Leita í fréttum mbl.is

Lýðskrumarinn mikli !

Steingrímur J. Sigfússon hefur þanið sig í fjölmiðlum yfir því hversu hann hefur lagt nótt við dag að bjarga Íslandi. Og svo mikla eftirtekt hafi það vakið hvernig honum tókst að ná ríkishallanum niður að honum hafi verið boðið starf yfirreddara hjá vinum sínum í AGS. þeir hljóta að hafa gullfiskaminni á þeim bæ ef þeir hafa fylgst með ræðuhöldum mannsins í gegnum tíðina.

Þegar Steingrímur hefur gumað af að ríkissjóðshallinn sé nú allur annar en hann var þá hefur hann alltaf þagað um raunverulegu stöðuna. Hann sleppir alltaf vandanum með lífeyrismál opinberra starfsmanna.

Hann er hinsvegar sífellt uppi með hugmyndir að skattleggja alla aðra lífeyrissjóði eða seilast í fé þeirra á annan hátt.

Hver er hin raunverulega staða í lífeyrismálum opinberra starfsmanna? Svo segir í fréttum:

"Ummæli Maríönnu Jónasdóttur, formanns stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), á ársfundi sjóðsins í fyrradag, þess efnis að staða sjóðsins væri grafalvarleg, sýnir að ekki verður lengur litið undan vanda opinbera lífeyriskerfisins. Alltof lengi hefur verið horft framhjá þessum vanda. Það þjónaði hvorki hagsmunum stjórnenda sjóðanna né stjórnmálamanna dagsins í dag að bregðast við á fullnægjandi hátt. Þögnin var þægilegri.

Maríanna fylgir hér í kjölfar Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambands Íslands, sem sagði á fundi um framtíð lífeyrissjóðskerfisins á mánudaginn að gríðarlegur halli á opinbera lífeyriskerfinu stefndi afkomu ríkis og sveitarfélaga í verulega hættu og gæti haft mikil áhrif á velferðarkerfið.

Gylfi benti á að halli opinberu sjóðanna hefði aukist um 100 milljarða frá árinu 2007 og væri orðinn tæplega 550 milljarðar króna. Að óbreyttu þyrfti 28 til 30 milljarða króna á ári til að standa við skuldbindingar opinberu sjóðanna. Gert væri ráð fyrir tíu milljörðum króna á fjárlögum. Til viðbótar verður að bregðast við með öðrum hætti eins og hækkun iðgjalda sem myndi þýða hærri greiðslur úr ríkiskassanum. Þetta eru engir smáaurar.

Ósanngirnin í þessu er slík að það er ekkert skrítið að Gylfi Arnbjörnsson kalli á breytingar enda umbjóðendur hans fólk á almennum vinnumarkaði, sem þarf að standa undir hærri greiðslum í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna á meðan réttindi þeirra eru skert.

Á sama tíma og þessi ójöfnuður ríkir, sem tryggir betur réttindi opinberra starfsmanna, sækja stjórnmálamenn það fast að lífeyrissjóðir fjármagni pólitískar úthlutanir ári fyrir kosningar. Krafan er að þeir gefi eftir eignir vegna stefnu stjórnvalda í skuldaaðlögun heimila, fjármagni framkvæmdir á óásættanlegum kjörum eða sói erlendum eignum í krónukaup til að þjóna óljósri áætlun stjórnvalda um losun hafta. Ef stjórnendur sjóðanna eru ekki þægir er þeim hótað með skattlagningarvaldi ríkisstjórnarinnar. Á meðan þurfa þeir að ávaxta peninga sjóðsfélaga í gjaldeyrishöftum, sem mun reynast erfitt.

Nóg er nú ríkisvæðing lífeyrissjóðanna! "Öllum má vera ljóst að þróun síðastliðinna ára hefur aukið mjög pólitíska áhættu fyrir íslenska lífeyriskerfið í heild sinni og getur ekki talist æskileg. Munar þar mest að með íslenska ríkið sem langstærsta skuldara og ábyrgðaraðila lífeyrissjóðanna er sú hætta til staðar að hið opinbera knýi fram grundvallarbreytingar á lífeyrissjóðakerfinu eða biðji um sértæka aðlögun, ef því gengur erfiðlega að uppfylla fjárhagslegar skuldbindingar sínar gagnvart sjóðunum," sagði Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur á lífeyris- og verðbréfasviði FME í grein í Viðskiptablaðinu.

Vegna mikillar skuldasöfnunar ríkisins og sveitarfélaga, sem að stórum hluta er fjármögnuð af lífeyrissjóðum, og opinberra ábyrgða á skuldbindingum lífeyrissjóða hafa sjóðirnir í raun breyst í gegnumstreymissjóði þar sem framtíðarskuldbindingar verða í auknum mæli fjármagnaðar með skatttekjum. "Hugmyndin að baki einkareknum lífeyrissjóðum er að draga úr byrði ríkissjóðs vegna þess að fleiri lifa lengur, en fjárfesti einkasjóðir í skuldabréfum hins opinbera munu lífeyrisskuldbindingar engu að síður reynast kröfur á hendur skattgreiðendum framtíðarinnar," sagði pistlahöfundurinn Buttonwood í Economist í byrjun árs 2011.

Það hefur margoft verið bent á vanda opinberu sjóðanna í Viðskiptablaðinu og kerfisbreytinguna sem er að verða á lífeyrissjóðakerfinu. Nú eru gagnrýnisraddir loksins orðnar háværari. Það tók langan tíma að byggja upp sjálfbært eftirlaunakerfi á Íslandi. En stuttan tíma að veikja tryggustu stoðirnar.¨"

Um þetta þagði Steingrímur þegar hann var að fimbulfamba um snilld sína í fjármálaráðuneytinu. Og hann er í rauninni ekki sá eini seki því kollegar hans úr öðrum flokkum þögðu líka þegar fór að draga í skaflana. Enda málið þá kannski minna að umfangi en núna er orðið. Og það vex með degi hverjum og ástandið er orðið óþolandi fyrir venjulegt fólk.

En enginn þeirra hefur þó vilja seilast í fé fólksins í lífeyrissjoðunum af jafnmikilli græðgi og téður Steingrímur. Hann beintengdi lífeyrisgreiðslur úr sjóðunum við grunnlífeyririnn 2009 og stórskerti þar með lífskjör gömlu ræflanna sem öllum er sama um nema á sjómannadaginn og 17.júni þegar pólitísku prumphænsnin gapa sem mest um framlag hinna eldri. Ef nokkur einasti ellilífeyrisþegi kýs Steingrím og Jóhönnu þá er ekki ástæða til að hlusta á þá framar. Þeim er þá mátulega í rass rekið.

Og það er því miður margt sem bendir til útbreidds dáð-og geðleysis hjá þessu svokallaða "fólkinu í landinu" ef marka má hversu hægt gengur að safna undirskriftum á www.kjosendur.is.Miklu meira púðri er eytt í vangaveltur um forsetakjörið þar sem heilalausir virðast hugsa meira um snoppur og snjáldur heldur en hvað liggur að baki.

Lífeyriskerfið er algerlega búið að ganga sér til húðar í núverandi mynd. Við sem borguðum í það í sveita vors andlits eigum nú að taka okkar lífeyri og leggja hann til opinberra starfsmanna sem engan þátt ætla að taka í byrðunum. Allskyns þorgeirar og hrafnar valsa svo um sjóðina okkar og tapa hundruðum milljarða í heimsku sinni og finnst það bara allt í lagi því að við borgum.

Hér eftir ætti að leggja öll lífeyrisgjöld á bundna og stjórnarskrárvarða reikninga á nöfnum fólks í Seðlabanka sem greiddi út að einhverju leyti erfanlegan lífeyri til viðkomandi. Sparka út öllum silkihúfunum og verkalýðsrekendum úr flottu kontórunum og loka þeim og leggja landsdómsrefsingu við sérhverjum stuldi eða tilraun til hans. Og svo er sjálfsagt að taka skattgreiðslurnar strax við inngreiðslu í sjóðina og minnka þannig áhættu ríkisins af tapi þeirra.

Lýðskrumarinn mikli er hinsvegar mitt á meðal vor og lýgur dag og nátt.Hendum honum út sem fyrst á öskuhaug sögunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 653
  • Sl. sólarhring: 668
  • Sl. viku: 5561
  • Frá upphafi: 3195180

Annað

  • Innlit í dag: 508
  • Innlit sl. viku: 4559
  • Gestir í dag: 456
  • IP-tölur í dag: 447

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband