Leita í fréttum mbl.is

Rógtungan rassskellt

í grein Óla Björns í Morgunblaðinu í dag.

 

Þar fer hann ofan í saumana á málflutningi Ögmundar Jónassonar sem menn hafa mikið látið afskiptalausan fyrir skrif sín. Hvort það sé  helst af því að þar er oftlega lítið bitastætt að finna eða að menn geri minni kröfur til Ögmundar fremur en annarra vinstrimanna um heiðarlegan málflutning? Þeim séu ómerkilegheitin svo í blóð borin að það sé ekki til neins að leiðrétta þá?

En fyrr má fylla en útaf flóir. 

Óli Björn dregur fram nokkur atriði sem honum ofbjóða í nýlegum rógburði þessa Ögmundar.

"... Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og fyrrverandi ráðherra, fer með möntru júlímánaðar í Morgunblaðsgrein síðastliðinn mánudag;

Sjálfstæðisflokkurinn vill eyðileggja heilbrigðiskerfið, einkavæða allt, afhenda gróðapungum sjúklinga og láta ríkið borga.

Ég er þess fullviss að Ögmundur Jónasson trúir flestu sem hann skrifar en varla öllu.

Stundum skrifar hann til „heimabrúks“ fyrir félaga sína og skoðanasystkini. Skrif af því tagi eru eðlileg og oft nauðsynleg í innanflokksátökum og deilum. En þótt „heimabrúks-skrifin“ séu rekin áfram vegna innanmeina geta menn ekki leyft sé að beita hvaða meðulum sem er.

Ögmundur ákvað að fara niður í svað aðdróttana og samsæriskenninga.

Með ódrengilegum hætti dylgjar hann um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Úr verður risastórt samsæri. Í boði ríkisstjórnarinnar gæti „draumur frjálshyggjunnar um alvöru markað á sviði sjúkdóma og lækninga verið að rætast“.

Ögmundur fellir dóm yfir tugum einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og segir að um brask sé að ræða.

Sérstaklega er Ögmundi illa við fyrirtækjasamstæðu sem hann tekur fram að sé undir stjórn fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ (heimabær Bjarna Benediktssonar og eitt helsta vígi sjálfstæðismanna) og formanns Fjármálaeftirlitsins en vanhelgi hans er að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa skipað viðkomandi í stöðuna. Þannig er samsærið fullkomnað.

Engu skiptir þótt ríkisstjórnin sem Ögmundur sat í hafi tekið fyrstu skrefin og samið við umrædd fyrirtæki. Slík smáatriði mega ekki þvælast fyrir þegar höggið er til andstæðinga.

Ögmundur þekkir formann Sjálfstæðisflokksins betur en svo að hann trúi bulli sínu og rógburði. Það hentar hins vegar ekki í valdabaráttu innan VG að gæta sanngirnis eða láta pólitíska andstæðinga njóta sannmælis.

Þess vegna getur Ögmundur aldrei vitnað t.d. í ræðu Bjarna Benediktssonar á landsfundi í febrúar 2013, þar sem hann sagði meðal annars:

„Ef dugandi lækna og hjúkrunarfólks hefði ekki notið við á Landspítalanum hefði ég getað misst bæði konu og barn fyrir rúmu ári. Á slíkum örlagastundum verður forgangsröðunin skýr. Þá veit maður hvernig þeim líður sem hafa örugga heilbrigðisþjónustu utan seilingar, vegna fjarlægðar, samgöngu- örðugleika eða manneklu. Við þurfum að forgangsraða upp á nýtt til að geta tryggt öryggi og að- gengi að heilbrigðisþjónustu. Það er grundvallarhagsmunamál okkar allra.“

Ætlar Ögmundur Jónasson að halda því fram að hér hafi formaður Sjálfstæðisflokksins talað sér þvert um geð – reynt að slá ryki í augu 1.500 flokksmanna sem hlýddu á ræðuna og um leið blekkt aðra landsmenn?

Hversu langt langt niður ætlar fyrrverandi ráðherra að draga umræðuna? Eru engin mörk?

Það er illa komið fyrir góðum og sönnum baráttumanni. Mér þykir það miður því ég hef ekki reynt Ögmund Jónasson að öðru en góðu, þótt hann geti verið erfiður í horn að taka, fastur fyrir og við oftar en ekki ósammála.

Ögmundur skrifar í Morgunblaðið sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Því embætti gegndi hann frá 1. febrúar 2009 til október sama ár. (Hann varð innanríkisráðherra í september 2010, eftir að klæði höfðu verið borin á vopnin innan VG.)

Sem ráðherra heilbrigðismála undirbjó hann fjárlagafrumvarp 2010 og hann studdi alltaf stefnu vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna í ríkisfjármálum og þar með hvernig staðið var að fjárveitingum til heilbrigðismála.

Það er ekki úr vegi að draga fram nokkrar staðreyndir sem Ögmundur gæti hugleitt þegar hann semur nýja möntru um heilbrigðismál og Sjálfstæðisflokkinn.

Að raungildi var framlag til heilbrigðismála um 28,5 milljörðum króna lægra árið 2012 en 2009.

Að raungildi var framlag til sjúkrahúsa um 6,9 milljörðum lægri 2012 en 2009.

Framlög til Landspítalans lækkuðu verulega í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og VG. Þau voru liðlega 4,3 milljörðum lægri 2012 en 2009.

Á síðasta ári voru framlög til Landspítalans um 5,5 milljörðum hærri en árið 2012 og um 1,2 milljörðum hærri en 2009 að raungildi.

Framlag til Sjúkrahússins á Akureyri (FSA) lækkaði að raungildi um 310 milljónir frá 2009 til 2012.

Á síðasta ári var framlag til FSA hins vegar 730 milljónum hærra en 2012 og 420 milljónum hærra en 2009.

Í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og VG hækkaði kostnaðarhlutdeild sjúklinga.

Hlutdeild heimilanna í heilbrigðisútgjöldum hækkaði verulega og hefur aldrei verið hærri en í tíð vinstristjórnar.

Lægst var hlutdeildin 2008 þegar sjálfstæðismenn stýrðu forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu.

Við eigum mikið verk óunnið við að byggja upp og treysta innviði heilbrigðiskerfisins. Um það verður ekki deilt. Eftir niðurskurð Ögmundar og félaga í heilbrigðismálum hefur blaðinu verið snúið við, en betur má ef duga skal.

Í liðinni viku hélt ég því fram hér á þessum stað að heilbrigðismálin verði helsta kosningamálið vorið 2017. Ögmundur Jónasson hefði lítinn skaða af því að lesa þá grein.

Hann kæmist a.m.k. að því að eitt af grunnstefjum sjálfstæðisstefnunnar er að tryggja öfluga og góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla, óháð efnahag, stöðu eða búsetu.

Formaður Sjálfstæðisflokksins orðaði þetta með einföldum en skýrum hætti:

„Það er grundvallarhagsmunamál okkar allra.“ 

Einhverjum hefði getað dottið í hug hugtakið sem flokksbróðir Ögmundar og síðar Forseti myndaði á Alþingi þegar hann vildi lýsa lyndiseinkunn formanns Sjálfstæðisflokksins.

Er hún víðs fjarri þegar maður veltir fyrir sér lyndiseinkunn rógtungna almennt?

Óli Björn er sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem mest og best berst í hugsjónabaráttunni. Mér finnst nær að hugleiða hvort sé betra fyrir Sjálfstæðisflokkinn að velja sér varaformann til að sinna innra starfi sem hefur sannað sig í eldi en eitthvað puntfólk sem er ekki þekkt af athafnasemi í áróðri.

Óli hafi þökk fyrir þessa þörfu rassskellingu rógsins.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Óli Björn stendur vel fyrir sínu og alltaf áhugavert ad lesa greinar hans. Synd ad ekki skuli vera fleiri slíkir innan flokksins.

Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 30.7.2015 kl. 18:18

2 Smámynd: Halldór Jónsson

 Segjum tveir nafni

Halldór Jónsson, 30.7.2015 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband