi störf og hygg ég að margt hafi vel til tekist. Á þessum árum gleymist manni að mestu pólitíkin og hafði maður minni  afskipti af henni um leið og nýir og betri menn  tóku við í flokksstarfinu .Eftir fyrrihluta árs  2007  hef ég engin ný verkefni fengið hjá  Kópavogskaupstað önnur en skoðunarstörfin, þrátt fyrir að Samfylkingin láti að því liggja að ég hafi  Gunnar Birgisson í vasanum og „þiggi“ illa fengnar greiðslur með virðisaukaskatti  frá bænum.   Árið 2008 fór í frágang á ýmsum fyrri verkefnum  sem eins og margir vita standa oft yfir árum saman og ég lélegur rukkari og tapaði sjálfsagt á drættinum. En þá hefur bærinn minn líka grætt tilsvarandi. Siðan er byggingaiðnaður "tot gwesen sein" eins og Gunnar myndi orða það á spariþýsku sinni.

 

Nú er það höfuðglæpur fyrir Gunnar Birgisson og helst  alla, að hafa þekkt mig. Ég er orðinn enn einn leðjuköggullinn sem grýtt er í hann af Samfylkingunni  og vinum hennar í þeirri prófkjörsbaráttu sem Gunnar  stendur enn einu sinni í í Kópavogi.  Söguburðurinn  um þær mundir var mikill að vöxtum og fannst mér ómaklega að Gunnari vegið sem oft áður. Skiljanlega þar sem hann hefur gnæft yfir flesta menn hér í bænum sakir dugnaðar síns og atorku. Það er oftlega að heimskar búrtíkur glefsa  í hælana á slíkum köppum. Og komi þær margar saman geta þær bitið. Ég var vitni að talningunni og get staðfest að ég horfði á blokkirnar koma uppúr kössunum.

 

Auðvitað er Gunnar umdeildur maður og ekki alltaf auðveldur viðfangs. Hann er hinsvegar hreinskiptinn og stálheiðarlegur og gerir alltaf mestar kröfurnar til sjálfs sín. Það voru ófáar snerrurnar sem við tókum á þessum árum og urðum foxillir. En um flest urðum  við oft sammála. Á seinni árum hef ég ekki fallið afturábak af hrifningu yfir sumu sem meirihlutinn hefur gert en látið kyrrt liggja. 

 

Mesta afrek Gunnars og Geirdals fyrir Kópavog, var að leysa fráveituvandmálið sem vinstra liðið gat ekki leyst  á undangegnum kjörtímabilum. Dælustöðin úr Kársnesi í Skerjafjarðarveitu gerði vöxt Kópavogs mögulegan yfir Reykjanesbraut.Þegar þeir Guðmundur og Valþór kvöddu var engin lóð til í bænum og engin í sjónmáli því hvert átti skolpið að renna nema beint í Skítalæk og útá Leirurnar þar sem brunnklukkurnar  og rauðbrystingarnir sáu um hreinsunina eftir bestu getu. En Sunnubrautarfólkið tillífaði gasið í gegnum öndunarfærin. Þetta var eiginlega forsendan fyrir öllu sem á eftir kom. Nú er komin Lonta í Skítalæk, sem heitir víst Fífuhvammslækur, sem drekkti mörgum á sinni tíð.

 

 Mér þótti það  aðeins virkilega leiðinlegt  að mín litla persóna var sótt til þess að ata Gunnar auri í þessu prófkjöri þegar hann berst fyrir pólitísku lífi sínu.  Þetta áhlaup snerti  mig ekki neitt, aðeins fólkið í kringum mig, Til dæmis hana dóttur mína sem var að stíga sín fyrstu skref í pólitík. Mér þykir fyrir því að hafa skaðað allt þetta góða fólk með tilvist minni.

 

En svona er lífið. Maður veit aldrei hvaðan óður eður ölur kemur að eins og Hrafn Oddsson sagði við Gizur frænda minn á Flugmýri.  Og ekkert fæst tekið til baka. Ég hef hreina samvisku því ég hef engan mann  svikið viljandi heldur reynt að vinna mín störf þannig að menn tapi ekki á mér. Mér hefur aldrei verið stefnt til bóta vegna galla á minni hönnun í hálfa öld.( Nei ég fann ekki upp alkalívandamálið !).Það gerir mann nokkuð sáttan við það að hafa verið  „þiggjandi“ af greiðslum fyrir störf sem ráðgjafaverkfræðingur, jafnvel sem annar skoðunarmaður reikninga bæjarins  í næstum þrjátíu ár, þó ég hafi skyndilega ekki  lengur traust mannvitsbrekkunnar Ómars Stefánssonar.  Og ávallt í þennan tíma höfum við skoðunamenn meirihluta og minnihluta verið sammála um meginstef  í minni tíð við lestur ársreikninga samstæðunnar Kópavogs, sem innfelur engan veginn svipaðan aðgang að fylgiskjölum  bókhaldsins, eins og Baugsmiðlarnir hafa nú í skjóli upplýsingalaga. að sögn bæjarstjórans.   

Þetta er eiginlega sagan öll !

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

"Þetta er eiginlega sagan öll"

Kannski.

71 milljón á fimm árum er all nokkuð. 14,2 milljónir á ári, tæplega 1,2 milljónir á mánuði.

Eru þetta laun fyrir þig einan, eða varstu með menn í vinnu, eða mikla aðkeypta þjónustu?

Þú þarft ekki að vera hissa á að fólkið í Kópavogi líti undrandi á þessar tölur. Þær eru háar.

"Sagan öll" skýrir þær ekki.

Með kveðju, BB

Björn Birgisson, 24.2.2010 kl. 23:11

2 identicon

1,2 milljónir er ekki há tala fyrir útselda vinnu.

1.200.000/8700=138 klst í mesta lagi. Ef þetta var aðal vinnan sem Halldór stundaði þá nær þetta ekki dagvinnunni.

Veit svo sem ekki neitt um forsendurnar, er bara að geta í eyðurnar.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 23:35

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Gott hjá þér að leggja spilin á borðið.

Þá stendur aðeins eftir sú ásökun Ómars að þú standir fyrir vadabrölti innan Framsóknarflokksins. 

Sigurður Þórðarson, 25.2.2010 kl. 07:19

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Skarpur alltaf BB;

Þú hefur einhverntíman heyrt orðið vsk-ur er það ekki ? Og orðið rekstarkostnað ? Og lesið aftur textann varðandi undirverktaka. Og kannt að deila með núna 7 eða meira ? Ekki hafa áhyggjur af atvinnuleysi, veikindadögum,tryggingum, hruninu, og þerngingum þjóðarinnar osfrv., bara hugsa að græddur sé geymdur eyrir. 

Takk fyrir Magnús Orri,

mér þykir vænt um að heyra í slíkum fagmanni sem þér. Ég held nú að tímakaupið hjá mér hafi ekki alltaf verið hátt í þessum teiknibransa mínum þegar allt er talið, enda sjálfsagt ekki sá hraðvirkasti. En nokkuð seigur samt við að sitja við.

Siggi: 

Ómar verður víst að treysta á aðra en mig í valdabrölti sínu, þar sem ég verð að heiman á kjördaginn hans.

Halldór Jónsson, 25.2.2010 kl. 09:12

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er aldeilis magnaður pistill hjá þér Halldór. Það er löngu vitað að þið verkfræðingarnir eruð nú ekki á neinum fjósakonulaunum. Reyndar er ég nú þeirrar skoðunar að verkfræðingar séu dýrustu mistök menntakerfisins og þá er ég nú að vísa til allra mistakanna sem gerð hafa verið í nafni verkfræðikunnáttu.

Það er önnur saga.

Ég sé nú reyndar enga spillingarlykt af þessu máli aðra en þá að þetta upplýsir subbuleg vinnubrögð í kosningabaráttu sem eru orðin landlæg á Íslandi. Ég hef miklu meiri áhyggjur í dag af vinnubrögðum hinna svokölluðu skilanefnda bankanna en reyni í lengstu lög að taka til máls um þau með því tungutaki sem hæfir.

Að endingu legg ég til að ríkisstjórnin vindi að því bráðan bug að afla sér ríkulegra birgða af undradrykknum sítróni!

Þakka aldeilis bráðskemmtilega hugvekju um íslenska pólitík.

Ps. Ég ætla ekki að snúa til baka með það að þið þessir verkfræðingar eruð helvítis okrarar og ekki orð um það meira.

Árni Gunnarsson, 25.2.2010 kl. 10:21

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fljótfærni. ......reyni í lengstu lög að stilla mig um að taka til máls um þau með því tungutaki sem hæfir.

Árni Gunnarsson, 25.2.2010 kl. 10:23

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Góður Árni

Nú vantar flesta íslenska verkfræðinga sárlega fórnarlömb til að okra á. Ekki hefur verið andskoti hátt tímakaupið hjá þeiim  síðustu tvö ár  ef þeir hafa ekki haft rænu á að koma sér úr landi. En þú sérð sjálfsagt blómin í hagannum sem þeir geta rifið í sig á næstunni.Kannski að Steingríimur og Jóhanna séu að setja eitthvað niður sem þeir geti étið 

Halldór Jónsson, 25.2.2010 kl. 10:30

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta með þau Steingrím og Jóhönnu er nú dálítið undarlegur kapítuli sem ég hef gert margar tilraunir til að lesa en alltaf gefist upp neðst á fyrstu blaðsíðu.

Af minni eldskörpu eðlisgreind hef ég komist að því á langri ævi að stjórnmálamenn eru sendlar hjá hinum og þessum klúbbum sem láta þá vinna fyrir sig og leyfa þeim að gera sig merkilega til að þjóna hégómagirndinni.

Engum blandast um það hugur að Jóhanna á ekkert erindi í pólitík annað en að koma okkur inn í ESB svo krakkarnir í Samfó fái góða og þægilega innivinnu hjá klúbbnum.

Steingrímur er að ég held ekki alveg í sambandi og ekki annað að sjá en að hann sé villtur á einhverjum fjöllum og vanti GPS tækið.

Mér hafði dottið í hug að prófa laxerolíu á íslenska pólitíkusa eða bara detox hjá Jónínu en mér finnst það óþarflega dýrt.

En eftir að hafa lesið um sítróndrykkju ykkar Gunnars í Kópavogi hallast ég að því að prófa það og sjá til hvort ekki er hægt að koma þessu vandræðaliði til að ræða málin á frönsku.

Ekki dugar íslenskan til að leysa hnútinn.

Árni Gunnarsson, 25.2.2010 kl. 12:09

9 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Skemmtileg lesning. Ef ég les rétt úr þessum tölum þá er verið að tala um 7 ára tímabil, upphæð með vsk. Það þýðir kr. 678.906 á mánuði, og af þeirri upphæð þarf að greiða undirverktökum þegar það á við og annan kosnað húsnæði, síma, tölvukosnað osfrv. Þeir sem hafa unnð sjálfstætt, vita að launaþátturinn getur nú ekki verið mjög hár þegar allt hefur verið greitt.

Sigurður Geirdal lagði áherslu á að fara sparlega með fé Kópavogsbúa. Er sannfærður um að hann hefur metið vinnuþátt og reynslu Halldórs koma sér vel fyrir bæjinn.

Sigurður Þorsteinsson, 25.2.2010 kl. 13:02

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er ótrúleag mikill kostnaður sem kemur ofan á launakostnaðinn og reiknast inn í útseldan taxta.

Sem dæmi má nefna eftirfarandi:

Tryggingagjald + lágm. Slysatr: 8,65%
Veikindi og slys: 3,1%
Launþegatrygging: 1,4%
Löghelgir frídagar: 4,3%
Desember- og orlofsuppbót: 3,8%
Mótframl. Í séreignasj.: 2,0%
Lífeyrissj.: 6,0%
Orlof.: 13,04%
Endurmenntun: 1,0%

Hrein summa: 43,29%

Síðan VSK ofan á allt saman: 25,5%

Síðan þarf að reikna með tíma sem fer í umsýslu ýmiskonar, húsnæði, tölvur, hugbúnaður, sími,verkefnaöflun, bókhald ...

Gleymi ég einhverju?

 

Ágúst H Bjarnason, 25.2.2010 kl. 14:14

11 Smámynd: Svavar Bjarnason

Blessaður Halldór.

Vegna þess að ég er hvorki Sjálfstæðismaður né Kópavogsbúi, ætla ég ekki að fara að skipta mér af pólitíkinni þarna í Kópavogi. Ég efast reyndar ekkert um að þú hafir unnið fyrir hverri krónu, sem þú fékkst greidda. En mér leikur forvitni á að vita uppskriftina af þessum sítrónudrykk ykkar. Var ekki pínulítið af gini bætt út í?!

Svavar Bjarnason, 25.2.2010 kl. 14:53

12 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Efaðist aldrei,ekki eina mínútu,að þú vannst fyrir hverri krónu,auk þess fæ ég hroll þegar Samfylkingin byrjar að drullumalla.   Vill svo til að sonur minn er verkfræðingur hjá Rvk. á föstum launum,sem þekkir allt um eftirlits,hönnunar og ráðgjafastörf.

Helga Kristjánsdóttir, 25.2.2010 kl. 16:12

13 Smámynd: Björn Birgisson

Sæll og blessaður Halldór! Margt er nú ruglið, misgáfulegt.

Ágúst H. Bjarnason sagði hér að ofan:

"Það er ótrúlega mikill kostnaður sem kemur ofan á launakostnaðinn og reiknast inn í útseldan taxta.

Sem dæmi má nefna eftirfarandi:

Tryggingagjald + lágm. Slysatr: 8,65%
Veikindi og slys: 3,1%
Launþegatrygging: 1,4%
Löghelgir frídagar: 4,3%
Desember- og orlofsuppbót: 3,8%
Mótframl. Í séreignasj.: 2,0%
Lífeyrissj.: 6,0%
Orlof.: 13,04%
Endurmenntun: 1,0%

Hrein summa: 43,29%

Síðan VSK ofan á allt saman: 25,5%

Síðan þarf að reikna með tíma sem fer í umsýslu ýmiskonar, húsnæði, tölvur, hugbúnaður, sími,verkefnaöflun, bókhald ...

Gleymi ég einhverju?"

Auðvitað var blessaðurinn maðurinn að gleyma ótal liðum, það er að segja ef Kópavogsbær á að borga allt fyrir þá sem senda bænum reikninga. Í hans upptalningu er eitt og annað sem kemur Kópavogsbæ ekkert við.

Brot af gleymsku Ágústar H. Bjarnasonar:

Matarinnkaup hjá Bónus.

Innkaup Sítrónu vökvans sem allt gerði fyrir Kópavog.

Bíóferðir.

Nefskattur RÚV og áskrift að Stöð2, hans Jóns Ásgeirs.

Nokkrar utanlandsferðir.

Og sitthvað fleira auðvitað.

Kópavogur hefur haft nokkra menn á bæjarstjóralaunum. Nú finnst íbúum nóg að gert í þeim málum. Lifðu heill!

Björn Birgisson, 25.2.2010 kl. 22:25

14 Smámynd: Halldór Jónsson

Ég þakka ykkur skemmtilegar orðræður um spillingu mína í því að "þiggja" greiðslur úr hendi Gunnars Birgissonar fyrir væntanlega ekki neitt.

Guðríður Arnardóttir og Ómar Stefánsson hafa afrekað mikið með því að fletta ofan af ormagarðinum hjá mér. Mér finnst hinsvegar prósessinn sem bæjarstjórinn Gunnsteinn lýsir merkilegur, því hann viðurkennir að Baugsmiðlar séu beintengdir við bókhald bæjarins í gegn um bæjarráðsfólkið.

Bæjarráðsmaður leggur fram fyrirspurn sem varðar pólitíkskan ástmögur sinn. Bæjarstjóri vinnur upplýsingarnar. Síðan er listinn sendur til einhvers af 365 miðlunum þar sem nú gilda lög um upplýsingaskyldu.Auðvitað hringir bæjarstjóri ekki fyrst í þá heldur hringja þeir í bæjarstjórann þó einhverjir  haldi öðru fram. Aðalatriðið er gagnsæ og opin stjórnsýsla.

Ég get ekki fengið sundurliðaðar upplýsingar um kostnað bæjarins af niðurbroti og uppkaupum Heiðarþings 2-4 , sem Ómar Stefánsson lét brjóta niður án þess að heimild bæjarstjórnar lægi fyrir. Þarna var þó ein stök framkvæmd sem kostaði bæinn tæpar 60 milljónir á einum degi að ég hef heyrt og ástæðan var sú að húsið fór í taugarnar á foreldrum Ómars á nr. 6-8 .

Góður sonur þessi elska hann Ómar.  Það er ekki ónýtt að vera í meirihlutasamstarfi  undir forystu svo afgerandi leiðtoga Framsóknarflokksins.

Sjálfsagt hefur Guðríður "jarðfræðingur" engann áhuga á að spyrja bæjarstjórann um svona smámál. Það er örfyrirtæki Halldórs Jónssonar, Hallsteinn,  sem skiptir hana höfuðmáli. Og ekki myndu 365 miðlarnir hafa snefil af áhuga á slíku máli þótt skrifa mætti greinar um þar sem erfitt er að tengja það við Gunnar Birgisson. En upplýsingahraðbrautin liggur núna í gegnum Guðríði og Gunnstein bæjarstjóra. Allt það fæst  upplýst sem  hentar héreftir.

 Enda er Hallsteinn eina verkfræðistofan sem var opinber vinur Gunnar Birgissonar, sú eina sem "þiggur" milljónatugi fyrir eitthvað sem enginn veit án útboðs. Enda hefur eigandinn  brugðist trausti leiðtogans Ómars Stefánssonar þannig að væntanlega verður komið í veg fyrir frekari spillingu af völdum þess fyrirtækis. Enda hvaða önnur heiðvirð verkfræðistofa vildi svo sem koma nálægt svona fyrirtæki til að vinna með eftir uppljóstranirnar ? Menn gætu flækst í óvænt mál ?

Eða þorir nokkur að vinna fyrir kúnna sem mögulega situr um að koma höggi á þig við minnsta tilefni?  

Berufsverbot, "Starfsbann" var refsing sem nasistar beittu gegn mörgum gyðingum og jafnvel Albert Einstein varð að flýja undan  visku þeirra Göbbelsar og Hitlers.

In Kopavogur bin ich jetzt ein Jude !

Ég kom hingað 1967 sem pólitískur flóttamaður úr Reykjavík undan lóðaskortsstefnu íhaldsins. Mér þótti bara gott að búa í Kópavogi bæði þá og nú. 

Og nú er meira að segja líka kominn kirkjugarður í bæinn þar sem maður teygði frá fáka á sínum ungu dögum.

Halldór Jónsson, 25.2.2010 kl. 23:51

15 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það hefur einkennt þessa umræðu að menn skjóta fyrst og spyrja svo. 

Eða eins og kellingin sagði: "Það er um að gera að segja skák því það gæti verið mát" En leikreglurnar í þessu tafli eru gallaðar því þó Halldór hafi fært sig úr skákinni með þessari færslu liggja úrslitin prófkjörinu fyrir.Menn hefðu gott af að hugleiða þetta hvort sem þeir eru sjálfstæðismenn, Kópavogsbúar eða ekki.

Sigurður Þórðarson, 26.2.2010 kl. 03:56

16 Smámynd: Optimusprime

Hvað á þessi Björn eiginlega við?? Hvað er  það sem kom í upptalningu Ágústs, það sem Kópavogsbæ kemur ekkert við???Mér finnst hann nánast gera að því skóna að Halldór sé óheiðarlegur

Hann hefur líklega aldrei staðið í rekstri þessi Björn, 

Tek undir með honum sjálfum,  og segi að hann hafi þarna sagt margt misgáfulegt og ruglað mikið.

Optimusprime, 27.2.2010 kl. 00:04

17 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Mér líst ekki of vel á þessi prófkjör undanfarið í Kópavogi þ.m.t. hjá VG og Framsókn, en ég bý þar reyndar ekki.

Ég þekki til Halldós Jónssonar myndi aldrei detta í hug annað en að hann myndi vinna störf sín sem verkfræðingur fyrir Kópavogsbæ af trúmennsku. Þessi rógsherferð fáeinna manna, sem meira að segja beindist gegn dóttur hans er dapurlegasta hlið prófkjara sem hægt er að hugsa sér, en því miður ekki einsdæmi. 

Sigurður Þórðarson, 27.2.2010 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 3417960

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband