Leita í fréttum mbl.is

Ísland lifi !

Ég held að þessar kosningar séu tapaðar fyrir mig og mitt íhald. Þjóðin vill refsa Sjálfstæðisflokknum ef einhverjum ástæðum fyrir allt sem úrskeiðis hefur farið. Okkar málflutningur kemst ekki að fyrir öskrum í  Hallgrími, Sturlu, Herði og öllu þessu batteríi af götuspekingum og pólitískum  tækifærissinnum. Evruspekingum og Besserwisserum.

Skynsemin var líka ofurliði borin áður en Aþeningar sáu að Kleón sútari var bara venjulegur asni  með vindbelg innan í sér í stað þrýstiloftstanks á bakinu.  Lýðræðið varð að skrílræði með hörmulegum afleiðingum. 

En það rennur af fólki vígamóðurinn þegar það þarf að horfast i augu við hverdagsleikann. Flotinn er sokkinn og herskararnir horfnir. Hnípin þjóð í vanda. Fólkið er eitt með sjálfu sér. Borga skattana, leita sér að vinnu, horfa á greiðsluvandamálin hrannast upp. Það er margir annarsstaðar sem menn héldu að væru vinir manns.  Þá munu einhverjir menn harma liðna daga og óska að þeir hefðu verið framsýnni þá og ráðstafað ýmsu betur.

En  þá kemur nýtt  fólk til skjalanna, með nýjar leiðir, nýjar hugmyndir.Ungt fólk með ferska sýn á framtíðina.  Þeir sem hæst láta núna verða gleymdir og orðnir að sagnfræði. Nýja Ísland rís fegurra en nokkru sinni þó að það verði víst ekki á mánudaginn kemur eða þareftir.

Þá mun Guð blessa Ísland eins og Geir Haarde bað um í myrkrinu þegar öll sund lokuðust fyrir þjóðinni á haustdögunum. Ísland mun lifa okkur öll sem nú þykjumst allt vita.

Þessar kosningar eru  bara einar af mörgum í framtíðinni.   Þær fara allar á ýmsa vegu. En vonandi snúast þær bara um aðalatriði : 

Ísland lifi !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úr því að fólk gat ekki asnast til þess að sparka Illuga, Guðlaugi, Þorgerði Katrínu og þeirra líkum þá er bara engin leið til þess að kjósa flokkinn í þetta skiptið. Jafnvel þótt hann hefði sett fram trúverðugri stefnu í efnahagsmálum.

Ég bendi annars á að það er dálítið ósanngjarnt að fella þunga dóma yfir Kleon. Eina heimildin um feril hans er saga Þúkídídesar sem var í meira lagi uppsigað við hann.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 00:55

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Kannski er það svo Hans góður, að menn eru yfirleitt hvorki eins vondir eða hvorki eins góðir og þeir eru sagðir vera af öðrum.

Halldór Jónsson, 25.4.2009 kl. 01:11

3 Smámynd: Halldór Jónsson

hans góður, 

Já ég held að ég hafi haft Kleón sútara fyrir rangri sök. Hann var sonur sútara  en hraustur hermaður og féll á vígvellinum. Hann var nefmæltur mikill ræðumaður og varð þannig að sögulegri  fyrirmynd að hugtakinu demagouge, eða lýðskrumari. Hann talaði fólk til fylgis við óraunhæfar hugmyndir,  sem honum tókst svo sumar að framkvæma með áræði og heillaði þarmeð marga til fylgis við frekari vitleysur sínar. hann var ekki talinn vitmaður á borð við  Períkles . En rétt eins og Adolf Hitler seinna, þá tókst honum eitt og annað en annað miður.

Halldór Jónsson, 25.4.2009 kl. 01:32

4 Smámynd: Brattur

Þetta er bara eins og með veðrið, stundum er það gott og stundum slæmt... Nú er búinn að vera rigningarsuddi í 18 ár en það fer að stytta upp með sól og blíðu... strax á morgun...

Brattur, 25.4.2009 kl. 01:32

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Góður Brattur, ekki af baki dottinn.

Vonandi skín Hornafjarðarmáninn á þig á löngum kyrrukvöldum undir vinstristjórninni. Eftir þau kýstu líklega íhaldið.

Halldór Jónsson, 25.4.2009 kl. 01:35

6 Smámynd: Brattur

Hehe... íhaldið kýs ég aldrei... fyrr myndi ég kjósa Ástþór eða Hornafjarðarmánann..

Brattur, 25.4.2009 kl. 01:42

7 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Samfylkingin kærð fyrir landráð.

Samfylkingin var kærð fyrr í dag fyrir landráð.  Einhverra hluta vegna hefur þetta hvergi birst í nokkrum fjölmiðli.

Lesið kæruna hér.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 25.4.2009 kl. 06:28

8 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þeir eru flestir hressilegir pistlarnir þínir. Ég verð eiginlega að votta þér samúð með flokkinn þinn. Þú bítur bara á jaxlinn og bölvar í hljóði. Þau voru nokkur íhöldin hér á Selfossi í gamla daga. Hafnaríhaldið með Sigurð Óla og Hlaðaíhaldið með Jón Dýra. Það var góður kall og við ræddum stundum um lífsins gagn og nauðsynjar. Mér þótti líka mjög vænt um Óla í Steypustöðinni þó hann væri sótsvart íhald. Það voru líka andskoti harðir kommar hér líka. Pólitíkin er nú komin í útdeyfu hér miðað við fjörið í gamla daga. Kveðjur til þín og frúarinnar sem kannast allavega vel við Hlaðaíhaldið.

Sigurður Sveinsson, 25.4.2009 kl. 07:39

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Þeim verður að svíða sem undir míga" var í gamla daga sagt og þetta voru talin algild rök fyrir refsingu á þeirri tíð. Hvort sú refsing var framkvæmd af einhverjum eða hvort hún kom í hausinn á þeim sem um var talað sem gjald fyrir hyskni eða heimsku- einu gilti.

Hugmyndafræði heimskunnar fór i gjaldþrot og dró íslensku þjóðina með sér ásamt öllu viðskiptasamfélagi heimsins. Sjálfstæðismenn horfðu á þetta gerast og trúðu ekki eigin augum, brugðust ekki við þrátt fyrir strangar aðvaranir. Þjóðin vill refsa ykkur. Kratarnir brugðust ekki heldur við. Þeir botnuðu aldrei í hugmyndafræðinni en fylgdu henni eftir kátir í eigin heimsku og töluðu bara um fallega málverkið. En engum finnst greinilega að þeir hafi til neinnar refsingar unnið.

Formaður míns flokks slátraði honum á liðnu kjörtímabili með dyggum stuðningi fáeinna vina. Nú mun hann þiggja sín laun í kvöld þrátt fyrir að hafa bent á einföldustu lausnirnar og þær ódýrustu með nýtingu fiskistofnanna og jarðhitans með ódýrri orku. Þarna eru þúsundir starfa eða í það minnsta hundruð ásamt því að vera innri uppbygging í stað kollsteypulausna.

Að vísu hljóp hann á sig með ákalli um fleiri álver sem hvorki eru í sjónmáli nú eða á næstunni. Auk þess sem vistvæn orka er nú ekki alveg einskis virði í augum kjósenda, sem betur fer.

Árni Gunnarsson, 25.4.2009 kl. 09:16

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er ekki hægt að kenna öðrum um þegar einn flokkur verður undir. Forsvarsmenn þess flokks verða þá að líta í eigin barm. Þeir hafa bara ekki staðið sig nógu vel. Þetta gildir um alla flokka.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.4.2009 kl. 10:54

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vonandi tekst komandi ríkisstjórn vel til þótt viðfangsefnið sé gríðarlega erfitt.

Ég minni þó á að ekki er alltaf sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Í kosningunum 1978 töpuðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gríðarlegu fylgi og komust báðir niður í sögulegt lágmark fylgis.

Ekki leið þó nema rúmt ár þar til Framsóknarflokkurinn náði vopnum sínum eftir að vinstri stjórn sprakk haustið 1979.

Þegar lið falla niður um deild í íþróttum ef það stundum það besta sem fyrir þau getur komið. Það þýðir endurmat, endurbót og oft magnaða endurkomu.

Eftir hrunið í kjölfar 18 ára slímsetu Sjálfstæðisflokks og 12 setu Framsóknarflokks hefði verið óeðlilegt að þessir flokkar héldu sínum sessi.

Fyrir íslensk stjórnmál og alla flokka er hins vegar æskilegt að þessir tveir flokkar bæti sig og verði á ný boðlegur valkostur í íslenskum stjórnmálum.

Ómar Ragnarsson, 25.4.2009 kl. 12:58

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

D og B eru ekki líkleg stjórnmálaöfl til að skilja breytt umhverfi og nýtt gildismat. Nýtt gildismat er bara meginforsenda þess að þessari auðugu þjóð takist að ná tökum á eigin framtíð. Skyndilausnir eru sýn þessara flokka á leiðir til viðreisnar og þær eru okkar litlu þjóð hættulegar.

Við þurfum að byggja upp innviðina og ef það verður látið víkja fyrir milljarðalausnum þá er voðinn vís og aukin sundrung framundan.

Byrjum á auknum handfæra-og línuveiðum og ylræktarstóriðju með ódýru rafmagni.

Árni Gunnarsson, 25.4.2009 kl. 14:52

13 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Tek undir með þér Halldór: Ísland lifi! og bæti við: utan ESB.

Ragnhildur Kolka, 25.4.2009 kl. 15:41

14 Smámynd: Sævar Helgason

Ég held að bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur séu á leiðinni  á sögusafn þjóðarinnar. Framsókn er nær því marki. Þetta eru síðustu leifarnar af stjórnmálum síðustu aldar.  Nýjar kynslóðir eru að taka við með nýjum áherslum.

Sævar Helgason, 25.4.2009 kl. 20:56

15 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir Sigurður Sveinsson, konan mín þakkar fyrir kveðjuna og biður fyrir sínar bestu til þín. Hún leikur á reiðiskjálfi núna því hún er svo kvíðin fyrir úrslitunum og að hennar flokkur fari illa útúr þessu. Hlaðaíhaldið eldist ekki af henni.

Ómar minn, þú ert óumdeilanlega snillingur í mínum augum.  Á eiginlega öllum sviðum nema kannski síst á því pólitíska. Ég held að stórsigur einhverra sé engum hollur. Ég man eftir því hvað ég gat dáðst að Gunnar Thoroddsen hvernig hann hélt veikri stjórn sinni saman með ótrúlegri þrautseigju þrátt fyrir að það væri mér til hræðilegrar gremju. Pólitík er list hins mögulega og það reynir á þegar þungt er fyrir fæti. Því vona ég að íhaldið hafi góðan styrk til að andæfa ykkur umhverfissinnunum.

Happy landings Ómar !

Árni, ég styð allt sem til framfara horfir. Ylrækt væri stórkostleg stóriðja.

Kæra Kolka, hjarta okkar slær í sömu átt nú sem fyrr.

Og Sævar, ég vona að þú eigi góðar stundir á kæjaknum í sumar laus við alla pólitíska reiði eins og Kiljan í sælli bifreið austur yfir heiði.

Halldór Jónsson, 25.4.2009 kl. 21:54

16 Smámynd: Halldór Jónsson

Já Sævar, allir verða að taka afleiðingum gerða sinna, jafnt í pólitík sem því að fara illa búinn útí íslenzkt veður. Menn geta dignað !

Halldór Jónsson, 25.4.2009 kl. 21:58

17 Smámynd: Halldór Jónsson

Fyrirgefðu SIgurður Þór ætlaði ég að segja.

Halldór Jónsson, 25.4.2009 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband