Leita í fréttum mbl.is

Guðrún Hafsteinsdóttir

formaður Samtaka Iðnaðarins og í ýmsu tengdu lífeyrissjóðum, var á fundi í hádeginu í Valhöll þar sem leifarnar af gamla Sjálfstæðisflokknum hittist á miðvikudögum undir forystu Dóra gamla Blöndal sem er lofsvert framtak hans á tímum fallandi fylgis flokksins. Þangað stefnir hann úrvals fyrirlesurum eins og í dag þegar  Guðrún kemur. Sé honum lof og prís fyrir frá gömlum íhaldshjörtum eins og mér.

Í stuttu máli flutti Guðrún afburða erindi. Hún hefur yfir mikilli reynslu og þekkingu að ræða eftir áratuga starfi að atvinnu-og félagslífi. Þar að auki flytur hún mál sitt svo glæsilega og sannfærandi að maður kemst ekki hjá því að sjá fyrir sér forystumann í stjórnmálum ef slíkt væri í boði.

Hún ræddi blikur á lofti í efnahagsmálum Íslendinga. Álverið í Straumsvík sem væri eina gamla álverið sem eftir væri í Evrópu, stæði frammi fyrir alvarlegum rekstrarvanda og jafnvel væri hætta á að þau 1000 störf sem því tengjast gætu glatast ef verið þyrfti að loka. Elkem á Grundartanga væri einnig í slíkum vandræðum. Advania væri að byggja nýtt gagnaver en ekki á Íslandi heldur í Stokkhólmi. Ástæðan væri sú að rekstraumhverfið á Íslandi væri orðið óhagstætt vegna hás orkuverðs og annars kostnaðar sem allir vissu að sífelldar launahækkanir væri ekki að laða atvinnurekstur til landsins. Þetta ætti að vekja einhverja til umhugsunar um hvert stefndi hér á landi.

Landsvirkjun væri farin að miða orkuverð við samkeppnismarkað um sæstreng sem væri stóriðjunni um megn miðað við heimsmarkaðsverð á framleiðslunni. Slaknað væri á aðstreymi ferðamanna og ný uppgrip væru ekki í augsýn.

Við Íslendingar yrðum að fara að hugsa meira um þekkingardrifinn hagvöxt  fremur en auðlindadrifinn. Að hennar áliti væri staðan grafalvarleg og því yrðum við Íslendingar að leggja meira vægi á menntun fólksins, þar lægi framtíðin. Á síðustu árum hefði störfum í einkageiranum fækkað um 5000 en í opinbera geiranum hefði störfum á sama tíma fjölgað um 6000. Þetta væri öfugþróun á sama tíma sem sífellt er hert á skatt-og gjaldheimtu af fyrirtækjunum svo sem fasteignagjöldum sem væru óvíða hærri en hér.

Krafist væri sömu launa fyrir alla án tillits til menntunar ef horft væri á kröfur Eflingar. Það gæti engan veginn gengið.Efling krefst 90.000 króna ofan á 100.000 ofan á lífskjarasamninginn. 

Ísland á næga orku. Flestir vilja að sú orka sé notuð innanlands en ekki flutt út til notkunar erlendis þar sem Íslendingar koma ekki endilega að störfum.Við verðum samt að vera samkeppnisfærir Íslendingar á alþjóðamarkaði, hvað varðar orku sem annað. Vextir eru í sögulegu lágmarki. Dæmi eru um að íslenskir bankar vilji ekki lána atvinnufyrirtækjum lengur og hvert á þá að leita?

Spurning er hvort íslenska ríkið hefur ekki farið of bratt í að greiða niður skuldir í stað þess að fjárfesta í innviðum þar sem hundrað milljarða fjárfestingarþörf bíður. Að Þjóðarsjóður þurfi að gagnast innviðafjárfestingu en ekki erlendri fjárfestingu kom fram í máli manna á fundinum en líflegar umræður urðu sem vænta mátti í framhaldi af ræðu Guðrúnar.

Guðrún Hafsteinsdóttir kom sá og sigraði í Valhöll í hádeginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Valdimar Ármann sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arctica veltir fyrir sér þjóðarsjóð:

"Hreinn gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands er nú 646 milljarðar króna og hefur Ísland aldrei státað af jafngóðri erlendri eignastöðu. Og til viðbótar hefur viðskiptaafgangur verið viðvarandi undanfarin ár.

Á Íslandi liggur fyrir frumvarp og umræða um stofnun Þjóðarsjóðs, sem þykir mögulega að bera í bakkafullan lækinn til viðbótar við gjaldeyrisforðann og lífeyrissjóðina. Þjóðarsjóðir (e. sovereign wealth funds) eru þekktir víðs vegar um heim og eru yfirleitt í eigu ríkja sem eiga óendurnýjanlegar auðlindir, en hver ætti að vera tilgangur Þjóðarsjóðs á Íslandi?

Er það til að mæta ófyrirséðum áföllum og hafa möguleikann á því að sveiflujafna hagstjórn? Tilgangur þjóðarsjóða getur verið margháttaður, meðal annars:  Söfnun lífeyris fyrir landsmenn  Stöðugleikasjóður fyrir gjaldeyrisflæði n Auðlindasjóður óendurnýjanlegra auðlinda

Nú þegar er Ísland í rauninni með tvo stóra sjóði sem uppfylla tvö eftirsótt markmið, það er söfnun lífeyris þar sem lífeyrissjóðirnir eru að mestu leyti fullfjármagnaðir (fyrir utan B-deild LSR) og gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands sem er mögulegt að nýta sem stöðugleikatæki á gjaldeyrismarkaði og því nokkurs konar sveiflujöfnunartæki í tilfelli áfalls í utanríkisviðskiptum.

Ekki hefur verið litið svo á að Ísland sé að nýta óendurnýjanlegar auðlindir og því sé mögulegt að nýta hagnað af nýtingu auðlinda okkar í samneyslu og fjárfestingar.

En það mætti hugsa íslenskan þjóðarsjóð sem hefðbundinn auðlindasjóð þar sem ábatinn af auðlindum er sparaður og dreift jafnar milli kynslóða.

Miðað við stöðuna á loftslagsmálum og hlýnun andrúmslofts er nú metið að jöklarnir okkar muni bráðna hraðar á næstu áratugum og því minnka hraðar og jafnvel hverfa. Aukin bráðnun þýðir meira rennsli í jökulám sem gerir okkur kleift að fá meiri orku frá vatnsaflsvirkjunum.

Nú hefur raforkuverð til stóriðju verið að hækka jafnt og þétt og spár um auknar arðgreiðslur Landsvirkjunar eru að verða að veruleika.

En ef jöklarnir minnka þá er ekki hægt að segja að vatnsaflsvirkjanirnar séu að fullu að búa til endurnýjanlega orku heldur mun krafturinn þverra með tíð og tíma. Ef þetta er raunin, þá er ekki skynsamlegt að nýta auknar tekjur af Landsvirkjun til þess að fjármagna samneysluna.

Frekar má heimfæra hugmyndafræði Þjóðarsjóðsins að einhverju leyti á olíusjóð Norðmanna og safna arði og ábata af auðlindum okkar, það er auðlindarentunni, taka til hliðar og geyma til framtíðar.

Hugmyndafræði olíusjóðsins í Noregi er í grunninn sú að olíuauðlindin er ekki endurnýjanleg og að á einhverjum tímapunkti muni hana þrjóta. Því er hagstætt að spara ábatann og búa í haginn fyrir minni tekjur í framtíðinni og koma samhliða í veg fyrir auðlindabölvun og hollensku veikina, það er í stuttu máli ofhitnun hagkerfisins meðan á nýtingu auðlindar stendur og kólnun þegar hana þrýtur.

En jafnframt mætti hugsa sér að í Þjóðarsjóðinn renni gjaldeyristekjur af ferðamannaþjónustu sem hefur verið sívaxandi undanfarinn áratug og einn stærsti áhrifavaldurinn í því að Ísland er með jákvæða hreina erlenda stöðu og viðvarandi viðskiptaafgang.

Hins vegar er mikil vöntun á innviðafjárfestingum á Íslandi sem tengjast margar hverjar ferðamönnum, til dæmis í vegakerfinu, og þyrfti að nýta tekjur fyrst í slíkar fjárfestingar....."

Þetta eru góðar hugleiðingar um eðli svona sjóða.

Svo kemur  niðurlagið hjá Valdimari sem mér finnst fremur orka tvímælis

"Stofnun Þjóðarsjóðs mun auka traust Íslands út á við og sýna fjárhagslegan styrk ríkissjóðs sem ætti að skila sér í bættara aðgengi fyrirtækja að fjármögnun á betri kjörum. Erlendir fjárfestar munu taka þessu sem mjög jákvæðu merki og gæti verið hluti af því að laða til landsins erlenda fjárfestingu. Það er auðséð að fjárfestingar Þjóðarsjóðs séu að fullu erlendis enda er stærstur hluti tekna af orkusölunni í erlendri mynt. Beina ætti fjárfestingum sjóðsins í áhættulitlar eignir og mestu máli skiptir að eiga öruggar erlendar eignir – fjárfestingarstefnan sem slík þarf því ekki að vera f lókin og til að byrja með mætti leita í bandarísk ríkisskuldabréf sem gefa jákvæða ávöxtun. "

Ég er algerlega ósammála þessari síðustu ályktun. Þjóðarsjóður hugnast mér ekki þegar ég horfi til alls sem ógert er hér í landinu.

Halldór Jónsson, 12.2.2020 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 3418215

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband