Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstætt fólk

Vilhjálmur Bjarnason, hann Villi okkar Bjarna, skrifar skarpa grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fjallar um gengisleysi Sjálfstæðisflokksins og orsakirnar fyrir henni.

Hann ber saman einyrkjahugsjón kaupmannsins á horninu og kvótagreifanna sem hafa í reynd eignast fiskimiðin með gögnum og gæðum.Vissulega hafa orðið til kraftaverk í skjóli einkaeignarinnar eins og skipið Vilhelm Þorsteinsson og Samherji. Það verður ekki fyrr en kvótafélög landsins eru komin í  almannaeigu að von er til þess að almenningur sætti sig við fyrirkomulagið og leiti a ný til Sjálfstæðisflokksins á grundvelli sjálfstæðisstefnunnar frá 1929. En hvenær slíkur skilningur nær inn fyrir höfuðskeljar þeirra sem vilja hefja sig upp til forystu í þeim flokki hans Bjarts í Sumarhúsum get ég ekki spáð fyrir um. En líklega mun þó það frumkvæði koma innanfrá úr fyrirtækjunum eins og menn hafa raunar séð örla á.

Það verða ávallt að vera kjölfestur til staðar í rekstri útgerðarfyrirtækja eins og Brims og Samherja.En allar raddir verða að heyrast ef von á að ver til að víðtækar sáttir náist.

Ef arðsemi hverfur úr rekstri eins og gerðist hjá kaupmönnunum á horninu, verða engin skip einsog Vilhelm Þorsteinsson byggð. Þar á milli verður að vera gullinn meðalvegur og þeir Þorsteinn Már og Warren Buffet verða að fá að njóta sín til heilla fyrir þjóðina.Að fá að skapa og njóta umfram lágmarksþarfir er eiginlega öll sú umbun sem slíkum mönnum ber. 

En fyrir þá sem hvarflað hafa frá Sjálfstæðisflokknum vegna hugsjónaleysisins og eru hættir að lesa Mogga, þá vil ég tilfæra þessi skrif Villa Bjarna og biðja menn að skynja það sem að baki býr og knýr hann til ljóða.

Aðeins endurvakinn hugsjónaeldur getur endurlífgað okkar gamla Sjálfstæðislflokk. Það eru menn eins og Villi og Óli Björn Kárason sem eru okkar von um að svo megi verða þó að aðrir forystumenn sýni nú örlítil lífsmerki í aðdraganda kosninga. En ekki er vafi á að skerpa verður átakalínurnar í pólitík gegn miðjumoði Evrópusambandsáróðursins og hefja Bjart í Sumarhúsum til fyrri virðingar með þjóðinni. Sem betur fer birtist Bjartur víða nú til dags og mörg útrásarfyrirtæki prýða velli þjóðlífsins.

"Fáar skáldsögur Nóbelskáldsins hafa fengið viðlíka viðtökur og Sjálfstætt fólk. Skáldsagan kom út í fjórum bindum, en þau voru sameinuð í einni bók, sem ber sama heiti og þessi grein.

Viðtökur þessarar skáldsögu, sem kann að flokkast undir félagslegt raunsæi, voru með ýmsum hætti. Bændur keyptu skáldsöguna til þess að fletta henni, en stungu bókinni í fjóshaug sinn. Á hinn veg voru þess dæmi að erlendir ferðamenn, veðurtepptir á Íslandi, gerðu sér erindi í leigubíl frá Keflavíkurflugvelli til Gljúfrasteins, til þess að tjá skáldinu að það væru óteljandi Guðbjartar starfandi í New York.

Þessi saga skáldsins um ferðamanninn fannst þeim er þetta ritar ótrúleg, allt þar til prófessor í hagfræði í Bandaríkjunum lyftist úr sæti sínu þegar hann skynjaði að nemandi hans væri frá Íslandi; hann hafði aldrei lesið aðra eins skáldsögu og „Independent People“. Prófessorinn dáðist að frásögninni um einyrkjann, það væru óteljandi einyrkjar um öll Bandaríkin, raunar fjölluðu allar kennslubækur í hagfræði og fjármálum um Bjart í Sumarhúsum.

Alþjóðlegir Íslendingar

Kannski hefur Bjartur í Sumarhúsum verið alþjóðlegastur Íslendinga sinnar tíðar. Og Bjartur svífur enn yfir og allt um kring hjá okkur í öllum þeim sem vilja sýna frumkvæði sér og sínum til bjargar.

Annar Íslendingur er ekki síður merkur maður, ekki síður alþjóðlegur. Það er Jón Hreggviðsson. Hann var svo sjálfstæður að hann gat sagt; „það sem maður tekur ekki hjá sjálfum sér tekur maður hvergi“. Honum var einnig sama hvort hann væri sekur eða saklaus, svo fremi að hann hefði bátinn sinn í friði.

Einyrkjar í Sjálfstæðisflokknum

Einyrkjar, allir trillukarlar landsins, hafa löngum átt skjól í Sjálfstæðisflokknum. Nú segja trillukarlarnir mínir við mig, að þeir eigi ekkert skjól, þeir séu aftur orðnir smalar hjá hreppstjóranum. Einyrkinn, sem átti skjól í Sumarhúsum, er aftur farinn að hokra í Veturhúsum. Til þess voru refirnir alls ekki skornir.

Þegar fiskveiðistjórnarkerfið ber á góma, eru svör þingmanna Sjálfstæðisflokksins „hagkvæmni“. Vissulega hefur hagkvæmni og árangur fiskveiða á Íslandi vaxið verulega frá 1984, þegar aflamarki var úthlutað eftir aflareynslu þeirra skipa, sem stunduðu á þeim tíma miðin, og aflamarki var úthlutað.

Dregið úr sókn

Ég er alls ekki viss um það, að þeir sem studdu það að dregið væri úr sókn í takmarkaða fiskistofna árið 1984, hafi gert sér grein fyrir því að þar með væri lokað fyrir þá, sem ekki stunduðu fiskveiðar árið 1984 og ókomnar kynslóðir, að geta stundað fiskveiðar, að eilífu, á grundvelli þessa „manntals“ árið 1984. Eina leiðin væri að kaupa sér aðgang af þeim eru voru á réttum stað í manntalinu árið 1984, erfingjum þeirra, eða af þeim sem þegar hafa keypt sér aðgang að auðlindinni.

Lög um stjórn fiskveiða

Hafa ber í huga að,

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Hagkvæmni í fiskveiðum hefur ekki skilað sér í auknu kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins. Það kann að vera að rétt sé að auka frelsi strandveiðimanna. Þeir eru sjálfs sín herrar og miklir menn á sínu fleyi!

Hví hefur dregið úr kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum? Hví hafa einyrkjarnir horfið? Kjörfylgið hefur sveiflast nokkuð í liðnum kosningum, með leitni niður á við, úr tæpum 40% í 25%, en nokkru lægra í skoðanakönnunum. Þetta er alls óásættanlegt fyrir sjálfstætt fólk og borgaraleg öfl, sem hingað til hafa átt skjól hjá Sjálfstæðisflokknum. Trillukarlar og einyrkjar eru ósáttir við hlutskipti sitt.

Kaupmaðurinn á horninu

Einyrkjar, sem kölluðust „kaupmaðurinn á horninu“, eru horfnir. Í þeirra stað eru komnir risar á smásölumarkaði með afkomu sem jafnast helst til tískuvöruverslana í útlöndum, sem hafa einkasölu á sínum vörumerkjum, það sem kallað er einkasölusamkeppni. Er það ásættanlegt að leggja 5% skatt á alla neyslu, til að ná hagnaðarmarkmiðum, þegar samkeppni á að virka? Í virkri samkeppni nálgast hagnaður 0% af veltu, en þar sem veltuhraði vöru er mikill kann að myndast hagnaður af fjármagni, sem bundinn er í rekstrinum. Sjálfstætt fólk vill ekki vera féþúfa fyrir banka eða vildarviðskiptavini þeirra!

Fjármál hjá sjálfstæðu fólki

Sá er þetta ritar hefur helgað líf sitt fjárhagslegu sjálfstæði fólks. Með fjárhagslegu sjálfstæði er átt við réttinn til að eiga og réttinn til að taka lán. Þar í milli er miðlari fjármagns, banki eða lífeyrissjóður einstaklinga til sameiginlegrar fjárfestingar fyrir sjóðfélaga, til að eiga lífeyri á efri árum. Slíkur sparnaður er þóknanlegur. Ætla mætti að frjáls sparnaður einstaklinga væri stjórnvöldum ekki þóknanlegur, því ávöxtur slíks sparnaðar er skattlagður í drep, rétt eins og frestun neyslu é hættuleg. Í tímaritinu „Fjármál og ávöxtun“ kemur fram að jafnvel verðtryggðir reikningar bera neikvæða ávöxtun, eftir skattlagningu. Slíkt er tilræði við fjárhagslegt sjálfstæði fólks. Vissulega eru skattleysismörk, en það sem er umfram skattleysismörkin virðist hættulegt fyrir sjálfstætt fólk.

Skjól fyrir sjálfstætt fólk

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið skjól fyrir sjálfstætt fólk, einyrkja, frumkvöðla og trillukarla. Ef skil verða á milli þeirra og flokksins, þá er spurning hvort einhver þörf sé fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Varla er ætlunin að flokkurinn verði flokkur bænda og embættismanna?

Bjartur hefur ævinlega talað fyrir Sjálfstætt fólk. Í uppgjöri hans við sjálfstæðið sagði Bjartur; „ég segi fyrir mig, maður fer á mis við lífið þángaðtil maður er orðinn sjálfstæður. Fólk sem er ekki sjálfstæðisfólk, það er ekki fólk. Maður sem er ekki sjálfra sinna, hann er eins og hundlaus maður.“

Sjálfstætt fólk og borgaraleg öfl verða að standa saman."

Okkur vantar stjórnmálalegt skjól fyrir sjálfstætt fólk sem ekki trúir á inngöngu í tollabandalag fárra landluktra aðkrepptra ríkja gegn öllum heiminum heldur trúir á frelsið og sjálfstæðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Gaf mér ekki tíma til að lesa greinina, en renni aftur yfir pistil þinn.

En ég las tilvitnun þína í Bjart frænda minn frá Sumarhúsum, leiðarljós okkar allra sem friðinn fyrir höfðingjunum, ráðríki ráðastjórnarinnar, ráðríki allra þeirra sem vilja drottna yfir öðrum;

"ég segi fyrir mig, maður fer á mis við lífið þángað til maður er orðinn sjálfstæður. Fólk sem er ekki sjálfstæðisfólk, það er ekki fólk. Maður sem er ekki sjálfra sinna, hann er eins og hundlaus maður.".

Takk fyrir að setja þessi orð í borgarlegt samhengi, munum að hvað sem verður sagt um borgarlegt samfélag, byggt á kristnum sið og gildum, að hvergi, á nokkrum tíma hefur hinn venjulegi maður haft það betra, notið meira frelsis eða velmegunar.

Megi þið sjálfstæðismenn finna sjálfstæðið á ný í flokk ykkar.

Um okkur Hriflunga þarf ekki að spyrja, við vitum að án sjálfstæðis, bæði fólks og þjóðar, er ekkert.

Engin þjóð, aðeins massalaus múgur.

Og það viljum við ekki Halldór.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2021 kl. 11:40

2 identicon

 

 

"Það verður ekki fyrr en kvótafélög landsins eru komin í  almannaeigu að von er til þess að almenningur sætti sig við fyrirkomulagið"

 

Almenningur vill ekki eiga félögin heldur vill almenningur að félögin (sam)keppi sín á milli um réttinn til þess að veiða fiskinn. Afrakstur þeirrar samkeppni, leiguverðið, renni til Ríkisins og þar með almennings. Að auki fari allur afli á markað sem að sama skapi verði grundvöllur kauptaxta sjómanna. Sjómenn hafa margir hverjir verið látnir taka þátt í kvótakaupum útgerðanna. Þetta hef ég beint frá útgerðarmanni sem neitaði að taka þátt í slíkri vitleysu!

Í annan stað, hversu galið er það t.d. að einhver geti "átt" kvóta og leigt hann frá sér og hirt tekjurnar? Ef kvóti er ekki veiddur af viðkomandi útgerð í tvö ár skal honum skilað inn. Annars eiga allar leigutekjur af ónýttum kvóta að renna til Ríkisins.

 

 

"En líklega mun þó það frumkvæði koma innanfrá úr fyrirtækjunum eins og menn hafa raunar séð örla á."

 

Sama frumkvæði og kom frá forráðamönnum Samherja þegar félagið var tekið af markaði og hefur nú verið fært börnum sem fyrirframgreiddur arfur? Mér sýnist ekki.

 

 

"Það verða ávallt að vera kjölfestur til staðar í rekstri útgerðarfyrirtækja eins og Brims og Samherja"

 

Hver segir það? Hvaða lögmál er það?

 

 

"Ef arðsemi hverfur úr rekstri eins og gerðist hjá kaupmönnunum á horninu, verða engin skip einsog Vilhelm Þorsteinsson byggð."

 

Arðsemi trillukarlanna er horfin nú þegar. Trillukarlar berjast í bökkum og þurfa margir að leigja til sín kvóta á uppsprengdu verði en "eigandinn" situr á Spáni og sötrar suðrænan kokteil. Í stað þess að leigutekjurnar fari aftur út í samfélagið til uppbyggingar þess og greiðslu ríkisskulda!

 

 

"Hagkvæmni í fiskveiðum hefur ekki skilað sér í auknu kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins."

 

Það er vegna þess að eftir því sem færri "eiga" kvótann, þá eru færri kjósendur fylgjandi núverandi kerfi. Það gefur augaleið. Sjálfstæðisflokkurinn er sjálfskipaður varðhundur þessa kerfis og geldur því fyrir.

 

 

"Einyrkjar, sem kölluðust "kaupmaðurinn á horninu", eru horfnir. Í þeirra stað eru komnir risar á smásölumarkaði með afkomu sem jafnast helst til tískuvöruverslana í útlöndum"

 

Það sama hefur gerst í sjávarútveginum. Kvótinn er kominn á hendur fárra sem mala gull á að veiða hann og greiða smánargjald fyrir eða þeir leigja hann frá sér og hafa það fínt á því.

 

 

"Í tímaritinu „Fjármál og ávöxtun“ kemur fram að jafnvel verðtryggðir reikningar bera neikvæða ávöxtun, eftir skattlagningu."

 

Þú verður að bera epli saman við epli en ekki við appelsínur eða rúsínur. Þeir sem setja peningana í banka á verðtryggða reikninga vita að þar fæst örugg ávöxtun sem er tryggð af Ríkinu. Það öryggi kostar einfaldlega það að vextir eru lægri. Þú getur ekki bæði etið kökuna og geymt hana. Viljir þú meiri ávöxtun verður þú að auka áhættuna. Þetta er kennt á fyrsta ári í Háskóla.

 

 

Sjálfstæðisflokkurinn er sjálfum sér verstur. Hrunkóngurinn í Hádegismóum var klappaður upp þegar hann gerði grín af því þegar átti að reyna að taka til innan flokksins eftir hrunið.
Spillingaröfl og sérhagsmunir hafa riðið húsum innan flokksins og farið hamförum. Gjöf frá FL group átti að greiða til baka og var líklega aldrei gert. Einkavinavæðing. Aflandsreikningar. Alls kyns brellur og snúningar opinberlega og bakvið tjöldin. Loforð um umbætur fyrir aldraða og öryrkja eru svikin sífellt og endurtekið. Stétt með stétt er innihaldslaus frasi. Leit að "stétt með stétt" kom meðal annars með eftirfarandi greinar. Þessar voru einna efstar í leitarniðurstöðum:

https://eyjar.net/read/2015-05-07/stett-med-stett2/

http://gudmundur.eyjan.is/2009/04/stett-me-stett.html

Farsinn í kringum dómara við Landsrétt ofl. ofl. ofl.

Því miður er lítið betra í boði, sami grautur í sitthvorri skál. Og ekki kjósum við samfó eða Viðreisn. Þó svo gott væri að losna við krónuna og fá erlendan gjaldmiðil, þá eru aukaverkanir þess að ganga í ESB of miklar. Nóg er samt.
Það er auðvelt að losna við helstu spillingarpésana og taka til innan flokksins. Það er auðvelt að afla flokknum fylgis. En svikin loforð á loforð ofan, þá sporin hræða. Fólk er búið að fá nóg.
Rétt eins og fólk heldur áfram að vera óánægt með meirihluta borgarstjórnar, þá er nóg að hafa mynd af #brosoglokkar á strætóskýlum og þá helst meirihlutinn? Þá að sama skapi kýs fólk ekki Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn vegna Eyþórs. Bolli í 17 þarf að stíga fram og taka við forystu flokksins í borgarstjórn og þá fæst aukið fylgi þar. Að sama skapi vantar málefnalega forystu á landsvísu sem dregur að sér fylgi.
Þá fyrst fer fólk að kjósa Sjálfstæðisflokkinn að nýju!

Njóttu helgarinnar Halldór. :-)

Nonni (IP-tala skráð) 9.4.2021 kl. 16:38

3 identicon

Þetta eru allt of miklir langhundar hjá þér. Auk þess er oft erfitt að skilja á milli þess hvað er þitt og hvað er annarra. Þetta á heima í greinaskrifum á mbl en ekki bloggi. Margt gott frá þér annars. 

Gunnlaugur Ólafsson (IP-tala skráð) 9.4.2021 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 3417961

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband