Leita í fréttum mbl.is

Bjart framundan

var megin þemað í ræðu Seðlabankastjóra á ársfundi bankans. Ytri skilyrði hafa verið hagstæð og veldur olíuverðslækkunin ekki minnst þar um. Aukningin í ferðamannaiðnaðinum hefur verið ótrúleg. Margt hefur breyst í viðskiptaumhverfinu innanlands. 

"Öfugt við mörg fyrri tímabil fullrar atvinnu er bæði ytra og innra jafnvægi þjóðarbúskaparins enn þokkalegt."

"...Áhætta í fjármálakerfinu hefur minnkað verulega á síðustu árum þar sem viðnámsþróttur þess hefur aukist eins og hann birtist í eiginfjárstöðu þess og fjármögnun, og þá er laust fé miðað við umsvif mun meira en var fyrir fjármálakreppuna. Eigið fé þriggja stærstu viðskiptabankanna var í lok síðastliðins árs 669 ma.kr. Eiginfjárhlutföll bankanna hafa hækkað um nær þriðjung síðan 2010, eða úr 21% í 28%.

Raunaukning eigin fjár á þessu tímabili nam um 180 ma.kr. Verulega hefur einnig dregið úr gjaldeyrisójöfnuði bankanna og regluverk kemur í veg fyrir of mikla áhættutöku í erlendum gjaldmiðlum. Þá hefur áhætta tengd lántakendum minnkað samfara efnahagsbata og hraðri skuldalækkun en í lok síðastliðins árs voru heildarskuldir bæði heimila og fyrirtækja komnar niður á svipað stig og á árinu 2000."

Már Guðmundsson ræddi ýmis atriði úr þessari ræðu í þættinum á Sprengisandi í dag. Þar hafði hann meðal annars vakið athygli á samfélagslegri ábyrgð bankakerfisins. Um það sagði m.a. í ræðunni:

" Það næsta er menning og siðferði. Í alþjóðlegri umræðu er víða mikið lagt upp úr því að umbætur eftir fjármálakreppuna nái ekki til lengdar tilgangi sínum nema í þeim efnum verði breyting til batnaðar frá því sem var fyrir kreppu. Mér sýnist að umtalsverð bragarbót hafi þegar átt sér stað hér á landi. En það má gera betur og þetta er langtímaverkefni.

Það þarf líka að festa í sessi þann skilning að stjórnendur innlánsstofnana hafa ekki einungis það hlutverk að hámarka hagnað til skamms tíma heldur eru þeir eins og kerfið er nú byggt upp gæslumenn almannagæða sem eru þeir sameiginlegu innviðir sem fólgnir eru í kerfinu."

Hugsanlega er Seðlabankastjóra nær skapi að ríkiseignarhald sé á bönkum en það er ýmsum sanntrúuðum frjálshyggjumönnum. Hvað sem því líður þá er það rétt hjá Seðlabankastjóra að rúm sé fyrir önnur sjónarmið innan bankanna núna en þau voru við einkaeign þeirra.

Tveir af þremur stærstu viðskiptabönkunum eru nú í eigu ríkisins svipað og áður var hér á landi.   Hver á Arion banka veit ég ekki. En hvernig á að stjórna þessu?

Það sem af er takast siðferðishugmyndir í bankaráði Landsbankans og bankasýslunni á við stjórn bankans. Hvað almenningi finnst er svo enn annað.Er það svo að framtíðin liggji í pólitískum bankaráðum og stjórnum í bankakerfi þjóðarinnar? Er bara gamla lagið að koma aftur við aðrar og breyttar aðstæður?

En hvort einhver munur er á inniheimtuaðferðum bankanna  síðan Steingrímur J. gaf út bönkunum sitt fræga skotleyfi á almenning veit ég ekki. En allavega virðast heildaáhrifin frá hruni hafa orðið mjög jákvæð fyrir auðsöfnun þeirra og samráð og eigið fé þeirra risið í hæstu hæðir hvað sem siðferðinu líður. En fréttir benda til að þar sitji flest við sinn fyrri keip og bankastjórar og starfsmenn útdeila sjálfum sér bónusum og gæsku að fornri fyrirmynd.

Skuldalækkun og þjóðhagslegur sparnaður er meiri núna en langt aftur segir Már. Hegðun væri ábyrgari í fjármálum en verið hefði.Fjármálalæsi allra væri að batna. Útflæði er enn heft en innflæði óheft. Þetta valdi brenglun og miklum aðgerðum til að hamla hækkun á gengi krónunnar.Hann viðurkennir þarna handstýringu á gengi krónunnar en að einhversstaðar liggi þá þanmörk Seðlabankans í þessum efnum.

En samt eru niðurlagsorð Seðlabankastjórans athyglisverð:

"Það fjórða er umræða um það hvers konar fjármálakerfi við þurfum og viljum nú þegar við erum að komast út úr eftirmálum fjármálakreppunnar. Þar eru m.a. undir alþjóðleg tengsl og umsvif kerfisins og hvort gera þurfi innviðina enn óhultari fyrir áhættutöku en felst í þeim breytingum sem þegar hafa verið innleiddar eða eru fyrirhugaðar í nýjum væntanlegum lögum um þrot og slit fjármálafyrirtækja.

Í þessu efni eru fleiri leiðir mögulegar en fullur aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Eftir að vinnu lýkur við þau mikilvægu skref varðandi losun hafta sem eru handan við hornið verður ráðrúm til að segja meira um þessi efni og önnur."

Þarna finnst mér vanta frekari útskýringar. Er þetta vísbending um það að engu skuli breytt í starfsemi bankanna? Þeir skuli áfram stjórna peningamagninu í umferð með eigin framleiðslu eins og Frosti hefur lýst? Þeir skuli áfram stunda sinn rekstur með ógreinanlegum skilum milli fjárfestinga og viðskiptabankaþjónustu. Taumhald á bankastarfsemi virðist ekki vera boðskapur heldur er frelsi til lífeyrissjóða til að braska með fé sitt í útlöndum sett á oddinn.

Már tekur ekki á þeirri spurningu hvað gerist þegar enn á að keyra upp útsog lífeyrissjóðanna á fé sem nemur 15 % af öllum launum landsmanna og senda það í auknum mæli til útlanda? Hvað gerist ef lítt menntaðir og ókjörnir lífeyrissjóðafurstar tapa stórum fjárhæðum í utanlandsbraski sínu? Þetta er fólk sem er ekki af sama kaliberi og gerist í Seðlabankanum. hefur enga þjálfun í alþjóðaviðskiptum.

Þetta fólk lýtur engri virkri stjórn frekar en hinir fyrri siðlausu einkaeigendur bankanna gerðu fyrir hrun. Þarf ekki Seðlabankinn eða bara Alþingi og þjóðin að skipta sér af þessu fyrirkomulagi í lífeyrismálum þjóðarinnar?

En það er bjart framundan, allavega í bili,  segir Már.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það er einmitt! Skyldi vera bjart framundan aðeins vegna þess að fjármagnshöft hafa gilt hér síðustu árin?  Stórfjárfestum, svo sem lífeyrissjóðum, hefur verið bannað að senda milljarða úr landi til fjárfestinga á mínus vöxtum þar.
Erlendir sambærilegir sjóðir hafa ýmist lagt niður starfsemi á landinu eða sætt sig við innlenda haftastefnu.
Gæti verið að skynsamlegast sé að viðhalda höftunum?

Kolbrún Hilmars, 20.3.2016 kl. 17:46

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Kolbrún, þú spyrð spurningar sem hefur sótt á mig undanfarið. Ég hef flokkað mig sem frjálshyggjumann og einkaframtaksmann lengst af. En það hafa komið stundir sem ég hef efast. Er þetta allt svona absólútt? Þolir fólk almennt algert frelsi? Þoldu útrásarvíkingarnir það? 

Af hverju er svona vöxtur í öllu? Er þetta ekki bara sjö ára sveiflan? Elliott-bylgjur í viðskiptum?

Már sagði líka að "Fjármagnshöftin, innleiðsla á alþjóðlegu regluverki og stífara íslenskt regluverk um gjaldeyrisáhættu móta bankana. Höftin fara en stór hluti regluverksins verður áfram."

Halldór Jónsson, 20.3.2016 kl. 21:24

3 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Ein ástæða þess að krónan hefur verið stöðug er sú að Lífeyrissjóðirnir hafa ekki haft ótakmarkað leyfi til að flytja peninga úr landi. Ef þeim verður leyft það þá munu þeir hlaupa með sparnað landsmanna út um allar koppagrundir, og krónan mun falla vegna þess útstreymis. Svo koma þeir nokkrum árum seinna og segja, sjáið hvað við vorum klárir að fjárfesta erlendis en ekki í þessari sífallandi krónu. En þeir munu ekki nefna það að það voru þeir sem felldu krónuna.

Sigurjón Jónsson, 21.3.2016 kl. 15:06

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Líklega eitthvað í þessa veru Sigurjón,þetta undirmálslið hefur ekki það sem til þarf.

Halldór Jónsson, 21.3.2016 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband