Leita í fréttum mbl.is

Hverjum klukkan glymur?

í bankanum? Vilhjálmur Bjarnason veltir samtímanum fyrir sér á sinn hátt. Þeir sem ekki lesa Mogga í dag geta dottið um þessa grein hér í heild sinni sem mér fannst eftirtektarverð:

Villi segir:

"»Ég heyri sagt að þú hafir keypt banka Olavius Olavius, sagði Arnas Arnæus. Er það rétt? Olavius Olavius hófst í sæti sínu og ansaði: »Hef ég keypt banka eða hef ég ekki keypt banka? Hver hefur keypt banka og hver hefur ekki keypt banka? Hvenær kaupir maður banka og hvenær kaupir maður ekki banka? Fari í helvíti sem ég keypti banka. Og þó.«

 

Það er efinn sem hefur leitað á hug heillar þjóðar sem varð að martröð í vikunni. Jón heitinn Hreggviðsson var að bjarga sér þegar hann stal snæri sér til bjargálna. Jón var aldrei skúrkur. Sennilega drap hann aldrei böðul sinn. Böðullinn drukknaði í ælu sinni. Jón var þrautseigur íslenskur alþýðumaður. Nú höfum við skúrka. Suma er ef til vill ekki hægt að dæma skúrka því þeir voru svo vitgrannir, að eigin sögn. Olavius Olavius er nútíma íslenskur viðskiptafrömuður, sem kaupir og selur eignir með þeim aðferðum sem hann telur sér henta og hæfa hverju sinni. Sennilega verður Olavius Olavius mikið skáld því hann er tilbúinn að ganga lyginni á hönd, alls staðar, í öllu og ávallt.

 

Vissi enginn neitt?

 

Það er sárt til þess að vita að þeir sem áttu að gæta að hagsmunum íslenska ríkisins þegar heimilissilfrið var selt lýsa sig jafn fávísa og raun ber vitni þegar það koma fram gögn við ein »merkustu« viðskipti þessarar aldar. Vissi bílstjóri Olaviusar Olavius ekki neitt, hafandi verið viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri?

 

Reyndar er það svo að Olavius Olavius býr utan Íslands flestum stundum en hefur þó haft aðsetur á sveitasetri á Vesturlandi á stundum. Hann telur Íslendinga fátæka þjóð og telur sig geta komið fram við hana eins og skrælingja og þess vegna alltaf sagt; ef ég get einhverja ögn af einhverju tagi, sama hvað það er lítið, þá geri ég það í augsýn alls heimsins. Þannig verður niðurlæging Íslendinga mest.

 

Erlendir bankar

 

Sá er þetta ritar hefur haldið uppi spurn um það á meðal erlendra bankamanna hvers vegna ekki er stofnað útibú erlends banka á Íslandi. Svörin hafa ávallt verið á einn veg; við höfum þau viðskipti sem við þurfum, það er óþarfi að nálgast Ísland á annan veg en í skjalatösku.

 

Því var það sjálfsögð spurning árið 2003 að spyrja; hverjar eru fyrirætlanir yðar, herrar mínar, þegar þið kaupið Búnaðarbankann án þess að skoða hrossið? Enda kom á daginn, reyndar 14 árum síðar og þegar andlagið var komið í gjaldþrot, að það hefur enginn erlend fjármálastofnun áhuga á að kaupa banka á Íslandi. Það vekur jafnvel furðu mína að nokkur banki vilji lána til Íslands þegar viðskiptasiðferði er á jafn lágu plani og lýst er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. árið 2003.

 

Þegar rannsókn hefst er rétt að leggja fram rannsóknarspurningu. Hvernig má það vera að gerendur í bankahruni skuli koma út úr hruninu uppréttir með smávægilegt kusk á hvítflibbanum?

 

Hvað með auðlegð gerenda?

 

Það er ef til vill öfund að spyrja svona, en þó!

 

Það liggur fyrir í vitnisburði stjórnarmanna í Glitni banka hf. að auðlegð fyrrverandi forstjóra bankans byggist á markaðsmisnotkun. Glitnir banki hf. keypti hlutabréf hans til að koma í veg fyrir verðlækkun á hlutabréfum í bankanum.

 

Það liggur ljóst fyrir að gerandinn í hruni Landsbanka Íslands hf. stendur uppréttur og þjóðin á mikil viðskipti við símafyrirtæki hans og svelgist ekki á. Það eru til gögn um það hvernig eignarhlutur hans í bankanum var fegraður af endurskoðanda bankans, hagsmunagæslumanni allra hluthafa. Hvernig var skuldauppgjöri þessa merka manns við bankann háttað? Það er rannsóknarefni, sem aðra hluthafa og þjóðina varðar um.

 

Það liggur fyrir að gerandinn í Kaupþingi hf. stendur uppréttur og rekur umfangsmikil viðskipti á Íslandi og um norðurálfu. Hvernig var skuldauppgjöri hans við Kaupþing hf. og íslenska banka háttað?

 

Egla hf. var með 10 milljónir í hlutafé. Kaupþing hf. lagði fram 100 milljónir Bandaríkjadala til að kaupa Búnaðarbanka Íslands hf. Svo virðist sem vitorðsmenn hafi sviðið út aðrar 100 milljónir Bandaríkjadala úr sameinuðum banka. Hinar upphaflegu 10 milljónir skipta engu í þessu ferli. Það skiptir ef til vill ekki sköpum, ef banki var ekki starfhæfur, hvort út úr honum var sviðið 100 milljónum dölum meira eða minna.

 

Það er víst besta leiðin til að ræna banka að eiga hann. Svo segir William K. Black.

 

Kúguð þjóð í lífsháska

 

Með því að láta viðgangast viðskiptatilburði eins og viðhafðir voru í viðskiptum með Búnaðarbanka Íslands hf. megnum við hvorki að sigla né versla. Þess vegna eignumst við aldrei peninga. Þess vegna verðum við ekki aðeins kúguð þjóð, heldur einnig þjóð í lífsháska."

Það er fáum gefið að setja fram svona alvarlegar hugleiðingar á svona yfirþyrmandi snjallan hátt.Og næsta víst að ég finn ekki hæfileg íslensk orð til að nota yfir þessa blöndu af  kaldhæðni og íróníu heimsósómans sem í þessari ritgerð felst.

Mér finnst makalaust og svíður enn ef allir þeir upptöldu menn sem af mér stálu flestu af því litla sem ég átti eftir ævistarfið  geta bara velt sér í því fé og hlegið að mér. Þó er sviðinn auðvitað minni en var þegar maður þurfti lyf á hverju kvöldi til að geta fest dúr á auga. Og maður veit ekki hvað af þessu leiddi heilsufarslega í tímans rás.

Maður er auðvitað að reyna að rétta fram hinn vangann á kristilegan hátt en það tekur tíma.Í því skyni er ég að hefja lestur á bók Björgólf Thors sem mér finnst skemmtileg og vel skrifuð þar sem ég er staddur í uppvexti hans. Ég minnist orða sem ein þýsk stelpa sagði við mig fyrir 60 árum að sérhver manneskja hefði eitthvað gott við sig, það væri bara manns sjálfs að finna það.Og líklega er það svo. Hitt eru bara krónur og aurar sem maður fer hvort sem er ekki með. En menn munu þó að síðustu mega fara með drauma sína með sér án afskipta annarra.

"„... það er ekkert einstakt happ, hvorki hækkað kaup né betri veiði, sem getur læknað skáldið af sársaukanum, ekkert nema betri heimur. Þann dag sem heimurinn er orðinn góður hættir skáldið að finna til, en fyrr ekki. En um leið hættir hann líka að vera skáld."

"„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu."

Hverjum klukkan glymur í bönkunum er enn óséð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilldarpistill Halldór og sorglega sannur.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 31.3.2017 kl. 22:19

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll snilli! Ég las seinustu tvo pistla þína í dag og þótti mikið til koma. Hugðist segja þér það en varð að drífa mig í bílaumboð útaf kóða á bíllykli hvers gjald var verðlagt á 18 þúsund,lét það hvorki eftir umboðinu né mér.--     En er það ekki makalaust að fyrir finnist hjá svo fámennri þjóð eins margir siðlausir stór-svindlarar og þegar er komið á daginn. Styðji maður hegningar til að fyrirbyggja slíka hegðun,er allt of margir sem mæla því gegn. Agaleysi er allt'of mikið í skólum og á heimilum að mínum dómi.Það er kannski vandmeð farið og þurfa að vera skírar reglur og uppalendur að vera sammála.
Ekki sting ég upp á að fé-fléttu skúrkarnir lendi í "AUfhausun" 

Helga Kristjánsdóttir, 1.4.2017 kl. 02:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 3418162

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband