Leita í fréttum mbl.is

Atgerfisskattur eða auðlegðarskattur

Guðmundur Franklín sem ætlar að bjóða sig fram undir merkjum hægri grænna skrifar góða grein í í Mogga. Grípum aðeins niður í henni:

Nóbelsverðlaunahafinn og hagfræðingurinn Milton Friedman sagði að fátt væri varanlegra en tímabundin stjórnvaldsákvörðun. Þetta á vel við um auðlegðarskatt vinstristjórnarinnar sem átti einungis að vera til þriggja ára en virðist því miður kominn til þess að vera. Skatturinn átti að ná til þeirra sem höfðu hagnast á eignabólunni fyrir hrun. Nú hefur skatturinn verið hækkaður, hann framlengdur og þau eignamörk sem miðað er við lækkuð. Skatthlutfallið við álagningu 2012 er 1,5% af hreinni eign á bilinu 75-150 milljónir hjá einhleypum og 100-200 milljónir hjá hjónum en 2,0% af eign umfram þessi mörk.....

....Það þarf nú ekki mikinn vísindamann til þess að skilja það að ef ósanngjarn skattur er settur á og lítið mál er að komast hjá því að greiða hann, þá velja menn síðari kostinn. Þetta sannast á því að í ár greiða 8.000 færri fjármagnstekjuskatt heldur en í fyrra. Margir hafa flúið land undan skattaálögum stjórnvalda og smærri fyrirtæki halda að sér höndum vegna arðgreiðslna. Aðrir komast hjá því að borga skattinn með því að taka peningana sína úr bankanum, eyða þeim eða stinga þeim undir koddann. Negatífir vextir eru í landinu þegar verðbólga er reiknuð inn í dæmið og er engu líkara en að stjórnvöld séu hvetja til fólk skattsvika....

.....37% skattgreiðenda eru 65 ára og eldri. 22% skattgreiðenda eru 75 ára og eldri. Yfir 66% skattgreiðenda eru með undir 5 milljónir króna í árslaun. Margir geta ekki greitt skattinn nema selja eignir
Eldri borgarar eiga erfiðara um að flýja skattpíningu vinstri stjórnarinnar, en skattinum var ætlað að auka tekjur ríkisins af vaxtagefandi eignum einstaklinga, en stór hluti eigna eldri borgara er bundinn í húsnæði sem engar tekjur eru af. Auðlegðarskatturinn er sérstaklega ósanngjarn skattur og hefur bitnað verst á tekjulágum einstaklingum sem margir hafa þurft að ganga á eignir sínar til að greiða skattinn....

Eldri hjón sem höfðu ekki tekjur til að standa skil á auðlegðarskattinum þurftu að grípa til þess ráðs að selja húsið sitt til þess að geta borgað skattinn. Hjónin höfðu búið sómaheimili í áratugi, borgað skatta, tryggingar, fasteignagjöld og aðrar opinberar álögur. Hlutabréfaeign hjónanna gufaði upp í hruninu og aðrar eignir voru af skornum skammti fyrir utan skartgripi, bíl og nokkur málverk. Fyrstu 2 árin gengu þau á bankabókina, seldu skartgripi konunnar, málverkin og bílinn. Þau trúðu vinstristjórninni að þetta væri tímabundinn skattur og treystu orðum forystumanna ríkisstjórnarinnar, en þegar í ljós kom að auðlegðarskatturinn var kominn til þess að vera urðu þau að selja húsið, öðruvísi var skatturinn ekki borgaður.

.....Kona missti manninn sinn árið 2007 og eftir að dánarbúið var gert upp átti ekkjan skuldlaust hús, bíl og 19 milljóna króna sparnað á bankabók sem hún ætlaði að lifa á plús ellistyrknum, en þau hjónin höfðu ekki borgað í lífeyrissjóð. Engar tekjur voru af fasteignunum og hún treysti á að fjármagnstekjurnar bættu sér upp takmarkaðar greiðslur frá Tryggingarstofnun. Á þeim tíma sem skatturinn hefur verið í gildi hafa eignir hennar dregist saman um sömu upphæð og hún hefur greitt í auðlegðar- og fjármagnstekjuskatt....

....Þetta er afar ósanngjarn skattur og má tala um eignaupptöku eldri borgara í því samhengi. Á síðasta ári greiddu mörg hundruð eldri borgarar meira en helming tekna sinna í auðlegðarskatt og jafnframt fjórfaldaðist fjöldi þeirra sem greiddu auðlegðarskatt sem var hærri en tekjur þeirra.

Auðlegðarskatturinn átti að falla úr gildi um síðustu áramót en ákveðið var að framlengja honum og voru eignarmörk sem hann miðast við einnig lækkuð. Þegar öllu er á botninn hvolft er hér um atgervisskatt að ræða, því þeir sterkustu geta auðveldlega komist hjá því að greiða skattinn. Nýja stjórnmálahreyfingin Hægri grænir, flokkur fólksins, ætlar að láta það vera eitt af sínum fyrstu verkum að afnema auðlegðarskattinn."

Þá vitum við hvað hægri grænir ætlaað gera. Eru einhverjir sem eru svona afdráttarlausir? Hvað ætla blágrænir að gera?

Fara ekki að skýrast línur í því hvað flokkarnir ætla að gera í skattamálum.

Í Fréttablaðinu í daga kemur svo Jóhanna Sigurðardóttir með sinn boðskap:

"....En á móti fullyrði ég að sú stefna sem ríkisstjórnin og þingmeirihluti Samfylkingar og VG hefur fylgt, hefur einmitt miðað að því að færa byrðar hrunsins á herðar hinna ríkari og um leið hlífa þeim sem lakar standa eftir megni. Aðgerðir hafa miðað að því að draga úr ójöfnuði og verja velferðarkerfið. Vísbendingar og talnagögn um að dregið hafi úr ójöfnuði þeim sem hægrimenn ýttu undir fyrir hrun tala sínu máli. Við höfum náð eftirtektarverðum árangri við að verja velferðarkerfið og lífskjör þeirra sem veikast stóðu þegar hrunið skall á. Fólkið sem aldrei tók þátt í gróðabralli bóluhagkerfisins en hefði án nokkurs vafa orðið harðast úti í afleiðingum hrunsins, ef hægrimenn hefðu verið við völd.

Það hefur verið sérstakt markmið ríkisstjórnarinnar að draga úr ójöfnuði með því að beita skattkerfinu og bótakerfinu og draga úr byrðum þeirra sem síst geta borið þær. Það hefur borið ríkulegan árangur. Árið 2010 vorum við loks í hópi þeirra 10 þjóða sem búa við minnstan ójöfnuð í heiminum en á árunum fyrir hrun stefndi Ísland hraðbyri í að verða eitt af mestu ójafnaðarlöndum okkar heimshluta. Fátt sýnir með áþreifanlegri hætti muninn á stjórnarstefnu velferðarríkisstjórnar Samfylkingar og VG og þeirra hægristjórna hér sem hafa starfað undir leiðsögn Sjálfstæðisflokksins.

Hægrimönnum er í mun að láta aukna skatta á hina tekjuhæstu líta út sem almenna vaxandi skattpíningu. Það er auðvitað fjarstæða. Reyndin er auk þess sú, að eftir því sem úr ójöfnuði dregur batnar líðan fólks og ekki aðeins það, því bætt lýðheilsa og minni tíðni glæpa virðist einnig haldast í hendur við minnkandi ójöfnuð. Við þetta staldra nú fræðimenn beggja vegna Atlantshafsins og Íslendingar finna í vaxandi mæli að þetta er rétta leiðin."

Skýrara getur það varla orðið. Jóhanna ætlar að nota skattkerfið til jöfnuðar. Það virkar að hluta til eins og Guðmundur Franklin lýsir því. Auðvitað var Jóhanna hrein mey í skattamálum þegar hún myndaði núverandi ríkisstjórn og bar enga ábyrgð á misgerðum Stóra Satans á fyrri tíð og fyrirætlunum hans í framtíðinni.

Eru aðrir með tillögur um atgerfisskatta ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 3418196

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband