Leita í fréttum mbl.is

Villi Bjarna

rifjar upp framboðsraunir sínar og hvernig hann hefur sætt ofsóknum af frammámönnum í Sjálfstæðisflokknum og verið sviptur þeim frama sem hann hafði unnir sér inn einn og sér.

villibjarna

Villi skrifar í dag:

"Það er áleitin spurning hvort vit sé í að taka þátt í stjórnmálum, leggja sjálfan sig og verk í dóm kjósenda. Að leggja höfuðið undir! Ég hef tvisvar áður tekið þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Í hinu fyrra sinni árið 2012 fyrir kosningar 2013 fékk ég næstflest atkvæði í prófkjörinu og næstflest atkvæði í fyrsta sæti. Niðurstaðan var 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Í hinu síðara sinni kom framboð sem beinlínis var stefnt gegn mér, en niðurstaðan var aftur fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.

Fyrir skipan lista Sjálfstæðisflokksins árið 2013 bauð formaður kjörnefndar fjórða sætið, sætið sem ég var kjörinn til, nokkrum mögulegum frambjóðendum, sem ekki höfðu tekið þátt í prófkjörinu.

Eftir að úrslit lágu fyrir í prófkjörinu 2016 var stefnt að því leynt og ljóst að ég skyldi færður niður um sæti. Sú varð niðurstaðan, ég var færður úr fjórða sæti í fimmta sæti! Og ég hélt friðinn!

Án þess að fá aukatekið takk fyrir! Þeir, sem á undan mér voru, töldu þessa tilfærslu tæra snilld, enda var hún ekki á þeirra kostnað.

Fimmta sæti dugði til þingmennsku árið 2016 en það dugði ekki í kosningunum 2017.

Enn á ný í prófkjör

Enn á ný hyggst ég gefa kost á mér í prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðvesturkjördæmi fyrir kosningar í haust. Hvert skal stefnt? Eins ofarlega og kostur er, því það virðist regla fremur en undantekning að skáka mér til á listanum.

Ég er á góðum aldri.

Ég er yngri en Bretadrottning og breski ríkisarfinn. Ég er yngri en forseti Bandaríkjanna. Þroskaðir þurfa sinn fulltrúa.

Helst ofar en fjórða sæti!

Ég legg verk mín, skoðanir og viðhorf til mannlífsins í dóm kjósenda.

Þekking

Ég býð mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi vegna þess að ég tel mig hafa þá þekkingu sem þingmaður þarf.

Þekkingu á sögu lands og þjóðar Þekkingu á erlendri sögu og alþjóðamálum

Þekkingu á efnahags- og skattamálum

Þekkingu á fjármálamarkaði

Þekkingu á erlendum viðskiptum

Þekkingu á málefnum þeirra er minna mega sín

Þekkingu og þor til að taka afstöðu í erfiðum málum

Þingferill

Ég er stoltur af þingferli mínum. Ekki af fjölda mála, sem ég lagði fram, heldur þeim þingmálum ríkisstjórnarinnar, sem ég greiddi götu. Ber þar hæst upplausn þrotabúa hinna föllnu banka og afnám gjaldeyrishafta.

Mín efsta hugsun er sú að löggjöf eigi ekki að mismuna fólki. Það ber nokkuð við að þingmenn og ríkisstjórn leggi fram þingmál til mismununar.

Stjórnmál snúast um að skapa fólki og fyrirtækjum jöfn tækifæri. Stjórnmál snúast um fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga.

Frjáls sparnaður

Frjáls sparnaður er ein af fjórum stoðum lífeyris landsmanna. Hinar stoðirnar eru:

Almannatryggingar

Lífeyrissjóðir

Frjáls viðbótarlífeyrissparnaður

Greinar um stjórnmál

Á undanförnum sex árum hef ég skrifað um 170 greinar um stjórnmál í Morgunblaðið. Ég hef reynt að skrifa mínar greinar á annan veg en samferðamenn mínir. Að skapa hugsun og óhefðbundna nálgun. Til þess hef ég notað söguþekkingu og bókmenntir. Stundum til skrauts! Stundum til áherslu! Það er ekki mitt að dæma hvernig til hefur tekist!

Efni greinanna hefur verið fjölbreytt, menning, vísindi, listir, heilbrigðismál, ferðaþjónusta og flugmál, fjármál einstaklinga og þjóðar, frelsi og sjálfstæði. Stríðsrekstur og varnarmál. Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi. Síðast en ekki síst hafa málefni lífeyrissjóða verið ofarlega í huga mínum. Sennilega er ekkert málefni eins mikilvægt fyrir aldraða og lífeyrissjóðir og starfsemi þeirra.

Á liðnum árum hef ég ferðast um landið á eigin vegum. Ég tel mig nokkuð vel að mér um lífskjör í landinu sem ól mig og hefur veitt mér tækifæri.

Hvað með framtíð!

Stjórnmál snúast um framtíð, ef til vill stundum með samtali við fortíðina. Lausnarorð flestra þeirra vandamála sem íslenskt samfélag býr við er atvinna fyrir alla. Ísland verður aldrei sjálfbært með 10% atvinnuleysi. Hagvöxtur og bati liðinna ára hefur um of byggst á loðnu og makríl. Þar er ekkert í hendi.

Atvinnustefna þarf að byggjast á hátæknigreinum og þar er orkufrekur iðnaður ekki undanskilinn. Flug og ferðaþjónusta eru hátæknigreinar!

Eins einföld og grunnheilsugæsla er, þá eru heilbrigðismál hátækni. Heilbrigðismál varða alla og biðtími getur aldrei orðið eðlilegur þegar um alvarlega sjúkdóma er að ræða eða ólíðandi kvalir.

Ég tel að þekking mín og meira en 50 ára reynsla á vinnumarkaði verði mér dýrmæt reynsla til setu á Alþingi, nái ég góðri kosningu í prófkjöri og í kosningum til Alþingis.

Að þessu öllu samanlögðu býð ég mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi! Einu sinni enn! Ég tel mig auka breidd og skírskotun til kjósenda fyrir Sjálfsæðisflokkinn.

En, ég þarf að fá góða kosningu til að niðurstaða prófkjörsins verði virt!  

ilhjálmur Bjarnason

Höfundur var alþingismaður og verður það aftur."

Það þarf ekki að taka það fram að ég mun styðja Villa vin minn Bjarna eftir föngum. En þó aðeins að það verði ekki notað gegn honum þar sem ég er nú ekki talinn af mörgum mikill spámaður í stjórnmálum eða öðrum málum yfirleitt!

En það má alveg bera Villa saman við ýmsa sem nú sitja á þingi. Hann heldur sínu gagnvart mörgum sem þar sitja.

En mér finnst þessi upptalning Villa Bjarna á sínum ferli standa ein og sér sem lýsing á því sem hann hefur fram að færa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var einlæg grein frá góðum Garðbæing um langanir hans til að komast til Alþingis fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ég vonast til að Vilhjálmur Bjarnason vinni af alefli fyrir ÍSLAND. Hann er vonandi ekki ESB sinnaður og berjist fyrir fullveldið og sjálfstæði okkar. Við getum þetta allt sjálfir.

Vonast til að hann standi efst á Kögunarhól og sjái heiminn frá ÍSLANDI.

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 23.1.2021 kl. 13:32

2 identicon

Það getur ekki verið mikilvægasta mál íslendinga að afhenda sparifé sitt nauðugir viljugir spilafíklum. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn kommúnistaflokkur. Ömurlegt.

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 24.1.2021 kl. 08:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband