Leita í fréttum mbl.is

Bara allt í lagi?

spyr maður sig eftir að lesa hugleiðingar Björgólfs Thors.

Hann skrifar m.a.:

"Braskið byrjaði í raun áður en gömlu ríkisbankarnir voru einkavæddir. Þannig hefur t.d. verið upplýst að í blekkingarleiknum með aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum var sett upp flétta,

sem tryggði Ólafi Ólafssyni og félaginu Dekhill Advisors 11 milljarða króna á núvirði. Því er  vandlega haldið leyndu fyrir skattrannsóknarstjóra hverjir eiga Dekhill Advisors, en ýmsir sem þekkja þokkalega til hafa hvíslað því að mér að þar að baki séu stærsti hluthafi og æðstu stjórnendur Kaupþings.

Margar ákvarðanir í aðdraganda hrunsins voru teknar í fumi, fáti og af yfirgripsmikilli vanþekkingu. Jafnvel þótt búið sé að upplýsa hvað þáverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra fór á milli í símtali þar sem gengið var frá því að Kaupþing fengi gjaldeyrisvarasjóð landsins afhentan, þá er ákvörðunin eftir sem áður alveg jafn óskiljanleg. Og tap þjóðarinnar jafn stórt.

Upphaf og endir sögu bankanna í uppgangi og hruni markast af óskýrðu braski Kaupþingsmanna.

Þeir keyptu Búnaðarbankann með því að segja ósatt um aðkomu þýsks banka. Og þeim tókst líka að bjaga allar björgunartilraunir í ráðherrabústaðnum dagana fyrir hrun með því að segja ósatt um aðkomu Al-Thani. Sú stóra lygi varð til þess að Kaupþing virtist sterkari banki en hann í raun var. Hæstiréttur fjallaði um það mál og sagði brot Kaupþingsmanna „þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi.“ Það má því segja að tvær stærstu ákvarðanir ríkisstjórnar Íslands varðandi Kaupþing/Búnaðarbankann séu byggðar á blekkingum. Bæði árið 2002 og 2008. Það ætti því ekki að koma á óvart að fyrrverandi forsætisráðherra upplifi að hann hafi verið blekktur til að afhenda gjaldeyrisforða þjóðarinnar.

En braskið er allt í kringum okkur í dag. Kvótagreifar setja nýtt met í arðgreiðslum og gefa almenningi fingurinn, á meðan margir þingmenn streitast við að finna leið sem tryggir að útgerðin greiði sem allra minnst fyrir aðgang sinn að þjóðareign. Af hverju rennur arðurinn af auðlindinni ekki í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar, eins og arður Norðmanna af olíuvinnslu? Enginn lærdómur þar.

Og nýjustu dæmi af útgerðarbraski sýna, að enn og aftur eru menn að kaupa fyrirtæki og selja þau svo aftur fyrirtækjum sem skráð eru á markaði og innleysa þannig gríðarmikinn hagnað á stuttum tíma. Slík viðskipti minna á ítrekaðar sölur á Sterling flugfélaginu heitna, sem var svo eftirsótt að sömu menn börðust um að eiga það til skiptis. Þessi herlegheit eru síðan fjármögnuð af banka í eigu ríkisins. Ég spyr bara: Eru þessir kvótagreifar í persónulegum ábyrgðum fyrir skuldbindingum sínum? Ef ekki, þá er geggjunin ennþá algjör.

Nú velti ég því fyrir mér, hvað þeim gengur til sem sjá hættumerkin um allt en stinga bara höfðinu í sandinn og láta sem ekkert sé.

Sama krónustefnan er rekin áfram, með himinháum vöxtum fyrir almenning, af fólki sem á að vita betur. Þar hefur lærdómurinn ekki skilað sér.

Fyrst eftir hrun virtust allir af vilja gerðir til að læra af því og þeim mistökum sem gerð voru. Ýmsar hugmyndir komu fram um hvernig breyta mætti kerfinu og bæta, til að tryggja að aldrei aftur yrði hrun. Þær breytingar hafa verið fáar og smáar.

Var ekki haft eftir Albert Einstein að það væri beinlínis skilgreining á brjálæði að gera sama hlutinn aftur og aftur, en búast við annarri niðurstöðu?"

Er hægt að láta hugleiðingar BTB sem vind um eyru þjóta? Er bara allt í lagi með okkar kerfi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband