Leita í fréttum mbl.is

Vatnið skal renna upp í móti

skv. ákvörðun Dags B. Eggertssonar og Alþingis.

Leiðari Morgunblaðsins er svohljóðandi í dag  fyrir þá sem ekki lesa það blað:

"Kynnt voru á dögunum áform um framkvæmdir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu á næstu fimmtán árum. Þetta eru metnaðarfull áform, í þeim skilningi að þau eru mjög kostnaðarsöm, en ekki í þeim skilningi að líklegt sé að þau leysi umferðarvandann.

Áætlað er að setja þurfi um 90 milljarða króna í samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. Af þessum milljarðatugum er gert ráð fyrir að nær helmingur, 42 milljarðar króna, fari í svokallaða borgarlínu.

Að setja nær helming fjármagnsins í ferðamáta sem skilar um 4% ferðanna er augljóslega afar undarleg ráðstöfun. Ekki verður hún síður undarleg þegar horft er til þess að á fyrsta tímabili fimmtán ára áætlunarinnar, frá 2019-2023, er áformað að rúmir 17 milljarðar fari í borgarlínu og aðrar almenningssamgöngur en aðeins rúmir 4 milljarðar í vegabætur.

Á sama tímabili fara yfir 2 milljarðar króna í hjóla- og göngustíga og göngubrýr. Áherslurnar sem þetta lýsir eru verulegt áhyggjuefni fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins enda bendir allt til að þær umferðarteppur sem íbúarnir hafa mátt sitja fastir í á leið í og úr vinnu muni fara vaxandi á næstu árum.

Í skýrslu með nýju fimmtán ára áætluninni er rifjað upp að í maí 2012 undirrituðu ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu „samkomulag um 10 ára tilraunaverkefni til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Meginmarkmið samkomulagsins er að tvöfalda a.m.k. hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum og sporna með þeim hætti við tilsvarandi aukningu eða draga úr notkun einkabílsins, og draga jafnframt úr þörf á fjárfrekum fjárfestingum í nýjum umferðarmannvirkjum.

Aðilar voru sammála um að fresta tilteknum stórum framkvæmdum í samgöngumannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu, meðan samningur væri í gildi, en endurskoða mætti þessa frestun í ljósi umferðarþróunar.“

Í skýrslunni er reynt að halda því fram að flest hafi verið upp á við hjá Strætó eftir þetta samkomulag, til dæmis hafi farþegum fjölgað stöðugt. Fjölgun er vitaskuld eðlileg þegar horft er til mikillar fjölgunar íbúa, en breytir ekki þessari meginstaðreynd, sem einnig er nefnd í skýrslunni:

Þrátt fyrir þetta hefur hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum á höfuðborgarsvæðinu staðið í stað, og var um 4% árið 2017. Eitt lykilmarkmið verkefnisins var að sú hlutdeild myndi ná 8% árið 2022.“ Átakið árið 2012, þar sem fjármagn var flutt úr vegabótum í almenningssamgöngur, átti að skila því að hlutfall ferða færi úr 4% í 8%, en skilaði engu.

Þetta var „meginmarkmið samkomulagsins“, eins og rifjað er upp í nýju skýrslunni. Hlutfallið er enn 4%. Nýja áætlunin tekur ekkert mið af því að enginn árangur náðist, nema síður sé. Í stað þess að draga þær ályktanir sem augljósar eru af tilraunastarfsemi síðustu ára er gengið enn lengra í fjárfestingum í almenningssamgöngum og áætlað að enn meiri árangur náist en síðast var áætlað þó að árangurinn yrði enginn þá.

Þá var reiknað með að almenningssamgöngur færu úr 4% í 8%, nú er bætt um betur og gert ráð fyrir að þær fari úr 4% í 9%!

Þessi stórundarlega forsenda er auðvitað ekkert útskýrð og ekki gerð tilraun til að færa rök fyrir því hvers vegna árangurinn ætti að verða svo mikill nú þegar hann varð enginn áður. Ekki er nóg með að þeim framkvæmdum sem líklegast er að skilað geti árangri sé að mestu frestað áfram, heldur eru nú uppi áform um stóraukna skattheimtu á íbúa höfuðborgarsvæðisins til að standa straum af óráðsíunni.

Talað er um að leita „nýrra leiða til fjármögnunar framkvæmda við uppbyggingu innviða Borgarlínu“. Þessar „nýju leiðir“ eru nýir skattar sem kynntir eru til sögunnar undir nöfnunum innviðagjöld, veggjöld, hækkun kolefnisgjalda og aukin gatnagerðagjöld.

Öll væri þessi nýja skattheimta óþörf ef ekki stæði til að ráðast af miklu afli í óhagkvæmar samgönguframkvæmdir í stað þess að leggja áherslu á að bæta vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu með því að leysa þá hnúta sem þar er að finna.

Óráðsía og óskhyggja hafa ekki skilað árangri í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins hingað til og munu tæpast gera það hér eftir."

Er það ekki raunalegt að hugsa til þess að vinstri bræðingurinn í Borgarstjórn Reykjavíkur skuli geta farið svona með skattfé landsmanna þegar milljarðar á milljarða ofan eru settir í hluti sem engum munu gagnast. 

Yfir Breiðholtsbraut er glæsileg göngubrú sem kostaði um 145 milljónir. Reist af verktakafyrirtækinu Skrauta ehf. á alveg sérlega glæsilegan og fagmannlegan hátt. Ég keyri undir þessa brú 2-8 sinnum á dag. Ég hef núna á mörgum mánuðum aðeins einu sinni séð gangandi mann á brúnni.Annars er hún alltaf auð  Hinsvegar sé ég í hvert sinn sem ég keyri Miklubrautina, sem er talsvert oft, hvernig gangandi vegfarendur stífla umferðina allt til Kringulmýrarbrautar með því að spila á gangbrautarljósin. Af hverju var þessi brú ekki frekar reist þarna? Byggja vinstri menn ávallt brýr á þurru landi frekar en þar sem fljótið rennur?

Vatn er alltaf tregt til að renna upp í móti nema afli sé beitt eins og er í þessu tilviki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 3418215

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband