Leita í fréttum mbl.is

Af stokkunum

er meirihlutinn í Reykjavík hlaupinn

Hilmar Þór Björnsson arkitekt skrifar svo um stokkahugmyndina í dag:

" Nú eru liðin tæp tvö ár síðan „fýsileikakönnun“ um Miklubraut í stokk var kynnt. Niðurstaðan var í stuttu máli sú að talið var skynsamlegt að gera þetta.

Ég áleit á þessum tíma að þetta væri svona hefðbundið kosningamál sem auðvelt væri að selja, en sveitarstjórnarkosningar stóðu þá fyrir dyrum. Þegar könnunin var kynnt sást strax að megináhersla var lögð á endanlega útkomu og hvað þetta yrði allt mun betra og skemmtilegra en núverandi ástand. Og það er vissulega rétt að allt umhverfið yrði mun manneskjulegra og skemmtilegra ef bílunum yrði sökkt niður í jörðina og maður þyrfti hvorki að sjá þá né heyra.

Fæstir bjuggust við að málið yrði tekið upp aftur eftir kosningar. En nú er þetta komið upp á borð og er inni í svokölluðum samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Á sínum tíma þegar þetta var kynnt veltu menn fyrir sér hvernig umferðinni yrði háttað á framkvæmdatímanum sem líklega verður 5-10 ár.

Það þyrfti að finna annan farveg fyrir þá tæplega 100 þúsund bíla á sólarhring sem fara um gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Bústaðavegur og Snorrabraut yrðu einnig í uppnámi meðan byggður er stokkur við gatnamót þeirra samkvæmt fýsileikakönnuninni.

Framkvæmdin mun rýra verulega aðgengi að Landspítalanum, háskólasvæðinu og í reynd Vesturbænum, Seltjarnarnesi og miðborginni meðan á þessu stendur. Sama má segja um verslunarsvæði Kringlunnar sem um fimm milljónir manna sækja árlega. Manni virðist sem nánast öll umferð í Reykjavík verði undir meðan á framkvæmdum stendur.

Ekki var tekið á þessum umferðarmálum á framkvæmdatíma í fýsileikakönnuninni sem lögð var fram í febrúar 2018. En vonandi hefur það verið gert síðan og lausnir fundnar á þessu. Það væri gaman að sjá þær.

Til þess að átta sig á umfangi þessara framkvæmda má minna á að göngin verða samkvæmt fýsileikakönnuninni 1.750 metra löng frá svæðinu austan Kringlu og að Landspítalanum. Athafnasvæðið er alls um 23 hektarar sem er meira en allt Skuggahverfið norðan Hverfisgötu milli Snorrabrautar og Kalkofnsvegar.

Grafa þarf um 10 metra niður þar sem stokkurinn kemur og allnokkuð umhverfis hann auk graftrar vegna húsanna sem þarna á að byggja. Líklegt er að þarna sé hátt á aðra milljón rúmmetra af jarðvegi sem moka þarf upp og aka burt. Svo á að byggja öll húsin.

Samkvæmt fýsileikakönnuninni er áætlað að byggðir verði 206 þúsund fermetrar af nýbyggingum meðfram stokknum. Þar af eru 140 þúsund fermetrar ætlaðir íbúðabyggingum og 66 þúsund fyrir verslun og þjónustu.

Það er vert að minna á að á sjálfum Kringlureitnum er fyrirhugað að byggja um 160 þúsund fermetra nýs húsnæðis þar sem verða um 1.000 íbúðir. Þegar á heildina er litið er um að ræða tæplega 370 þúsund fermetra af nýbyggingum á svæðinu með um 2.400 íbúðum. Það er mjög mikið. Eitt og hálft Seltjarnarnes af nýbyggingum.

En hvernig eru þessi umferðarvandræði til komin? Hvað var það í borgarskipulaginu sem olli öllum þessum vandræðum sem nú á að leysa með þessum stokk?

Ég veit það ekki en tel víst að orsök þessara vandræða sé að leita í sjálfu borgarskipulaginu. Það er fullt tilefni til þess að rannsaka það.

Ég þekki enga 126 þúsund manna borg í víðri veröld sem hefur valið að byggja tæplega tveggja kílómetra jarðgöng til þess að greiða fyrir einkabílaumferð innanbæjar.

Getur verið að ákvarðanir um að safna saman öllum stærstu vinnustöðunum á nánast einn stað í miðborginni sé hluti vandans?

Hefur ekki verið fyrirsjáanlegt um langan tíma, að ef við stefnum öllum stærstu vinnustöðunum á einn stað þá fari umferðarmálin í hnút? Er þessi stokkahugmynd kannski talandi dæmi um hvað skipulag Reykjavíkur er vanreifað og ófaglegt?

Ef Landspítali – Háskólasjúkrahús, sem stefnir í að verða 7-8.000 manna vinnustaður með 20-30.000 ferðum til og frá daglega, Háskólinn í Reykjavík með 3.700 nemendum og nokkur hundruð starfsmönnum, og fleiri stórir vinnustaðir hefðu verið byggðir austar í borginni, t.d. við Elliðaárósa eða við Keldur, væri e.t.v. hægt að fresta þessari framkvæmd eða hætta við?

Er hugsanlegt að sjálf bærir borgarhlutar með allar daglegar nauðsynjar í göngufæri frá heimilunum mundu draga úr einkabílaumferð svo um munaði?

Og svo er líklegt að ef skilvirkar almenningssamgöngur hefðu verið skipulagsforsenda undanfarna áratugi væru þessi mál líklega í ágætu lagi og enginn stokkur á teikniborðinu. Og svo er það spurningin:

Vill einhver aka tæplega tveggja kílómetra löng, myrk og menguð göng, þegar aðrar leiðir, fallegri og skemmtilegri, eru í boði?"

Þarna er Hilmar með fingurna á púlsinum. Það er nákvæmlega þessi Kvosardýrkun sem hefur haft þau ömurlegu áhrif á umferðarskipulagið sem nú blasa við. Og það er haldið áfram á þeirri braut að reyna að troða sem mestri atvinnustarfsemi niður í átt að Kvosinni. Allsstaðar annarsstaðar væru menn búnir að átta sig á því Að Vesturbærinn og Kvosin eru orðnir að "Altstadt" sem hýsa aðallega gömul lítið eftirsótt íbúðahverfi og skemmtistaði. Atvinnustarfsemi fer þaðan og barnafólkið vill ekki búa í slíkum hverfum heldur.

Stokkhugmyndin er svo galin og dýr að það þarf meira en meðalóraunsæi til að ráðast í hana þegar við blasir að hægt er að leysa núverandi vandamál umferðarlega fyrir brot af þeim kostnaði sem þarna er til sögunnar kynntur.

Göngubrýr og mislæg gatnamót frá Grensásvegi að Suðurgötu, fjölgun akreina og breikkun Miklubrautar í stað nýgerðra þrenginga blasir við hverjum manni sem ekki situr í óráðsmeirihlutanum í borgarstjórn Reykjavík.     

Hilmar Þór á þakkir skildar fyrir að hleypa af stokkunum svo glöggri greiningu á fýsileika stokkhugmyndarinnar þannig að hver maður getur séð hversu gersamlega út í hött hún er. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Byggja röð íbúðablokka beint ofan á brautina og setja svo brú ofaná. Blokkirnar með eins löngu bili og hægt er eins og brúarstólpar. Hávaðinn af umferð er hverfandi ofan við byggð því engin mögnun eða bergmál er af þar.

þeir ættu annars bara að teikna hentugustu leiðirnar í gegnum borgina án tilliti til byggðar og rifa síðan húsin. Leiðin getur verið ofan, undir og yfir eftir smekk og gömlu æðarnar opnar á meðan.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.10.2019 kl. 20:32

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Halldór

Er ekki bara best að stokka upp í borgarstjórn?

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 26.10.2019 kl. 08:38

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Göng eru svo sannarlega erfið í framkvæmd og seinleg og ég gæti ekki verið meira sammála um fáránleika þess að hrúga niður stærstu vinnustöðum landsins á útnesi í jaðri bæjarnis.

En það eru auðvitað fleiri lausnir en göng. Ég er um þessar mundir staddur í Surat á vestanverðu Indlandi. Á íslenskan mælikvarða er Surat risastór borg með fjórar og hálfa milljón íbúa.

Hér hafa umferðarvandamálin verið leyst með brúm og römpum (flyovers) og árangurinn er sá að ég hugsa að í fáum borgum af svipaðri stærð í heiminum sé umferðarflæðið betra. Það tekur mig td. um korter að fara með bíl frá hóteli í útjaðri borgarinnar á skrifstofuna í miðbænum á háannatíma, um 12 kílómetra leið, í kaotískri indverskri umferð þar fyrir utan, þar sem reglurnar eru frekar til viðmiðunar en hitt. 

Það má auðvitað deila um fegurð þessara mannvirkja (þ.e. ef maður er ekki verkfræðingur). En það má reyndar kannski deila enn meira um fegurð blokkaskrímslanna sem Dagurb og Holuhjálmar hafa hrönglað upp um allan miðbæjinn og víðar á undanförnum árum.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.10.2019 kl. 17:55

4 identicon

Við þökkum ARKITEKTINUM Hilmari Þór Björnssyni fyrir hug hans og áhuga á skipulagsmálum Reykjavíkurborgar,sem fáir skylja. Miðaldra ÍSLENDINGAR forðast "gömlu-góðu-borgina" og fara frekar innan heima byggðar eða keyra austur fyrir fjall í kaffi og mat. ALLIR sakna Braga í EDEN!.

Gamla góða Reykjavík, bílastæðalaus með krákustígum er lokuð af með "eins" húsalengjum við sjávarsíðuna, sem EKKI fara vel við miðbæinn og STJÓRNARRÁÐIÐ. MÁSKÉ tekst þeim að loka fyrir ESJUNA að lokum?.

Alþingi og Reykjavíkurborg virðast ná vel saman í þrengingu gatna,reiðhjóla stíga ásamt BORGARLÍNUÁRÁTTU sem Landið og Borgin hefur engin efni á.

Tökum 2ár til að hugsa málin að nýju og kaupið 100-200 "litlar rútur" til að keyra ALMENNINGI til skóla og vinnustaða "RÍKISINS",stærsta vinnuveitandans.

GÍSLI HOLGERSSON - ICELAND (IP-tala skráð) 26.10.2019 kl. 18:21

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Þessi meirihluti verður að fara frá ef Reykjavík á að geta þróast í takti við nútímann. Þetta fólk er einfaldlega  af annari öld.

Halldór Jónsson, 26.10.2019 kl. 21:55

6 identicon

Ég endurtek varðandi STRÆTÓANA varðandi nærliggjandi nágranna bæi við Reykjavík og höfuðborgina REYKJAVÍK: 

Það verða 5-10 mínútur milli "mini"STRÆTÓA á stoppustöðum og ferðirnar eru FRÍAR og kosta ALMENNING, NEMENDUR og starfsmenn RÍKISINS OG BÆJARFÉLAGA EKKERT.  

HUGSANLEGA VÆRI SNJALLT AÐ HAFA BÍLSTJÓRA OG "AÐSTOÐARMANN" Í HVERJUM STRÆTÓ.  HRAÐI OG ÖRYGGI FARA VEL SAMAN.

GÍSLI HOLGERSSON - ICELAND (IP-tala skráð) 27.10.2019 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 3417959

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband