Leita í fréttum mbl.is

Reykjavíkurbréf

Morgunblaðsins er kjarnyrt að þessu sinni. Og ekki er hægt að segja að þar sé skafið utanaf hlutunum né sannleikurinn ekki sagður. Og vissulega er hann ekki þægilegur fyrir alla.

Þar segir bréfritari m.a.:"

....Ekki þarf lengur um það að deila, að hið samtvinnaða íslenska bankakerfi í kringum furðu fámennan hóp eða klíkur hlaut að eiga ein sameiginleg örlög. Sá kostur var ekki fyrir hendi að einn banki færi en öðrum yrði bjargað. Meira að segja sparisjóðakerfið hafði verið sogað með og bundið örlögum hinna. Örfáa menn hafði grunað á undan öðrum að svona væri sennilega komið. Sumir þessara fáu sátu undir skipulögðu níði, sem beint var annars vegar út á við og hins vegar inn á við, að hinu pólitíska valdakerfi landsins. Og flesta langaði mjög til að trúa því að glansmyndin sem hafði verið dregin upp og ofurgróðinn sem um tíma hraut af til margra væri raunveruleiki. Þeir sem vöruðu við voru sagðir gera það af annarlegum ástæðum og jafnvel af óvild í garð þeirra sem glönsuðu helst. En grunsemdir af slíku tagi var ekki auðvelt að sanna og jafnvel ekki að byggja þokkalega undir......

......sem fóru fyrir gróðalestunum sem hrokkið höfðu af sínum teinum. Við þann hóp bættust óvænt nærsýnir sjálfskipaðir álitsgjafar og stjórnendur umræðu og reyndust nytsamir hjálparkokkar við að snúa umræðunni á haus, þegar þarna var komið. Því nytsama sakleysingja er ekki einu sinni hægt að kalla þá.

 Fyrir skömmu var upplýst að helstu fyrirferðarmenn íslensku efnahagsbólunnar sem sprakk réðu atvinnuspunameistara til að afvegaleiða umræðuna eftir »hrun« og vörðu til þess myndarlegum hluta af misvel fengnu fé sínu. Spunameistararnir sáust ekki fremur en spottamenn strengjabrúðanna, en urðu kostunarmenn annarra sem áttu ótrúlega greiðan aðgang að umræðuþáttum fjölmiðlanna, auk þess sem þeir beittu sér óspart, með öðrum aðkeyptum kröftum, á veraldarvefnum.

.....Í ljósi þessa alls má segja að það hafi litið út eins og pólitískt kraftaverk að takast skyldi að draga upp þá mynd, þegar að tjaldið lyftist af svikamyllunni, að Samfylkingin væri rétti aðilinn til að »moka flórinn« eftir Sjálfstæðisflokkinn og leiða ríkisstjórn í þeim tilgangi. (Að vísu hefur Steingrímur J. Sigfússon ítrekað gefið til kynna að vinstristjórnin hafi verið einhvers konar eins manns stjórn hans, án svefns og matar, í beinu umboði örlagadísanna).

En lykilinn að þessum undarlega öfugsnúningi á öllu því sem hafði gerst er þó ekki að finna í kraftaverki af neinu tagi. Það lögðust allir á eitt. Baugsmiðlarnir, sem lengi höfðu verið síamstvíburi Samfylkingarinnar, og eru enn, gerðu sitt til að hafa endaskipti á staðreyndunum, enda áttu tvíburarnir ríka sameiginlega hagsmuni. Allir vita hvernig Fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem rekin er fyrir nauðungaráskrift, einhenti sér í hið sameiginlega verkefni og hagaði sér eins og hún væri ráðherra án ráðuneytis í síðustu ríkisstjórn.

 

Og þannig vildi til að Morgunblaðið, undir skammlífri ritstjórn, sem tekið hafði við af Styrmi Gunnarssyni, lét ekki sitt eftir liggja, enda var aðalhugðarefni hennar að nota tímabundnar ófarir Íslands til að koma því í ESB. Sennilega er þetta einstætt í samtímasögu Íslendinga. Allir fjölmiðlar landsins, sem máli ná, voru samtaka og fylgdu takti sem handhafi einstæðrar skuldsöfnunar mets sló við að endurskrifa söguna í þágu aðila sem leikið höfðu landið svo grátt....


.....Það náðist á örfáum dögum um mánaðamótin örlagaríku að fastsetja kúrsinn sem skipti mestu. Það var mikilvægast alls á Íslandi á ögurstundu. Og það tókst áður en að Samfylkingin náði ákvörðunarvaldinu í stjórnarráðinu undir sig og komst síðar í þá sérkennilegu stöðu að þykjast verða Íslandsbjargvættur með VG. Með fyrrnefndum ákvörðunum var tryggt að Ísland kom, þrátt fyrir algjört bankafall, betur frá uppnáminu en mörg þjóð önnur, sem í holskeflinu lenti. En svo gleðilegt sem það var kom á móti að næstu ár, sem voru svo mikilvæg, fóru að mestu í súginn.

Hávaði og barsmíðar, sem ólíklegustu aðilar tóku þátt í að æsa til, skoluðu sundurlyndisöflum inn í stjórnarráðið. Icesave-samningar, hver af öðrum, og endalausar deilur um þá; svikum vafin aðildarumsókn að ESB; skrípaleikur kringum stjórnarskrá landsins og aðför að henni; Landsdómsmál og aðrar haturs- og hefndaraðgerðir smágerðra stjórnamálamanna; allsherjar stöðnun fjárfestinga, kotungsleg haftapólitík og ómarkvissar aðgerðir til að koma sér út úr þeim og minnimáttarkennd gagnvart AGS, svo fátt eitt sé talið, frestaði því alltof lengi að neikvæð áhrif bankafallsins fjöruðu út. 

Óhæfasta ríkisstjórn Íslands er á bak og burt. Í augnablikinu er það því ekki vandræðagangur af því tagi sem er háskalegasta hindrun uppbyggingar efnahagslífs á Íslandi. Hægt er að sjá fyrir sér að Ísland eitt og sér gæti verið komið í mjög góða stöðu til að grípa sín tækifæri, leggja grundvöll að bjartsýni, sem væri ekki belgingur einn, heldur á bjargi byggð og komið sér þannig á beina braut á 12-18 mánuðum.

En utanaðkomandi skilyrði kunna þó að hafa ófyrirsjánleg áhrif. Þeir sem mestu ráða í heimsbúskapnum og um það, hvort hann nái sér brátt á strik, eru ekki sannfærandi og því síður ganga þeir í takt.

Leiðtogar Evrópu gerðu ný mistök með hverjum neyðarfundinum sem þeir áttu. Þeir niðurlægðu bræðraþjóðir í vanda og keyrðu þær með efnahagslegu ofbeldi í niðursveiflu, sem illfært er upp úr og gerðu áratuga skuldaþrældóm í þágu áhættusækinna bankaglanna í Norður-Evrópu að einu framtíðarsýn í áratugi.

Flestir viðurkenna nú orðið að evran er ónýtur gjaldmiðill nema aðildarríki hennar verði þvinguð til að lúta einni efnahagslegri stjórn. Enn er þó neitað að horfast í augu við að ekki mun takast að beygja nægilega margar þjóðir í duftið, þótt tekist hafi að sverfa smám saman af fullveldi þeirra og sjálfstæði.

......... Þegar Bernanke hóstaði þessu upp úr sér hröpuðu pappírar þegar í verði og kaupahéðnum leið eins og bankastjórinn hefði boðið þeim vikugamlar ostrur í hádegismat og hlupu flestir á þá setuna. Þeir kölluðu í skyndi eftir sínum dollurum frá Kína, Indlandi og slíkum ríkjum og þá blasti við að þau lönd stefndu í ógöngur og gætu ekki áfram haldið uppi framleiðslustigi í Vesturheimi og hlutabréfin virtust því ætla að taka enn stærri dýfu. Þá guggnaði Bernanke bankastjóri og dró í land. Og þá varð aftur kátt í Kauphöllinni. Bandaríski seðlabankinn er því orðinn fangi eigin stefnu, sem hann veit og hefur vitnað um að fái ekki staðist til lengdar.

Í Evrópu eltu ríkisbankamenn hina kátu Kana og eru komnir með vextina niður í ekki neitt. Sparendur eiga því fáa kosti nema koddaverið eða að breyta aurum í steypu og búa til fasteignabólu sem ekki er innstæða fyrir. Og þá gæti niðurborandi spírallinn fljótlega farið að heilsa upp á fleiri en Grikki, Spán, Portúgal og Írland. Þegar blasir við að Ítalía er næsti kandídat. Og Frakkland er ekki langt undan. Þar er forseti við völd sem aðeins 3% frönsku þjóðarinnar treysta mjög vel. Hann hefur því enga stöðu til að blása bjartsýni og baráttuhug í landa sína.

Hið efnahagslega umhverfi Íslands, bæði nær og fjær, vekur því mjög blendnar tilfinningar um þessar mundir. Það þýðir þó ekki það að ríkisstjórnin megi draga að henda út misheppnuðum og skaðlegum úrræðum hreinræktuðu vinstristjórnarinnar, hvar sem eimir eftir af þeim. Stjórnar sem allt sveik og gekk fyrir sundurlyndi í eigin ranni, eins og Össur hefur upplýst og annars staðar, eins og allir gátu séð.

Óvissan erlendis eykur kröfuna á hendur okkur sjálfum um að draga ekki að búa enn frekar í haginn. Hún gerir óhjákvæmilegt að ekki dragist stundinni lengur að breyta um kúrs, svo Ísland eigi hægara með að standa af sér annan alþjóðlegan afturkipp í efnahagslífi heimsins, sem ekki er hægt að útiloka að geti verið skammt undan. Verði slíkum samdrætti í alþjóðlegum efnahagsbúskap á hinn bóginn forðað, munu okkar tímabæru aðgerðir skapa skilyrði fyrir heilbrigðum uppgangi og bjartri framtíð. Það bíða margir eftir slíkum skilyrðum og eru orðnir óþreyjufullir. "

Það er ekki beinlínis víst í huga bréfritarans að bjartari tíð blasi við í efnhagsmálum heimsins. Miklu fremur eru boðar greinilegir framundan. "Dáinn er dvergur, flúin hamratröll ,hnípin þjóð í vanda."

Markaðir erlendis eru á jafnvel niðurleið fyrir íslenskar afurðir og samkeppni vex á mörkuðum m.a. með eflingu í sölu á eldislaxi Norðmanna í Evrópu í samkeppni við þorskinn okkar. En lax er á boðstólum í fimm búðum á móti hverri einni sem selur þorsk eins og fram kom hjá Þorstein Má á Sprengisandi í dag.

Reykjavíkurbréf dagsins lýsir því ágæta vel hvernig fortíðin lítur út þegar rykið hefur nú sest nokkuð.

En það er varla hægt að segja að framtíðarsýnin sé sérlega björt. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Víst er að framtíðin er ekki björt í okkar hellstu viðskiptalöndum, Halldór.

Sennilega voru stæðstu mistökin að leggja allt kapp á að selja til Evrópu og lát Ameríkumarkað sitja á hakanum. Þetta gerðist varðandi fiskinn og landbúnaðarvörur. 

Sem betur fer hafa menn séð þetta og byrjað að vinna aftur markað þar vestra. Það er bara vonandi að það sé ekki of seint. 

Þá er einnig verið að vinna markaði fyrir þessar vörur annarstaðar í heiminum. Það er ljóst að Evróa er hrunin gagnvart okkur. Þar kemur fyrst og fremst til evrukreppan, en einnig mikið framboð af þorsk frá Noregi. Að ógleymdm eldislaxinum, eins og þú nefnir.

Framtíð okkar veltur því mest á því hvort okkur takist að vinna nægjanlega markaði á nógu skömmum tíma fyrir okkar vörur, utan Evrópu.

Takist það eru okkur allir vegir færir, svo framarlega að einnig takist að halda krötum og kommum frá stjórnarráðinu. 

Gunnar Heiðarsson, 17.11.2013 kl. 17:34

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Mæltu manna heilastur Gunnar. Ef Steingrímur tæki við núna væri held ég úti um okkur.

Halldór Jónsson, 17.11.2013 kl. 18:53

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Þetta reykjavíkurbréf lýsir brengluðum hugmyndum þess sem það skrifaði um einhvern raunveruleikann sem er ekki til staðar.

Auðvitað velja margir það að lifa í sæluheimi blekkingarinnar.

Ég bið samt menn um að koma aftur hingað til jarðarinnar og horfa á raunveruleikann eins og hann er...

Friðrik Hansen Guðmundsson, 17.11.2013 kl. 19:52

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Bíddu nú hægur kollege Friðrik. Ég bara næ því ekki að bréfritarinn sé ekki að lýsa raunveruleikanum. Hvar er það sem honum skjöplast svona að þínum dómi?

Halldór Jónsson, 17.11.2013 kl. 20:31

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Evrusvæðið núna

- ónýtt myntsvæði ónýtrar myntar

Kreppuþróun evrusvæðis Evrópu núna og Stóru kreppunnar 1930 í Evrópu

Einstakt afrek Evrópusambandsins

Mynd Paul Krugman; alelda kreppuferli evrusvæðis Evrópusambandsins er verr statt en 1930-kreppuferlið sem leiddi Adolf Hitler til valda í Evrópu

Lenín í gömlu Sovétríkjunum 

Kveðjur

 

 

Gunnar Rögnvaldsson, 17.11.2013 kl. 20:49

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir þessa ábendingu Gunnar. Ég á eftir að heimsækja þessa síðu oftar sem Krugman vísar til. Já þetta lítur ekki vel út eins og nefnt er í Reykjavíkurbréfinu

Halldór Jónsson, 17.11.2013 kl. 23:02

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Blessaður Halldór minn, stjórnmálafólk mun halda áfram að henda sér nakið að ofan fyrir bifreiðar öskrandi ESB, ESB! Þess utan vita fæstir þeirra hvað L.O.N var. Efast um að einn fimmti þingmanna viti hvað það var.

Svo munu þeir einnig segja: "já en þetta er þvaður því svo kom "rearmament" inn í myndina". En myndin er þó sönn því stimulus er stimuls, no matter what - og þess utan krefst "rearmament stimulus" langs tíma til að seytla út í þjóðhagsreikninga. Lengri tíma en flest annað.

Já Reykjavíkurbréfið er gott. Of gott til að vera ekki framboði.

!"#$#"$&$#% 

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 18.11.2013 kl. 00:32

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Og - 

- Flestir ganga einnig með þær hugmyndir í skóm sínum að "The Great Depression" hafi átt upptök sín í Bandaríkjunum. En svo var ekki. Hún átti upptök sín í Evrópu með falli Kreditanstalt. Hrun á hlutabréfamakraði Wall street 1929 er ekki það sama og "The Great Depression", þó svo að þetta sé tengt.

Hollt er að heimsækja Kredit-Anstalt-Hörpuna í höfninni í Reykjavík aðeins aftur - og hlýða á Simon Jonhson:

The End Of The Euro: A Survivor's Guide, eftir Simon Johnson og Peter Boone 

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 18.11.2013 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband