Leita í fréttum mbl.is

Lýðræði og auðræði

verður Ómari Geirssyni tilefni til skarprar greiningar á eðli atvinnulífsins og hégilju kommatittanna um skiptingu auðsins. Ómar segir:

 

En lýðræðið er heldur ekki lýðskrum og þar verður Sólveigu Önnu, formanni Eflingar mikið á.

Það er rétt að það er kapítalismi á Íslandi, flest fyrirtæki eru í einkaeigu og eigendur þeirra mega ráðstafa bæði eignum sínum, sem og hagnaði eftir sínum geðþótta.

Samfélagsleg ábyrgð þeirra er að fara eftir lögum og reglum, og kannski að haga sér á ábyrgan hátt, bæði gagnvart starfsfólki, umhverfi, og ekki hvað síst nærsamfélagi sínu.

Ég segi kannski því um þetta eru deildar meiningar hjá kapítalistunum sjálfum.

 

Sólveig Anna kaus að stökkva upp á lest hagsmunaafla sem gera út ákveðna lýðskrumsflokka til að skapa hér ólgu og upplausn, með því markmiði að veikja viðnámsþrótt þjóðarinnar, annars vegar gagnvart algjöri frjálshyggju hins frjálsa flæðis Evrópusambandsins, sem og að hún haldi sjálfstæði sínu gagnvart Evrópusambandinu.

Sem verkalýðsleiðtogi á Sólvegi Anna að vita að öll félagslegu undirboðin eru vegna regluverks ESB, sama regluverk er að knýja byggðaeyðingu í landbúnaði með tilheyrandi fækkun starfa í vinnslu, hefur knúið fram markaðsvæðingu orkuauðlindarinnar, og öll skattaskjólin og annað eru beintengd inní fjármálaregluverk sambandsins.

Eins ætti hún að vita að lestarfélagar hennar mættu ekki niður á Austurvöll að mótmæla markaðsvæðingu orkuauðlindanna, enda hver mótmælir þeim sem fjármagnar mann, og það sem verra er, þetta fólk steinþagði þegar hrægömmunum var gefið veiðileyfi á almenning, sem er mesta hryðjuverk á friðartímum í Evrópskri nútímasögu.

 

Þegar þú mætir á torg í svona félagsskap þá má virkilega spyrja hvað býr að baki, hver er hinn undirliggjandi hvati. Og því miður kvikna hugrenningartengsl við nýsósíalistann Gunnar Smára, sem vann beint fyrir útrásarvíkinga, þáði hundruð milljónir í mútur frá þeim, og ekkert í hans málflutningi bendir til þess að hann þjóni ekki ennþá sínum gömlu húsbændum, sé svona dobbel.

Og þegar félagsskapurinn leggur til upptöku kvóta, ekki til að dreifa út til fólksins, sem reyndar er ekki beint skynsamlegt en ágætis sósíalismi, heldur til að bjóða hann út til hæstbjóðanda, þá kemst ekki jafnvel mesti einfeldningur  hjá því að átta sig á í hvaða félagsskap hann er.

Kvóti seldur hæstbjóðanda er argasta frjálshyggja sem jafnvel Steini Páls lét sig ekki einu sinni dreyma um í sínu blautasta blæti þegar hann var sjávarútvegsráðherra og þó dásamaði hann opinberlega hina meintu hagræðingu kvótakerfisins i Nýja Sjálandi þar sem 3 fyrirtæki eignuðust allan kvóta á um 5 árum.

Í slíku uppboði felst arðrán á sjávarbyggðum sem er áður óþekkt á Íslandi, og líklegast í öllum frjálsum löndum, þó evrópsk nýlenduveldi teldu slíkt arðrán góða siði í nýlendum sínum.

Arðrán á samlöndum sínum, arðrán á einstökum byggðum, er í engu réttlætanlegri þó meintur arður eigi að renna í sameiginlega sjóði.

Arðrán er alltaf í eðli sínu siðlaust, það er ein birtingarmynd þrælahalds.

Í raun óeðli sem formaður Eflingar virðist ekki á nokkurn hátt bjóða við.

 

Samt hefur fólk gott af því að hlusta á orð hennar, vega þau og meta og taka afstöðu til;

"„Kæru fé­lag­ar, kæra fólk. Þetta er slag­ur, slag­ur um grund­vall­ar­gerð sam­fé­lags­ins. Slag­ur um hver fær að reikna og hvaða formúl­ur eru notaðar. Slag­ur um það fyr­ir hverja er stjórnað. Slag­ur um það hverju megi fórna; lífs­gæðum fjöld­ans fyr­ir græðgi fárra eða græðgi fárra fyr­ir lífs­gæði fjöld­ans,“ sagði Sól­veig í ræðu sinni. „Lýðræði ekki auðræði. Við sætt­um okk­ur ekki við að niðurstaða hins fjár­hags­lega út­reikn­ings sé að sí­fellt meira af auðæfum sam­fé­lags­ins renni til nokk­urra manna og af­kom­enda þeirra.".

Frjálshyggjan hefur snert þjóðfélag okkar, og auðurinn safnast á æ færri hendur.

En félagsskapurinn sem Sólveig Anna er í, er svona hjálparsamtök hans um að flýta þeirri þróun.

 

Breytir samt ekki réttmæti þess sem hún er að segja.

En því miður er þessi orð aðeins nýtt til að æsa upp lýðinn gegn einni atvinnugrein, og skaða lífsafkomu hinna brothættu byggða  með því að vega að fyrirtækjunum sem eru undirstaða í atvinnulífi þeirra.

Og þá er gripið til lýðskrumsins, að sjávarútvegurinn skili ekki arði í samfélagið, að einhver óeðlilegur arður lendi í vasa kvótaeiganda, og honum sé komið úr landi til skattaskjóla.

Svona í hnotskurn sem sagt var á múgæsingarfundinum á Austurvelli, vissulega ekki allt af munni Sólveigu Önnu, en hún var hluti af þessu lýðskrumi sem gírugir hagsmunir kostuðu.

 

Skoðum nokkrar staðreyndir.

Sjávarútvegurinn hefur greitt rúma 60 milljarða í arð frá Hruni, bankarnir rúmlega 500 milljarða.

Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnuvegur, skapar lífsnauðsynlegan gjaldeyri, bankakerfið, ja það er nauðsynlegt en það sýgur fjármagn úr kerfinu en skapar sem slíkt enga nýja fjármuni fyrir efnahagskerfið.

Ósanngjarn samanburður því hluti af guðsspjalli frjálshyggjunnar er að fjármálakerfið sé birtingarmynd guðdómsins og um það gildi önnur lög en mannanna lög, en berum þá arðgreiðslur sjávarútvegsins árið 2017 við arðgreiðslur heildsölunnar.

Heildsalar greiddu sér 16 milljarða í arð, kvótagreifarnir 17 milljarða.  Samt eru engar kröfur um að heildsalan verði leyfisskyld og leyfin boðin út til hæstbjóðanda.  Enda sjaldgæft að múgur í múgæsingarástandi vilji skaða sjálfan sig eða nágranna sína, þó hann telji það í góðu lagi að skaða aðra sem búa lengra í burtu.

 

Heildsalan er samt aðeins ein af mörgu atvinnugreinum á höfuðborgarsvæðinu, svæðið sem fóðrar að stórum hluta þennan öskrandi múg, smásöluverslun er með 10 milljarða, þar sem örfá stórfyrirtæki skipa markaðnum því sem næst alveg á milli sín. 

Og margar atvinnugreinar aðrar má telja upp sem greiða sér út arð, án þess að sérstakur fundur sé haldinn sem krefst þjóðnýtingar á þeim.

 

Lýðskrumararnir eða réttara sagt þessir vinnumenn hins gíruga fjármagns gætu þá í nauðvörn gegn staðreyndum, reynt að benda á að arðurinn sé of mikill í sjávarútvegi og þá í samanburði við aðrar atvinnugreinar.

En það er þá enn eitt bullið, arðgreiðslur af hagnaði er 21% í sjávarútvegi miðað við 31% að meðaltali í atvinnulífinu.

Og þeir geta ekki heldur vitnað í að sjávarútvegurinn borgi illa, stærstu útgerðirnar eru í hópi þeirra fyrirtækja sem borga hæstu meðallaunin.

 

Hvar er þá þetta meinta arðrán sem á að stöðva, sbr auglýsingarnar um að stöðva auðlindaránið.

Það kemur ekki fram í arðgreiðslum sjávarútvegsfyrirtækja, það kemur ekki fram í launagreiðslum þeirra, hvar þá??

Að það séu kapítalistar í greininni sem græða, en gildir það ekki líka um allar aðrar atvinnugreinar á Íslandi??

 

Og hvaðan koma allflestir útrásarvíkingarnir??, ekki úr sjávarútvegi, það eitt er víst.

Komu þeir ekki úr fjármálageiranum eða urðu ríkir af hlutabréfabraski eða öðru braski??

Eigendur Samherja eru vissulega auðugir menn í dag, en þeir standa uppúr stórum hópi sem lagði að stað í upphafi kvótakerfisins, og væri það ekki óeðlilegt að í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar yrði enginn ríkur á rúmum 30 árum??

Fyrr mætti arðránið gegnum ranga gengisskráningu vera ef svo væri ekki.

 

Það er ekki steinn yfir steini í öllu þessu skrumi og bulli.

Múgástandið og upphlaupið minnir miðaldra mann eins og mig á þegar allt varð brjálað í Chile nokkrum mánuðum eftir að fyrsti sósíalistinn var kjörinn þar forseti í lýðræðislegum kosningum.

Það reyndi aldrei á stefnu hans, því uppúr þurru logaði allt í verkföllum og deilum, eins og hann væri ábyrgur fyrir öllu því sem miður fór í 50 ára stjórnartíð íhaldsmanna þar á undan.

Síðan var það upplýst að CIA skipulagði og kostaði alla þá upplausn og óáran.

Allar lygarnar, allar blekkingarnar, og lagði grunn að valdaskiptum sem herinn stóð fyrir.

 

Hvað er langsóttara en meintar mútur í Namibíu, sem voru forsenda viðskipta þar, urðu tilefni þess að múgur safnaðist saman og réðist að sjávarbyggðum landsins.

Að krefjast þess að undirstöðu atvinnugrein þeirra yrði þjóðnýtt og nýtingarrétturinn síðan seldur hæstbjóðanda líkt og um þræla og þrælahald væri að ræða.

Og hvernig var hægt að tengja meintar mútugreiðslur við stjórnarskrána, og nýta þær sem kröfu um nýja sem hefur þann eina tilgang að koma í veg fyrir að þjóðin geti hafnað í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu ólögum frá Brussel.

Hefði Jóhönnustjórnin náð að plata hana uppá þjóðina strax eftir Hrun þá hefði ICEsave ekki farið í þjóðaratkvæði.

 

Þetta er of heimskt til að vera sjálfsprottið.

Ekki frekar en hin skyndilegu mótmæli sem blossuðu upp gegn Allende á sínum tíma og voru öll fjármögnuð af bandarísku leyniþjónustunni.

Hvað býr að baki, hvaða hagsmunir fóðra.

Hverjir græða á niðurbroti samfélagsins, hverjir græða á hinu svæsna arðráni sem felst í þjóðnýtingu kvótans og hann síðan seldur hæstbjóðanda??

 

Bull og heimska er kannski vefnaðurinn sem múgæsingin er ofin úr.

En hver er vefarinn??

Það eina sem ég veit að það er ekki CIA.

 

Lýðræði er ekki auðræði.

Lýðræði er ekki lýðskrum.

Lýðræði er réttur okkar til að ráða málum okkar sjálf.

 

Það er vegið að þessum rétti í dag.

Og okkur ber ekki gæfa til að verja hann.

 

Tek undir með Pet Shop Boy;

"It´s a sin".

Kveðja að austan.

Ég verð að segja það að Ómar kemur mér verulega á óvart með sinni skörpu heimspekilegu þjóðfélagsgreiningu. Ég held að Óli Björn Kárason hefði ekki getað gert þetta betur.

Þeir Austfjarðakommatittirnir hafa aldrei verið í vafa um það hvað sé undirstaða efnahagslífsins. Það sé vinnan sjálf.

Verðlagning hennar stjórnar. Verði hún of dýr dregur úr starfseminni. Þannig stjórnar framboð og eftirspurn öllu eins og öðru í mannlegu lífi.

Sólveig Anna og nýkomminn Gunnar Smári eru að reyna að æsa lýðinn upp til óeirða á grundvelli þess að það megi ræna Pétur til að borga Páli sem er gömul kenning sem illa hefur staðist tímans tönn.

Sovétríkin urðu undir í efnahagskapphlaupinu við lýðræðisþjóðirnar og forsendur þeirra dugðu heldur ekki á Neskaupsstað á blómatímum Lúðvíks Jósepssonar.Þeir Trump og Ómar eru kannski ekki jafn andlega fjarskyldir og einhverjir kunna að halda. En Sólveig Anna er fyrir mér af annarri plánetu meðan Gunnar Smári er fyrir neðan það að hans hugsjónir sem búa helst í annarra vösum  séu ræddar hér.

Ég er ánægður með Ómar Geirsson í dag eins og raunar oftlega áður.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 3418152

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband