Leita í fréttum mbl.is

Hver ræður?

skipan dómara samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands? 

Ráherra eða hæfisnefnd sem enginn kaus? Síðan hvenær eiga menn að fá skaðabætur fyrir að sækja um stöðu og fá ekki? 

Davíð Oddsson fer yfir málið í skarpri samantekt í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins.Niðurlag greinar hans er svohljóðandi:

"Þótt sjónarmiðið að dómur Hæstaréttar sé endir allra deilna sé prýðilegt og til friðsemdar fallið er ekkert að því þótt málfrelsið nái ekki síður til þess að gagnrýna efnislega dóma Hæstaréttar sem annað.

Dómur féll á dögunum um skaðabóta- og miskakröfur einstaklinga sem reiknistokkur Einsteins eða annarra ofurmanna, hafði með óskeikulum hætti fundið út að ættu að vera í hópi 15 útvaldra af 33 og það upp á 0,025% og alls ekki nokkur hinna! Jafnvel kardínálar gömlu kirkjuþinganna í Róm voru ekki svona vissir í sinni sök þegar meinlokurnar heltóku þá, eins og nefndarmennirnir þarna. Höfðu kardínálarnir þó bakhjarl sem bágt var að þrátta við.

Reiknistokksmenn, með alla aukastafina, höfðu sannfært sig um að enginn annar en þeir mætti hafa neitt um þetta að segja og allra síst sá sem bar ábyrgð á öllu saman!

Meira að segja Umboðsmaður Alþingis, sem aldrei bregst þegar mestu vitleysuna vantar liðsmann, setti á sig hlaupaskóna sem hann notaði í Hönnu Birnu málinu og brúkar helst þegar brýnast er að hlaupa á sig án tafar og reyndi að tryggja að einn af geislum sviðsljóssins félli á hann. En það hljóta allir læsir menn að mega segja að fyrrnefndur dómur Hæstaréttar er æði ólíklegur til að fá fegurðarverðlaun, enda illt að geta ekki stillt sig um að leggja mönnum lið, sem seilast til valds sem þeir hafa ekki. Og það jafnvel þótt kollegar og helstu leikendur sviðsins sem dómarar og lögspekingar hrærast á eigi í hlut.

Fer ekki vel

Vera má að almenningur eigi eftir að upplifa fleiri dóma af þessu tagi. Því það gildir það sama um þá eins og Guð að það nær enginn til þeirra. Þótt Guði sé haldið utan við frekari bollaleggingar verða dauðlegir menn að standast freistingar sem af slíkri stöðu leiða. Því þótt enginn nái til þeirra minnkar traustið sem þeim er nauðsynlegra en allt annað.

Það sannast aftur og aftur þessa dagana að fáir rísa vel undir því að vera dómarar í sinni sök. Við getum hvert og eitt spurt okkur sjálf um það hvort okkur væri fullkomlega treystandi til að ráða við slíkar aðstæður. Þau okkar sem svara því hiklaust að þau sé hafin yfir allan vafa ættu helst ekki að fá tækifæri til að sanna það eða afsanna.

Þingið samþykkti hvern og einn einasta landsréttardómara, eftir tillögu dómsmálaráðherrans, sem studdist að langmestu leyti við reiknistokkinn svo vafasamur og hann augljóslega er. Ráðherrann gerði smávægilegar breytingar þegar forystumenn flokka á þingi gerðu honum ljóst að afurð reiknistokksins yrði aldrei samþykkt óbreytt. Það er óþægilegt að Hæstiréttur skuli ekki hafa haldið höfði þegar málið kom til hans kasta. En einstakt dæmi er ekki tilefni til að fella stóran dóm yfir réttinum.

Fræðimenn benda réttilega á að ráðherra einn beri ábyrgð á skipunum dómaranna og því verði ekki breytt með almennri löggjöf. En svo fara þeir út af í lausamölinni eins og Kínverjar í bílaleigubíl og telja engu að síður að einmitt þeim þætti sem snýr að valdi ráðherrans hafi verið breytt með almennum lögum. En grundvallarfullyrðing þeirra ætti að þýða að án breytingar á stjórnarskrá verði þetta vald ekki af ráðherranum tekið.

Vandinn er sá að grunur er uppi um að vegna þess að þetta mál snýst um valdasöfnun dómaranna sjálfra geti stjórnarskráin ekki treyst þeim. Þá er fokið í flest skjól. Vald og ábyrgð verða að fara saman.

Það er fráleitt að umsagnarnefnd, hvort sem það er hæfisnefnd eða önnur, skuli telja sig mega umgangast starf sitt þannig að henni sé falið alræðisvald en telja engu að síður að ráðherrann skuli áfram bera ábyrgð á þeirra verkum. Það má vera að þeim þyki að nefnd sem hafi fundið upp annað eins galdratæki og reiknistokkinn sé orðin óskeikul upp á 0,025% og það sé því engum vorkunn að taka fulla og skilyrðislausa ábyrgð á gjörðum hennar! Og einnig að þeir beri enga.

Og vissulega má viðurkenna að óskeikulir menn geta léttilega komist af án allrar ábyrgðar. En hvers vegna eru þeir sem þvert á stjórnarskrána hafa verið rændir því lýðræðislega valdi sem almenningur heldur að hann sé einn fær um að veita látnir sitja áfram uppi með alla ábyrgð? Sú endaleysa gengur ekki upp og er að auki galin.

Það þarf ekki einu sinni lögfræðinga sem hafa gleymt öllu sem þeir lærðu til að sjá það. Þetta sér hvert „barn í lögum“ svo nælt sé í bókarheiti Sveins Sölvasonar frá 1754. Það vekur óneitanlega nokkurn óhug þegar þeir sem umfram alla aðra verða í störfum sínum að standast bæði persónulegar og hóplægar freistingar virðast ekki ráða við það.

Er svo komið?

Þá er illa komið"

Þarna færir Davíð Oddsson svo sterk lagarök fyrir lögmæti dómaraskipanarinnar að engir nema meira en meðalheimskingjar geta haldið áfram að berja hausnum við steininn. Málflutningur Helgu Völu, Þórunnar Sunnu og Jóns er því við vel við hæfi. Aðeins illt til þess að vita að þetta fólk skuli fá að sólunda kröftum þjóðarinnar og fé með áorðnum hætti.

Fyrsta skrefið hefði mér fundist að aðrir þingmenn svari opinberlega engum spurningum frá þessu fólki þar til það hefur látið af fíflsku sinni. 

Það er ráherrann sem ræður skipan dómara samkvæmt Stjórnarskrá og  Alþingi er meðábyrgt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 3418167

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband