Leita í fréttum mbl.is

Borgarlínubullið

enn á ferðinni.

Ekkert virðist geta komið vitinu fyrir Borgarstjórnarameirihlutann í Reykjavík varðandi þráhyggjuna um dýrustu gerð miðlægs lestakerfis á þröngum götum höfuðborgarsvæðisins. Og meirihlutar í sveitarstjórnum nágrannabyggða virðast hafa verið heilaþvegnar þar sem ekki heyrist hósti né stuna í aðrar áttir en hallelúja.

ÁS hefur reynt að benda á ódýrari leiðir sem eru léttvagnakerfi sem aka með annarri umferð. Sömuleiðis hefur líklega enginn séð fyrir þá sprengingu sem orðin er í rafskútuumferðinni. En hún er algerlega ótrúleg og hefur bersýnilega gjörbylt samgöngum á svæðinu. 

Maður horfir á stórkostlega strætisvagna aka tóma um göturnar meðan fólk brunar ferða sinn á rafskútunum sem er hægt að leigja á hverri götu og skilja eftir þar sem manni hentar. Af hverju á fólk ekki að fá að taka þær með sér í strætó?

Jónas Elíasson prófessor hefur látið þessi mál sig varða:

"Faghópur Áhugafólks um samgöngur fyrir alla, ÁS, hefur skilað inn athugasemdum við frumdragaskýrslu 1. áfanga borgarlínu, sjá samgongurfyriralla.com. Að sú „þunga“ útgáfa af borgarlínu sem þar er útfærð skuli fá falleinkunn kemur sjálfsagt engum á óvart. Þar með er ÁS þó ekki að leggja dóm á það samgöngukerfi sem skýrslan boðar. Tillaga ÁS um létta borgarlínu gengur vel að merkja út á sama samgöngukerfi og þunga borgarlínan, bara í annarri og mun hagkvæmari útfærslu. Kostnaðarsamanburður er því auðveldur.

Þunga línan og hin létta, samgöngukerfið

Hagkvæmast væri að byrja innleiðingu á þungu línunni á nýjum umhverfisvænum vögnum og upphituðum biðskýlum, en svo er ekki. Stefnt er að því að byrja á framkvæmdum við miðjusettar sérakreinar fyrir strætó. Því næst eiga að koma heilar raðir af blómakerum, göngustígum og hjólastígum og síðan akbrautir fyrir bíla í það rými sem þá er eftir. Skýringarmynd af þessu í frumdragaskýrslunni er tekin úr gamalli skýrslu frá borgaryfirvöldum í Þrándheimi, en þar var þessu fyrirkomulagi hafnað fyrir um áratug. Í staðinn var byggt kerfi af þremur línum sem teknar voru í notkun árið 2019, svipaðar léttu borgarlínunni sem ÁS hefur lagt til, með biðstöðvum og sérakreinum á hægri kanti akbrauta.

Hliðstæð framkvæmd hér heima væri að endurnýja vagnakost og biðskýli línu 1 (Hafnarfjörður). Í stað þess er þunga línan lota 1 látin fara eftir nýrri einkabrú strætós yfir Fossvog. Við það sparast einhverjar mínútur í ferðatíma þar sem hin nýja lota 1 þarf jú ekki að krækja fyrir Öskjuhlíðina eins og gamla lína 1 þarf að gera. Þetta telja menn síðan sérstaka sönnun fyrir gæðum borgarlínunnar í hraða og tímasparnaði. Hið rétta er að hún fer á nákvæmlega sama hraða og gamli góði strætó.

Þunga línan og hin létta, kostnaðurinn

Þessar sérstöku akreinar fyrir strætó eiga að vera úr rauðu asfalti, eins konar rauður dregill úr 300.000 fermetrum af lituðu asfalti. Talið er að sú framkvæmd kosti um 1,2 ma.kr. á km, sem gerir alls 40- 80 ma.kr., allt eftir því hve langur rauði dregillinn verður, en það hefur ekki komið fram enn. Erlendis er talið betra fyrir strætó að sérrými hans sé í miðjunni að öðru óbreyttu.

Í Reykjavík eru aðstæður með því móti að það verður bókstaflega að troða þessum rauða dregli í gegnum hið tiltöluleg þrönga gatnakerfi. Þetta verður því til þess eins að gera vonda umferðarhnúta enn verri. Að gera léttu línuna og spara 40-80 ma.kr. er því hreinn hagnaður, sem annars færi í það að gera almennt umferðarástand lakara en nú er. Ef stjórnmálamenn geta lokað umræðunni um borgarlínuna (t.d. fjárlagaumræðunni í haust) án þess að minnast á þetta, þá er það ekkert minna en kraftaverk. Skorað er á stjórnmálamenn að hlýða nú rödd skynseminnar í þessu máli, en ekki gefast upp og láta þegar gerðar skyssur hafa sinn gang.

Hér er 100 sinnum meira í húfi en bragginn í Nauthólsvíkinni.

Framhald eftir 1. lotu

Skemmst er frá því að segja að allt er á huldu um framhaldið. Fjármögnun virðist ekki ná nema til þeirra 25,9 ma.kr. sem 1. lota á að kosta. Ljóst er að rauði dregillinn verður erfið vegagerð, svona alveg í miðri götu, og hætt er við að ríkisframlagið verði fljótlega uppurið. Miðað við forsendur er erfitt að sjá að hann verði lengri en 30 km og nánast engar líkur eru á að eitthvert fjármagn verði eftir fyrir marktækar endurbætur á samgöngukerfinu sjálfu (nýir vagnar, biðskýli eða hraðlínur).

Þessi staða mun skapa gríðarlegan þrýsting á ríkissjóð um að leggja fram nýtt fé í milljarðatugum svo að haldið verði áfram. Reykjavíkurborg situr föst í skuldasúpu eilífðarinnar og getur ekkert fé lagt fram, bara hjalað. Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að meira fé komi ekki úr ríkissjóði í borgarlínu. Verða beinin nógu sterk í ríkisstjórninni til að standa við þá yfirlýsingu, með samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins hálflamað út af vanfjármögnuðum vegaframkvæmdum við rauða dregilinn?

Viðbrögð við tillögum ÁS og eftirfylgni

ÁS hefur fengið jávæð viðbrögð, mikil og sterk, við tillögum sínum meðal fólks. Morgunblaðið hefur sinnt málinu af mikill fagmennsku og þar af leiðandi verið aðalvettvangur skrifa meðlima ÁS til að útskýra sínar tillögur. Mælirinn á viðbrögð stjórnmálamanna stendur hins vegar á núlli, með einstaka jákvæðum undantekningum þó.

En nú þarf að hrökkva eða stökkva. Í tillögum ÁS felst 40 ma.kr. sparnaður frá núverandi áætlunum. Fyrir það fjármagn má í staðinn ráðast í aðrar framkvæmdir sem raunverulega greiða fyrir allri umferð. Í þeirri stöðu er rauði dregillinn óþarfur. Þegar umferð hefur aukist getur þörf fyrir hann skapast, svo að taka hann út úr framkvæmdaáætlun núna má líta á sem frestun. Þetta ætti Reykjavíkurborg að geta sætt sig við átakalaust og ríki og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að geta sameinast um."

Hver meðalsnotur maður sem kæmi frá tunglinu myndi getað skilið röksemdir ÁS fyrir ódýrari útfærslu borgarlínukerfis sem er í rauninni orðið úrelt áður en það er byggt. 85 % Borgarbúa hefur þegar valið einkabílinn, Dagur B. Eggertsson meðtalinn, sem sinn samgöngumáta.

Unglingarnir eru komnir á rafskúturnar sem fara þangað beint sem þeir ætla að fara, ekki milli  óhentugra stoppistöðva almenningssamgangna og bíllauss lífstíls.  

Borgarlínubullið brunar hinsvegar áfram óstöðvandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gott er sjá að þú hefur skipt um skoðun að hluta til að minnsta kosti varðandi andstöðu við notkun hjóla sem samgöngutækja.  

Ómar Ragnarsson, 7.5.2021 kl. 12:09

2 identicon

Það hefur hver sína skoðun. Og þó þú sért sammála einhverjum þá er sú skoðun ekkert merkilegri en aðrar. Væru sérfræðingar bæjarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu þér sammála þá væru samt ekki færri sem væru ykkur ósammála.

Að halda, og miða ætíð við, að einkabíll og einbýlishús farandi kynslóðar sé draumur og val komandi kynslóða er órökrétt og margt sem bendir til að sé rangt mat. Ung pör eru að kaupa íbúðir sem eru helmingur af stærð íbúða sem voru seldar sem einstaklingsíbúðir fyrir aldamót og ört stækkandi hlutfall kýs að taka ekki bílpróf. Kolefnisspor og umhverfisáhrif hafa meiri áhrif á lífsstíl fólks með hverju árinu sem líður og einkabíllinn að fara sömu leið og reykingar. En 85% er ekki langt frá hlutfalli reykingafólks fyrir nokkrum áratugum síðan og einbýli í félagsheimilastærð finnast ekki í nýjum hverfum.

Tuttugasta öldin er liðin. 

Vagn (IP-tala skráð) 7.5.2021 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 3418212

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband