Leita í fréttum mbl.is

Enn hrærir Þorsteinn Pálsson

steypuna sína fyrir Evrópusambandsaðild fyrir "His Masters Voice" Hafskips Helga. Vonandi fær hann vel borgað fyrir þessi verk sín.

Í dag skrifar Þorsteinn:

"Helsta ástæðan fyrir efasemdum og andstöðu margra við fulla aðild Íslands að Evrópusambandinu er ótti við að miðin fyllist aftur af erlendum fiskiskipum. Ef þessi ótti væri byggður á rökum ætti ég heima í liði efasemdarmanna.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins á engin þjóð rétt til veiði í landhelgi annarrar nema að baki liggi nýleg veiðireynsla. Hún er ekki fyrir hendi. Ísland þarf því ekki undanþágu til þess að halda erlendum veiðiskipum utan lögsögunnar.

Miðjan í skrúfstykki

Þeir sem eru lengst til vinstri lýsa Evrópusambandinu sem háborg óhefts kapítalisma. Hinir, sem eru lengst til hægri, draga upp mynd af endurborinni sósíalískri ráðstjórn.

Rangar staðhæfingar og öfgasjónarmið af þessu tagi á ystu vængjum stjórnmálanna hefta markvissa rökræðu um þessi efni. Miðjusjónarmiðin hafa einfaldlega verið föst í skrúfstykki öfganna.

Nýjar aðstæður kalla á að við losum umræðuna úr þessari þvinguðu stöðu.

Þörfin er nú meiri en áður að koma ár okkar fyrir borð í fjölþjóðasamvinnu og nýta öll tækifæri til að gæta hagsmuna landsins. Þar ráðast möguleikarnir á fjölþættari verðmætasköpun.

Að sitja við borðið

Helstu hagsmunir okkar í fjölþjóðasamstarfi snúast annars vegar um varnir og öryggi og hins vegar um efnahag og viðskipti.

Í Atlantshafsbandalaginu á Ísland sæti við borðið. Vitaskuld ráða stærri ríki mestu. En reynslan hefur samt sýnt að þannig gætum við best hagsmuna þjóðarinnar á þessu sviði.

Ísland á aðild að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES. Í því felst að ríki með fulla aðild ráða nær allri löggjöf á sviði viðskipta, fjármála, samkeppni, margvíslegra félagslegra réttinda á vinnumarkaði, eftirliti með heilbrigði og hollustu, neytendavernd og á ýmsum öðrum sviðum.

Samt er sú spurning ekki á dagskrá hvort hagsmunagæslan yrði ekki sterkari á þeim vettvangi með því að sitja við borðið eins og í Atlantshafsbandalaginu.

Á komandi árum þurfum við með margvíslegu móti að auðvelda atvinnulífinu að hlaupa hraðar. Full aðild opnar nýjar leiðir til þess um leið og hún auðveldar okkur mikilvæga hagsmunagæslu. Versta leiðin til að gæta íslenskra hagsmuna er að standa utan gátta hvort sem við sækjum á eða andmælum.

Endurnýjun miðjustjórnmála

Evrópusambandið er ein merkilegasta tilraun á síðari tímum til þess að auka hagsæld og tryggja frið með víðtækri samvinnu. Í raun og veru má segja að Evrópusambandið sé eins konar Kaupfélag þjóðanna.

Samvinnufélög voru áhrifamikil á síðustu öld hér á landi, bæði í innflutningi og útflutningi. Þau voru fjarri því að vera gallalaus og leystu ekki allan vanda. Einkafyrirtækin skákuðu þeim gjarnan. En það sem dró bændur og útflytjendur sjávarafurða inn í samvinnufélög var sú grundvallarregla að réttur þeirra minnstu var tryggður.

Halldór Ásgrímsson var framsýnn utanríkisráðherra. Hann náði að tengja hugmyndafræði samvinnufélaga við þau tækifæri, sem Ísland á í Evrópusamvinnu. Hann vildi endurnýja miðjupólitíkina með því að setja þau mál á dagskrá. Þörfin fyrir þá endurnýjun blasti við fyrir tveimur áratugum. Hún er enn óleyst verkefni.

Dagskrármál

Auðvitað réðu þeir stærstu mestu í samvinnufélögunum á sínum tíma. En þeir minni voru nokkuð öruggir um að ekki var troðið á rétti þeirra. Minni ríki í Evrópu hafa einmitt sótt í Evrópusambandið af sömu ástæðu. Þau hafa styrkt efnahag sinn og um leið tryggt stöðugleika og öryggi í viðskiptum.

Evrópusambandið er málamiðlun. Það hafnar óheftum markaðsbúskap og einhliða félagslegum lausnum. Þess vegna eru f lokkar yst til hægri og vinstri gjarnan í andstöðu við samvinnu af þessu tagi.

Miðjumoð þykir ekki alltaf skemmtilegt. En þegar upp er staðið skiptir þó mestu máli að það sem sagt er og gert leiði til farsældar.

Samvinna á grundvelli málamiðlana hefur reynst öðrum minni þjóðum í Evrópu hagfelld. Það er andstætt íslenskum hagsmunum að blása þá leið út af borðinu. Við þurfum að nálgast viðfangsefnið með öðrum hætti en fyrir tólf eða tuttugu árum. En það á að fara á dagskrá."

Já, þetta mál mætti fara á dagskrá og lagt í dóm kjósenda.

Afgerandi höfnun á aðild myndi hreinsa loftið í stjórnmálum á íslandi og við fengjum frið fyrir þessum endalausu staðhæfingum um bjarta framtíð.

Þorsteinn tyggur áfram um trú sína á því að sæti við borðið þýði mikil áhrif á málefni sambandsins.

Utanríkisráðherra greinir frá því í Morgunblaðinu í dag að hlutfall tollskrárnúmera sem ekki bera toll hér er þannig 89,6%, en um 27% í ESB. Því myndi verð á mörgum vörum og þjónustu hér á landi hækka við inngöngu í ESB.

 

Það er kannski við hæfi að Þorsteinn jafni Evrópusambandinu við kaupfélögin gömlu og mæri Halldór Ásgrímsson formann Framsóknarflokksins í sömu andránni.

Þorsteinn viðurkennir að þeir stærri hafi haft meiri áhrif í kaupfélögunum og svo muni einnig vera um Evrópusambandið. Enda sýnist nú flestum að Þjóðverjar og Frakkar hafi þar meiri áhrif en smærri þjóðir. Það er því ekki á vísan  að róa með þau áhrif sem sæti við borðið muni hafa þó Þorsteinn telji það helsta kostinn.Guðlaugur Þór færir hinsvegar gild rök fyrir þeim neikvæðu áhrifum sem það kynni að hafa í för með sér.

Ég held að það væri til góðs að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu með auknum meirihluta í ljósi mikilvægis málsins um Evrópusambandsaðild Íslands svo að við fengjum frið fyrir þessum sífelldu prédikunum evruspekinga um ágæti þess að ganga í tollabandalag þriggja tuga ríkja á móti afgangnum af heiminum eða með orðum Guðlaugs Þórs:

"Því hefur einnig verið haldið fram að undir EES-samninginn falli öll helstu málefnasvið ESB og við séum því eins og áhrifalaust aðildarríki að sambandinu. Þetta er líka fullkomlega rangt. 

Mestu skiptir fyrir okkur að við erum ekki hluti af sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni sem enginn getur lengur mælt bót.

Þar fyrir utan erum við laus við stefnu ESB þegar kemur að landbúnaði/dreifbýlisþróun, skattamálum, gjaldmiðilssamstarfi, byggðastefnu, réttarvörslu, dóms- og innanríkismálum, tollabandalagi, utanríkistengslum, öryggis- og varnarmálum, fjárhagslegu eftirliti, framlagsmálum og stofnunum. Af 34 köflum ESB-löggjafarinnar eru tíu kaflar að fullu hluti af EES-samningnum en þrettán kaflar standa alfarið fyrir utan. Linnulausar rangfærslur ESB-sinna víkja ekki staðreyndum til hliðar.

Innganga í ESB myndi þýða að við tækjum upp 100% af ESB gerðum en ekki 13,4%. Innganga í ESB myndi þýða að allir 34 málaflokkar ESB ættu við um okkur en ekki einungis þeir sem okkur eru hagfelldastir.

Staðreyndin er sú að við erum aðilar að sérsniðnum samningi sem hentar íslenskum hagsmunum ákaflega vel og gerir um leið að verkum að engin þörf er á inngöngu í tollabandalag ESB-ríkjanna.

Gleymum því ekki að hlutfall tollskrárnúmera sem ekki bera toll hér er þannig 89,6%, en um 27% í ESB. Því myndi verð á mörgum vörum og þjónustu hér á landi hækka við inngöngu í ESB."

Það væri léttir að því að Þorsteinn Pálsson og ámóta Evruspekingar hættu að þreyta okkur með Evrópusambandssteypuhrærslu sinni sem þjóðin vill hvorki sjá né heyra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Flestir Íslendingar vilja frekar greiða hærri tolla og verða algjörlega laus við EES. Við getum framleitt okkar eigin matvöru,bæði kjöt og grænmeti.Ætli yrði ekki mikil eftirspurn eftir hreinræktuðu grænmeti héðan,þegar landsvirkjun verður skikkuð að selja framleiðendum rafmagn á sanngjörnu verði.- -  Það hlýtur að fara að renna af miðaldra fólkinu spéhræðslan við að vera púka og veitingastaða óhæfur heima og heiman. Hætta að skíta landið sitt út(ætti raunar að banna það,eins og ég fæ áminningu fyrir smáorðið veira og hvðan hún er upprunnin.  diplomatar eru fínir; þeir efnameiri fara yfir strikið og kjamsa gullskreytta rétti til hátíðabrigða.  Miklu frekar fyllast stolti af vel stjórnuðu lýðræðisríki rétt við 66¨norður.  

Helga Kristjánsdóttir, 9.4.2021 kl. 01:57

2 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Hver er hagur okkar almennings á Íslandi að standa fyrir utan ESB?  Hver er hagur almennings á Íslandi að halda í krónuna? Hef ekki séð rök sem halda vatni. Flest sem nefnt er eru smámál með þjóðlegu ívafi. 

Tryggvi L. Skjaldarson, 9.4.2021 kl. 08:15

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Tryggvi, er frelsið einhvers virði fyrir þrælinn sem er annars öruggur hjá húsbónda sínum. Margir segja að líf þrælsins haf síst verið verra en líf George Floyds sem þurfti sannarlega að hafa sig allan við til að sjá þörfum sínum farborða.

Halldór Jónsson, 9.4.2021 kl. 16:35

4 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Eg hef ekki komið auga á kosti þess að einangra almenning á Íslandi frá ESB, nema til að tryggja átthagafjötra og ódýrt vinnuafl fyrir þá sem hér ráða för. Kostir aðildar eru, fyrir almenning, fjallinu hærri en gallarnir.

Tryggvi L. Skjaldarson, 9.4.2021 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 3418158

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband