Leita í fréttum mbl.is

Hvað á að skattleggja?

Óli Björn Kárason veltir fyrir sér hvernig eigi að ná inn meiri tekjum.

"Loforð – stór og smá – eru fylgifiskar kosninga. Kjósendur vega þau og meta, en á stundum er erfitt að átta sig á því hvernig efna á það sem lofað er. Við afgreiðslu fjármálaáætlunar 2018 til 2022 lögðu Vinstri grænir til að útgjöld yrðu hækkuð enn meira en lagt var til eða alls um 295 milljarða króna.

Hækka átti skatttekjur nokkuð meira eða um 334 milljarða. Vinstri grænir höfðu betur í samkeppninni við Samfylkinguna. Kjósendur hafa takmarkaðar upplýsingar um það hvernig vinstriflokkarnir ætla sér að auka tekjur ríkissjóðs um 50 til 75 milljarða króna á ári.

Þegar gengið er eftir svörum, er aðeins sagt að gera eigi skattkerfið réttlátara, ekki verði lagðir auknir skattar á almenning og að „hliðrað“ verði til. J

ú, það verða lagðir á eignarskattar undir formerki auðlegðarskatts og sérstakur há- tekjuskattur verður innleiddur, að ógleymdum auðlindagjöldum ekki síst á sjávarútveg. Formaður Vinstri grænna hefur lýst því yfir að hátekjuskattur verði lagður á tekjur yfir tveimur milljónum króna á mánuði eða 25 milljónum á ári.

Í ítarlegri fréttaskýringu Markaðarins, fylgiriti Fréttablaðsins, í síðustu viku kom fram að aðeins 946 einstaklingar eru með slíkar tekjur. Ríkissjóður mun því ekki fitna mikið á því að hækka tekjuskatt á þennan hóp.

Nú geta menn deilt um það hvort 46,24% skattur sem leggst á tekjur yfir 835 þúsund krónum sé hár eða ekki. Í huga þess sem hér skrifar er gengið of langt af hálfu hins opinbera að taka í sinn hlut nær aðra hverja krónu sem launamaður vinnur sér inn. Skattheimtusinnar eru á öðru máli.

Hátekjuskattur skilar litlu

Hugmyndir um hátekjuskatt hljóta að fela í sér töluverða hækkun skattprósentunnar, en enginn veit hversu mikla.

Í áðurnefndri úttekt Markaðarins er bent á að 76% skattur á tekjur yfir tvær milljónir skili 2,7 milljörðum á ári, að því gefnu að skattbyrðin hafi engin áhrif á hegðun skattgreiðandans. Allir sjá að slíkur skattur er galinn og skilar aldrei reiknuðum tekjum. Margir tækju til fótanna, kæmu sér úr landi eða hættu einfaldlega að leggja jafn mikið á sig og áður.

En er hugsanlegt að hægt sé að ná allt að 10 milljörðum í aukinn tekjuskatt af einstaklingum. Að því gefnu að skattprósentan hefði engin áhrif á hegðun launafólks (sem hún gerir), þá þyrfti að leggja 60% tekjuskatt á allar tekjur yfir 883 þúsund krónum á mánuði. Í dag er efra þrep tekjuskatts (46,24%) af tekjum umfram 835 þúsund krónur, eins og áður segir.

En hvað um 20 milljarða tekjuauka ríkisins? Aftur skal gengið út frá að skattprósentan hafi ekki áhrif á hegðun og vilja fólks til að afla tekna. Þá yrði 60% skattur að leggjast á allar tekjur yfir 708 þúsund krónur. Öllum má því vera ljóst að ef það er ætlun vinstriflokkanna að sækja auknar tekjur í ríkissjóð af tekjuskatti einstaklinga verður það ekki gert nema með því að leggja þungar byrðar á millistéttina. Ástæðan er einföld: Það er mikill tekjujöfnuður hér á landi, ólíkt því sem haldið er fram í umræðum.

Endurvekja skal tímabundna skattinn

Vinstriflokkarnir virðast hugfangnir af að innleiða eignaskatta að nýju. Á stundum er skatturinn kallaður auðlegðarskattur en einnig stóreignaskattur.

Samfylking og Vinstri grænir innleiddu eignaskattinn í ríkisstjórn 2009 til 2013, en hétu því að skatturinn væri tímabundinn enda lagður á við erfiðar aðstæður í þjóðarbúinu.

Skatturinn lagðist þungt á eldra fólk í skuldlausum eignum sem margt hafði lágar tekjur, en einnig á sjálfstæða atvinnurekendur sem höfðu í mörg ár byggt upp sín fyrirtæki. En tímabundni skatturinn – eignaskattur, auðlegðarskattur, stóreignaskattur, eða hvað vinstrimenn vilja kalla skattheimtuna – skal endurvakinn.

Í áðurnefndri fréttaskýringu Markaðarins kom fram að 1-2% skattur á eignir yfir 150 milljónir króna gæti gefið ríkissjóði 5,1 til 10,2 milljarða króna. Hér skal látið liggja á milli hluta hvort álagning eignaskatts standist stjórnarskrárvarin réttindi einstaklinga. En til lengri tíma er líklegt að afleiðing skattlagningar af þessu tagi muni draga úr hvata til sparnaðar og eignamyndunar og um leið neyða marga til skuldsetningar til að standa undir skattheimtu af eignum. Þannig nagast hægt og bítandi af skattstofninum sjálfum.

Látum þá sjávarútveginn borga

Nú liggur fyrir að veiðigjöld á yfirstandandi fiskveiðiári munu nær tvö- faldast og verða yfir 10 milljarðar króna. Engu að síður vilja skattheimtuflokkarnir ganga enn lengra og auka álögur á sjávarútveg. Sjávar- útvegurinn hefur á undanförnum árum greitt næstum jafn mikið í veiðigjöld og í tekjuskatt. Til að réttlæta auknar álögur er oft bent á miklar arð- greiðslur sjávarútvegsfyrirtækja.

Engu skiptir þótt hlutfallslega greiði fyrirtæki í sjávarútvegi lægri arð en fyrirtæki í öðrum starfsgreinum. Á þetta hefur Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sjávarútvegsfyrirtækja, bent á en í grein sem birtist í Viðskiptablaðinu sagði hún meðal annars: „Sú vísa er oft kveðin í aðdraganda kosninga að arðgreiðslur sjávar- útvegsfyrirtækja séu háar. Undantekningarlaust skortir hins vegar allan rökstuðning þessarar staðhæfingar. Þegar betur er að gáð er staðhæfingin nefnilega röng.

Samkvæmt opinberum upplýsingum frá Hagstofu Íslands liggur fyrir að arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði á árunum 2010- 2015 voru 21% í sjávarútvegi en 31% að jafnaði í atvinnulífinu.“ En það er talið til vinsælda fallið að lofa kjósendum að sækja auknar tekjur til sjávarútvegsfyrirtækja og enda virðist litlu skipta þótt það liggi fyrir að mörg þeirra munu ekki standa undir þyngri byrðum, allra síst minni og meðalstór fyrirtæki.

Skattahækkun lendir á almenningi

Það er alveg sama hvernig dæmið er reiknað. Fyrirheit skattheimtuflokkanna um 50-70 milljarða aukin útgjöld ríkissjóðs, ofan á það sem fyrirhugað hefur verið, verða ekki fjármögnuð með öðrum hætti en fara dýpra í vasa almennings.

Tekjuskattur tugþúsunda verður að hækka, eldri borgarar verða að taka á sig eignaskatta að nýju, bensín- og olíugjöld stórhækka, og varla verður hjá því komist að hækka virðisaukaskatt. Ekki er hægt að reikna með að tryggingagjald lækki – þvert á móti. Þannig má lengi telja.

Kostirnir á laugardaginn eru því skýrir. Valið stendur annars vegar um aukna skattheimtu á almenning – þótt öðru sé lofað – og hins vegar um að nýta góða stöðu ríkissjóðs til að slaka á skattaklónni, lækka tekjuskatt einstaklinga og tryggingagjald líkt og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lofað.

En um leið styrkja innviði samfélagsins með því að nýta hluta af uppsöfnuðum hagnaði bankanna, sem eru í eigu okkar allra. Eftir Óla Björn Kárason » Ætli vinstriflokkarnir að sækja auknar tekjur í ríkissjóð af tekjuskatti verður það ekki gert nema með því að leggja þungar byrðar á millistéttina."

Óli Björn Kárason Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins

Nú liggur fyrir að Náttúrufræðingar ætla að hækka laun sín um 30 % sem opinberir starfsmenn sem nú hafa forystu í kjaramálum landsmanna. Allt kaup í landinu mun því hækka um þriðjung á næstunni. 70 % skattur á þá hækkun munskila ríkinu miklum fjárhæðum þannig að útgjaldaaukning ríkisins er betur tryggð en áður.

Skyldi nokkrum detta verðbólga í hug í þessu sambandi?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur bent á að verði tekjuskattsprósentan lækkuð úr 46.24 % í 35 % auki það ráðstöfunartekjur launþega um treikvart milljón. Án verðbólgu. Af hverju vill enginn fara þessa leið?

Logi Már formaður Samfylkingarinnar hefur lýst því sem hápunkti lífsins að greiða skatt. Þessi hærri upphæð sem er skattlögð með hærri prósentu þeim mun fleiri krónur koma inn af sköttum.

Þar í liggur sælan við að skattleggja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband