Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Kosningar í haust?

Þrátt fyrir almennan gunguskap sitjandi þingmanna gagnvart hugmyndum um nýjar kosningar, þá eru farnar að heyrast raddir um þetta frá þingmönnum.

Þór Saari, sem maður veit nú ekki hvort hyggur á framhaldslíf í pólitík sagði það á Útvarpi Sögu í morgun að kosningar kaæmu vel til greina.

Atli Gíslason telur að þori þingmenn ekki að að taka afstöðu til kærumálanna sem hann hefur fram reitt, þá sé kominn tími til að endurnýja umboð þingmanna.

Formaðurinn Steingrímur er sjálfsagt dauðhræddur við kosningar útfrá sínum ráðherrahagsmunum. En ef fótgönguliðið sem er búið að standa í skítverkunum fyrir hann er orðið leitt á leiksýningunni, þá er ekki víst hvað hann getur spyrnt við klaufum lengi.

Sjálfstæðisflokkurinn er að venju tvístígandi þar sem margir af hans núverandi þingmönnum verða fyrirsjáanlega slegnir af við uppröðun framboðslistanna. Flokksmenn munu spyrja sig í auknum mæli hvenær varningur teljist kominn framyfir síðasta söludag á atkvæðamarkaði.

Líklega munu allir gömlu flokkarnir standa frammi fyrir reiðum flokksmönnum og kjósendum sínum og þurfa að eyða tíma í sáttargerðir út og suður til að auka lífsvonir sínar. Ekki mun vandinn verða minnstur hjá VinstriGrænum. Óvíða er samankomin önnur eins hirð Goðmundar á Glæsivöllum og á þeim bæ. Og loft er einnig lævi blandið í Samfylkingunni, þar sem mágakærleikur af skornum skammti og gamlar væringar langt frá gleymdar.

Það er auðvitað hægt að berjast á móti kosningum á grundvelli ógerðra kjarasamninga og margra aðkallandi óleystra vandamála. En það má telja víst að almennum flokksmönnum stjórnmálaflokka hugnast lítt að fara að leggja nýja ríkisstjórnarkapla með núverandi þingliði. Sporin hræða í því, hversu flest hefur mistekist að efna af fyrirheitum ríkisstjórnarinnar.

Kosningar geta því brostið á í haust.


"Sárt ertu leikinn Sámur fóstri"

hvarflaði að manni  segja þegar maður horfði á meðferð forsætisráðherra á Atla Gíslasyni á Alþingi.

Nú var ég ekki á alþingi að fylgjast með hvort feiknstafir nökkrir svignuðu í andliti Steingríms J. Sigfússonar formanns VG undir ræðu Jóhönnu.  En hvort heldur hafi verið, þá er greinilega ráherradómur Steingríms honum dýrmætari en allt annað. Það virðist nefnilega gilda einu hversu forsætisráðherrann löðrungar vinstrigræna,  alltaf situr Steingrímur á pottlokinu.

Innan VG hefur Lilja Mósesdóttir viljað ræða málefni skuldara og gjaldþrota. En hún er sussuð niður þar sem svo mikið annað þýðingarmeira gengur á í Kattholti.

Morgunblaðið fullyrðir að mikil reiði sé innan VG. Er þetta ekki ofmælt hjá Mogga? Er þetta ekki einn mesti skapstillingarflokkur sem um getur? Ekkert mótlæti fær bugað ástina á ráðherrastólnum hjá formanninum.  Og átakanlegt hlýtur það að vera fyrir hugsjónamanninn og efnahagsstjórann að  það stefnir í óbreyttan ríkissjóðshalla þrátt fyrir allar yfirlýsingar og skattahækkanir Steingríms J.

Og svo þetta hvernig Jóhanna fer með Atla. Hún sættir sig ekki við peðsfórnina sem hann ætlaði að hún væri búin að samþykkja. Eða hafði hann bara talað við Össur?  

Þetta er sá veruleiki sem þjóðinni er boðið uppá þegar matargjafalínurnar lengjast og lengjast.

Virðing Alþingis er greinilega að ná óþekktum hæðum í hugum margra þegna þjóðfélagsins.


Svíþjóðardemokratar

eru ekki nasistaflokkur eins og Dr. Gunnhildur Lily Magnúsdóttir  alhæfir um í Mogga.  Þó að einhver hefði mætt í nasistabúningi á landsfund Sjálfstæðisflokksins árið 1995 myndi það varla duga til alhæfinga um heilan stjórnmálaflokk eins og doktorinn gerir sig seka um. 

Ég hef verið að lesa stefnuskrár Svíþjóðardemókrataflokksins sem eru jafn vandaðar og ítarlegar og stefnuskrár ganga og gerast.  Þetta er greinilega upplýst fólk sem hefur sterka þjóðernisvitund og vill vernda sænska menningu og sögu. Þeir vilja ekki fjölmenningu innflytjenda heldur sænskt samfélag þar sem engin skilur sig frá öðrum hjvað það varðar. Það er hvergi vitnað til nasisma né slíkra erlendra hreyfinga og fáránlegt af fólki að vera með slíka sleggjudóma.

Svíþjóðardemokratar vilja fyrst og fremst hægja á innflutningi fólks til Svíþjóðar,þeir tala ekki um að  banna hann eða stöðva. Þeir segja sænska þjóðfélagið hreinlega ekki hafa ráðið við aðstreymið eins og það hefur verið og það sem það hefur haft í för með sér. Þeir vilja strangara eftirlit með þeim sem vilja flytjast til landsins, hvort þeir séu haldnir bráðasjúkdómum til dæmis. Þeir vilja efla þjóðernisvitund Svía, þeir vilja efla aðstoð Svía á hamfarasvæðum. Þeir vilja að að allir Svíar hafi sömu réttindi og skyldur og það sé ekki hægt að skilja réttindi og þjóðernisvitund frá sænsku vegabréfi. Þeir vilja vísa brotlegum innflytjendum úr landi og svipta þá landvistarleyfi og vegabréfum.

Fjöldainnflutning óskyldra þjóða segja þeir hafa  mistekist og leiða til þess ef ekkert verður að gert til þess að að Svíar geti horfst  í augu við að verða í minnihluta í eigin landi eftir nokkra áratugi. Velferðarkerfið sænska hefur ekki getað risið undir fjölda innflytjendanna, sem hafi flutt með sér fátækt og glæpi.   Fjölmenningin ógni sænskri þjóðernisvitund og þjóðmenningu.  Þeir telja að fjöldi innflytjenda  verði að vera í takt við getu þjóðfélagsins til að ráða við afleiðingarnar hverju sinni.

Þeir leggja áherslu á það, að þeir vilja að Svíar hjálpi nauðstöddum í veröldinni með stórauknum framlögum í stað þess að taka á móti flóttafólki.  Þeir vilja draga úr innflutningi ættingja upphaflegra flóttamanna, sem eru á þann hátt orðnir helmingur af öllum innflytjendum í Svíþjóð. Þeir vísa til Danmerkur sem fyrirmyndar sinnar. Þeir undanskilja norræna innflytjendur frá þessum takmörkunum.  Þeir vilja að sænska kirkjan fái ein trúfélaga að starfa í skólum landsins og önnur trúfélög komi þar hvergi að. Engin  framandleg trúarhof skuli byggð í Svíþjóð.Þeir vilja hertar reglur og skarpari skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Þeir vilja styrkja innflytjendur til að flytjast aftur til síns heima.

Þessarri hreyfingu Svíþjóðardemókrata hefur vaxið fiskur um hrygg og nú eru þeir með 20 þingmenn og gætu veitt stjórn hægriflokksins meirihluta. En vegna andróðurs og stóryrða líður ef til vill enn tími þar til að aðrir flokkar fari að vilja samstarf við þá. En auðvitað hafa þeir önnur stefnumál en þessi einu og skoðanir á efnahagsmálum og öðru sem að stjórnmálum lítur hafa þeir eins og aðrir flokkar. 

Sú grunnhugsun sem liggur að baki þessum þætti hugmyndafræði þessa flokks í Svíþjóð á eftir að koma við sögu hér á landi hvað sem núverandi fréttastefnu fjölmiðla líður. Það er greinileg vaxandi krafa um vestræn lönd, að innflytjendur semji sig að háttum viðtökuþjóðarinnar í einu opg öllu og renni saman við hana. Fólk vill ekki margar þjóðir í einu ríki. Andstaða við fjölmenningu vex á Norðurlöndum en minnkar ekki. Frjálsyndiflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur sem vildi ræða innlytjendamál nýverið. En yfirleitt görguðu aðrir flokkar ókvæðisorð að flokknum fyrir þetta og vildu útiloka hann  þó að þessar skoðanir flokksins hafi aðeins verið lítill hluti af heildarboðskap hans.

Íslendingar munu verða varir við þessar hræringar í vaxandi mæli á komandi tímum án þess þó að vandamálin hafi orðið jafn mikil hérlendis og annarsstaðar.  Við erum venjulega ekki nema svona tíu árum á eftir Norðurlöndum í að taka upp þeirra stefnumál, eins og í mengjakennslu og allskyns nýmæli önnur. Því mun þessi umræða koma hingað fyrr en varir. 

Íslandsdemókratar eiga eftir að skjóta upp kollinum hérlendis. 

 


Nútíð í stað fortíðar

‚i fyrsta sinn í langan tíma les ég Baugstíðindi mér til einhverrar ánægju í dag.Afbragðs grein er nú eftir Guðmund Andra um það sem raunverulega gerðist  í hjá  þjóðinni uppsveiflunni :  Grípum niður í Guðmundi Andra:

Hverjum getum við kennt um ófarir okkar? Hverja eigum við að krossfesta til að geta svo haldið áfram með okkar litla sæta samfélag? Og fengið á tilfinninguna að réttlætinu hafi verið fullnægt og allt sé hér gott og heilbrigt? Davíð? Geir? Sollu? Jón Ásgeirsklíkuna? Samband íslenskra sjálftökumanna? Björgólfsfeðga ? ....

Sókn og vörn í Atlamálum mun svo væntanlega snúast um það hver vissi hvað hvenær, hvernig og hvar - og hver vissi ekki hvað. Og þá ekki síður hver vissi hvað hver vissi. Og vissi ekki. Og hver vissi ekki hvað hver vissi ekki. Og vissi.

Samt vissu það auðvitað allir: íslenska efnahagsundrið var bara bóla .."

Þjóðin naut góðs af peningastraumnum með bólgnum ríkissjóði og ódýru (hélt fólk þá) lánsfé. Stjórnmálamenn fögnuðu auknu skattfé og því að auðmenn tækju að sér að standa straum af listum og menningu og velferðarkerfinu og öðru veseni. Hannes Smárason styrkti Sinfóníuna. Jóhannes í Bónus breiddi út jólasveinsfaðminn sinn og sagði komið til mín allir sem erfiði og þunga eru hlaðnir. Björgólfur tók að sér að hanna miðbæinn upp á nýtt. DV efndi til skoðanakönnunar um hver væri "besti auðmaðurinn". Þegar sett var á stofn sérstakt vikublað kvenna sem konur skrifuðu eingöngu og átti að miðla kvenlægri sýn, var fyrsta forsíðuviðtalið við Hannes Smárason og fjallaði um hvernig hann færi að því að vera svona æðislegur. Smjaðrið var jafn yfirgengilegt og hatrið er núna.

Þessi vindsperringur viðskiptalífsins endaði í þeim gegndarlausa vindgangi sem íslensk þjóðfélagsumræða er nú um stundir, með tilheyrandi fýlu. En við þurfum að hætta að mæna á einhverja Vondukalla og Góðukalla og líta sem þjóð í eigin barm. Við þurfum að líta til Þjóðverja og læra af þeim hvernig farið er að því að horfast í augu við það sem getur gerst þegar heilt þjóðfélag er gegnsýrt hrapallegum ranghugmyndum.."

Er þetta ekki málið?  Við vorum öll meðvirk og hver reyndi að dansa sem hann hafði vit og getu til? Nú sitjum við og reynum að finna út hver leyfði þetta og hver leyfði þetta ekki? Reynum að hengja einhverja sem gerðu of lítið, voru of heimskir og of værukærir? Eyðum allri orkunni í þetta meðan þjóðinni blæðir? Ein fjölskylda flýr úr landi á sólarhring.  Fimmtánhundruð fasteignir eru búið að taka af fólkinu og stór hluti þeirra stendur auður. Er þetta ekki eitthvað sem skiptir meira máli núna heldur en hver var vitlausastur þegar bankarnir voru seldir? 

Ætti Alþingi ekki að taka sér eitthvað gáfulegra fyrir hendur en að sitja yfir fortíðarstýringu af þessum toga? Hvað liggur á ? Má ekki alveg eins ræða þennan landsdóm síðar?

Væri ekki ráð að taka einhver meira aðkallandi mál á dagskrá en þetta karp sem breytir engu fyrir þá sem eru að missa allt sitt á uppboð?

Hvað með lyklafrumvarpið ?  Hvað með eitthvað sem skiptir máli núna, ekki það liðna sem engu breytir við orðinn hlut?

Þarf ekki Alþingi að fara að fjalla um nútíðina í stað þeirrar fortíðarstýringar sem Landsdómsumræðan er?

 

Erroribus

"Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus (latína: villum) á gang, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus (latína: villum). Hafa svo hvorirtveggju nokkuð að iðja."

Þetta er haft eftir Árna Magnússyni handritasafnara og jarðabókarhöfundi á átjándu öld. Eitthvað hafði hann líka haft yfir um landlæga þrætugirni Íslendinga sem ég kann ekki að hafa eftir en eiga einnig við nú á tímum.

En víst er þetta eitthvað sem manni dettur í hug þegar maður virðir fyrir sér ástandið á Alþingi Íslendinga um þessar mundir. Þar ryðjast kommúnistar um fast til þess að reyna að koma landsdómi á kreik og rétta yfir Sjálfstæðismönnum sem hafa það helst til saka unnið að hafa verið svo miklir aular að sjá ekki fall Lehmansbræðra fyrir og áhrif þess á íslenska bankakerfið auk þess að hafa ekki séð að bankakerfið var að mestu leyti komið hendur glæpamanna með þeirra tilstuðlan.   

Þessi landsdómur er að því leyti sérstakur meðal dómstóla að hann starfar eftir reglum rannsóknaréttar kaþólsku kirkjunnar. Hann ákærir fyrst og sá ákærði er sekur þar til að hann getur sannað að  hann sé saklaus. Og til þess fær hann enga gjafsókn heldur skal verja sig sjálfur og gjalda svo með eigin húð á bálinu án þess að hafa haft aðkeypta starfsábyrgðartryggingu svo sem menn í ábyrgðarstöðum verða yfirleitt að kaupa sér.

Kommúnistar eru á fullri ferð við að breyta Íslandi í Alþýðulýðveldi. Meðal annars í ofsóknum á hendur pólitískum andstæðingum, fjárhagslegri aðför að millistétt landsins og kúgun dómstóla undir sitt vald. sem birtist í undirlægjuhætti Hæstaréttar við valdboð þeirra í nýlegum vaxtadómi. Allt er þetta skipuleg aðför að þeirri þjóðfélagsgerð sem við höfum lifað við og mun leiða meiri hörmungar yfir þessa þjóð heldur en við höfum lengi séð ef ekki tekst að stöðva þessa menn.

Og líkur á því að viðnám takist minnka dag frá degi. Mér dámaði síðast alveg þegar ég heyrði ofan í sjálfstæðisþingmann að kosningar væru það versta sem kæmi fyrir þjóðina á þessum tíma. Heldur vildu þeir komast í stjórnina  með einhverskonar fleygrekstri í núverandi raðir ríkisstjórnarinnar. Þetta gekk endanlega frá þeirri von minni að einhver vonarglæta gæti verið framundan um aðgerðir sem leiddu til betri tíma. Svona hugsunarhátt eða slíka þingmenn mun ég allavega ekki styðja. Það þarf að hreinsa til á Alþingi ef einhver von á að vera til þess að finna leið útúr svartnættinu. Eru Sjálfstæðismenn orðnir hræddir við kosningar?

Trúðsmennskan er orðin svo yfirþyrmandi á Alþingi að þaðan kemur ekki neitt nema eymdin ein. Lýsing Árna Magnússonar gæti hafa verið skrifuð í gær um gang mála á Alþingi Íslendinga.

Fá menn komið auga á nokkuð á þeim vettvangi annað en erroribus?

 


Til hamingju Hæstiréttur

Vilmundur Gylfason kallaði Hæstarétt eitt sinn varðhund kerfisins.

Þessi orð koma í hugann núna. Flestir lögfræðingar landsins voru á einu máli um það, að dómarar myndu fyrst og fremst  dæma eftir lögum og orðanna hljóðan. Lagabókstafnum en ekki utanaðkomandi fyrirmælum eða erindisbréfum ráðherra.

Þeir geta nú étið hatta sína þessir blessaðir lagaspekingar.  Hæstiréttur virðist standa vörð um kerfið, sem borgar honum kaupið.

Væri ekki fróðlegt að Capacent-Gallup  gerði nú könnun á vinsældum Hæstaréttar?  Það fyrirtæki þarf ekki að hafa áhyggjur af vöxtunum á sínum erlendu lánum eins og sauðsvartir þannig að þeir geta gætt fyllsta hlutleysis með spánýja kennitölu. 

Til hamingju með þetta Hæstiréttur. Ráherrarnir munu minnast ykkar í bænum sínum.


Andleg tvíkynhneigð

Nú líður óðum að því að stjórnlagaþingsfarsinn hefjist með milljarða kostnaði fyrir gjaldþrota þjóðfélag. Smala á saman meira en þúsund manna lýðstefnu á þjóðfund með einhverskonar slembiúrtaki. Það gefur auga leið að hinir spakari  munu ekki mæta til þessarar leiksýningar heldur munu hinir óspakari hafa sig þar mest í frammi. Ber þar margt til.

 Þeir sem geta um það valið að verja tíma sínum til nytsamlegra hluta fyrir sig og sína munu ekki velja að eyða honum í slíkt fánýti. Skilanefndarfólk, sérfræðingar  og ráðgjafar allskonar munu telja tíma sínum betur varið annarsstaðar. Auk þess hafa margir hinir færari gefist upp á þjóðfélaginu og hafa ákveðið að flytja úr landi  eða  eru farnir. Hinir sem ekkert annað hafa fyrir stafni munu flykkjast á fundinn.  Sem er búið að skipa fyrir um hvað eigi að framleiða og líka það að stjórnlagaþingið, þar sem samslags  fólk mun bjóða sig fram og þeir sem nenna að taka þátt í þjóðfundinum, eiga að fjalla um tillögurnar frá  þjóðfundinum, hversu vitlausar sem þær verða, og búa til um þetta stjórnarskrártillögur!

Sem betur fer verður öllum niðurstöðunum vísað til Alþingis sem auðvitað mun hafa þetta allt að sinni hentisemi. Reynslan af lýðstefnum er mörg þúsund ára gömul og hefur ávallt leitt til ófarnaðar. Í framhaldi af þeim hafa harðstjórar ríisið upp til að bjarga málunum þegar allt er komið í óefni. Því mannskepnan hefur ekkert breyst í aldanna rás.

Bandaríska stjórnarskráin var samin af fáum mönnum og hefur staðist tímans tönn. Hvernig í veröldinni eiga menn að búast við því að þeir geti bætt um betur á fjöldafunum þar sem hver talar uppí annan af óspakari mönnum en Benjamín Franklín og Tómas Jefferson voru ? Eða Danir  sem gáfu okkur sína þaulreyndu stjórnarskrá? Þýðir eitthvað að setja hinum óstjórnanlegu stjórnarskrá? Þora menn að taka á grunnvandamálum  þjóðfélagsins ? Skekktum atkvæðisrétti og takmörkun valds hagsmunafélaganna? hefðum við ekki átt að þjóðkjósa þrjá menn til að skrifa stjórnarskrá ef það er það sem okkur vanhagar mest um. 

Sumir hafa haldið því fram að framfarir mannkynsins byggist ávallt á framtaki mjög lítils hluta fólksins. Hitt fólkið sé bara hjörð sem rennur fram án þess að leggja margt annað til málanna en trúgirni og fylgispekt við formúlur sem þeir snjallari leggja fyrir hana í skrautpappír. Mannfélagið sé ekkert svo mikið frábrugðið  maurabúum eða hverri annarri flugnakúpu.  Þetta eru auðvitað harðar kenningar fyrir okkur sem tilheyrum  hjörðinni en erum auðvitað sífellt að telja okkur trú um að við séum eitthvað meiri en við erum.  Hér líti hver í eigin barm og sinnar eigin leiðtogadýrkunar í gegn um lífið.

Niðurstaða þessa þjóðfundar og stjórnlagaþings verður því raunverulega svo til engin þegar frá líður.  Hinir spakari munu auðvitað mæra framleiðsluna í  hástert en nota aðeins það sem þeim hentar. Lýðnum verður þá dillað og finnast hann vera stórkostlegur í einfeldni sinni.

Þorvaldur Gylfason segir í Baugstíðindum dagsins að vitleysan verði að víkja og til þess verðum við að ganga í ESB. Hann er ekki í vafa um hvaða hluta fólksins hann tilheyrir og verður vonandi framarlega í flokki lýðstefnumanna.  Baugstíðindin í dag slá annars tóninn fyrir það sem í vændum skal vera. Stjórn umhverfissérfræðinga vill  að stjórnarskráin feli í sér starfsvettvang fyrir þá. Ritstjórinn leggur til  að samþætting kynja og jafnréttissjónarmiða verði sett í stjórnsýsluna og að andlegri samkynhneigð karla verði útrýmt og andleg tvíkynhneigð verði tekin upp í stjórnarskrá  þessa lands.

Allah, þú ert mikill!

 


Hitler og Mússólíni

Er ekki fullmikil einföldun hjá mörgum spekingum okkar að tala alltaf svo að bæði Hitler og Mussolini hafi verið einhverjir fábjánar. Það megi ekki einu sinni minnast á þá öðruvísi en til að formæla þeim. Og vissulega unnu þeir til hatursins og Adolf þó sýnu meira. Enþað voru milljónir manna sem trúðu á þá sem unga og ferska stjórnmálamenn, rétt eins eins og til dæmis núna Jón Gnarr og Vilmundur Gylfason þá sem birtust á sviðinu sem boðberar nýrra tíma. Aflið sem myndi ryðja því gamla og spillta burt. Bæði Adolf og Benító voru ungir menn og glæsilegir í blóma sínum. 

Eins og segir í Horst Wessel söngnum.

" Es schau´n auf Hakenkreuz mit Hoffnung schon Millionen, die Zeit für Arbeit und Brot bricht schon an."

Í eymdi og upplausn eftirstríðsáranna, þegar allt rambaði á barmi borgarastyrjaldar, þá  var það hinn hrausti hermaður Hitler og Hakakrossinn, sem hann teiknaði sjálfur,  sem varð von atvinnuleysingjanna og lítilmagnanna.  Þetta  myndi rétta hlut þeirra og færa þeim vinnu og brauð sem þá var heitast þráð í kreppunni miklu þegar hörmungar ríktu víða.

 Efnahagsráðstafanir Hitlers voru þó allt aðrar en Steingríms. Hann trúði ekki á hækkun skatta heldur á aukningu ríkisútgjalda til að berjast gegn atvinnuleysinu. Hjalmar Schacht fann upp Rentenmarkið til að bjarga efnahagslífinu. Það var þó aldrei prentað sem seðill en fúnkéraði samt.

Margt var alveg eins og Roosewelt gerði í New Deal. Báðir réðust í hraðbrautabyggingu til þess að örva efnahagslífið, Þeir skildu báðir að bíllinn var undirstaða og drifkraftur atvinnulífsins, sem varð að vera almannaeign en  ekki meginskattstofn eins og íslenskir stjórnmálamenn og reiðhjólakommarnir hafa haldið. Kúga þannig einstæðar mæður og leikskólabörn sem þeir segjast svo elska.  

Mussolíni var upphaflega einskonar ungmennafélagsleiðtogi. Lét taka myndir af sér í heyskap með hrífu,  eins og hér hefur líka verið notað,  talaði eins og Guðbrandur í Áfenginu af innblásnum tilfinningahita. Þessir kallar meintu það sem þeir voru að segja og trúðu því sjálfir að þeir væru frelsarar fólksins.  Og  fólkið fylgdi þeim of lengi  og nógu lengi til þess að þeir næðu alræðisvöldum. Þá var of seint að snúa við því það var búið að skrúfa fyrir stjórnarandstöðuna.

Margt sem Hitler segir í Mein Kampf um áróðurstækni og hvernig stjórnmálamaður getur náð árangri er klassík og sýnir að þessi maður hafði fleiri hliðar en þá sem dimmust er. Margt er líka svo herfileg vitlleysa að nútíma mann verkjar í hausinn. Og sú heimska tortímdi honum sjálfum á endanum.  En hann segir hinsvegar berum orðum þarna 1923 hvert hann ætlar og hvað hann ætlar að gera.

Hitler skýrir í bók sinni eðli áróðurs og hvernig menn eigi að berjast í pólitík. Hann hafði miklu meiri trú á því að þruma úr ræðustól yfir fólkinu heldur en að vera að skrifa greinar í einhver kratablöð. Það var áheyrendafjöldinn sem skipti máli. Og dugnaðurinn og vinnuþrekið var svo líka óstjórnlegt þarna á baráttuárunum. Það var farið borg úr borg með fundum og uppákomum.  Þegar milljón manns æptu í  hrifningu í Nürnberg þá heyrðist það til Stuttgart.  Hann kunni líka að flytja hið talaða orð, æfði handahreyfingar og öskur fyrir framan spegil, notaði ljósasjó og effekta eins og rokkhljómsveitir í dag.. Hann kunni að einfalda boðskapinn eftir gáfnafari áheyrendanna, sem hann hafði mjög lítið álit á. Hann segir beint út í bókinni að kjósendafjöldinn sé heimskur og það verði  því að tala við hann á einföldu máli sem hann skilur. Og hann náði líka miklum árangri fyrir flokk sinn þó ekki næði hann nokkru sinni meirihluta.

 Steingrímur J. Sigfússon er sá stjórnmálamaður íslenskur sem virðist eitthvað hafa af því sem til þarf að ná til áheyrenda sinna.  Hinir eru flestir fremur bragðdaufir í ræðumennsku og leikrænni tjáningu. En hann nær ekki til áheyrendanna af því að hann er alltaf að tala um það sem hann skilur ekki sjálfur.Efnahagsmál og hagfræði eru hvoru tveggja  lokuð bók fyrir kommúnista.

Ef hann Steingrímur hefði átt  rangindi að verja fyrir  þjóð sína eins og Hitler hafði Versalasamningana, þá hefði kannski orðið eitthvað úr stjórnmálamanninum Steingrími J. því talað getur hann betur en flestir aðrir. En hann verður aldrei vinsæll við það að vilja leggja rangindi á þjóð sína, sem hann þó segist elska að einhverju leyti.

Menn verða að eiga það sem þeir eiga. Bæði Hitler, Mússólíni og Steingrímur J.

 


Er hún ekki dásamleg

hún Jónína Michaelsdóttir í Baugstíðindum í morgun?

Ég tilfæri nokkrar setningar úr greininni og breyti letri þar sem mér sýnist. 

"Stelpan frá Stokkseyri segir landsdóm vera úrelta löggjöf, og hún talar enga tæpitungu: Alþingi er við það að gera reginmistök! Trúi því ekki að fólk geri sér grein fyrir hvað það er að gera. Hef viljað trúa því að ég búi í réttarríki, en það samrýmist ekki réttarríki að draga ráðherra fyrir landsdóm."

Hér eru ekki tilgerðarlegar vangaveltur, hjarðhugsun eða getgátur, aðeins umbúðalausar staðreyndir og heilbrigð skynsemi. Hversu grandvarir og réttsýnir sem þingmenn telja sig vera, þá eru þeir bara venjulegar manneskjur þegar til stykkisins kemur. Manneskjur sem oftar en ekki tengjast samherjum með öðrum hætti en pólitískum andstæðingum.

 Manneskjur sem eru fjarri því að vera hlutlausar þegar kemur að málum sem varða menn og málefni í eigin flokki. Eðlilega. Hrekkjusvínið í næsta húsi er ekki sett á bekk með fjöruga stráknum í eigin ranni. Það þarf til dæmis hvorki skarpskyggni né pólitíska tortryggni til að sjá og heyra ósamræmið milli yfirlýsinga og athafna ríkisstjórnarinnar. Vandlætingin á vinavæðingu fyrri ríkisstjórna er hallærisleg með hliðsjón af vinnubrögðum þeirra sem nú sitja í stjórn.

Með allri virðingu fyrir alþingismönnum, þá eru þeir óhæfir til þess að dæma um sekt eða sakleysi samþingsmanna sinna, og beinlínis ósæmilegt að leggja það til...."...

"Þingmenn sækjast eftir virðingu og trausti almennings, en umræðurnar á Alþingi, sem allir geta fylgst með í sjónvarpinu heima hjá sér, vekja ekki alltaf slíkar kenndir. Viðhafnarrammi um starfsemi þingsins, sérstakar hefðir og orðfæri koma fyrir lítið þegar þessir fulltrúar fólksins sem hefur verið trúað fyrir velferð þjóðarinnar, standa í ræðustól, reigja sig til hægri og vinstri, eins og þeir séu í kappræðum í menntaskóla, að ekki sé talað um þegar þeir þjóna lund sinni í botn með eitruðum sendingum til samþingsmanna sem þeim er ekki að skapi...."

 

 

Einhverra hluta vegna virðast býsna margir þingmenn líta svo á að ræðustóll Alþingis sé fyrir einhvers konar vandlætingarútrás.Stundum minna þeir helst á karlinn á kassanum á Lækjartorgi forðum. Kannski þykir einhverjum það bara líflegt og spennandi að sjá fulltrúa þjóðarinnar vinda sér til hægri og vinstri í ræðustólnum og þruma yfir samþingsmönnum sínum með yfirlætislegu fasi, en ég er ekki frá því að fleiri kunni því betur að þeir sem stjórna landinu séu í bærilegu jafnvægi, bæði í ræðustól og annars staðar...."

Það var Jón Ólafsson ritstjóri, sá frægi skammakjaftur sem vandi þingmenn á að ávarpa hvorn annan sem "hæstivirtur... þegar honum ofbauð framferðið sem sumir tömdu sér í ræðustól.   

Og framtíðin sem hún Jónína sér að rámenn eru að framkvæma:

"Leggja niður eitt og búa til annað. Spara með því að svipta fámennar byggðir póstþjónustu og löggæslu, lækka laun, hækka skatta. Ríkisstjórnin er hreint ekki aðgerðalaus en spurningin er hvort forgangsröðin er í samræmi við ástandið í landinu. Hafa heimilin og efling atvinnulífsins forgang? Skilja sitjandi ráðherrar yfirleitt lögmál atvinnulífsins? Hvað sem því líður þá dylst engum að leiðtogar stjórnarflokkanna eru stoltir af eigin frammistöðu og stjórn landsins. Spurningin er hvort almenningur er á sömu skoðun...." 

Alveg dásamleg grein  hjá Jónínu.


Stjórnarskrá?

Í Baugstíðindum í dag eru 60 punktar frá kommanefndinni á Alþingi sem rannsakaði vandlega rannsóknarskýrslu Alþingis um hvað sé nauðsynlegast að gera.

Í stuttu máli á að efla opinbert eftirlit með öllu mannlífi. Setja nefndir, lög og reglugerðir sem munu gera þjóðfélaginu gersamlega ófært að starfa. Ríkisstjórnin á að halda fundargerðabók og birta opinberlega hvað fram fer. 

Er þetta fólk með réttu ráði yfirleitt? Hvernig gengur eitt þjóðfélag með sértækum rannsóknar-og upplýsingareglum um athafnir þegnanna sem ætlar svo að taka þátt í almennu umhverfi Evrópubandalagsins? Hvernig mun eitt sambandsríkið, Ísland, geta búið við kommúnistískt eftirlitskerfi með margar útgáfur af KGB og eigin Gúlög?

"Efla siðfræðilega menntun fagstétta...", "Fjölmiðlar haldi í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur..."""Sett verði almenn lög um rannsóknarnefndir..."""Endurskoða lög,,,"Stefnumótun fari fram um hverskonar fjármálakerfi ...." Skoða hvort fjármálaeftirlitið..." Óheimilt verði að lána..." " Alþingismenn setji sér siðareglur..."Tryggja formfestu í samskiptum Seðlabankans..." Fjármálaeftirlitið skilgreini hugtakið "góðir viðskiptahættir.."Læra af þeirri afstöðu Seðlabankans.."Breyta lögum og reglum til þess að hindra að einstakir ráðherrar gangi inn á verksvið annarra ráðherra..."Lögfeta reglur um skjalagerð,tryggingar..".."Setja skýrar reglur um innleiðingu EES..".." Stofna samráðsvettvang fjármálaráðuneytis,Alþingis, stofnana ríkisins,sveitarfélag og Seðlabankans..."

Menn og maðkar  tapa endanlega trúnni á það að þessi þjóð geti nokkurn  tímann komist út úr því hugmyndafangelsi stjórnlyndisins og frá þeirri útrýmingarherferð á frjálshyggju og frelsi einstaklinganna sem ráðandi stjórnmálaöfl standa fyrir. Það er verið að smeygja stangabeisli kommúnismans upp í þjóðina með stífri keðju. Flestir vita hvert slíkir reiðtúrar leiða. Byltingin étur börnin sín um síðir.

 Þetta sama lið er að blása til þjóðfundar sem setji stjórnlagaþingi vegvísa sem það á svo að búa til stjórnarskrá sem Alþingismenn svo breyta að eigin geðþótta!!  Er ekki búið að skrifa hana þarna? Er þetta ekki nægilegt verkefni fyrir svona þing og önnur næstu hundrað árin eða svo? Allt vegna þess að handfylli af glæpamönnum tókst að stela hluta af þjóðarauðnum og tapa honum í aulaviðskiptum um víða veröld.  Vegna þessara fáu glæpamanna er heil þjóð gengin af göflunum. Berst við sjálfa sig og allar vindmyllur í miklum móð. En glæpamennirnir ganga lausir og hlæja sig væntanlega máttlausa.

Ég held að hvorki  stjórnarskrá né reglugerðir geti bjargað þessari þjóð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 3418261

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband