Leita í fréttum mbl.is

Hannes Hólmsteinn

kemst nálægt því nú síðast að skrifa af auðmýkt eins og mitt hjarta slær.

Hannes segir m.a.:

"Sjálfur hef ég haft tvíræða afstöðu til Evrópusambandsins. Mér finnst það æskilegt, ef það verður opinn markaður, þar sem menn geta skipst á vöru og þjónustu yfir landamæri í frjálsri samkeppni. Mér finnst sambandið hins vegar óæskilegt, ef það verður lokað ríki, girt tollmúrum, virkið Evrópa. Það er mér fagnaðarefni, ef Þjóðverjar og Frakkar hafa slíðrað sverðin eftir margra áratuga stríð og mannfórnir. Það er mér áhyggjuefni, ef Þjóðverjar og Frakkar ætla sér að drottna yfir smáþjóðunum í Evrópu.

Hvort mun Evrópusambandið breytast í ríkjasamband, þar sem samstarfið takmarkast við það, sem er öllum í hag, eða sambandsríki, sem hyggst veita Bandaríkjunum og Kínaveldi samkeppni um það, hvert sé aðsópsmesta stórveldið?

Draumar hafa þrjá eiginleika. Þeir geta ræst. Við getum vaknað af þeim. Þeir geta breyst í martraðir. Vonandi rætist draumurinn um opinn Evrópumarkað. Við verðum hins vegar að vakna af draumnum um, að við skiptum einhverju máli í Evrópusambandinu, og hyggja heldur að eigin málum. Og vonandi breytist draumurinn um Evrópustórveldið ekki í martröð...."

Ég er um margt af þessu sammála. Til dæmis um hvernig maður hefur sveiflast í afstöðunni til ESB. Ég viðurkenni fúslega að ég kom út ESB sinni af fundi með Uffe Elleman Jensen á Hótel Sögu fyrir margt löngu. Mér fannst hann svo langtum klárari en okkar sveitamenn í pólitík. Árin liðu, og maður ergist eins og hver sem eldist. Maður fer að spekúlera af hverju hlutirnir séu svona og hversvegna ekki eins og maður vill. Ég hef farið hringi og hringi en hef stöðvast lengst í þeim siðasta. Og það er merkilega ekki vegna dýpri skyggningar á Evrópusögu heldur vegna meiri kynna minna af Bandaríkjamönnum, sem þó eru yfirborðsleg.

Ég er orðinn sannfærður um að ESB breytist aldrei í ríkjasamband sem keppi við Bandaríkin, a.m.k. þau Bandaríki sem ég þekkti um mína daga sem brátt eru úti. Þar stendur þjóðerniskenndin sem ljón á vegi. Þjóðerniskenndin kemur í veg fyrir það að Íslendingar muni í bráð líta á sig sem einhverja Evrópumenn fremur en íslenska sveitamenn hvað þá fjölmemningarlega modernista í einhverju risavöxnu ríkjasambandi. Þjóðerniskenndina hef ég hvergi fundið sterkari en í Bandaríkjum Norður Ameríku, þó vissulega felist ekki í því neitt vanmat á Canada í norðrinu en Suður-Ameríku og Mexico hef ég aldrei augum litið og get því ekki dæmt um hvernig þær þjóðir líta á málin.

Af lengjandi dvölum mínum í Bandaríkjunum finnst mér ég skynja þá djúpu þjóðernisvitund sem þeir eiga gagnvart fánanum sínum og þjóðarsögu. Það stórveldisstolt sem þeir eiga sameiginlegt. Mér finnst beinlinis fallegt hvernig þeir hafa fánann í skólastofum og opinberum byggingum. Fáninn er samnefnarinn mikli sem allir eiga sameiginlega. Mér finnst þessi kennd dýpri en ég finn meðal góðvina minna til áratuga í Þýskalandi, sem muna fleiri flögg en þetta núverandi. Þeir eru flestir einlægir ESB sinnar. En af allt öðrum ástæðum en við erum að ræða hér uppi á Íslandi. Þeir skynja að Bandaríkin eru stór, jafnvel stundum stórt barn sem ekki má vanmeta. En þá stórt barn með stórt hjarta sem er jafnframt óendanlega máttugt en stundum nægilega víst innst inni til að sjá í gegn um vefara keisaranna.

Stóru stríðin og allt sem þeim fylgdi fyrir Þýskaland eru djúpt greypt í þjóðarvitund Þjóðverja og gefur þeim um margt aðra sýn en við höfum. Dauðans alvara ósigranna er önnur en okkar sem hugsanlega græddu eihverja peninga á öllu saman þrátt fyrir hörmungarnar sem vissulega voru miklar. Við misstum fleiri menn en Bandaríkin hlutfallslega í seinna stríðinu.

Þjóðir Evrópu eiga svo mikið hvorri annarri grátt að gjalda að þar er erfitt að stofna til hjúskapar eins og ráðgert var með Evrunni. Allavega á forsendum Stór-Þýskalands og þar áður Napoleons mikla, sem hafði fyrstu draumsýnirnar um sameiginlega mynt Evrópu.

Þar liggur mein Evrópuhugsjónarinnar. Við sáum í Bosníustríðinu að gamlar undir geta blætt og grátið þó mannsaldrar hafi liðið hjá. Sár borgarastyrjaldarinnar í Bandaríkjunum eru heldur ekki fullgróin. En þeir gera sitt besta til að lifa með þeim. Bretar eru enn varfærnir vegna gamals óvinskapar við Frakkland Napóleons. Minni þeirra er jafnvel enn lengra en það þar sem enn skiptir máli á Englandi hvort þú ert hvít eða rauð rós. Líklega eru þeir innst inni enn hræddari við Frakkland en Þýskaland ef grannt er skoðað. Bandaríkin eru þessvegna allt öðruvísi en Evrópa. Án þess að ég viti nærri nóg um þetta flókna samspil þjóðernis, landa og lýða sem í öllu þessu birtist.

Ég bý við hið yzta haf og sé ekki lengra fram á veginn en að ég muni hlusta á brimgnýinn ef einverjir verða ekki búnir að kaupa hann frá mér eða hirða hann eins og kvótann sem Hannes Hómsteinn þekkir allra manna best.

Ég þakka Hannesi Hólmsteini fyrir þessu einörðu skrif um málið mikla sem þjakar þreyttar sálir á Íslandi þessa dagana.

t.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Halldór, það er gaman að fylgjast með þér í þinni íhugun um landsins gagn og nauðsynjar.

Ég tek eftir að þú játar fúslega að hafa haft mörg sjónarmið í ESB máli. Það eitt og sér ber vott um einlægni og sannleiksást og vilja til að horfa á hvert mál frá sem flestum hliðum.

Væri ég þegn í einhverju smáríki í hjarta Evrópu, þá myndi mér líklegast þykja ESB aðild vera skjól fyrir stórveldunum sem þar sitja á fleti fyrir, um leið og maður myndi vonast eftir að eiga sín sérkenni í friði.

En staðreyndin er sú að nú á ég heima á Íslandi.

Það er sérstakt land með sérstaka þjóð. Við erum t.d. mjög frjálslynd í trúmálum. Flestir trúa á áframhald lífsins eftir líkamsdauðann. Talað er um að kynkvíslir Benjamíns hafi numið hér land og eigi að vera öðrum fyrirmynd og kynnir hærri hugsunar.

En þjóðin er ung í þessum skilningi, sem best má sjá á ósamkomulagi innbyrðis. Hún er eiginlega táningur í samfélagi þjóðanna, þó hún eigi þetta hlutverk í framtíðinni, að færa nýja hugsun til heimsins.

Auðvitað mun sérstaða landsins, lega þess og hugsunarháttur skapa henni nokkurn sess utan við valdablokkir. 

Þrátt fyrir varnarsamstarfið við Bandaríkin sem full þörf var á, gegn ógnum einræðisríkja, þá var hér alltaf sterk þjóðerniskennd sem barðist fyrir því að landið væri sjálfstætt til orðs og æðis.

Nú vil ég taka fram að þjóðerniskennd er ekki eingöngu jákvæð, hún er líka neikvæð og vandmeðfarin. Þar þarf að ganga um með mikilli varúð. Um það þurfa framtíðar kynslóðir að sjá.

Ísland mun standa utan við ESB næstu áratugi spái ég.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 26.5.2012 kl. 12:23

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Herlufsen;

Þetta er spaklega mælt af þér sem vonlegt er. Þú hefur hugsað lengi og hart eins og Hannes. Við höllumst að hinu sama báðir. Ég sé það ekki koma að við Íslendingar töpum allri tilfinningu fyrir landi okkar. Bændur gera slíkt ekki.

Þessvegna ráku þeir Snorri,Þórður kakali og jafnvel Gizur sjálfur erindi konungs linlega. Ég held að hjá Gizuri hafi ráðið úrslitum versnandi árferði og efnahagur sem birtist í Gamla Sáttmála um skipaferðirnar, sem sagt frekar umhyggja fyrir alþýðu en einhver valdagræðgi og kvislíngsskapur sem honum er jafnan brugðið um síðar.

Halldór Jónsson, 26.5.2012 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband