Leita í fréttum mbl.is

Nýyrði Jóns Ólafssonar

ritstjóra og Alþingismanns er mörg fleiri og fjölbreyttari en maður hafði hugmynd um.

Ingvar Gíslason minntist þessa í ræðu á Alþingi 19.apríl 1970.

"

 Árið 1886, eða fyrir nærfellt 84 árum, sama árið og Sigurður Nordal fæddist norður í Vatnsdal, kom út bók á vegum Hins íslenzka þjóðvinafélags, sem nefndist Um frelsið, eftir John Stuart Mill í þýðingu ungs blaðaritstjóra og alþm., Jóns Ólafssonar.

Þessi bók fjallaði um efni, sem varla hafði verið rætt né ritað um á Íslandi, áður en bókin kom út.

Í bókinni sjálfri segir, með orðum þýðandans, að hún fjalli „um þegnfrelsi eða félagsfrelsi, um eðli og takmörk þess valds, sem mannfélagið hefur rétt til að hafa yfir einstaklingum.“

Bókin er ekki ýkja stór, hún er um 230 bls. í mjög litlu broti. Ókunnugum kynni því að virðast, að það hefði verið tiltölulega létt verk og auðunnið fyrir sæmilega ritfæran mann að snara henni á móðurmál sitt.

Jón Ólafsson var ritfær í bezta lagi og kunni vel ensku, og íslenzku kunni hann flestum betur um sína daga.

En þýðingin á bók Stuarts Mills var ekkert áhlaupaverk. Þýðandinn rak sig óþyrmilega á þá staðreynd, að ekki eru á Íslandi til orð um allt, sem er hugsað á jörðu, svo að farið sé gáleysislega með vísupart eftir frægan höfund og honum öfugt snúið.

Reynsla Jóns Ólafssonar varð því sú, sýnist mér, að hann varð að smíða að meðaltali u. þ. b. eitt nýyrði á hverri síðu, áður en hann fékk lokið bókinni.

Flest þessara orða mun Jón hafa búið til sjálfur, önnur sótti hann í fornt mál og yngdi upp merkingu þeirra, og sum hefur hann án efa lært af samtímamönnum sínum.

En samkv. orðaskrá um nýyrði og óvenjuleg orð aftast í bókinni eru nýyrði hátt á þriðja hundrað. Það er fróðlegt að lesa þessa nýyrðaskrá eftir 84 ár.

Að sönnu hafa mörg nýyrðanna ekki fest rætur í málinu, og sum hljóma ankannalega í eyrum okkar nú á tímum, en það hlýtur þó að vekja meiri athygli, hversu mikill fjöldi nýgervinga Jóns Ólafssonar hefur lifað, svo að orðin eru nú á hvers manns vörum.

Til gamans skal ég lofa ykkur að heyra á milli 30–40 orð, valin af handahófi, sem er að finna í nýyrðaskránni aftan við þýðingu Jóns Ólafssonar á bókinni Um frelsið eftir John Stuart Mill. Öll þessi orð voru óþekkt eða mjög fágæt fyrir 85 árum, en öll eru þau okkur munntöm nú og vekja enga eftirtekt. Ég skal lofa ykkur að heyra þessi orð:

Afbrigðilegur, bandalag, dómgreind,

eldmóður, félagslund, fjölbreytni,

fjölhæfi, fjölhæfni, formælandi,

þ. e. talsmaður,

frumkvæði, frumlegur, frumleiki,

hugðarefni, hugnæmur, íhlutun,

jákvæður, neikvæður, misbeita,

ófremdarástand, ofstækismaður, raunhæfur,

raunvísindi, réttmætur, rétttrúaður,

rétttrúnaður, rökleiðsla, rökræða,

samkeppni, sérlyndi, siðmenning,

skilgreina, smásálarskapur,

sem er þýðing á enska orðasambandinu lowness of mind,

stjórnmálamaður,

umburðarleysi, uppeldisáhrif, valdhafi,

vanmeta, viðfangsefni, víðtækur,

 

þröngsýnn eða narrow-minded.

Þetta voru nýyrði eða fágæt orð fyrir u. þ. b. 85 árum, en nú eru þau lifandi mál í hvers manns munni. Ég tók þetta sem dæmi um áhrif góðra þýðinga á verndun tungunnar og það, hversu þær geta auðgað hana af orðum og hugtökum.

Góðir þýðendur eru landnámsmenn og frumherjar í ríki móðurmálsins. Það væri fróðlegt og gagnlegt að geta vitnað meira til Skírnisgreinar Sigurðar Nordals frá 1919 máli því til stuðnings, sem hér er til umr.

 Ógerningur er að hafa þá ritgerð alla yfir, vegna þess hversu löng hún er og ákaflega ítarleg. Í upphafi ritgerðar sinnar varpar Sigurður Nordal fram þessari spurningu: „Hvað er það í menningu okkar, sem Íslendingi verður minnisstæðast, þegar hann hugsar til hennar handan um haf?“

Höfundur svarar sjálfum sér með þessum orðum: „Íslenzk alþýðumenntun.“ Og hann bætir við: „Íslenzk alþýðumenntun er gömul, og íslenzk alþýða er næm á menntandi áhrif.“

Og ennfremur segir Sigurður Nordal: „Íslenzk alþýðumenntun byggist á sjálfsmenntun.“ Af þessu dregur Sigurður þá ályktun, að nauðsyn beri til að auðvelda íslenzkum almenningi leið að hinum tiltækustu þekkingarmiðlum.

„Hver eru helztu meðöl sjálfsmenntunar og annarrar menntunar?" spyr Sigurður Nordal, og hann svarar sér sjálfur: „Það eru bækurnar.“ Mig langar að mega lesa stuttan kafla orðrétt úr ritgerð Sigurðar Nordals, með leyfi hæstv. forseta:

„Í bókunum finnur maðurinn heim, sem er óendanlega auðugri en það brot af lífinu, sem hann á kost á að kynnast. Í þessum heimi á hann kost á að fá fangið fullt af dýrustu gersemum mannsandans. Vísindamaðurinn gefur honum þekkingu sina, vísindaaðferðir og hugsanir, skáldið drauma sína, lífsspeki og dýrustu tilfinningar. Hann getur ferðazt með landkönnuðinum, setið til borðs með vitringunum, kannað djúp rúms og tíma.

Ekkert er fjarstæðara en að líta á bækur og líf sem andstæður,“ segir Sigurður Nordal. „Bækur eru líf, niðursoðið líf, safinn úr lífinu, reynsla og hugsanir forfeðra okkar og samtímamanna. Hverrar menntunar, sem við leitum, rekumst við alls staðar á bækurnar sem greiðustu leiðina að henni.“

Þannig skrifaði Sigurður Nordal fyrir rúmum 50 árum. Sigurður Nordal lagði í þessari ritgerð höfuðáherzlu á, hversu alþýðumenntun væri á háu stigi á Íslandi og hversu almenningur hér væri fróðleiksfús og næmur á menntandi áhrif.

Hann benti einnig á nauðsyn þess, að stuðlað yrði sem lengst að viðhaldi íslenzkrar alþýðumenntunar og þar með sjálfsmenntunar. Hann segir, að sér væri það ljúf hugsun, ef á Íslendinga framtíðarinnar mætti líta sem fyrirmyndarþjóð í jöfnuði menntunar og manngildis.

Og hver er sá, sem ekki vill taka undir þessi orð Sigurðar Nordals? Það kann að vera, að ýmsum þyki hann leggja mikið upp úr sjálfsmenntuninni. Einkum mætti okkur e. t. v. finnast það, sem þykjumst skilja gildi skólagöngu og skólanáms og viljum efla skólastarfið í landinu.

En okkur er áreiðanlega hollara að fara hér með nokkurri gát í samanburði. Án minnsta efa hefur sjálfsmenntunin jafnmikið gildi nú og hún hafði fyrrum. En hitt ætti mönnum að vera ljósara nú en mörgum var áður fyrr, að einhliða og einhæf menntun og þá ekki síður sjálfsmenntun en önnur getur reynzt tvíeggjað sverð. Hún getur jafnvel snúizt í andhverfu sína, ef menn lifa lengi á mjög einhæfu andlegu fóðri.

Því miður er svo háttað þekkingarmiðlun á Íslandi nú og hefur lengi verið, að hætta er á, að þekkingarsvið Íslendinga verði í þrengra lagi, a. m. k. þrengra en það þyrfti að vera.

Sigurður Nordal impraði raunar á þessu í margívitnaðri grein sinni í Skírni, svo að þetta er ekki nein sérstök speki frá mér eða hv. 1. þm. Vestf. Það, sem Sigurður taldi fyrir meira en 50 árum, að væri ábótavant öðru fremur í bókmennta- og fræðiviðleitni Íslendinga, var skortur þýðinga á erlendum úrvalsbókum. Þetta er jafnsatt nú eins og það var fyrir hálfri öld.

Eins og segir í grg. fyrir þessu frv., þá orkar menningargildi þýðinga hér á landi mjög tvímælis, og á því sviði fer yfirleitt meira fyrir magni en gæðum. Þýðingar eru vanræktur þáttur í bókmenntum Íslendinga. Þær eru tilviljanakenndar, einhæfar og fáskrúðugar og oft beinlínis skaðlegar máli og menningu í stað þess að vera því til styrktar og eflingar. Á þessu sviði er mikill akur óplægður, mikið verk óunnið. Sú er von flm., að framkvæmd þeirrar hugmyndar, sem hér er hreyft, verði til þess að örva útgáfu erlendra öndvegisrita í vönduðum þýðingum, enda ber til þess ærna menningarlega nauðsyn.

Þrátt fyrir almennari málakunnáttu nú en áður, eru ekki líkur til þess, að hún endist öllum til þess að notfæra sér erlend fræðirit um sérgreind og torskilin efni, og kemur þar margt til, m. a. það, að venjulegt tungumálanám í skólum er takmörkum bundið að efni og orðaforða.

Öllum þorra manna er miklu aðgengilegra þrátt fyrir skólalærdóminn að lesa bækur á móðurmáli sínu en erlendum tungum, ekki sízt þegar um er að ræða vandlesnar bækur um framandi og torskilin efni.

Herra forseti. Ég hef nú gert nokkra grein fyrir ástæðum þessa máls og mun láta máli mínu lokið. Ég teldi mjög mikils vert, að þetta mál gæti náð fram að ganga, þótt nokkuð sé liðið á þingtímann. Málið er ekki umfangsmikið og ekki vandasamt í meðförum. Hins vegar er hér um mikið menningarmál að ræða, sem ég vona, að Alþ. og ríkisstj. gefi gaum, svo sem maklegt er.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn."

Þessi tilvitnuðu orð Ingvars Gíslasonar fyrir hálfri öld síðan eru í fullu gildi enn í dag.

Jóni þessum, langafa mínum,  ofbauð orðbragð Alþingismanna sem kölluðu hvorn annan óhikað fífl og þaðan af verra úr ræðustóli Alþingis. Hann fékk því til leiðar komið að auka virðingu þingsins með því að þingmenn yrðu kurteisari í tali. Og var hann þó ekki talinn neinn engill sjálfur í orðfæri á prenti.

Hann fékk því til leiðar komið að þeir ávörpuðu hvorn annan "hæstvirtur" osfrv. Maður getur rifjað þetta upp þegar sumir ganga um þingsalinn eins og tötrughypjur á sokkaleistunum  með flakandi í hálsinn eða labba um á malbiksjakkanum eins og þeir væru að koma beint úr framkvæmdunum hjá Degi B.

Aðrir þingmenn eru nú margir með slifsi en óttalega er lítil reisn yfir þeim afkáraþingmönnum úr litlu flokkunum og yfirleitt þeim mun minni sem þeir eru lengra til vinstri.

Þingkonurnar  eru margar minna áberandi fyrir afkáraskap en karlarnir en manni finnst nú að virðing Alþingis myndi ekki minnka við að þetta lið nennti að klæða sig sæmilega þó að innihaldið í höfðum þeirra  myndi sjálfsagt ekki breytast mikið við það án þess að hægt sé að útiloka að slík snyrtimennska  hefði áhrif til sjálfsvirðingar. En þeir eru nú sjálfir að kvarta yfir skorti á virðingu í þeirra garð og einhversstaðar mætti byrja.

Erlendis, til dæmis á Bandaríkjaþingi, eru menn yfirleitt vel til fara og Trump er alltaf með slifsi til dæmis og flestir aðrir, Macron og fleiri en Corbyn auðvitað eins og útburður um hálsinn  enda vinstri maður.

En nýyrðasmíði er verk sem aldrei lýkur. Íslenskan hefur ótal möguleika fyrir orðhaga menn. Ég reyndi einu sinni sjálfur að smíða eitt: "Réttholda." Með því vildi ég lýsa mannveru sem væri hvorki of feit eða of horuð. En ekki veit ég um framhald þessa.

Vonandi megi íslenzkan lifa um aldir undir vökulum augum manna eins og Ingvars Gíslasonar, Sigurðar Nordal og Jóns Ólafssonar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Halldór.

Skemmtileg lesning.

Áttaði mig samt ekki á einu, er Jón Ólafsson langafi þinn eða Norðfirðingsins Ingvars Gíslasonar??

Spyr því hann er langalangafi konu minnar.

En tókstu eftir íslenskunni í nýyrðasmíði hans?

Fróðlegur samanburður við ónefni stofnanamálsins að ekki sé minnst á stjórnmálamenn eins og borgarstjóra ykkar þarna fyrir sunnan, sem talar næstum alltaf slíkt mál.

Svo ég segi bara, það er af sem áður var.

Kveðja að austan.

PS. Vona að þú hafir sigrað óværuna.

Ómar Geirsson, 7.6.2019 kl. 18:14

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Hann er langafi minn. Hverra manna er þá frænka mín sem er kona þín?

Halldór Jónsson, 7.6.2019 kl. 19:01

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kærar þakkir fyrir þennan fróðlega og þarfa pistil, Halldór. 

Ómar Ragnarsson, 7.6.2019 kl. 21:50

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Heyrðu, hélt að ég væri búinn að svara en tölvan gerði mér þann grikk að tengjast ekki netinu.

Jón átti barn hérna fyrir austan, Guðjón hét hann og frá honum er kominn ættleggur hér fyrir austan.  Hann var afi tengdapabba míns, Guðna Þórs Jónssonar, sem fæddist á Hólmum í Reyðarfirði, sonur Jóns Kristins Guðjónssonar frá Kolmúla Fáskrúðsfirði.

Ég var aðeins farinn að ryðga í þessu, en fann minningargrein á netinu sem Jón Bjarnason skrifaði um bróðir Guðna, Guðjón Jónsson.

Í þeirri grein fann ég þessa tilvitnun í grein sem Guðjón skrifaði í Morgunblaðið;

"Að fordæma annað fólk fyrir að komast að annarri niðurstöðu en það sjálft er reyndar kallað þröngsýni eða heimska.

 

Greininni lýkur Guðjón með tilvitnun í Sigurbjörn biskup sem gætu verið einkunnarorð hans sjálfs:

Betri er íhugandi efi en hugsunarlaus trú."

Eitthvað sem orkupakka fólk mætti íhuga þessa dagana.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.6.2019 kl. 00:25

5 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Takk fyrir þennan fróðleik Halldór. Það eru nokkur algeng orð og orðasamb0nd í ensku sem ekki hafa verið þýdd að hætti langafa þíns (að mínu mati). 

Veist þú um nothæfa þýðingu á - identity politics

Benedikt Halldórsson, 8.6.2019 kl. 05:32

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Nei Benedikt, það ekki ég ekki. Skil heldur ekki hugtakið nægilega vel ef þúi hætir aðeins útskýrt það.

Halldór Jónsson, 8.6.2019 kl. 08:49

7 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Þetta hefur Sigmyndur Davíð að segja um - identity politic. 

"Í staðinn kem­ur það sem ég hef kallað stimp­il­stjórn­mál og hef­ur nú verið þýtt á ís­lensku sem sjálfs­mynd­ar­stjórn­mál (e. identity politics). Slík stjórn­mál ganga út á að skil­greina alla fyrst og fremst sem hluta af til­tekn­um hóp­um frem­ur en sem ein­stak­linga. Rétt­ur manna er svo mis­mik­ill eft­ir því hvaða hóp­um þeir til­heyra.Slík­um viðskilnaði við raun­veru­leik­ann fylgja óhjá­kvæmi­lega veru­leg­ar tak­mark­an­ir á tján­ing­ar­frelsi og sú hug­mynd að nauðsyn­legt sé að þagga niður í þeim sem ekki til­heyra rétt­um hópi eða jafn­vel út­skúfa þá."

Ég tel að það vanti betri þýðingu. 

Benedikt Halldórsson, 8.6.2019 kl. 10:23

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Ómar Geirsson

 

 

Þetta er á Íslendingabók. Moig vantar fleiri börn Guðjóns Jónssonar sem er forfaðir konu þinnar. Er ekki Hákarla-Guðjón sonarsonur þessa Guðjóns?

 

Sigríður Jónsdóttir

 

 

Bjarnason

 

F.Ólafsson

18. apríl 1883 - 26. mars 1971

Jón Ólafur Ágústsson Bjarnason

28. mars 1911 - 11. feb. 1981

Halldór Jónsson Bjarnason

3. nóv. 1937

 

Guðjón Jónsson

15. feb. 1877 - 8. jan. 1954

Oddný Vilborg Guðjónsdóttir

19. ágúst 1902 - 13. maí 1989

Halldór Jónsson, 8.6.2019 kl. 10:55

9 Smámynd: Halldór Jónsson

Benedikt, hvernig væri Dilka-stjórnmál? Menn eru dregnir í dilka og þar við situr?

Halldór Jónsson, 8.6.2019 kl. 10:57

10 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Snilld. Það er orðið. Ég nota það hér eftir. 

Benedikt Halldórsson, 8.6.2019 kl. 19:41

11 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk Bnedikt, kannski nothæft um þetta fyrirbrigði

Halldór Jónsson, 9.6.2019 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 3418211

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband