Leita í fréttum mbl.is

Borgarlínulestin enn

er viðfangsefni Þórarins Hjaltasonar umferðarverkfræðings í Morgunblaðinu í dag.

Það er tímabært að jafn fróður maður og reyndur og Þórarinn fer yfir þessar áætlanir draumóramannanna í Borgarstjórn Reykjavíkur sem þeir hafa náð að þvæla inn í nágrannasveitarfélögin undir yfirskyni illa skilgreindra langtímasjónarmiða sem séu í raun ekki á dagskrá fyrr en eftir mörg ár.

Þórarinn segir:

"Eins og flestum er kunnugt þá stefna sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að uppbyggingu svokallaðrar borgarlínu, annaðhvort í formi léttlesta eða hágæðastrætisvagna. Áætlaður stofnkostnaður er allt að 200 milljarðar fyrir léttlestakerfi og 70 milljarðar fyrir kerfi með hágæðastrætisvögnum.

Það er með ólíkindum að sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hafi látið sér detta í hug, að til greina komi að fjárfesta fyrir allt að 200 milljarða í léttlestakerfi á næstu árum. Þessi upphæð er út úr öllu korti miðað við þær fjárveitingar ríkis og sveitarfélaganna sem hafa verið til ráðstöfunar í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum og áratugum. Miðað við umræðuna á síðustu mánuðum reikna ég með að endanleg tillaga sveitarfélaganna verði eingöngu um strætó.

Borgarlína með strætó

Farþegafjöldi í strætó á höfuðborgarsvæðinu er núna rúmlega 40 þúsund á dag. Hlutur strætó í ferðum fólks með vélknúnum farartækjum er ná- lægt 5,0%. Ef gangandi og hjólandi eru teknir með, þá er hlutur þeirra 20%, hlutur strætó 4% og hlutur bíla 76%. Hlutur strætó er lítill miðað við evrópsk borgarsvæði af sömu stærð, en meiri en á bandarískum borgarsvæðum af sömu stærð. Í skýrslu verkfræðistofunnar Cowi (Progress Report) um borgarlínuna, gefinni út í janúar sl., er áætlað að farþegafjöldi í strætó verði 156.000 og hlutur strætó verði 12% árið 2040. Jafnframt er gert ráð fyrir að hlutur gangandi og hjólandi aukist úr 20% í 30%. Ef þetta gengi eftir myndi hlutur bíla minnka niður í 58%, eða um 18 prósentustig. Hlutfallsleg minnkun yrði um 24%.

Bílaborgin

Að mínu mati er óraunhæft að reikna með að aukning á fjölda gangandi og hjólandi ásamt tilkomu borgarlínu geti minnkað bílaumferð svona mikið. Höfuðborgarsvæðið er bílaborg, gagnstætt því sem gildir um flestar evrópskar borgir. Bílaeign er með því mesta sem gerist í heiminum. Byggðin er dreifð og yfirleitt gott rými til að breikka umferðarmestu þjóðvegina og byggja mislæg gatnamót, þar sem þörf krefur. Það er því tiltölulega auðvelt og ódýrt að leysa umferðarhnúta á svæðinu. Ef þessum 70 milljörðum yrði ráðstafað í uppbyggingu þjóðvega á svæðinu til ársins 2040 mætti tryggja að umferðarástand yrði viðunandi fyrir bæði strætó og aðra bílaumferð.

Sjálfkeyrandi bílar

Í ofangreindri skýrslu Cowi er ekki minnst á sjálfkeyrandi bíla og áhrif þeirra á þróun umferðar í framtíðinni. Tilraunir Google, Tesla o.fl. með sjálfkeyrandi bíla hafa gefið góða raun, og má reikna með að slíkir bílar verði komnir á almennan markað eftir örfá ár. Í sambandi við borgarlínuna mun tilkoma sjálfkeyrandi leigubíla skipta mestu máli. Uber, Lyft og fleiri alþjóðleg leigubílafyrirtæki keppast við að verða fyrst með slíka bíla á markaðinn.

Ef samakstur í sjálfkeyrandi leigubílum verður vinsæll þá mun það væntanlega leiða til umtalsverðrar minnkunar á bílaeign og umferðarmagni. Sjálfkeyrandi leigubílar munu veita strætó harða samkeppni, þar eð þeir aka beint frá dyrum að áfangastað og verða samkeppnisfærir í verði, ef nokkrir farþegar deila með sér kostnaði. Þessi ferðamáti myndi vera sérlega hentugur fyrir ferðir til og frá vinnu. Áskrift að slíkum ferðum myndi lækka verðið enn frekar.

Lokaorð

Að öllu samanlögðu tel ég að 70 milljarða fjárfesting í borgarlínu verði óhagkvæm. Jafnvel þó að fjárfestingin myndi reynast hagkvæm, þá eru fjárveitingar takmarkaðar og álitlegustu kostirnir í uppbyggingu samgöngumannvirkja eiga að fara fremst í forgangsröðina."

Hér eru orð í tíma töluð og mættu sveitarstjórnarmenn í nágrannabyggðum Reykjavíkur taka þau til sín en vara sig á að láta stórveldin í Reykjavík taka frá sér sjálfstæða hugsun.

Ég hef þó einu við að bæta alla þessa umræðu um sjálfkeyrandi bíla. Ég kæri mig ekkert um sjálfkeyrandi bíla. Ég er með bíladellu og ég nýt þess að keyra minn bíl þangað sem ég vil fara. Að finna fjörtök stinn í bílnum mínum er það sem ég fæ kikk út úr. Spýta í og bremsa, það er lífið. Mér er alveg nóg að geta látið Tesluna hjálpað manni við aksturinn ef maður þarf að vera í símanum til dæmis(ho ho), það er fyrirbyggjandi aðstoð og getur forðað óhöppum.

En í almáttugs bænum, hlífum okkur við þessum brjáluðu léttlestahugmyndum í gegn um göng um neðanjarðarfljót innan í virku eldfjalli eins og er að finna á Reykjanesinu. Nóg er vitleysan samt þó Borgarlínulestin bætist ekki við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég minni á skýrslu samtaka norrænna borga, sem kom út fyrir 20 árum og sýndi glögglega í samanburði á 16 norrænum borgum, að Reykjavík er álíka dreifbyggð og borgir af sömu stærð á Norðurlöndumm, svo sem Árósar, Álaborg, Óðinsvé, Helsingborg, Þrándheimur, Luleo, Oulu og Turku. 

Aðeins stærri og miklu eldri borgir voru þéttbýlli, svo sem Kaupmannahöfn, Osló, Bergen, Gautaborg, Stokkhólmur og Helsinki. 

En síbyljusöngurinn um hina afbrigðilegu Reykjavík og þöggun þessarar skýrslu hefur séð um að brengla myndina.

Stavanger hefur þá sérstöðu að vera byggð á landi, aðþrengdu af sjó. 

Ómar Ragnarsson, 28.8.2017 kl. 09:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Málmey datt út úr þessari upptalningu, mun stærri og eldri borg en Reykjavík. 

Ómar Ragnarsson, 28.8.2017 kl. 09:21

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Hvar nær maður í þetta plagg Ómar?

Halldór Jónsson, 28.8.2017 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 3418135

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband