Leita í fréttum mbl.is

Mátti selja vörumerkið "Icelandic?

er inntakið í ágætri grein hins góða konsúls Þóris Gröndals á Flórídu. En Þórir starfaði mestan hluta lífssíns að fisksölu undir merkjum Íslands.

Það er eðliðegt að hann Þórir velti því fyrir sér hvernig bréfaguttarnir fóru með fisksölufyrirtækin í USA  sem Íslendingar höfðu byggt upp í eina tvo aldarþriðjunga fyrir þessa atburði.

Aðgerðir þessara nýríku kvótatengdu bréfagutta  höfðu líka þá geopólitísku þróun í för með sér að Íslendingum var beint í meira mæli til Evrópu menningarlega og viðskiptalega með þeim afleiðingum að kratismanum hér heima óx meiri fiskur um hrygg en hugsanlega hefði annars verið. Afleiðingarnar eru óræðar.En uppgangur á vinstri vængnum hefur ávallt í för með sér svik eins og menn sáu þegar VG vildi fara í Evrópusmabandið þvert á loforðin, flokkafóru sveimhuga á Alþingi og skort á stefunfestu í stjórnmálum.

En Þórir skrifar svo í Morgunblaðinu í dag: 

 

"Æ, æ, það var nú meira ólánið fyrir strákagreyin hjá Icelandic Group, að þetta hvalavesen skyldi einmitt núna þurfa að koma upp í henni Ameríku. Salan á dótturfyrirtækinu, Icelandic USA, til kanadísku keppinautanna, High Liner Seafood, í nóvember 2011 var alveg að gleymast. En nú verður þetta allt rifjað upp aftur.

 

En hvað áttu þeir annars að gera, strákarnir í Íslenzku Grúppunni? Einhvern veginn, áður en þeir vissu af, var fyrirtækið orðið skuldum vafið og gjaldþrot blasti við. Kanadamenn buðust til að hjálpa þeim með því að taka dótturfyrirtækið í Ameríku yfir, og meira að segja lofuðu þeir að tryggja, að markaðsaðgangur íslenzkra framleiðenda yrði sá sami og áður. Ofan á allt annað ætluðu þeir, af góðseminni einni saman, að halda á lofti vörumerkinu, Icelandic í heil 7 ár.

 

Allir vita, að þjóðirnar, sú íslenzka og sú kanadíska, eru tengdar vináttuböndum. Í Kanada er allt fullt af Vestur-Íslendingum, sem borða vínartertu, klæða sig í peysuföt og bjóða íslenzkum ráðamönnum á fullveldishátíðir sínar til að halda ræður um vináttu landanna. Og Icelandair er komið þar með eina fimm áfangastaði. Hverjum getum við treyst ef ekki Kanadamönnum, sögðu Grúppararnir.

 

En nú er bezt að sleppa öllu gríni, því allt er þetta ferli þyngra en tárum taki. Þegar salan var tilkynnt, 2011, var eitt aðalatriðið, að markaðsaðgangur Íslendinganna yrði sá sami og áður. Í Moggagrein, sem höfundur ritaði á þeim tíma, líkti hann því loforði við það, að Ísrael myndi lofa að gæta hagsmuna Palestínu úti í heimi. Annars skal viðurkennt, að fréttir af efndum þessa loforðs hafa verið af skornum skammti. Það er eins og seljendur Icelandic USA hafi sem allra minnst viljað minnast á málið. Eins og þeir hafi helzt viljað, að það gleymdist sem fyrst.

 

En nú kemur í ljós, að kanadískir eigendur High Liner Seafoods eru ekki bara vinir Íslands heldur líka hvalanna. Þeir ætla að beygja sig fyrir vilja hvalavinafélagsins í Ameríku og hætta að kaupa fisk frá hinum vondu, íslenzku hvaladrápurum. Og hvað skyldi þetta nú þýða? Líklega að High Liner þurfi ekki lengur að standa við loforðið um tryggingu markaðsaðgangs. Er þá endanlega búið að ganga af dauðri 65 ára markaðsuppbyggingu Íslendinga í Ameríku?

 

Á undanförnum áratugum, þegar Íslendingar áttu bæði Coldwater og Iceland Seafoods, blossuðu alltaf öðru hvoru upp mótmæli hvalavina í Ameríku. Þeir reyndu að fá fólk til að hegna okkur með því að kaupa ekki íslenzka fiskinn. En það var ekki auðvelt, því meirihluti hans var seldur á fjölfæðismarkaði en ekki í smásölu. Uppruni fisks sem búið er að elda á veitingahúsi er ekki eins augljós og þess sem er til sölu í matvörubúðum. Íslendingarnir stóðu þessar árásir alltaf af sér og sköðuðust ekki. Þeir héldu líka uppi fræðslustarfsemi um hvalveiðar okkar í gegnum umboðsmenn sína og kaupendur. Vildarvinir okkar, Kanadamenn, hafa víst ekki mikinn áhuga á að aðstoða okkur á þessu sviði.

 

Halda hefði mátt, að hið opinbera hefði fylgst með, þegar spurðist um áform Icelandic Group að selja Icelandic USA. Allir, sem eitthvert vit höfðu á þessum málum, vissu, að hér var um áríðandi hagsmuni þjóðarinnar að tefla. Ekki er vitað, hvað vakti fyrir ráðamönnum landsins. Reyndar var sú stjórn, sem þá sat að völdum, mjög evrópusinnuð og sögð hafa haft lítinn áhuga á að efla samband við Bandaríkin. Og ráðherrarnir, eins og þeim er títt, uppteknir við að ferðast til útlanda og halda ræður til að bjarga heiminum. Þegar þetta gerðist virðist Palestína hafa verið ofar í hugum þeirra, sem utanríkismálum réðu, heldur en Icelandic USA.

 

Jafnvel í hinni vondu Ameríku hafa stjórnvöld vit á að reyna að fylgjast með einkaframtakinu og því sem það er að baksa. Öðru hvoru kemst í fréttir, að hið opinbera hafi stöðvað samninga amerískra fyrirtækja um sölu til erlendra aðila á eignum eða tækniþekkingu, sem talið var að skaðað gæti þjóðarhagsmuni. Eina dæmið frá Íslandi, sem líkja mætti við þetta, var þegar fimmstjörnu Kínamanninum var meinað að kaupa landspildu uppi í sveit.

 

Segja má, að lítið þýði að vera að býsnast yfir því sem er búið og gert. Samt er það þannig, að stundum geta menn ekki orða bundist. Ekki er ritari hæfur til að dæma um, hvort 230 milljónir dollara, eða 26,2 milljarðar króna, voru sanngjarnt verð fyrir Icelandic USA. Allar eignir, birgðir og rekstur í Bandaríkjunum og reyndar Asíu, markaðskerfi með um 100 umboðsmönnum og allt að 1.000 viðskiptavinum. Andvirðið er minna en 10% af 270 milljarða heildartapi Íbúðalánasjóðs samkvæmt skýrslu rannsóknarfólks Alþingis.

 

Margir ómerkilegri atburðir en salan á Icelandic USA hafa verið teknir til rannsóknar á Íslandi. Einhver hinna mörgu fjölmiðla í landinu ætti að taka sig til og senda fólk út af örkinni til að rannsaka allt það ferli, bæði á Íslandi og í Ameríku. Niðurstaðan gæti ef til vill hjálpað til að fyrirbyggja slík ofurafglöp í framtíðinni."

Þarna er staðan í hnotskurn:

Kvótatengdu bréfaguttarnir seldu vörumerkið "Icelandic" til Kanada. Kanada ætlar ekki að kaupa eir fisk frá Iceland vegna hvalveiðanna. Fiskur undir vörumerkinu  og með fánalitunum Icelandic er ekki íslenskur.

Má ég selja íslensk vegabréfið mitt?

 Má ég selja ríkisborgararétt minn?

Má ég selja Nubo Grímstaði á fjöllum?

Hvað má ég ekki selja? 

 

 

 

 





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 3418212

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband