Leita í fréttum mbl.is

Tær snilld

birtist í grein Sigurðar V. Sigurjónssonar læknis í Mbl. í dag.

"
Hjörleifur Stefánsson arkitekt reit góða grein í Fréttablaðið 4. febrúar sl. Þar stakk hann upp á að Perlan yrði gerð að Náttúruminjasafni Íslands. Perlan væri tákn Reykjavíkurborgar með fögru útsýni. Þaðan séð væri fjallahringurinn ægifagur. - Það er furða að ekki skuli vera komin fyrir löngu skilti á svalir staðarins sem lýsa tilurð þessa hrings.

Skoðum fyrst mynd í norður - síðan mynd í suður.
Fjallasalur norðursins segir sögu síðustu ísaldar, sl. 3 milljónir ára. Vestast er Akrafjall, en efst á því er jökulberg, Rauðrönd, menjar fyrsta víðfeðma ísaldarjökulsins. Þetta er við mynni Hvalfjarðar, en báðum megin eru nú fornir skriðurunnir sjávarhamrar. Í Kollafirði, sunnan mynnisins, er askja megineldstöðvar sem kennd er við Kjalarnes. Aðeins sunnar, austar og nær í tíma eru leifar öskju í Viðey og í Vatnagörðum. Varmi sem enn er í iðrum eldstöðva í nágrenni Reykjavíkur yljar nú hjartarætur íbúanna í gegnum Hitaveituna. - Akrafjall sjálft er 3-5 milljóna ára gamall blágrýtisstafli, hraunlög frá síðasta hluta tertíer-tímans. Skarðsheiði er sama eðlis, en hraunlögin þar eru runnin frá megineldstöð Hafnarfjalls.

Á síðustu jökulskeiðum ísaldar (síðustu hundruð árþúsundin) hefur falljökull grafið hratt á bak aftur þann Hvalfjörð sem við þekkjum. Köld tunga skriðjökuls hans hefur oft legið við munnopið og sleikt út um, eins og sjá má merki um þar. Ávöl austurhlíð Akrafjalls og v-laga dalverpi, sem hangir þar niður undir þessa nú horfnu tungu, segja sína sögu. Þarna við mynnið sjáum við glímuvang Ægis og hrímþursa. Sunnan í Skarðsheiði hanga líka u-laga jökuldalir, grafnir af litlum skriðjöklum niður að meginjökli fjarðarins. Á efra borði þessa fjalls og Esjunnar eru leifar eldri ósýnilegs dalbotns hangandi hátt yfir firðinum. Sennilega nær sá rofflötur hraunfletinum sjálfum sunnar í brún Kistufells. Austar er ávöl bunga Skálafells, en þar hefur jökull gengið yfir andstætt flötum láréttum kolli Kistufells. Þar á milli eru bleikir Móskarðshnjúkar, ljósgrýtisinnskot eins og síðustu andvörp megineldstöðvarinnar í Stardal. Nú liggur Mosfellsdalur í gegnum öskju hennar, grafstóna. Ung grágrýtishraun frá Mosfellsheiði þekja svo dalbotninn og ná vestur út í sundin, en þar stendur Reykjavíkurborg og perla hennar.
Frá rekbeltinu Þingvellir-Hengill að títtnefndu mynni Hvalfjarðar eru 30 km og 3 milljónir ára (elst vestast). Hér birtist því »freðið« landrekið, kjölfar Ameríkuflekans sem rekur í vestur einn cm á ári. Þetta staðfestir m.a. aldur bergs vestast í Esjurótunum, 3 milljónir ára.

Í sjávarhömrum SV-Esjunnar er bláleitt hverasoðið móberg með kalkspati (þverskorinn hryggur), myndað í jökli kuldaskeiðs fyrir 2,5 milljónum ára (kalksteinn þaðan var brenndur þar sem nú er Kalkofnsvegur) með sprungusveimi tengdum Kjalarnesseldstöðinni. Eldvirknin hefur svo haldið þar áfram næsta hlýskeið og drekkt móberginu með hraunlögum sínum. Nú birtist þetta sem móbergsfjall innan í Esjunni.

Þegar horft er til suðurs út á Reykjanesskaga sést vel sama fyrirbæri gerast í nútíma. Hvernig móbergstindar síðasta jökulskeiðs eru að hverfa undir hraunbreiður síðustu 10 þúsund ára. Af tindi Trölladyngju sér sumstaðar á koll þeirra í óbrinnishólmum niðri á hraunsléttunni.
Úti við Reykjanestá (=hæl) gengur »Miðgarðsormur«, mið-Atlandshafshryggurinn á land og hlykkjast skástígur þvert norður yfir landið og stingur sér síðan niður í hafið við Öxarfjörð, þó eigi hauslaus.

Reykjanesfjallgarður er líka leiksvið elds og íss. Þar rísa móbergshryggir myndaðir í jökli ísaldarskeiða og móbergsstapar með hraunskjöldum sínum á kollinum, til marks um hæð jökulsins. Þar er Langahlíð, samsettur stapi krýndur nútímahraunum sem hvíla á grágrýtisskildi sem liggur síðan á jafngömlum móbergs-sökklinum. Lögun fjallsins gefur góða hugmynd um legu og lögun skriðjökulsins sem faðmaði fjallið. Svipaður skjöldur eða lag er einnig ofarlega í Vífilsfelli og Bláfjöllum, en ofan á því liggur lægri móbergshryggur. Kannski jafnaldra berginu neðan við og sýnir þá hlé sama goss, sbr. Hlöðufell.

Lengst í austri er svo helgasta vé Fjallkonunnar, Þingvellir. Þar eru rætur landsins, berggrunnsins og menningarinnar sem á honum hvílir. Þar fæddist landið, Alþingi, lögin og kristnin. Þar fæddust líka sumir inn í nýjan heim. Og yfir Þingvöllum gnæfa Botnsúlur, leifar af stapa svipuðum ungri drottningu öræfanna, Herðubreið. Þar hafa hrímþursar aðeins bitið í skjaldarrendur, en förin eru dýpri og ná inn að miðju í Botnsúlum. Þær, eins og fjöllin sitt hvorum megin Hvalfjarðar, hafa lyftst í upphæðir og hvort tveggja vegna affergingar við rof. En þær tróna líka á upplyftum vesturbarmi sigdals vallanna.

Máðir grágrýtisskildir Mosfellsheiðar og svæðisins vestan Hengils greinast illa, en Reykjavíkurborg að meðtalinni Öskjuhlíð stendur á slíkum dyngjuhraunum. Öskjuhlíð var lítil eyja í lok síðasta ísaldarskeiðs, enda jökullaust landið þá ekki fullrisið undan fargi hans. Lábarið grjót hinnar fornu fjöru og skeljar í leirsteini Skerjafjarðar (Fossvogslögin) segja þessa staðbundnu sögu. Sömu sögu segja lábarðir hnullungar skersins, sem Kópavogskirkja stendur á.

Langt í vestri úti við sjónarrönd rís svo eldkeila á besta aldri, megineldstöðin Snæfellsjökull.
Hvergi í heiminum er boðið upp á slíkt sjónarspil. Þar yrði sýning íslenskrar náttúru úti og inni, nær og fjær.
Ekki má láta þetta tákn Reykvíkinga, og raunar allra Íslendinga, í hendur blindra svokallaðra fjárfesta, sem virðast lítið skynbragð hafa á annað en fé er - það yrði hneyksli. Sjá andanna menn við Reykjavíkurtjörn aðeins »guðslambið«? Á að fórna því, þar sem stutt er til páska, fyrir skammlíft silfur?

Ef þetta djásn er á leið á krossinn, eigum vér að gerast musterisriddarar og reka þessa kauphéðna út úr helgidóminum, musteri náttúrunnar, harðri hendi.
Gerum Perluna að náttúruminjasafni íslensku þjóðarinnar!"

Það þarf snilld til að skrifa svona um jarðfræði Íslands sem Sigurður læknir gerir. Hversu þægilegra væri ekki að lesa námsbækur sem væru skrifaðar af svona tilfinningu?

Ég mátti til að vekja athygli á þessari tæru snilld fyrir þá sem ekki lesa Moggann þó þeim fari nú aftur fækkandi með vaxandi brambolti ríkisstjórnarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll frændi.

Ég las þessa góðu grein Sigurðar Sigurjónssonar í morgun og naut vel.  

Ég tek heilshugar undir orð hans:

"Ekki má láta þetta tákn Reykvíkinga, og raunar allra Íslendinga, í hendur blindra svokallaðra fjárfesta, sem virðast lítið skynbragð hafa á annað en fé er - það yrði hneyksli....... Gerum Perluna að náttúruminjasafni íslensku þjóðarinnar!"

Ágúst H Bjarnason, 30.3.2012 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 3418215

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband