Leita í fréttum mbl.is

Stýrum fortíðinni sem allra best !

 

Það þýðir auðvitað ekki að kenna stjórnmálamönnum einum  um atferli bankastrákanna og núverandi stöðu. Það hjálpar ekkert að þrefa um orðinn hlut. Maðurinn er ófullkomin skepna þó sumir séu taldir fullkomnar skepnur.  En það hefur nú heldur aldrei stoðað að hengja menn öðrum til eftirbreytni. Mörg mannskepnan er þeirrar náttúru að ljúga og stela ef hún kemst upp með það. Heiðarlegt fólk er eiginlega undantekning fremur en regla og maður verður yfir sig glaður þegar maður hittir slíkt eintak.  Það er alkunna í harðstjórnarríkjum að það er einungis óttinn við grimmilega refsingu sem fær hund eða mannhund til að hegða sér vel. Hér á landi þekkjum við ekkert til refsinga síðan að engin fangelsi voru til og refsiúrræðin voru bara öxin, fjárupptaka eða útlegð. Hér er mannúðin á þvílíku stigi að S-Ameríski glæponinn lýsti okkar fangelsum sem fimm stjörnu lúxushótelum.

Það var víst Halldór Ásgrímsson sem fann upp hugmyndina um kjölfestufjárfestinn í bönkunum og barði það í gegn þegar Davíð hafði talað fyrir dreifðri eignaraðild. Niðurstaðan varð þessi að bankarnir lentu í höndum manna sem ekkert skynbragð báru á hefðbundna bankastarfsemi né höfðu einhvern nauðsynlegan  bankaþroska.  Og þá brugðust okkar stjórnmálamenn algerlega með það að tortryggja ekki menn fyrirfram eins og Kaninn gerir heldur göptu þeir flestir uppí þá eða tuldruðu í barm sér.

 En þó þeir hefðu gert þetta öðruvísi og fengið fram dreifða eignaraðild þá hefðu völdin safnast á fáar hendur þegar tímar liðu.  En þetta fer alltaf svoleiðis með almenningshlutafélög að það kemur einhver óprúttinn bófi  eða þjófagengi og stelur og sölsar til sín. Baugur og BYR voru líka almenningshlutafélög og allir sjá hvernig fór með það. Muna menn ekki þegar Sigurður Einarsson keypti og lánaði  kennitölur til að ná undir sig Búnaðarbankanum en var sjálfur bara starfsmaður Kaupþings minnir mig þá. Þess sama banka sem  undir stjórn Sigurjóns Digra lánaði Björgólfi fyrir Landsbankanum án þess að bankaráðsmaðurinn Árni Páll Árnason tæki eftir því. Og ekki virtist Kjartan Gunnarsson vita meira til að vara vin sinn Davíð við þó hann væri innsti koppur í ísbúri Björgólfanna.

Hvernig spilaðist úr þessu er ekki hægt að hengja bara á Davíð Oddsson eða jafnvel Halldór  Ásgrímsson, hvað þá kollektíft á þeirra flokka eins og kommatittirnir bisa við nætur og daga. Þeir sáu hvorugur  fyrir fall Lehmannsbræðra og að það kæmi heimskreppa.Þeir voru ekki bjartari en þetta þó þeir þættust kannski vera það fyrir hverjar kosningar.  Þetta gekk líka fjandi vel framan af og Björgólfur spókaði sig á teinóttu fötunum  og útdeildi góðverkum og sporslum til hægri og vinstri.

 Meinið sem ekki sást var að stjórnendur bankanna, Sigurjón Digri, Halldór, Heiðar Már,Sigurður Einarsson, Ragnar Z. Bjarni Ármannsson svo einhverjir séu taldir  lánuðu mönnum eins og Bakkavararbræðrum, Wernersbræðrum, Pálma, Jóni Ásgeiri, Tenguhiz, og hvað þeir nú heita allir, alla bankana  án trygginga. Tóku uppblásna efnahagsreikninga sem byggðust meira á viðskiptavild en eiginfé gilda. En módelinu lýsti Aðalsteinn Hákonarson vel fyrir okkur í grein í Tíund, gagnmerku tímariti  sem Indriði H. stofnaði. Það var bara nokkrum árum of seint og endurskoðendurnir voru búnir að dansa með allan tímann og láta borga sér vel fyrir litfagrar skýrslur. Titill þeirra sem löggiltir og eiðsvarnir trúnaðarmenn hefur orðið fyrir gengisfalli eftir þessi afskipti þeirra af uppgjörsmálum útrásarvíkinganna.Enda ætti ábyrgð þeirra að vera bundin við skýran lagatexta sem ætti að standa framan á öllum ársreikningum fyrirtækja og þeir skrifuðu undir í stað þess að skrifa loðmullu um að þeir firri sig allri ábyrgð. 

Lántakendurnir bönkunum  voru hinsvegar mest rakin viðskiptafífl sem kunnu ekkert í fyrirtækjarekstri þegar grannt var skoðað og þeir töpuðu á nánast öllu sem þeir komu nálægt, hvort sem það voru byggingaframkvæmdir í Kína eða verslunarkeðjur í Bretlandi eða flugfélög, hótel eða verslunarhús  í Danmörku. Þeir gátu aldrei borgað neitt til baka. Þeir kunnu bara að ljúga og stela og það hafa þeir gert ágætlega.  Allt gekk meðan hægt var að slá meira í útlöndum og lána fíflunum meira og meira.Seðlabankinn gerði núll í því að binda peningana hjá bönkunum, enginn gerði neitt í því að tryggja að Icesave væri í erlendu dótturfélagi. Skuldajöfrunum gekk hinsvegar minnst  í USA þar sem Kaninn er að eðlisfari  tortrygginn gagnvart "strangers" og hefur gjarnan fingurinn á gikknum til öryggis.  Bónus Dollar Stores er til minningar um það  sem við borgum svo auðvitað með okkar sköttum eins  og önnur fallítt og Haganlegar afskriftir á vegum sömu manna.

Svo féll Lehmanns bankinn, Kaninn lyfti ekki litlafingri því að hann vissi að krassið myndi lenda utanlands eins og á Islandi. Þá fóru þessir gervibankar okkar bara á hausinn. Þeir áttu ekki neitt, þeim var stjórnað af krosseignatengdum innherjum og  höfðu svo sjálfa sig og jafnvel hreinræktaða glæpamenn í viðskiptum. Því er þetta svona. Eftir sitjum við eins og maðurinn hennar Jónínu hans Jóns og eigum að borga brúsann.

Nú sitjum við eftir í ónýtu þjóðfélagi. Fáir trúa hér á framtíðina. Fáir vilja taka lán til að fjárfesta í þrælakistunni Íslandi sem er tæknilega gjaldþrota land í ruslflokki. Íslenska menntaða og duglega fólkið leitar úr landi en óþjóðir koma í staðinn um galopin landamærin meðfram til þess að stela því sem eftir er.

Skýrsla um hrunið ! Það er akkúrat sem mest vantar ! Láta Evu Jolie koma einhverjum í einhverja mánuði á Kvíabryggju ! Stýra fortíðinni sem allra best ! Enga stóriðju, enga mengun. Ekki neitt !

Hér er margra ára kreppa framundan hjá þeim sem hér ætla eða verða að þrauka. Framundan eru gjaldþrot heimilanna, upplausn og fátækt. Atvinnuleysi, örbirgð. Allt þetta ætlum við að lækna með því að hækka skatta og tigna forseta vorn og fósturjörð. Svo kemur punktur.

Ísland verður þó til áfram og verður fagurt og frítt. En fólkið.... ?

Menningararfleifðin skiptir öllu máli !Stýrum fortíðinni sem allra best !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Helgason

Þakka þér kærlega fyrir þessa grein, Halldór. Þessi grein þín er hreint frábær og kemst beint að efninu á greinargóðan og skýran hátt.

Ég held að ég gæti ekki bætt neinu við, þótt ég væri allur af vilja gerður.

Með því óska ég þér gleðilega jóla og nýs árs,- og að við sem lesum, megum sjá margar góðar greinar frá þér á hinu nýja komandi ári.

Tryggvi Helgason, 27.12.2009 kl. 21:30

2 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Það er naumast að   jólasteikin og kökurnar hafa farið vel í þig Halldór !   Góður.

Nei með núverandi stefnumiðum þessarar ríkisstjórnar stefnir ekkert í annað en  fast 15 -20 % atvinnuleysi og skömmtunarmiða ef fer fram sem horfir.     Það má ekki nýta tækifærin né auðlindirnar, en að vísu fer það eftir við hvern þú talar af ráðandi öflum þann daginn.

Hin hliðin er að auðvitað sú, að ekki má  tapa sér og sínum í svartnættisrausi.  Við erum svo heppin Íslendingar að þrátt fyrir allt eru margir möguleikar í atvinnumálum og framleiðslu fyrir framan glyrnurnar á okkur.

Þetta er kórrétt með dreifða eignaraðild.   Það var og er bara píp.    Það stingur sér alltaf upp á yfirborðið gráðugur alætu hákarl sem vill allt gleypa.  Nauðsynlegt er að setja skorður sem tryggja að dreifð eignaraðild haldi.  Fyrr mun almenning og fjársterka aðila ekki fýsa að leggja baun í atvinnurekstur eftir það sem á undan er gengið.      Öðru máli gegnir um þá sem koma upp öflugum fyrirtækjum eða framleiðslu útfrá eigin hugmynd eða framsýni.  Svo fremi að um heiðarlega starfsemi sé að ræða geta flestir unnt slíkum aðilum að komast í álnir eða verða stórir.

P.Valdimar Guðjónsson, 27.12.2009 kl. 22:11

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir þetta Tryggvi.Ég man að ég hitti þig einu sinni í Herðubreiðarlindum 1966 held ég, þú sóttir axlarbrotin mann. Ég fór að læra að fljúga eftir það og hef flogið síðan til þessa dags. Á Skymaster C337. Ertu hættur að flögra?

Halldór Jónsson, 27.12.2009 kl. 23:30

4 Smámynd: Halldór Jónsson

P.Valdimar, menn finna alltaf leiðir fram hjá skorðum. Það verður bara að vera vakandi strax og einhver öfugþróun fer í gang áður en úr verður skrímsli eins og þegar leyft var að Hagkaup og Bónus rynnu saman. Eftir gerðan hlur varð ekki við neitt ráðið. Nú er þetta skrímsli búið að hálfdrepa þjóðina og þykist vera góðgerðastofnun í þokkabót.

Halldór Jónsson, 27.12.2009 kl. 23:32

5 Smámynd: Óttar Felix Hauksson

Þetta er vel skrifaður pistill Halldór. Þú hefur skarpa sýn á stóru drættina í risi og falli íslensku bankanna. Ég vil nota tækifærið og óska þér gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári, það er búið avera gaman að vera samferða þér á árinu sem er að  líða.

Óttar Felix Hauksson, 28.12.2009 kl. 02:36

6 Smámynd: Baldur Hermannsson

Vöxtur og hrun bankanna var flókið fyrirbæri en fákænum mönnum er um megn að skilja flókna hluti og þess vegna eru þeir ginkeyptir fyrir einföldunum. Þeir kæra sig ekkert um orsakavalda, þeir vilja bara sökudólg. Helst ekki marga sökudólga, helst bara einn. Þessir menn skeyta ekkert um staðreyndir. Það er sama hve oft maður rekur vitleysurnar öfugar ofan í kokið á þeim, strax næsta dag eru þeir þvaðrandi sömu gömlu vitleysuna.

Til fróðleiks:

(DV 10. nóvember 2008) „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma,“ sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri í ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands 6. nóvember 2007.Eitt ár er síðan þessi ummæli féllu en í ræðunni varaði Davíð ítrekað við gríðarlegri skuldsetningu þjóðarbúsins. „Útrásaráformum þarf því að setja skynsamleg mörk. Sá óhófsandi sem að nokkru hefur heltekið okkur má ekki ráða ferðinni til framtíðar,“ sagði hann einnig í ræðunni í fyrra.

http://www.dv.is/frettir/2008/11/10/david-varadi-vid-skuldsetningu-thjodarbusins/

 

Baldur Hermannsson, 28.12.2009 kl. 02:54

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Takk fyrir þetta Óttar, þetta var gagnkvæm ánægja af minni hálfu.

Baldur, dæmigert er að sá eini sem talaði svona í vitleysunni allri skuli vera talinn bera ábyrgð á henni alfarið og einn. En þetta er náttúrlega harðsvíraðir kommatittir sem stjórna þeirri skoðanagjöf á öllum rásum. Það hvín og fretar hlutfallslega miklu meira í þeim en þeir eru margir. Þetta er eiginlega allt sama vitleysingaliðið sem er með síbylju um hvað þeir haldi að Sjálfstæðisflokkurinn sé og hugsi, að hann sé bara samsafn af vitleysingum og glæpamönnum. Hugsandi fólk hefur þá skoðun á Dabbanum sem kemur fram í skoðanakönnuninni hér til hliðar. Berið það saman við fylgið hjá Jóku til dæmis eða Óla forseta.

Halldór Jónsson, 28.12.2009 kl. 07:46

8 Smámynd: Jóhannes Birgir Jensson

Þér gengur ágætlega að stýra fortíðinni Halldór, því að það er fjarri því að Davíð hafi verið sá eini sem talaði svona í vitleysunni.

Ef eitthvað þá var hann með allraseinustu skipum sem svo talaði, og það sem verra er, hann er persónulega ábyrgur í krafti embættis síns fyrir að hafa dælt út milljörðum í eitthvað sem hann þykist hafa vitað að væru svikamyllur.

Jóhannes Birgir Jensson, 28.12.2009 kl. 09:39

9 Smámynd: Baldur Hermannsson

Athugasemd Jóhannesar er athyglisverð og raunar lærdómsrík, því hún er dæmi um málflutning hálfvita sem eys úr sér palladómum en hunsar allar staðreyndir þótt þær liggi lausar fyrir. Davíð var nefnilega ekki með allra seinustu skipum, hann var trúlega allra fyrsta skipið í þessu efni. Í Umsátrinu kemur fram að hann varaði við hugsanlegu hruni íslensku bankanna á fundi sem var haldinn 2-3 mánuðum eftir að hann var skipaður seðlabankastjóri - og það er löngu áður en útlendir sérfræðingar fóru að birta greiningar sínar.

Seðlabankinn veitti síðan bönkunum lán í lengstu lög til þess að reyna að forða þeim frá falli og ég minnist þess hvílíkur hatursáróður var hafður í frammi gegn Seðlabankanum og Davíð sérstaklega fyrir að hafa ekki haldið áfram að ausa peningum í Glitni þegar hrunið var orðið óumflýjanlegt.

Allar þessar staðreyndir eru vel þekktar en Jóhannes mun láta þær eins og vind um asnaeyrun þjóta því hann er fífl og viðrini. Til hvers var nú Drottinn að skapa svona menn? Sennilega var hann orðinn þreyttur undir það síðasta og passaði ekki upp á gæðaeftirlitið.

Baldur Hermannsson, 28.12.2009 kl. 12:57

10 Smámynd: Offari

Eitt glöggasta dæmið um svik og svínerí bankana er þegar þeir keyptu Bubba.

Þeir létu hann svo fjárfesta í hlutbréfum og taka erlend lán til íbúðakaupa. Nú situr Bubbi skuldugur upp fyrir haus og eignalaus. Bankinn náði af honum lífsviðurværinu og gott betur en það. En engin vorkennir Bubba því hann gat sjálfum sér um kennt.

Offari, 28.12.2009 kl. 17:41

11 Smámynd: Baldur Hermannsson

"Enginn" er nú full mikið sagt. Mér hefur heyrst Bobbi vorkenna sér heilmikið.

Baldur Hermannsson, 28.12.2009 kl. 19:58

12 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Þið eru skemmtilega ánægðir hver með annan, flestir. Gott að sjá að athugasemd mín við pistil þinn hér að neðan, Halldór, leiddi til þess að þér tókst svona óvenjulega vel upp.....!

Ómar Bjarki Smárason, 28.12.2009 kl. 23:16

13 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Tek fram að ég hef efasemdir um Davíð  sem ritstjóra í dag.  Þá meina ég að blaðið getur ekki beitt sér eins og þarf í uppgjöri við fortíðina með hann í forsvari.

Hinsvegar.

Í framhaldi af allri sökudólgaleitinni sem vill oft enda á Davíð vek ég athygli á eftirfarandi frétt í DV árið 2007.  Takið eftir hver er að vara við hverju á þessum tímapunkti. ;

"Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir ekki sjá betur en að bandaríski hagfræðingurinn Arthur B Laffer hafi í fyrirlestri hér á landi fyrir helgina slegið af kenningu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um að þjóðin væri á bjargbrúninni vega skuldasöfnunar fyrirtækja og einstaklinga erlendis. "Þetta er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Það var í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartaði yfir því um daginn að almenningur keypti leikföng," segir Guðmundur. "

Laugardagur 17. nóvember 2007 kl 14:13

Höfundur: (johannh@dv.is)"

Nú í árslok ársins 2009 veltir maður fyrir sér hvað er gleymska og hvað er heimska hjá blaðamönnum og álitsgjöfum í sinni "fortíðarstýringu" sem þú nefnir Halldór.

P.Valdimar Guðjónsson, 28.12.2009 kl. 23:24

14 Smámynd: Halldór Jónsson

Ætli það hafi verið fyrir þetta sem Arnþrúður á Útvarpi Sögu hafi uppgötvað að ekki var allt endilega rétt sem Lobbi segir,-alltaf.

Halldór Jónsson, 29.12.2009 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 3417961

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband