Leita í fréttum mbl.is

Vilhjálmur Bjarnason

skrifar skemmtilega grein í Mbl. í dag.

Þar tilfærir hann dæmi um hvernig menning víxlfrjóvgast með því að hæfir menn geri hana aðgengilega fyrir fleiri.

Hann birtir athyglisverðan samanburð texta Runebergs og Gríms Thomsens á því íslenskasta af öllum íslenskum ættjarðarkvæðum, Heyrið vella .... sem er bein þýðing á texta Runebergs. 

 

 

Hör hur härligt sången skallar, 

mellan Wäinös runo hallar. 

Det är Suomis sång. 

Det är Suomis sång. 

Hör de höga furorna susa, 

hör de djupa strömmar brusa, 

det är Suomis sång.

Det är Suomis sång.

 

  

Heyrið vella á heiðum hveri, 

heyrið álftir syngja í veri: 

Íslands er það lag. 

Heyrið fljót á flúðum duna, 

foss í klettaskorum bruna: 

Íslands er það lag.

 

Mér finnst nú Grímur betri og meitlaðri í orðsnilld íslenskunnar.

 

Svo kemur kafli sem er annars eðlis en getur tengst þeim greinarmun sem Íslendingar gera á skáldum og þeim persónum sem að baki búa. Menn minnast þess Að enginn talaði við Einar Benediktsson sjálfan á Þingvöllum þó að hann hefði verið hylltur sem skáldkonungur Íslands. Þeim var ek verst er ek unna mest sagði Guðrún Ósvífursdóttir í elli sinni. 

Vilhjálmur minnir síðan á hver sé munurinn á stjórnmálamanninum Ólafi Ragnari Grímssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni Forseta. Vilhjálmur veltir fyrir sér hvort sama persónan sé endilega að baki báðum gervunum. 

Vilhjálmur segir:

 

..."Þá var á dögum stjórnmálamaður, sem hét Ólafur Ragnar Grímsson. Hann virðist löngu horfinn af sjónarsviðinu og enginn man hann lengur. Ellegar að hann hefur umpólast. Sá bar fram þingsályktunartillögu um rannsókn með 15 spurningum, sannkallaður rannsóknarréttur;

 

»Tillaga til þingsályktunar um rannsóknarnefnd þingmanna til að kanna rekstur, fjárfestingar og fargjalda- og farmgjaldaákvarðanir Flugleiða hf. og Eimskipafélags Íslands hf. með sérstöku tilliti til einokunaraðstöðu og markaðsdrottnunar þessara fyrirtækja.«

 

Framsöguræðan var löng, uppfull af dylgjum með svörum, sem gerði alla rannsókn ónauðsynlega.

 

Ein fullyrðing var þessi:

 

»Þróun fyrirtækisins mótast nú að mestu leyti af alþjóðlegum viðskiptahagsmunum flókinnar fyrirtækjasamsteypu, sem virðist leggja æ meiri áherslu á hinn alþjóðlega samkeppnismarkað, ekki þjónustumarkaðinn við íslenskan almenning.«

 

Ein ályktunin var þessi;

 

»Sú alþjóðlega útþensla, sem einkennt hefur vöxt Flugleiða á sl. árum, gerir það að verkum, að fyrirtækjasamsteypan er nú orðin svo margbrotin að hún skapar verulega möguleika á flutningi rekstrarfjár og eignarmyndunar frá hinum íslensku þáttum rekstrarins og til hinna erlendu þátta í fyrirtækjasamsteypunni.«

 

Ein umsögn um fjárfestingu Flugleiða hf. í flugvél, nánar tiltekið DC 10:

 

»Þegar um svo afgerandi fjárfestingu er að ræða, - fjárfestingu sem er í sama »klassa« og hin þekkta og sumir mundu segja illræmda Kröfluvirkjun landsmanna.«

 

Svo kom markmiðið berlega fram;

 

»Í flestum þessara landa hefur forræði kjörinna fulltrúa þjóðarinnar yfir mikilvægustu greinum samgöngukerfisins verið tryggt á þann hátt, að opinberir aðilar hafa ýmist að öllu leyti eða á afgerandi hátt verið eignaraðilar að mikilvægustu samgöngufyrirtækjunum, og er þannig leitast við að tryggja að samgöngukerfið þjóni hverju sinni almennum þjóðhagssjónarmiðum og velferðarsjónarmiðum fólksins í landinu. Hér á landi hefur hins vegar orðið sú þróun, að öflugustu fyrirtækin í samgöngukerfi þjóðarinnar eru einkafyrirtæki, og hefur mikilvægi þessara fyrirtækja aukist til muna á allra síðustu árum.«

 

Í viðtali við dagblaðið Vísi spyr blaðamaður; »Hvernig ætti slík þjóðnýting að fara fram?« Stjórnmálamaðurinn svarar: »Fyrsta skrefið í þeim efnum gæti verið að skilja á milli þeirra flugsamgangna sem ég tel að séu nauðsynlegar fyrir öryggi landsins og þjóðarhag. Þar á ég bæði við flugsamgöngur innanlands og utan sem yrðu þá reknar af opinberum aðilum, en einkaaðilunum yrði látið eftir áhættuflugið, ef þeir vilja frekar það flug áfram.«

 

Rannsóknarnefnd Alþingis var aldrei skipuð, en hirðsveinar stjórnmálamannsins hófu einkarannsókn.

 

 

Vissulega átti eftir að syrta í álinn hjá Flugleiðum hf. Ekki var það vegna þeirra sem stjórnuðu félaginu. Allur flugheimurinn stóð á heljarþröm. Stjórnendurnir brugðust við og höfðu betur. Endurreisnin endaði með algerri endurnýjun á flugvélakosti. Á þeim flugvélakosti byggist reksturinn enn í dag.

 

Ekki er víst að forseta Íslands hefði hlotnast sú virðing að veita Icelandair þann heiður sem fylgir útflutningsverðlaunum forseta Íslands ef þessi þjóðnýting hefði náð fram að ganga.

 

Stjórnendur félagsins hafa utan einu sinni verið gæfufólk. Það ber að þakka og virða. Að því býr íslensk ferðaþjónusta í dag. Icelandair á heiðurinn og vegsemdina skilið."

Það eru spurning sem íslenskir kjósendur verða að spyrja sjálfa sig við næstu Forsetakosningar, hvort kjósum við heppilegan leikara í hlutverk Forseta eða mann með ákveðinn gamlan karakter eða spánýjan karakter fægðan í stormum sinnar tíðar.

Ég kaus Ólaf Ragnar síðast vegna heits sem ég vann í sambandi við seinni Icesave-atkvæðagreiðsluna. Mér finnst þau Forsetahjónin hafa staðið sig frábærlega vel og er  þá hlutur Dorritar ekki minni. Ég kem ekki auga á neinn annan kost í stöðunni en að þau verði bara áfram.

En ég veit ekki alltaf hvað hann Vilhjálmur Bjarnason hugsar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 3418160

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband