Leita í fréttum mbl.is

Einhver á móti?

Þessum höfuðáherslum í málaefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar?

"  

  • Efling Alþingis er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarflokkanna. Sjálfstæði þingsins verður styrkt, meðal annars með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.

 

  • Í þágu aukins samráðs og breiðari samstöðu verða þverpólitískir hópar settir á fót um nokkur veigamikil verkefni, svo sem stofnun miðhálendisþjóðgarðs, mótun orkustefnu og nýsköpunarstefnu og endurskoðun stjórnarskrárinnar.

 

  • Heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. Átak verður gert í uppbyggingu hjúkrunarrýma, heilbrigðisstefna fyrir Ísland fullunnin, dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga og geðheilbrigðisáætlun hrint í framkvæmd.

 

  • Hafin verður stórsókn í menntamálum. Stefnt verður að því að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020. Iðnnám og verk- og starfsnám verður eflt. Framhaldsskólum verður tryggt fjármagn og frelsi til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaganna. Brugðist verður við yfirvofandi kennaraskorti í samstarfi við sveitarfélögin.

 

  • Uppbyggingu í vegamálum verður hraðað, bæði nýframkvæmdum og viðhaldi. Stutt verður við borgarlínu. Ljósleiðaravæðingu landsins verður lokið 2020, afhendingaröryggi raforku aukið og átak gert í fráveitumálum í samstarfi við sveitarfélög. Sóknaráætlanir landshlutanna verða styrktar.

 

  • Lögð verður áhersla á ábyrg ríkisfjármál og efnahagslegan stöðugleika. Til að styðja við farsæla niðurstöðu kjarasamninga hyggst ríkisstjórnin leggja áherslu á lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi. Þá er það einnig forgangsmál á kjörtímabilinu að lækka tryggingagjald.

 

  • Áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verða lögð til hliðar. Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður í 22% samhliða því að skattstofn fjármagnstekna verður tekinn til endurskoðunar. Kolefnisgjöld verða hækkuð um 50% fyrst um sinn. Virðisaukaskattur af bókum verður afnuminn.

 

  • Farið verður í endurskipulagningu á fjármálakerfinu og markviss skref tekin til að afnema verðtrygginguna á neytendalánum. Leitað verður leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Gerð verður hvítbók um framtíðarsýn fyrir íslenskan fjármálamarkað og hún lögð fyrir Alþingi.

 

  • Unnið verður með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði. Innleidd verða ákvæði um keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, unnið gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og vinnueftirlit eflt.

 

  • Stuðlað verður að bættu aðgengi landsmanna að öruggu húsnæði með eflingu stuðningskerfa, samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félagslegs húsnæðis og auknu gagnsæi á leigumarkaði. Þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn verður lækkaður. Skoðaðir verða möguleikar á að nýta lífeyrissparnað til þessa.

 

  • Markviss skref verða tekin á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum og samhliða hugað að mótvægisaðgerðum í þágu ungs fólks og tekjulágra.

 

  • Frítekjumark atvinnutekna aldraðra verður hækkað í hundrað þúsund krónur strax um næstu áramót. Gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega verður uppfærð til að lækka kostnað þessara hópa. Samráð verður haft við heildarsamtök örorkulífeyrisþega um umbætur á almannatryggingakerfinu í þeirra þágu.

 

  • Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.

 

  • Í loftslagsmálum verður stefnt að því að gera betur en Parísarsamkomulagið segir til um. Stefnt verður að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040 og 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Loftslagsráð verður sett á laggirnar og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun verður tímasett og fjármögnuð.

 

  • Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og ráðast í átak í uppbyggingu hjúkrunarrýma.

 

  • Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Lögð verður áhersla á nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem felast í áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Innleiddir verða sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita.

 

  • Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs, leggja þarf áfram áherslu á sjálfbæra auðlindanýtingu og efla hafrannsóknir. Veiðigjald á að tryggja þjóðinni réttlátan hlut í arðinum af auðlindinni ásamt því að endurspegla afkomu greinarinnar. Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna.

 

  • Mörkuð verður langtímastefna í ferðaþjónustu í samvinnu við hagsmunaaðila. Stutt verður við rannsóknir í greininni og innviðauppbyggingu.

 

  • Heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland verður mótuð í samstarfi við fulltrúa stjórnmálaflokka og í nánu samráði við atvinnulífið og vísindasamfélagið. Hún verður samþætt við framtíðarsýn í menntamálum, frá leikskóla til háskóla, í samráði við skólasamfélagið.

 

  • Umhverfi fyrir rannsóknir og þróun á að vera framúrskarandi. Fyrirkomulag endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar verður endurskoðað í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum."

Það er sem fyrr ekki minnst á nauðsyn sparnaðar almennings né að gefa almenningi kost á að spara. Það skal sem fyrr allt miðast við lántökur og lága sem enga vexti ef að kála á verðtryggingunni.  Sem hlaut að koma upp þegar fjárhagslegir analfabetar sem eru samansafnaðir innan VG eru aðilar að svona ríkisstjórnarplaggi.

Loftslags-og kolefnisbullið er mér persónulega lítt að skapi enda bardagi við vindmyllur sem Íslendingar hafa lítil sem engin áhrif á. En með VG innanborðs verða trúmál ekki rökrædd þar sem sá flokkuir gengur yfirleitt á tilfinningum en ekki rökhyggju. 

Samt er þetta plagg sem vonir má binda við að hægt verði að framkvæma eitthvað af þótt á brattan verði að sækja með þær "kjaraviðræður" opinberra starfsmanna í BHM sem fram undan eru. Það er ólíklegt að hægt verði að ræða við þá á vitrænum nótum frekar en fyrri daginn. Það verður fyrsta prófraunin á þrek þessarar nýju stjórnar.

Vonum hið besta, Einhver á móti því? 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það er ekkert að marka svona FAGURGALA-YFIRLÝSINGAR 

nema að búið sé að festa einhverjar tölur á blað.

Jón Þórhallsson, 3.12.2017 kl. 19:31

2 identicon

Já, hækka kolefnisgjald um 50%. Það er alveg óútskýrt hvaða áhrif það hefur á hinn venjulega borgara. Ég hefði viljað sjá "skurðagjald", eigendur sem ættu skurði viðsvegar um landið yrðu þá neyddir til þess að fylla upp í þá. Ég hugsa að kannski séu 90% þessara skurða, sem þurka upp land og mengar meira en mýrar, ónotaðir í dag, barn sína tíma.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 3.12.2017 kl. 22:55

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Halldór. Það er háttur hér á landi að nýjar ríkisstjórnir komi fram með stjórnarsáttmála og gjarnan er hann fagur. Þessi nýjasti sver sig í þá ætt. Tíundað það sem gott þykir og flestir sammála um, en minna talað um stóru málin sem þó skipta mestu máli.

Smá athugasemd við þína athugasemd, Örn. Hér á landi hafa engar rannsóknir verið gerðar um nytsemi skurðafyllinga, til bóta fyrir loftslag. Stuðst er við gamlar erlendar rannsóknir, sem tókst að selja hinum ýmsu sjálfskipuðu loftlagsfræðingum, þ.e. stjórnmálamönnum sem titla sig loftlagsfræðinga á tyllidögum.

Þessar gömlu rannsóknir leiddu í ljós að nokkuð magn CO2 losnaði úr læðingi við að ræsa fram mýrar. Ekki stór sannleikur, þar sem mýrlendi er einn mesti banki fyrir slíkt efnasamband.

Engar frekari rannsóknir voru gerðar, ekki hversu lengi þessi slepping stóð yfir né um efnainnihald jarðvegs eftir að gasinu hafði verið sleppt út og mýrin orðin þurr. Þá hafa engar rannsóknir verið gerðar á því hvað gerist við að taka þurrkað land og breyta því aftur í mýri.

Allir vita að grænblöðungar eru stór þáttur í að umbreyta CO2 yfir í súrefni. Allir sem um landið hafa gengið vita líka að margfalt meira magn grænblöðunga þrífast á þurrkuðu landi en forblautri mýri. Engar rannsóknir, hvorki hér á landi né erlendis, eru til um hversu miklu meira þurrlendi vinnur CO2 úr loftinu og umbreytir í súrefni.

Væri ekki skynsamlegra að skoða málið fyrst, áður en farið er að kasta fjármunum í aðgerðir sem enginn veit hvað muni uppskera.

Kannski munu slíkar rannsóknir leiða í ljós gasslepping úr jarðvegi sem þurrkaður er upp standi í skamman tíma, hugsanlega hálfan til einn áratug. Flestir skurðir hér á landi eru orðnir meir en fjörutíu ára gamlir.

Kannski munu slíkar rannsóknir leiða í ljós að þurr jarðvegur sé að mestu leyti laus við CO2.

Kannski munu slíkar rannsóknir leiða í ljós að með því að breyta þurrkuðu landi í mýri, sé verið að búa til banka fyrir CO2, banka sem mun fljótlega yfirfyllast og missa verulegt magn af gasinu út, sjálfkrafa.

Kannski munu slíkar rannsóknir leiða í ljós að þurrkað land sé mun duglegra við að vinna CO2 úr andrúmsloftinu en mýri, sökum þéttari og öflugri gróðurs, svona líkt og gerist í freðmýrum Síberíu og Kanada.

Kannski munu slíkar sannsóknir leiða í ljós að í stað þess að fylla skurði væri mun árangursríkar í baráttu við loftlagsbreytingar, að stuðla að því að hreinsa gamla skurði og halda þeim við, jafnvel að þurrka upp meira af mýrlendi.

Þetta munum við ekki vita nema gerðar verði rannsóknir. Þannig finnum við sannleikann og einungis þannig.

Eftir að sannleikurinn hefur verið leiddur í ljós, með rannsóknum og staðreyndum um alla þætti málsins, er hægt að spá í hvað skuli gera og hvernig.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 4.12.2017 kl. 09:09

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ruglaðist ein lína hjá mér; "svona líkt og gerist í freðmýrum Siberíu og Kanada" á að koma í lok næstu málsgreinar fyrir ofan.

Gunnar Heiðarsson, 4.12.2017 kl. 09:15

5 identicon

Takk fyrir þetta, Gunnar. Ég hef bara fyrir þessu skrif margra á ýmsum netmiðlum, kannski veit einhver stofnun þetta.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 4.12.2017 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 3418198

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband