Leita í fréttum mbl.is

Forgangsröðun

veltir Vilhjálmur Bjarnason fyrir sér í afbragðs góðri grein í Morgunblaðinu í dag:

villibjarna

"Von er líklega með fegurstu orðum íslenskrar tungu. Þegar svo alvarlegur úrskurður um fegurð er kveðinn upp er rétt að staðsetja fallegt orð meðal annarra tilfinninga. Sá er þetta ritar staðsetur vonina sem þrá milli sársauka og sáttargjörðar, eftir atvikum með fyrirgefningu.

Á sama veg er spilling með neikvæðustu orðum íslenskrar tungu. Enn fremur er traust von um sanngirni. En sælir eru þeir sem aldrei festa von sína á einu framar öðru; þeim bregst fátt.

Þá má spyrja hvort lágir stýrivextir séu algildur mælikvarði á traust til seðlabanka. Lágir stýrivextir kunna að vera vísbending um aðstæður fyrir spillingu.

Úrskurður um spillt samfélag

Nýlega kváðu tveir huldumenn upp huglægan úrskurð um spillingu meðal okkar hinna. Það var hraustlega gert. „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.“

Svo segir í Jóhannesarguðspjalli að Frelsarinn hafi sagt þegar kona sem var talin hafa drýgt hór var færð fyrir hann. Almennt er talið að menn eigi einfaldan hór við samvisku sína. Það að klína hóri og spillingu upp á heila þjóð nálgast að bera ljúgvitni gegn náunga sínum.

Er það spilling hjá stjórnvöldum að staldra við stjórnarskrárbreytingar sem hafa farið í gegnum óskiljanlegt ferli og skoðanakönnun sem gerð var í opinberri þjóðaratkvæðagreiðslu?

Getur þráhyggja einhverra um stjórnarskrá verið tilefni til altæks úrskurðar um spillingu annarra í samfélagi? Það má einnig vera að sá sem treystir yfirvöldum sé ekki maður! Því verði mannsbragur á úrskurðum um spillingu!

Huglægt og hlutlægt

Það er erfitt að kveða upp huglæga úrskurði án þess að hafa hlutlæga mælikvarða. Tveir valinkunnir snillingar geta ekki lagt mat á verðþróun án hlutlægs mats. Það kunna að vera að skekkjur og bjögun í hefðbundinni verðbólgumælingu. En bjögunin minnkar verulega þegar breytingin er mæld á hlutlægan hátt. Sennilega er verðbólga nálægt því að vera hlutlægur mælikvarði á undirrót spillingar.

Fyrir utan það að óðaverðbólga getur af sér siðlausa stjórnarhætti eða siðlausir stjórnarhættir geta af sér óðaverðbólgu.

Spurningar um spillingu

Fyrir utan hlutlægan mælikvaða verðbólgu varðandi spillingu kann að vera rétt að leita svara við nokkrum spurningum áður en úrskurður um spillingu er kveðinn upp. 

Er algengt og einfalt að greiða lögreglu og dómurum við dómstóla „hagsmunafé“? 

 

Er aðgangur að almannaþjónustu, svo sem eins og læknisþjónustu, háður persónulegum duttlungum? 

Eru aðgangur að námi og mat á námsárangri háð persónulegum duttlungum? 

Er aðgangi að takmörkuðum gæðum úthlutað eftir duttlungum? 

Er tekið eðlilegt gjald af takmörkuðum gæðum? 

Er persónuleg friðhelgi almenn eða aðeins fyrir útvalda?

Auðvitað eru óteljandi mælikvarðar á spillingu við úthlutun takmarkaðra gæða til sérvalinna gæðinga. Biðraðamyndun er gott efni í úthlutun gæða eftir duttlungum. Þannig geta biðlistar eftir valkvæðum læknisaðgerðum orðið undirrót spillingar. Biðraðir í fjármálafyrirtækjum hurfu með eðlilegum raunvöxtum þegar ekki var lengur verið að úthluta gæðum og flytja eignir frá sparifjáreigendum til fyrirtækja og skuldara. Sparifjáreigendur eru einstaklingar, með beinum hætti og óbeinum með aðild að lífeyrissjóðum.

Neikvæðir raunvextir eru tilfærsla frá einstaklingum til fyrirtækja. Hvernig má réttlæta skylduaðild að lífeyrissjóðum við þessar aðstæður? Með þessu er verið að gera launtaka að aulum. Það er gróðrarstía fyrir spillingu.

Ávöxtun lífeyrissjóða, er þar mælikvarði á spillingu?

Ávöxtun eigna lífeyrissjóða er þokkalegur mælikvarði á spillingu. Þokkaleg og eðlileg ávöxtun er mælikvarði á eðlilegan rekstur. Eðlilegur rekstur er ekki spilling. Greinarhöfundi er ekki ljóst hver þekking prófessoranna er á rekstri lífeyrissjóða.

Hvort er meira þarfaþing, öflugur lífeyrissjóður eða ný stjórnarskrá?

Það verður aldrei efast um þekkingu spillingarmatsmanna á stjórnarskrármálum. En er þekkingin á samfélaginu með slíkum yfirburðum og altækum hætti að prófessorarnir geti með huglægu mati og dómgreind dæmt um spillingu í heilu samfélagi?

Er það spilling að forsætisráðherra eigi erlendar eignir í landi með frjálsu flæði fjármagns? Svo er alls ekki! Það er dómgreindarleysi forsætisráðherra að greina ekki frá því að hann er einn kröfuhafa í þrotabú þar sem íslenska ríkið er samningsaðili. Slíkan einfaldan hór verður maðurinn að eiga við eigin samvisku. Dómgreindarleysi forsætisráðherra er á engan veg spilling heils samfélags. Jón Hreggviðsson vildi að drottinn sendi sér tóbak, brennivín og þrjár frillur! Jón taldi það ekki hór!

Sársauki og sáttargjörð

Brigsl um spillingu og vandlæting í frekjuköstum geta aldrei orðið annað en vísbending um hugarástand þess sem brigslar og vandlætir. Til eru fleiri mælikvarðar en verðbólga á gæði og gegnsæi samfélags. Hagstofa mælir margt og birtir víðtækar upplýsingar. Það kann að vera að sáttargjörð og von leynist í aðgengilegum opinberum upplýsingum þannig að huglæg túlkun ráði að lokum niðurstöðu.

Lagasetning

Hefur ákveðin lagasetning almennan eða sértækan tilgang? Lengi var það svo að lagasetning átti að þjóna hinum „þjóðlegu“ atvinnugreinum. Við hrun Sovétríkjanna varð lagasetning almenn á Íslandi, horfið var frá fyrirgreiðslu og möndli.

Ástæðan var ekki hrun Sovétsins, heldur nýir stjórnarherrar og aðild að EES.

Það var gert samkomulag við fjármálastofnanir um að draga úr útlánum til allra nema sjávarútvegs og landbúnaðar. Útlán til verslunar voru ekki „þjóðleg“. Sértæk lagasetning fyrir þjóðlega atvinnuvegi og þjóðlega starfsemi leiðir af sér „fyrirgreiðslu“. Fyrirgreiðsla er spilling. Almennar aðgerðir eru heiðarleiki og traust.

Vera má að lagasetning frelsi mann frá því að hugsa, nema lagasetningin sé sem spakmæli sögð á röngum stað og rangri stundu! Helst hvort tveggja! Þá reynir á dómgreind og dómgreindarbrest!

En eftir stendur: Íslendingar eru mjög fylgjandi spillingu, einkum ef þeir fá hlutdeild í henni sjálfir, og helst óskipt."

Það er fyrir löngu gengin fram af flestum vitleysan í kring um stjórnarskráruppkastið  sem nú er hampaða af þeim óspökustu sem nýrri fullgerðri stjórnarskrá.

Þorvaldur Gylfason og ámóta orðhenglar hafa enda farið mikinn og staðhæft að þarna hafi þeir og hans nótar skapað fullskapaða stjórnarskrá handa mér og þér  til að setja í stað stjórnarskrárinnar frá 1944. Sem okkur myndi auðvitað aldrei treysta neinum hlaupastrákum til að framkvæma fram hjá Alþingi

Engu að síður hamast margt af þessu liði með trumbur, borða og slagorð og krefjast gildistöku uppkastsins og styrkja sig með ásökunum um spillingu allra annarra en sjálfs sín.

En Vilhjálmur spyr hvað eigi að hafa forgang? Lífshagsmunir almennings og afkoma eða eitthvað stjórnarskrárplagg sem fáu skiptir í daglegu lífi.

Er ekki tímabært að spyrja sig hvað standi fólki næst?

Hvernig eigi að forgangsraða?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spilling þrífst þar sem almannafé er safnað saman og útdeilt af fáum. Það er engin réttlæting fyrir lífeyrissjóði að þeir reki sig með hagnaði og þá sé engin spilling. Lífeyrissjóðirnir gera spaifé almennings upptækt með valdi.

Stjórnarskráin þarf að verja almenning betur fyrir opinberum aðilum sem seilast stöðugt í meiri völd og yfirgang gagnvart almenningi. Mesta spillingin á Íslandi eru lífeyrissjóðirnir, þar sem nokkrir púkar á fjósbitanum fitna á meðan tennurnar eru dregnar úr almenningi.

Prósentuhlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði fer stöðugt lækkandi, og af hverju skildi það vera?

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 27.2.2021 kl. 08:52

2 identicon

VR verslunarmanna er oftsinnis rætt, en þar ræður Ragnar Þór Ingólfsson, sem skynjar vel sjóðinn og áhættur. Nú fara fram kosningar um stjórnun sjóðsins, þar sem allt er fullt af peningum.

Ég spyr hvort hægt sé að stofna sjóð innan Seðlabankans fyrir hvern meðlim sjóðsins. Ragnar Þór væri heppilegur ábyrgðarmaður ásamt Vilhjálmi Bjarbasyni ofl.

Hver mundi upphæðin vera hjá manni, sem hefur störf 17 ára til 67 ára???  

Gísli Holgersson (IP-tala skráð) 28.2.2021 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 3418212

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband