Leita í fréttum mbl.is

"Kjaramálin"

eru mörgum ofarlega í huga þessa dagana.

Einn þeirra er Hörður Ægisson á Fréttablaðinu. Hann skrifar svo:

"Þetta var skýrt og skorinort hjá seðlabankastjóra. Takturinn í hagkerfinu er að breytast, hagvöxtur fer hratt minnkandi og stjórnendur fyrirtækja sjá frekar fram á uppsagnir en ráðningar, en að sama skapi er ekki efnahagssamdráttur í kortunum.

Slíkt áfall gæti hins vegar orðið ef það verða verkföll og launahækkanir langt umfram svigrúm atvinnulífsins. Það hefði þær fyrirsjáanlegu afleiðingar að vextir myndu hækka og atvinnuleysi aukast. „Reynum að forða því,“ sagði Már Guðmundsson.

Þegar seðlabankastjóri sér ástæðu til að senda frá sér jafn skýr skilaboð mætti ætla að flestir myndu leggja við hlustir – og kannski taka mark á þeim. Það var auðvitað til of mikils mælst.

Viðbrögð forystumanna verkalýðsfélaganna voru í senn fyrirsjáanleg og uggvænleg. Formaður Eflingar, sem verður oft rosalega reið ef einhver kann að hafa aðra skoðun en hún, brást við með því að afgreiða varnaðarorðin sem „forherðingu efnahagslegra forréttindahópa“. Þetta er orðið þekkt stef.

Áliti greinenda, hagfræðinga, Seðlabankans – og í raun allra sem leyfa sér að setja fyrirvara við skynsemi þess að hækka laun margfalt meira en sem nemur mögulegri verðmætaaukningu – er hafnað með þeim einu rökum að þetta sé málflutningur „auðvaldsins“ og einhverra óskilgreindra „fjármagnsafla“. Ekki er þetta líklegt til uppbyggilegrar umræðu um hvernig megi laga það sem betur má fara í íslensku samfélagi og bæta lífskjör almennings.

Getur verið að hið sama fólk sé ekki drifið áfram af annarlegum hvötum heldur, meðal annars byggt á sérþekkingu þess, menntun og reynslu, viti mögulega um hvað það er að tala?

Hin nýja róttæka verkalýðshreyfing, sem verður tíðrætt um að allir aðrir en þau eigi að sýna auðmýkt, mætti stundum hafa það hugfast að þau hafa ekkert tilkall til að telja sig vera þess umkomin að boða hinn eina rétta sannleika.

Það er enginn á móti því að bæta kjör launafólks, einkum þeirra lægst launuðu, en það verður ekki gert með því einu að undirrita samninga um innstæðulausar tugprósenta launahækkanir.

Íslendingar ættu að hafa lært það af biturri reynslu að hækkun launa umfram framleiðnivöxt leiðréttist með hærri verðbólgu – sem bitnar harðast á skuldsettum heimilum og þeim sem minnst hafa á milli handanna.

Laun í krónum talið hafa nær sexfaldast frá 1989 en á sama tíma hefur kaupmáttur aðeins vaxið um 65 prósent.

Haldi einhverjir að niðurstaðan yrði á aðra leið við núverandi aðstæður þá hafa þeir hinir sömu fundið upp á nýrri leið til að stórbæta lífskjör alls almennings með einu pennastriki, óháð verðmætasköpun og stöðu útflutningsatvinnuveganna. Fáir ættu að vilja láta reyna á það veðmál.

Verkalýðshreyfingin er að stærstum hluta skipuð skynsömu fólki sem veit vel að á því hvílir rík ábyrgð. Í stað þess að reyna að eigna sér hlutdeild í þeim mikla árangri sem áunnist hefur og leggja áherslu á að varðveita hann – kaupmáttur hefur aukist um fjórðung frá 2015 – hefur hluti hennar kosið þá vegferð að sækja í átök við allt og alla fremur en að leita raunhæfra lausna.

Það hefur verið ljóst um langt skeið að þær viðræður sem nú eru á borði ríkissáttasemjara eru í fullkomnum ógöngum. Allar kröfur stéttarfélaganna – húsnæðismál, afnám verðtryggingar, vaxtamál og krónutöluhækkanir – eru sagðar ófrávíkjanlegar.

Ef fram heldur sem horfir geta viðræðurnar aðeins endað á einn veg þar sem félögin munu slíta þeim og boða til verkfalla – og um leið taka niður með sér allt hagkerfið.

Við erum að nálgast ögurstundu."

Ég velti fyrir mér hvort hin nýja "Marxiska" forysta Eflingar sjái fyrir sér að hún verði að fá að sanna sig í eldi. Þess vegna telji hún nauðsynlegt að verkfall skelli á til þess að hún fái sannað sig á vígvellinum. Með því einu geti hún fest sig í sessi þar sem verkfall muni alltaf skila árangri í því sem telja má í prósentum á sigurdegi. Það sé persónuleg þrá eftir eldskírn sem knýi Sólveigu Önnu fram. Og tæpast mun ráðgjafinn, Fjögralaufa-Smárinn á bak við hana , við draga úr slíkum væntingum. 

"Kjaramálin" yrðu auðvitað  best leyst með núll prósent almennum taxtahækkunum en hliðarráðstöfunum í aðgreindum málaflokkum, ef efla ætti kaupmátt-þjóðarsátt-.

 

En líklega er tómt mál að tala um einhverja skynsemi þegar svona stendur á í "Kjaramálunum".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skynsemi.  Hvar er skynsemi að finna?  

Hópur íslendinga ganga hoknir og taka við því sem á þá er lagt.  Landstýrendur leita eftir viðmiðunum þar sem hagstæðast er fyrir þá að nota til álagningar byrða. 

Ef að mati landstýrandann vantar  peninga í eyðsluhítina er leitað eftir við miðunum og þá  gjarnan  til Noregs,þar hefur oftast verið hægt að finna hæstu verð og skatta.              Gott til viðmiðunar.                

Í dag fer að verða erfitt að nota Noreg sem viðmiðunarlönd hvað verðlag og þjónustu varðar.  Nú  trónar Ísland hátt yfir önnur lönd og þar á meðal Noreg.  Fátt er að verða sem hægt er til notkunar og til viðmiðunar.

Eftirýtarlega leit fundu landstýrendurnir fyrirmynd, vegskatta í Noregi. Vegskattar eru normönnum þung byrði, og þótti  vel hæfa hinum hoknu á Íslandi. 

Ekki gátu landsstýrendurnir fundið neina samanburðarviðmiðun í sambandi við vexti og verðbætur í löndum þó leitað væri um  allan heim.

Hinn hokni hópur tekur við því sem að honum er rétt.  Nú ætlar þessi  hópur eftir að fara fram á leiðréttingu til að létta byrðar.  Hvar á þessi hokni hópur að leita viðmiðana, það hlýtur að vera  nærtækast að taka mið af Landsstýrendunum.  Landsstýrendurnir vita best hvaða þol þjóðarbúsins er, tóku þeir sér ekki launahækkanir upp 45% afturvirkt um marga mánuði.  Er ekki eðlilegt að hinn hokni hópur taki og noti  nærtækt viðmið fyrirmanna.  

Húsnæðiskostnaðar. Getur hann orðið samanburðarhæfur við nágrannalönd Íslands? 

Þungt mun hinn hokni hópur finna fyrir nýja skattinum sem landstýrendurnir eru á leggja á Vegskatt.

Eðvarð Lárus Árnason (IP-tala skráð) 8.2.2019 kl. 14:48

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Það er ótrúleg einföldun þegar fólk sem óttast kollsteypu hér skammast bara út í nýju verkalýðsforystuna. Eftir langa bið fékk sá þjóðfélagshópur sem verst er settur í þjóðfélaginu rödd á þeim vettvangi. Á Alþingi á þessi hópur enga málsvara, a.m.k. ekki eftir að Flokkur Fólksins klofnaði og er þar með orðinn áhrifalaus. Heldur einhver viti borinn maður að friður verði með það þegar þúsundir fjölskyldna hafa ekki efni á að eignast þak yfir höfuðið, býr inni á foreldrum sínum eða hrekst á okurmarkaði húsaleigunnar. Fólk sem standur á núlli eða undir því um hver mánaðamót og sér ekkert annað framundan er ekki líklegt til að hlusta á föðurlegar hótanir SA eða Seðlabankamanna. Kjör þessa hóps verður að laga með samstilltu átaki og sérstaklega aðkomu Alþingis. Væri ég enn að reka fyrirtæki væri ég mjög ánægður með þessa verkalýðsforystu vegna þess að mér finnst að þau sjái hlutina í réttu ljósi og horfi á þá í víðara samhengi en að krefjast einhverra prósentuhækkana frá atvinnurekstrinum sem jafn harðan er svo teknar aftur vegna ákvarðana stjórnvalda. Ég hélt að það væri liðin tíð að skjóta sendiboða vondra frétta.

Þórir Kjartansson, 9.2.2019 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 3418212

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband