Leita í fréttum mbl.is

Davíð bregst ekki!

í hnyttni sinni og skopskyni sem blessunarlega hefur fylgt honum alla ævi frá Matthildarárunum til þessa dags. Oft er sagt að sá ergist sem eldist en það verður ekki sagt um Davíð Oddsson. Ég segi fyrir mig að ég bíð eftir hverju Reykjavíkurbréfi og skjaldan kemur það fyrir að maður verði fyrir vonbrigðum. Svo var heldur ekki ekki um þessa helgi.

Þeir sem ekki viðurkenna að lesa Mogga vegna þess hver sé ritstjórinn hafa samt gott af að renna yfir bréfið og skelli ég því hér með á bloggið mér til minnis.

 

"Yfir hverju eru menn að kvarta hér á suðvesturhorninu? Þessi líka frábæri sumardagur í gær og algjörlega feilfrír og staðfesti rétt einu sinni að þegar það er gott veður á Íslandi er það hvergi betra og breytir engu hversu vítt er horft.

Aftur og nýbúinn

Þessi sólfagri dagur í gær minnti mann helst á þann fræga sólríka miðvikudag í júní sl. sem gladdi okkur flest og sumir töldu að yrði í minnum hafður um aldir. Og nú erum við, suðurhornskallar landsins, sem sagt búnir að fá tvo svona snilldardaga því sem næst í röð. Þeir sem keyptu sér glaðbeittir stuttbuxur hjá Guðsteini um miðjan maí standa nú uppi sem sigurvegarar en þeir sem híuðu á þá eru niðurlútir að vonum. Og það er hreint alls ekki útilokað slíkir dagar eða keimlíkir þeim verði fleiri, jafnvel miklu fleiri enda er sumarið rétt að byrja. Það er meira eftir af júlí en margur hyggur og svo er allur ágúst, maður lifandi. Illspámenn veðurs fara nú með veggjum, sem vonlegt er, en þó er auðvitað óþarft að vera að nudda þeim upp úr þessum hrakförum, sem alla geta hent. Okkur er flestum þannig farið, að eftir svo blessaða tíð sem þessir tveir upprífandi dagar voru silfruð sannindamerki um og færðir voru með gleðibrag til bókar, að allt farg lyftist burt, eins og verið hefði loft, líkast kosningaloforðum, nema þá þeim sem Trump gefur, því að sá djöfsi gengur með þá meinloku að þau megi gjarnan efna.

Fundur í Fámannagjá og framhald Pírata

Meira að segja fíaskóið út af fullveldinu er gleymt og grafið enda var það sennilega aldrei um neitt. Það er þó of fljótt að slá neinu föstu því að þingflokkur Pírata er sagður hafa lagt fram skriflegar fyrirspurnir til ríkisstjórnar um það í fyrsta lagi hverju þeir sjálfir voru að mótmæla, og í öðru lagi hver hún var þessi Pia af Nörregade og í þriðja lagi hvort hún sé farin og þá í fjórða lagi hvert og hverjir sjái þá um að mótmæla henni þar sem hún er nú niðurkomin. Talið er að Píratar taki það sérstaklega fram í fyrirspurninni að ekki verði talið boðlegt af Steingrími þingforseta að bera fyrir sig að hér gildi hinar óskráðu reglur þingsins, sem Píratar hafa afhjúpað að séu sumar hverjar að auki hvergi nokkurs staðar skráðar. Þeir segja að þær örfáu óskráðu reglur sem séu skráðar séu ofan í kaupið langoftast skráðar neðarlega á síðu til að reyna að draga úr eftirlitsvaldi þingsins gagnvart einhverjum, sem Píratar hafa enn ekki séð neinar skrár um hverjir séu. En þeir munu hnykkja á því, að þar sem Ísland sé loks komið í Mannréttindaráð SÞ ásamt Simbabve, Líbíu og fleiri blysförum betra lífs á jörðinni, sem margt megi læra af, muni Píratar fljótlega gera kröfu um að á þeim vettvangi verði þessi ósköp öll tekin föstum tökum. Eðlilegt framhald Það sýnir aðdáunarverða staðfestu Pírata að þeir láta ekki einu sinni hina frábæru sólardaga sumarsins hér á suðvesturhorninu slá sig út af laginu. Það er því lágmarkskrafa allra sanngjarnra manna að þetta góða framtak þeirra verði án tafar skráð í þær bækur þar sem hinum óskráðu reglum þingsins er haldið til haga. Þegar danska þjóðin mun loks halda upp á sitt fullveldi, ef einhvern tíma verður talin ástæða til þess, þá getur sú íslenska sent bækurnar þar sem óskráðu reglurnar eru óskráðar á skinn, ásamt óskráðri frásögn af afreki Pírata og Helgu Völu og lánað Dönum þær, eins og þeir lánuðu Íslendingum Njálu til hátíðarbrigða. Píratar munu að vísu halda því fram að ef Helga Vala hefði ung verið gefin Njáli þá hefði hún gengið út úr bæ á Bergþórshvoli til að mótmæla því að Flosi væri mættur þangað óboðinn. Pia af Nörregaden hefði ekki einu sinni sýnt slíkan yfirgang. Og er þar með rétt að hrista af sér slen alvörunnar og taka upp léttara hjal.

Vandi er um slíkt að spá

Það hlýtur að vera snúið fyrir veðurfræðing að vera á ferðinni þar sem fjölmennið er mest í þessu fámenna landi. Það er nefnilega algilt lögmálið um örlög boðbera illra tíðinda. Það lögmál á að vísu oftast við um það sem orðið er og verður ekki breytt. Veðurfræðingurinn við kortin er aðallega að velta því upp hvernig tilveran gæti teiknast upp í veðri næstu daga. Hann byggir það auðvitað á lærdómi sínum og því sem hefur verið að gerast síðustu dægrin. Hann hefur fengið upplýsingar um loftþrýsting, jafnvel nokkrar gervitunglamyndir. Hann þekkir lægðirnar betur en nánustu ástvini og hvernig þær eru vísar til að haga sér á hverjum árstíma. Hann veit hvernig hitastigið í hafinu stendur og hvort afbrigði séu í straumum og hvort hafís sé lítill eða mikill og hann sé nær eða fjær og margt annað sem bréfritari veit ekkert um, þótt hann sé með þessi mannalæti.En þrátt fyrir allt þetta og tölvur, líkön og reiknivélar þá fara veðurfræðingar nærri um það að með hverjum ókomnum degi sem horft er til súrna spárnar og eitthvert óvænt frávik liggur í leyni og mun óvænt auka vafann, sem er höfuðóvinur allra spámanna. Hinn dæmigerði veðurfræðingur, sé hann til, er vísast líkur okkur hinum og er því, einkum í hinni fágætu sumartíð, heldur hallur undir „gott veður“ þótt umdeilt sé hvaða veður það sé.

En hann er samt mun óvilhallari en margir aðrir spámenn sem láta til sín taka og veifa því óspart hve faglegt og óhlutdrægt allt þeirra tal sé. 

Við munum hvernig sjálfumglaðir fróðleiksmenn, stundum með opinberan stimpil, þóttust geta farið með hrikalegar hrakspár yrði Icesave-búðingnum hafnað. Enginn þeirra hefur enn beðist afsökunar á oflæti sínu og innistæðulausum fullyrðingum. Sjálfsagt er að gefa sér að margur þeirra hafi grátið ofan í koddann andvökunæturnar eftir að íslenska þjóðin gaf þeim langt nef.

Ógleymanlegt er hvernig hinn kanadíski seðlabankastjóri Breta minnti í aðdraganda Brexit mest á skrítnu kallana með spjöldin að boða endalok mannkynsins. Hann má þó eiga það að hafa komist mun nær því en hinir íslensku „fagmenn“ að viðurkenna að hrakspár og jafnvel hótanir hafi ekki verið heppilegar. Hann á þó sennilega einkum við að það hafi verið óheppilegt fyrir hann hversu illa spádómarnir stóðust. Það var hins gæfa bresku þjóðarinnar, en gáfumönnum þykir það aukaatriði í svo stóru máli.

Fleiri tilefni til að spá af sér

Bandaríkjamenn kusu Donald Trump sem forseta. Bréfritari getur viðurkennt í þennan hóp að honum varð ekki fyllilega rótt yfir því. Og fyrst hann er byrjaður á að viðurkenna má allt eins bæta því við að fæst  af því sem síðar hefur gerst, sem afleiðing þess kjörs, sá hinn sami fyrir. Til dæmis gat engan órað fyrir hversu ofafengin viðbrögðin yrðu hjá þeim sem vildu aðra niðurstöðu. Margir þeirra virðast frá fyrstu stundu til þessa dags hafa verið ráðnir í að viðurkenna ekki úrslitin í reynd og sumir gera allt til þess að ógilda þau, jafnvel með brögðum ef ekki vill betur.

Hefur verið ömurlegt að fylgjast með sumum fjölmiðlum vestra, sem lengi hafa verið í miklu áliti. Það er næstum óhuggulegt að sjá hvernig alríkislögreglan vestra var misnotuð fyrir kjördag og eftir hann, svo ekki sé talað um leyniþjónustuforingjana, sem veifuðu fölsuðum skýrslum framan í fráfarandi forseta og hinn nýkjörna. Þeir stórlaxar hafa heldur betur sýnt á spilin sín. Svarti Pétur, sem oftast fer um einn í spilaboxunum, er þar í svo mörgum eintökum, að undrun sætir. En það voru einnig fjölmargir vel metnir fræðimenn sem spáðu fyrir um efnahagslegar afleiðingar þess að Trump yrði kjörinn, bæði löngu áður en það varð og upp úr hinum óvænta sigri hans.

Markaðir í frjálsu falli!

Paul Krugman, sem er handhafi hinna frægu sænsku verðlauna í hagfræði, sem Seðlabanki Svíþjóðar veitir í tengslum við Nóbelshátíð, skrifaði þetta eftir að kjörstaðir lokuðu og birti í New York Times þann 9. nóvember 2016, þegar hann horfði loks framan í að Trump væri að vinna kosningarnar:

„It really does now look like President Donald J. Trump, and markets are plunging. When might we expect them to recover? Frankly, I find it hard to care much, even though this is my specialty. The disaster for America and the world has so many aspects that the economic ramifications are way down my list of things to fear. Still, I guess people want an answer: If the question is when markets will recover, a first-pass answer is never. Under any circumstances, putting an irresponsible, ignorant man who takes his advice from all the wrong people in charge of the nation with the world’s most important economy would be very bad news.“ Krugman rökstuddi þessa skoðun sína og lauk pistli sínum með þessum orðum: „Now comes the mother of all adverse effects — and what it brings with it is a regime that will be ignorant of economic policy and hostile to any effort to make it work. Effective fiscal support for the Fed? Not a chance. In fact, you can bet that the Fed will lose its independence, and be bullied by cranks. So we are very probably looking at a global recession, with no end in sight. I suppose we could get lucky somehow. But on economics, as on everything else, a terrible thing has just happened.“

Raunveruleikinn

Nú orðið neita því fáir að bandarískur efnahagur hefur tekið vel við sér þessi fyrstu tæpu tvö ár undir stjórn Trumps. Hlutabréfamarkaðurinn hefur hækkað um meira en helming. Það er vart að treysta því að slíkt sé varanlegt eins og dæmin sanna, en þessi mikli vöxtur er þvert á allar spár. Atvinnuleysi hefur ekki aðeins dregist stórlega saman heldur eru nú fleiri laus störf í Bandaríkjunum en þeir eru sem leita sér vinnu. Þörfin fyrir matarmiða fyrir fátækustu fjölskyldurnar hefur dregist verulega saman. Kaupmáttur hefur vaxið verulega í fyrsta sinn frá bankakreppunni og þannig mætti áfram telja. Umfangsmestu skattalækkanir í Bandaríkjunum frá tímum Reagans og þar áður John Kennedys náðu í gegn miklu fyrr en nokkur hafði spáð. Þær ákvarðanir hafa haft mikið að segja um hinn mikla ávinning sem orðið hefur í efnahagsmálum. Í gær var tilkynnt að hagvöxtur væri nú orðinn meiri en 4% miðaður við heilt ár. Þegar Trump sagðist í kosningabaráttunni sjá slíkan vöxt fyrir var gert stólpagrín að honum. Ekki síst af þeim sem töldu sig vita best og nutu mikils álits.

Það er nú það."

Því miður virðist yfirþyrmandi alvarleiki í pólitískri umræðu á Íslandi fara í öfugu hlutfalli við mikilvægi þess sem fjallað er um. Pírati eins og þessi Björn Leví fimbulfambar um það að Þingforsetinn Steingrímur Jóhann upplýsi hann skriflega um allar óskráðar reglur þingsins. Hvernig væri að Björn myndi byrja á að kynna sér lágmarksreglur um klæðaburð á Alþingi. Þó að þær hafi hvergi til þessa verið skráðar þá er áreiðanlega til þess ætlast að þingmenn séu til dæmis í skónum til að minnsta kosti að hlífa samþingmönnum við táfýlunni þó þeir varði hinsvegar að halda út hugsjónalegan óþefinn af heimskunni sem frá þeim streymir dag og nátt.

Ég mátti til að minnast þessa að Davíð bregst ekki þegar kemur að óbærilegum léttleika tilverunnar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

HANN er lika á 10földum launum og skortir ekkert ! 

Erla Magna Alexandersdóttir, 28.7.2018 kl. 20:29

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

.

.

Oft hér rigndi, en sá, sem sá

til sólar, kvartar ekki. 

Davíð gleðst. Með hýrri há

er Halldór, klár á dekki,

að afla sínum uppi í brú

aðdáenda í sannri trú.

Jón Valur Jensson, 28.7.2018 kl. 20:46

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Vinur ljóðsins Valur klár

vísna sendir boðin

Hann veit alveg upp á hár

hverju ef reiðast Goðin. 

Glóir sól í gullnum dal

gýs upp hitinn rjóður

Ég á vin í Jóni Val

vænn er hann og góður.

Halldór Jónsson, 29.7.2018 kl. 13:26

4 Smámynd: Már Elíson

Ja, maður minn...Þvílíkt og annað eins bull sem kemst fyrir á þessari síðu.....

Már Elíson, 29.7.2018 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 3417958

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband