Leita í fréttum mbl.is

ÍSLAND Í NATO

og herinn kjurt hrópuðum við á móti í huganum að minnsta kosti þegar Svavar Getsston þá kommúnisti og síðar sendiherra þjóðarinnar dansaði um sviðið í Sigtúni, sló saman lófunum  og æpti kjörorðið þeirra kommanna.

Ég minntist þessa þegar ég las afbragðs grein Vilhjálms A. Kjartanssonar í Morgunblaðinu í dag. Það er þörf upprifjun á stöðu Íslands og Íslendinga í heiminum. Þessu vilja kratar henda frá sér, galopna land sitt fyrir hverjum sem er og framselja fullveldið til Brüssel. Þessvegna fannst mér þessi grein athyglisverð og uppörfun til okkar hægri manna að láta hvergi deigann síga:(bloggari feitletrar að vild sinni)

"Aldrei nokkurn tímann í sögu okkar litla lands hafa örlög fólks verið jafn samofin okkar eigin ákvörðunum. Laus frá hlekkjum kúgunar og alræðis og í faðmi velmegunar frjálsra viðskipta og einstaklingsfrelsis erum við herrar okkar eigin lífs. Reglulega minna þó örlögin á sig að enginn veit sinn vitjunartíma. Fórnarlömb hryðjuverka og stríðsátaka hvorki búast við né bjóða upp á árekstur við hið illa. Kringumstæður ráða því oft að hlutskipti fólks og örlög eru ekki alltaf í eigin höndum. Friður á grundvelli velmegunar, frelsis og mannréttinda er hvorki sjálfsagður né auðunninn og andstöðunni við alræðishyggju og ofbeldismenn lýkur aldrei.

 

Á stöðugu varðbergi með öðrum vestrænum þjóðum hafa Íslendingar verið þátttakendur í samstarfi frjálsra lýðræðisríkja um frið og velmegun í Evrópu og um allan heim. Aldrei hefur stærð eða máttur verið sterkasta vopn Íslands, heldur staðfesta okkar, lýðræðishefð og vestræn samvinna. Vera Íslands í NATO er frumforsenda öryggi landsins og frelsi, vinátta og samstarf við Bandaríkin hefur verið okkur gæfuríkt og samstarf innan Evrópu, þó við kjósum réttilega að vera utan Evrópusambandsins, verið okkur lífsnauðsynlegt.

 

Á víðsjárverðum tímum þegar yfirgangsseggir virða ekki fullveldi og sjálfstjórn nágranna sinna, sannast það að vestræn gildi og samvinna er hornsteinn öryggis og frelsi samfélagsins. Engin ákvörðun í sögu þjóðarinnar hefur tryggt öryggi landsins með jafn víðtækum og skýrum hætti og inngangan í NATO því herlaus alla okkar lýðveldistíð hefur Ísland hvorki verið vanmáttugt né áhrifalaust á alþjóðavettvangi. Með bandamenn okkar við hlið hefur Ísland markað spor sín í veigamiklum málum og hefur lagt lóð á vogarskálarnar þegar ákall berst um mannúðaraðstoð eða lausn flókinna deilumála. Að standa hlið við hlið með þjóðum sem deila þeim gildum með okkur að allir einstaklingar skuli njóta grundvallarmannréttinda sem m.a. eru fólgin í tjáningarfrelsi, trúfrelsi og rétt til eigna sinna gerir okkur kleift að vera boðberi sömu gilda um allan heim. Staða Íslands er fáheyrð í veraldarsögunni, sjaldan eða aldrei hefur jafn fámennt land haft eins víðtæk áhrif á alþjóðavettvangi. Tökum því ekki sem sjálfsögðum hlut.

 

Það er nokkuð síðan það datt úr tísku að tala um vestræna samvinnu. Fall Sovétríkjanna gerði okkur værukær en það hafa alltaf verið til þeir sem minna okkur á mikilvægi samstarfs og samvinnu við önnur vestræn ríki. Á fundi um friðar- og varnarmál sem ég sótti fyrir nokkrum árum tók Jón Hákon Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri KOM, til máls og benti gestum fundarins á að þó að markaðir í Kína heilli og frjáls viðskipti gætu opnað dyrnar fyrir mannréttindi, einstaklingsfrelsi og lýðræði í Kína, mætti aldrei gefa afslátt á þeim gildum sem við stöndum fyrir og aldrei gleyma þeim bandamönnum sem tryggja þau með okkur. Jón andaðist fyrir viku síðan og er mikill missir af honum. Fyrir hann og alla aðra sem á undan honum komu, höldum áfram að tryggja frið, frelsi og mannréttindi við hlið vinaþjóða okkar og bandamanna. "

Hér er skörulega að orði komist og hollt fyrir okkur að rifja þessi grunngildi upp. Alræðis-og ofstjórnarhyggjan er aldrei langt undan og má minnast nýliðinnar ráðherratíðar Steingrím J. Sigfússonar í því sambandi. Skemmdarverk hans í þjóðlífinu voru með þvílíkum  ósköpum að mörg ár tekur að vinda þau öll til baka. Sum verkin hans  verður aldrei hægt að bæta og ekki er séð fyrir að núverandi ríkisstjórn endist aldur til allra þeirra hreingerningastarfa sem bíða eftir þennan mann.

En mestu skiptir að kommúnistar breyttu ekki  ÍSLAND Í  NATO þótt herinn sé burt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristmann Magnússon

"Laus frá hlekkjum kúgunar og alræðis og í faðmi velmegunar og frjálsra viðskipta".? ? ? Hvað með alla tollana og vörugjöldin sem eru hér þau hæstu í vestrænum löndum og jafnvel þótt víðar sé skoðað og hvað með þessi "frjálsu viðskipti" t.d. með landbúnaðar og iðnaðarvörur. - Svínakjöt og kjúiklingakjöt er ekki landbúnaðar framleiðsla heldur iðnaður og ekki er frjáls viðskipti með þær vörur frekar en aðrar landbúnaðarvörur

Það eru ekki frjáls viðskipti hér á meðan landbúnaðar mafían ræður öllu um innflutning á þessum vörum.

Kristmann Magnússon, 25.7.2014 kl. 18:04

2 Smámynd: Þorkell Guðnason

Ég tek undir Dóri og ætla gera eftirfarandi orð að mínum:

"Staða Íslands er fáheyrð í veraldarsögunni. Sjaldan eða aldrei hefur jafn fámennt land haft eins víðtæk áhrif á alþjóðavettvangi.

TÖKUM ÞVÍ EKKI SEM SJÁLFSÖGÐUM HLUT."

OG...:

"Hér er skörulega að orði komist og hollt fyrir okkur að rifja þessi grunngildi upp. Alræðis- og ofstjórnarhyggjan er aldrei langt undan..."

Beini svo orðum mínum til Mannsa,

sem skellir skuld á það sem hann nefnir "landbúnaðar mafíuna" Eftir að hafa um árabil selt fjölmörgum kollegum þínum þekkingu mína í tolla og verðlagsmálum og varið hagsmuni þeirra með kjafti og klóm, hef ég dýpri sýn á vandann en þá mynd sem þú setur fram.

Landbúnaðurinn skiptist nefnilega í margar greinar sem standa afar misjafnt að vígi.

Eitt lítið dæmi: Innkaupastjórar stóru smásölukeðjanna stjórna að mestu, aðgengi framleiðenda að markaðnum og nýta þá stöðu til að skammta verð til framleiðendanna t.d. á kartöflum og útiræktuðu grænmeti ( slíkt reynir augljóslega á siðferðisstyrk, svipað og að selja teygju í metravís)

Þótt hver slíkur annist sameiginleg innkaup til tuga verslana, er framleiðendum meinað að sameinast um sölu afurða sinna til þeirra - ÞAÐ er kallað VERÐSAMRÁÐ og telst brot á samkeppnislögum !!

Hún er því mörg "mafían" ef vel er að gáð - og mér er mjög til efs að landbúnaður sitji þar við háborðið.

Þorkell Guðnason, 26.7.2014 kl. 00:15

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Góðir punktar Þorkell,mig grunaði að framleiðendur grænmetis og kartaflna ættu ekki básana í stórmörkuðunum. Ég leita alltaf eftir íslensku afurðunum og rek áróður innan fjölskyldna barnanna fyrir því,að kaupa þær frekar.

Helga Kristjánsdóttir, 26.7.2014 kl. 01:47

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Ætli verði ekki bara ein tegund af hvoru, hvítvíni og rauðvíni í Bónus? Man enginn þá tíma að eina hvítvínið sem menn þekktu var brilliant hvítvín og var notað í afréttara. Maður vissi ekki að til væru aðrar tegundir

Halldór Jónsson, 26.7.2014 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband