Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Sagan öll !

23. feb. 2010 - 17:12 Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri í Kópavogi, hafnar því alfarið að hafa átt frumkvæðið að því að koma upplýsingum um viðskipti Halldórs Jónssonar við Kópavogsbæ í hendur fjölmiðla.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Gunnsteins, sem hann sendir eftir að Gunnar lét að því liggja að upplýsingunum hafi verið lekið í fjölmiðla til að leggja stein í götu hans fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins síðustu helgi. DV greindi frá því í byrjun þessa mánaðar að Halldór, sem er einn nánasti bandamaður Gunnars, hafi þegið 71 milljón í greiðslur frá Kópavogsbæ á fimm ára tímabili í starfi sínu sem skoðunarmaður bæjarins.

Í yfirlýsingu Gunnsteins segir að bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hafi þann 29. janúar óskað eftir upplýsingum um viðskipti Halldórs og fyrirtæki hans við Kópavogsbæ sex ár aftur í tímann. Hafi þeirri fyrirspurn veirð svarað þann 3. febrúar. Hinn 9. febrúar barst beiðni frá blaðamanni DV um sömu upplýsingar áratug aftur í tímann. Þeirri beiðni var hafnað  þar sem ekki er skylt samkvæmt upplýsingalögum að taka saman gögn vegna almennra fyrirspurna eða vinna úr þeim, heldur veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum eða skjölum hjá stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Með hliðsjón af því fékk blaðamaðurinn aðgang að þeim upplýsingum sem þegar höfðu verið teknar saman fyrir bæjarfulltrúann og náðu yfir árabilið 2003 til 2008 að báðum árum meðtöldum. Hinn 12. febrúar barst hliðstæð beiðni frá fréttamanni Stöðvar 2 og var henni svarað á sömu leið.Í yfirlýsingunni segir Gunnsteinn jafnframt:„Undirritaður hafði ekki frumkvæði að því að láta fjölmiðlum í té umræddar upplýsingar. Þær voru afhentar í samræmi við upplýsingalög nr. 50/1996 sem kveða á um rétt almennings til aðgangs að opinberum gögnum og skjölum.“

  Aðkoma mín að störfum fyrir Kópavog (Sendi Mogga svipaða grein en þeir birtu hana ekki )

Undirritaður hefur  stundað verkfræðiþjónustu síðan 1962, Starfað mikið fyrir Steypustöðina  og fyrirtæki henni tengd ásamt því að starfa alla tíð á almennum hönnunarmarkaði. Verkefni mín hafa verið fjölbreytt  og listinn orðinn langur yfir þau mannvirki og fyrirtæki  sem ég hef komið að víða um land.

 

Ég varð formaður í Fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins 1986 til bráðabirgða í eitt ár meðan þeir fyndu einhvern skárri sagði Guðni frændi.  Árin urðu ein sautján  og urðu mér dýrmæt  fyrir áhrif frá öllum þeim aragrúa af fólki sem ég kynntist. Ég varð annar af tveimur skoðunarmönnum bæjarreikninga, frá minnihluta og meirihluta,  einhvern tímann á þessum árum, sem felst í álitsgjöf á bæjarreikningunum, ekki fitli með fylgiskjöl eins og Guðríður lætur að  liggja, nú þegar Baugsmiðlarnir virðast beintengdir inní bókhald bæjarins.

 

Á þessum árum fór ég að skrifa í Voga um pólitík og hef haft af því gaman að stíga á tærnar á þeim vinstrimönnum.  Það er stundum eins og það hlaupi í mann einhver stríðnispúki þegar maður fer í slíkt, eitthvert gamalt gen frá gengnum forföður hugsanlega.

 

Árið 1989 bar fundum okkar Gunnars Birgissonar saman þegar ég dekstraði hann til að gefa kost á sér í prófkjör, bara svona í 4. Sæti fannst mér hæfilegt, mér fannst vanta endunýjun á listann . En Gunnar tók stefnuna strax á 1. Sætið. Þá var fjör maður. Eitt sinn man ég að við Gunnar fengum okkur sítrón og vorum að spekúlera í „gömlu götunum“ sem þeir eldri muna. Allar lagnir ónýtar  , vatnsveitan míglek, drulla í gatnastæðinu og allar frárennslislagnir  einsfaldar, þ.e.regnvatnið spúlaði kúknum út á baneitraðar leirurnar. Við teiknuðum upp prófíla í allar göturnar og reiknuðum út kostnaðinn við endurnýjunina. Við fengum okkur svo meira sítrón og þá urðum við fljótt vel mæltir á franska tungu og til varð það sem við nefndum Le.Plan Grande. Upphæðin sem við fengum  út var furðulega lík endanlegum kostnaði nema við gleymdum einhverjum stubbum sem er varla búnir enn. Enn fengum við okkur meira sítrón og nú urðum við bara sammála um að klára þetta helvíti á kjörtímabilinu ef við kæmumst að. Sigurður Geirdal dempaðiþetta í tvö kjörtímabil og þetta er varla búð efti 5 kjörtímabil.

 

En með Gunnari kom maður í fyrsta sinn í bæjarstjórn í lengri tíma sem gat rökrætt við tæknideildina á þeirra tungumáli. Það þurfti enginn að reyna að segja honum sögur af verktakamarkaði, framkvæmdum eða reynslu, þar sem Gunnar var þegar víðfrægur verktaki, formaður verktakasambandsins og meðhöfundur þjóðarsáttarinnar ´samat Einari Oddi og Guðmundi Jaka. Jarðvöðull , sprengjari og doktor við Háskólann og alþekktur kaplaslítari,  sem öllum lagnafyrirtækjum stóð stuggur af.

 

Kosningarnar fóru fram eftir að Gunnar hafði sigrað í prófkjörinu, flokkurinn fékk fimm menn  og  Gunnar komst í bæjarstjórn og flokkurinn í meirihluta með Sigurði Geirdal,  sem var frábær bæjarstjóri  í hálft fimmtánda ár.  Þá var nú ljóta baslið á bænum og langur vegur uppúr forinni. Afganginn þekkja allir.

 

Ég var því búinn að þekkja Sigurð Geirdal í þrjú kjörtímabil þegar ég  hætti  störfum fyrir Steypustöðina 2002 um haust.  Fór þá að leita að nýjum verkefnum og sótti um auglýst sérhæft starf hjá Kópavogskaupstað.  Ég komst í að vera einn tveggja umsækjenda sem hæfastir þóttu en samt númer tvö. Sigurður heitinn Geirdal kallaði mig á fund til sín á aðfangadag 2002 til að skýra mér frá því að ég hefði ekki fengið stöðuna. Honum var sjálfsagt fullkunnugt um mín vistaskipti   og að mig vantaði vinnu.  Hann sagði eftir langar ógleymanlegar samræður um pólitík , og líka kuldans á skrifstofunni því hann hafði gluggann galopinn í frostinu,  að hann skyldi athuga hvort hann gæti útvegað mér eitthvað dútl   á vegum bæjarins.

 

Ég fékk svo kost á eftirlitsstarfi með nýbyggingu norðurálmu MK.,  væntanlega fyrir tilstilli Sigurðar sem sá aumur á mér atvinnulausum. Einnig fékk ég hönnunar og eftirlitsverk með Sambýli við Roðasali sem ég þakka honum líka.Hans mun ég jafnan minnast þegar ég heyri góðs manns getið.

 

Ég hafði mikla unun af þessum störfum og kynntist nýju fólki,  fagmönnum sem og frábærum yfirmönnum á tæknideild bæjarins. Ég leyfi mér að vona að störf mín hafi ekki þótt svo afleit því að þeir fólu mér síðar að taka þátt í ýmsum   hönnunarverkefnum á vegum bæjarins.. Yfirleitt voru  slík verk unnin af teymum hönnuða,  sem önnuðust hver sinn verkþátt. Ég kynntist mörgum fagmönnum,  sem höfðu langa reynslu af  slíkum störfum fyrir Kópavog og var ég skiljanlega mjög hreykinn að fá að starfa með þeim .  Ég gat leitað til bæði erlendra og innlendra verkfræðinga í undirverktöku  hjá mér við þessi störf og hygg ég að margt hafi vel til tekist. Á þessum árum gleymist manni að mestu pólitíkin og hafði maður minni  afskipti af henni um leið og nýir og betri menn  tóku við í flokksstarfinu .Eftir fyrrihluta árs  2007  hef ég engin ný verkefni fengið hjá  Kópavogskaupstað önnur en skoðunarstörfin, þrátt fyrir að Samfylkingin láti að því liggja að ég hafi  Gunnar Birgisson í vasanum og „þiggi“ illa fengnar greiðslur með virðisaukaskatti  frá bænum.   Árið 2008 fór í frágang á ýmsum fyrri verkefnum  sem eins og margir vita standa oft yfir árum saman og ég lélegur rukkari og tapaði sjálfsagt á drættinum. En þá hefur bærinn minn líka grætt tilsvarandi. Siðan er byggingaiðnaður "tot gwesen sein" eins og Gunnar myndi orða það á spariþýsku sinni.

 

Nú er það höfuðglæpur fyrir Gunnar Birgisson og helst  alla, að hafa þekkt mig. Ég er orðinn enn einn leðjuköggullinn sem grýtt er í hann af Samfylkingunni  og vinum hennar í þeirri prófkjörsbaráttu sem Gunnar  stendur enn einu sinni í í Kópavogi.  Söguburðurinn  um þær mundir var mikill að vöxtum og fannst mér ómaklega að Gunnari vegið sem oft áður. Skiljanlega þar sem hann hefur gnæft yfir flesta menn hér í bænum sakir dugnaðar síns og atorku. Það er oftlega að heimskar búrtíkur glefsa  í hælana á slíkum köppum. Og komi þær margar saman geta þær bitið. Ég var vitni að talningunni og get staðfest að ég horfði á blokkirnar koma uppúr kössunum.

 

Auðvitað er Gunnar umdeildur maður og ekki alltaf auðveldur viðfangs. Hann er hinsvegar hreinskiptinn og stálheiðarlegur og gerir alltaf mestar kröfurnar til sjálfs sín. Það voru ófáar snerrurnar sem við tókum á þessum árum og urðum foxillir. En um flest urðum  við oft sammála. Á seinni árum hef ég ekki fallið afturábak af hrifningu yfir sumu sem meirihlutinn hefur gert en látið kyrrt liggja. 

 

Mesta afrek Gunnars og Geirdals fyrir Kópavog, var að leysa fráveituvandmálið sem vinstra liðið gat ekki leyst  á undangegnum kjörtímabilum. Dælustöðin úr Kársnesi í Skerjafjarðarveitu gerði vöxt Kópavogs mögulegan yfir Reykjanesbraut.Þegar þeir Guðmundur og Valþór kvöddu var engin lóð til í bænum og engin í sjónmáli því hvert átti skolpið að renna nema beint í Skítalæk og útá Leirurnar þar sem brunnklukkurnar  og rauðbrystingarnir sáu um hreinsunina eftir bestu getu. En Sunnubrautarfólkið tillífaði gasið í gegnum öndunarfærin. Þetta var eiginlega forsendan fyrir öllu sem á eftir kom. Nú er komin Lonta í Skítalæk, sem heitir víst Fífuhvammslækur, sem drekkti mörgum á sinni tíð.

 

 Mér þótti það  aðeins virkilega leiðinlegt  að mín litla persóna var sótt til þess að ata Gunnar auri í þessu prófkjöri þegar hann berst fyrir pólitísku lífi sínu.  Þetta áhlaup snerti  mig ekki neitt, aðeins fólkið í kringum mig, Til dæmis hana dóttur mína sem var að stíga sín fyrstu skref í pólitík. Mér þykir fyrir því að hafa skaðað allt þetta góða fólk með tilvist minni.

 

En svona er lífið. Maður veit aldrei hvaðan óður eður ölur kemur að eins og Hrafn Oddsson sagði við Gizur frænda minn á Flugmýri.  Og ekkert fæst tekið til baka. Ég hef hreina samvisku því ég hef engan mann  svikið viljandi heldur reynt að vinna mín störf þannig að menn tapi ekki á mér. Mér hefur aldrei verið stefnt til bóta vegna galla á minni hönnun í hálfa öld.( Nei ég fann ekki upp alkalívandamálið !).Það gerir mann nokkuð sáttan við það að hafa verið  „þiggjandi“ af greiðslum fyrir störf sem ráðgjafaverkfræðingur, jafnvel sem annar skoðunarmaður reikninga bæjarins  í næstum þrjátíu ár, þó ég hafi skyndilega ekki  lengur traust mannvitsbrekkunnar Ómars Stefánssonar.  Og ávallt í þennan tíma höfum við skoðunamenn meirihluta og minnihluta verið sammála um meginstef  í minni tíð við lestur ársreikninga samstæðunnar Kópavogs, sem innfelur engan veginn svipaðan aðgang að fylgiskjölum  bókhaldsins, eins og Baugsmiðlarnir hafa nú í skjóli upplýsingalaga. að sögn bæjarstjórans.   

Þetta er eiginlega sagan öll !

 

„ Þetta stappar nærri sturlun."

 

Leiðara Baugstíðinda í dag skrifar Jón Kaldal.

Hann finnur krónunni allt til foráttu:

..."Nú er svo komið að varla er rætt um gjaldmiðil landsins öðruvísi en í félagsskap við orðin bönn og höft. Á Alþingi í gær viðraði til dæmis Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, þá hugmynd að ef til vill væri orðið tímabært að banna sveitarfélögum að taka lán í annarri mynt en í íslenskum krónum.

Þetta er sá veruleiki sem Íslendingar búa við. Krónan er við svo slaka heilsu að hún lifir ekki á frjálsum markaði, heldur þarf að slá um hana höftum, boðum og bönnum.

Um tvö ár eru liðin frá því gengi krónunnar tók lóðrétta stefnu niður á við. Þegar fallið stöðvaðist höfðu helstu gjaldmiðlar heims hækkað um tugi prósenta gagnvart krónunni. Í febrúar fyrir tveimur árum kostaði til að mynda einn Bandaríkjadollar 66 krónur. Í gær kostaði hann 129 krónur...."

..."Allir fasteignaeigendur hafa mátt þola stórfellt eignatap og auknar álögur, líka þeir sem hafa lifað spart Um þetta er ekki deilt, frekar en að vegna krónunnar þurfa vextir að vera hærri á Íslandi en víðast annars staðar. Engu síður, eftir þær hamfarir sem krónan hefur valdið öllum nema fáeinum spákaupmönnum, lætur stór hópur fólks eins og hún sé ekki vandamál.

Þetta stappar nærri sturlun."

Krónan virðist duga ágætlega til að mæla tap í verðmætum. Hrun á fasteignamarkaði er krónunni að kenna að dómi Jóns. Hefur fasteign eða dollari eitthvað breyst þó að gengi krónunnar hafi fallið ? Hvað hefur breyst síðan 2007 ?

Lausn Jón er að taka upp evru. Á hvaða gengi eiga Íslendingar að skipta ? Fró'legt væri að fá leiðbeiningar frá Baugi um þetta atriði. 

Hvar fáum við svo evrur til að borga flugvirkjum 25 % kauphækkun ?. Og svo flugumferðarstjórum ? Þetta eru stéttir sem miða kjör sín við dollara. Og það má ekki láta flugumferðina stoppa. Við gætum misst yfirráðin yfir Atlantshafinu sem færir okkur svo miklar tekjur að það stendur undir öllum kostnaði við innlenda flugumferðarstjórn. Nei við verðum að ganga að hverjum þeim kröfum sem þessar stéttir setja fram. Hvar fá Grikkir núna evrur til að geta haldið áfram að reka ríkissjóð með halla ?Og svo koma kennarar. Ekki getum við látið kjaradeilur koma niður á saklausum börnunum. Fleiri evrur "a la Greck"  strax !.

 Leiðari Morgunblaðsins er um sama efni:

..."En þegar horft er til spurningarinnar um gjaldmiðilinn eru niðurstöðurnar nokkuð ólíkar, en þó hefur stuðningur við evru minnkað mikið. Rétt um helmingur svarenda var hlynntur því að fá evru sem gjaldmiðil en um 35% þeirra voru því andvíg."

..."Georg Soros varð ofsaríkur á kostnað skattgreiðenda í Bretlandi og Svíþjóð þegar hann veðjaði á móti því að myntsamstarf þessara ríkja við önnur Evrópuríki myndi halda fyrir 18 árum. Hann segist í viðtali við Financial Times hafa núorðið efasemdir um að evran haldi. Hann telur þó að hægt sé að fresta hruni hennar með því að fleyta Grikkjum yfir það versta, enda eru þeir aðeins 2-3% af evrusvæðinu. En þau úrræði dugi ekki til að leysa vandræði Ítalíu, Spánar, Portúgals og Írlands, svo hvað verstu dæmin séu tekin."

..."Og nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman segir að ekki megi kenna einu landi um »evruklúðrið« eins og hann kallar það. »Leiðtogar Evrópu þrýstu á það að tekin yrði upp sameiginleg mynt,« segir Krugman og »létu sem vind um eyrun þjóta aðvaranir um að einmitt það sem nú hefur gerst gæti gerst. Að vísu datt engum, ekki einu sinni Evrópuefasemdarmönnum, í hug að þetta yrði jafn slæmt og það er að verða.«

Og enn segir :

...."Ný skoðanakönnun í Hollandi sýnir að 92% landsmanna vilja kasta evrunni og taka hollenska gyllinið upp á nýjan leik. Og ný skoðanakönnun Paris Match sýnir að 62% Frakka vilja einnig kasta evrunni og taka upp franska frankann á ný. ..."

Ég þekki til í Þýskalandi og fullyrði að evran yrði kosin frá með yfirburðum ef þeir bara fengju að greiða atkvæði um það. Þeir eru nefnilega búnir að fá nóg af því að burðast með þessi ruslararíki með sér. Þeim finnst nóg komið. 

Og þá veltir maður fyrir sér um hvað íslensk stjórnmál snúast yfirleitt ? Erum við að einbeita okkur að lausn vandamála dagslegs lífs ? Lifum við í nútímanum eða einhverri framtíð næstu áratuga ? Erum við ekki með rándýra samninga í gangi um framtíðarmúsík sem snúast um myntbreytingu ?

Á Davíðstímanum höfðum við frelsi til að nota hvaða mynt sem var . Við gátum geymt okkar fé í evrum í íslenskum bönkum, við gátum tekið lán í evrum. Við gátum allt en gerðum minnst af því sem skynsamlegt var, Nú þarf snjallan evrópusinnaðan krataþingmann eins og

„Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins,"til að fá „ þá hugmynd að ef til vill væri orðið tímabært að banna sveitarfélögum að taka lán í annarri mynt en í íslenskum krónum. „

Nú tek ég undir með Jóni Kaldal:

„ Þetta stappar nærri sturlun."


Steingrímur skrifar

Nú er Steingrímur  farinn að skrifa í nafni okkar allra að því miður beri of mikið á milli í Icesave. Maðurinn sem fagnaði "glæsilegri niðurstöðu " Svavars-Indriða" samninganna.

Hvað liggur honum svona mikið á ? Hversvegna er maðurinn "defacto" að gera heildarupptöku málsins erfiðari með því að segja að of mikið beri á milli ? Það er aldrei svo í samningum þar sem aðeins eitt tilboð liggur fyrir. "Of mikið" er huglægt mat. Vantar ekki líka ný sjónarhorn í málið ?

Er Bretum það ljóst að við teljum okkur til tekna þann skaða sem hryðjuverkalögin þeirra ollu okkur ? Þarf ekki Steingrímur að reyna að meta umfang hans ? Þar ekki Steingrímur að meta hvort við  eigum hugsanlega vaxtakröfu hjá þeim vegna frystingar íslensks fjár á núll vöxtum í Bretlandi meðan þeir vilja krefja okkur um vexti ?  Er hægt að koma með ný sjónarhorn inní viðræðurnar ? Eða eiga ef til vill engar vaxtakröfur við mál sem þetta, þar sem um tryggingarmál er að ræða ?

Gætum við velt því upp til dæmis að Jöklabréfamálið verði tekið til lausnar inní heildarpakkann og við getum losað okkur útúr þeirri óþolandi klípu sem við erum í vegna þrýstingsins á gengi krónunnar   frá bréfunum ? Bretar og Holllendingar kaupi af okkur krónur svo við getum borgað þau út ? Auðvitað er svona ekki leyst með því að Steingrímur sé að skrifa bréf heldur þarf diplómataviðræður til. Væri ekki hyggilegt að menn eins og Helgi Ágústsson komi  þarna að áður en Steingrímur og Indriði skrifa mikið af bréfum  í nafni þjóðarinnar ?

Við höfum um nóg að tala. Og við verðum að tala og tala mikið. Við megum aldrei þagna. Steingrímur hefði helst þurft að skilja það, að það eru hagsmunir þjóðarinnar að ná samningsgrundvelli um svo mikið mál. Þau vinnubrögð sem hann  bauð okkur uppá á fyrri stigum málsins dugðu okkur ekki.

Hagsmunir þjóðarinnar eru ekki endilega þeir að Steingrímur fái að vera ráðherra sem lengst og stofnsetja sitt norræna velferðarkerfi sem hann lýsir sem sinni hugsjón. Íslendingar eru allir um borð í bátnum og róa lífróður. Það skiptir öllu að brimlendingin takist og því er vel að komnir séu að málinu hinir vitrari menn. Því er ógott þegar helmingur áhafnarinnar treystir hvorki skipstjóranum né þeim rauðu vitum sem hann siglir eftir.


Hvað liggur á ?

Mér finnst eins og að stjórnarandstöðunni liggi einhver ósköp á að skera Steingrím J., Svavar og Indriða niður úr Icesavesnörunni sem þeir dingla í.

Á meðan á málþófi stendur hefur ein ríkisstjórn fallið í Hollandi og það styttist í pólitískri ævi Gordons Browns, þess erkikláns okkar. Á meðan við höfum þvælt hafa kjörin sem okkur bjóðast ekki versnað heldur snar batnað. Ég held að þau batni eftir því sem við bíðum lengur og þvælum.

Það er alveg eftir að draga skaðabætur vegna hryðjuverkalaganna til Íslendinga að borðinu. Það á alveg eftir að ræða hversvegna er verið  að tala um vexti á tryggingarandlag. Fengu Vestamanneyingar vexti ofan á Viðlagasjóð ? Er það ekki fráleitt í besta falli að tryggingafélag sem bætir bíl eigi að borga hann út með gengisfalli og yfirdráttarvöxtum ?

Það liggur ekkert á. Tökum okkur allan tíma og fresti, förum rólegir í þjóðaratkvæðið fyrir Steingrím J.

Tíminn vinnur með okkur en ekki á móti.

Reynum heldur að redda okkur útúr jöklabréfunum þannig að hér geti hætt að ríkja umsátursástand og örvænting eins og núna.

Getum við ekki samið við Breta og Hollendinga um það  að taka á jöklabréfamálunum  með okkur í viðræðunum um Icesave ? Það eru jú þeir sem eiga hagsmuna þar að gæta?


Fólkið valdi lista Sjálfstæðismanna í Kópavogi

Ég hef nú starfað við prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi síðan á áttunda áratugnum. Oft hefur verið smalað rækilega af frambjóðendum og ótrúlegasta mætt á kjörstað. Oft hefur okkur verið hótað af öflugum félagasamtökum að þeir myndu koma og verma tilteknum frambjóðendum undir uggum í krafti sinna samtaka. Ég hef hinsvegar aldrei séð þessa hópa ná að skipuleggja sig eins og núna.

Í framboði 12 manna var formaður íþróttafélagsins HK. Fyrir kjördag gekk um undirritað bréf frá forystu HK þar sem meðlimir félagsins voru hvattir til að skrá sig í Sjálfstæðisflokkinn til að fella Gunnar Birgisson en kjósa ákveðna frambjóðendur í ákveðna röð. Gunnar þurfti að fella vegna þess sem stjórn HK taldi sína hagsmuni,  þar sem hann hafði ekki viljað játast undir kosti þeirra HK manna umyrðalaust um að afhenda þeim Kórinn, eitt stærsta íþróttamannvirki á landinu.

Sjálfstæðisflokkurinn á yfirleitt undir högg að sækja um þessar mundir þó hann sæki hugsanlega fram með hverjum degi með tilstyrk ríkisstjórnar þeirra Jóhönnu og Steingríms J. Flesti voru því sammála að kjörsókn myndi verða allt frá frá 1700 manns til mest 2300 manns sem þótti nú gott einu sinni. Kosningamaskína Gunnars taldi sig ráða við þann fjölda. En við þetta mikla áhlaup margra hópa réði hún ekki.

Á kjördag brá svo við að biðröðin eftir að ganga ókeypis í flokkinn var lengri en kjósendanna. Í allt gengu á sjöunda hundrað manna, niður í 15 ára unglinga, í flokkinn á síðustu dögum og kusu sitt fólk. "Það var sagt mér að kjósa þennan í þetta sæti" var haft eftir einum slíkum. Þetta varð því langfjölmennasta prófkjör Sjálfstæðisflokksins til  þessa þar sem tæplega hálft fjórða þúsund tók þátt í því. Um 1800 manns eru sagðir hafa gengið í Sjálfstæðisflokkinn frá áramótum. Meira að segja eitt íþróttafélag getur ekki afrekað þetta án dyggs stuðnings frá öðrum stjórnmálaflokkum.

Þeir sem gengu í flokkinn á kjördag voru flokkaðir sem utankjörfundaratkvæði og settir í umslög. Það var því mjög fróðlegt  að horfa á hvernig atkvæðin uppúr þessum umslögum röðuðust á einstaka menn í allgóðu samræmi við áðurnefnt dreifibréf.. Ég ætla ekki að segja neitt um það hvort þetta hafi breytt neinu um heildaniðurstöðuna í efstu sætunum. En það styrkti þá sem stóðu höllum fæti í kjörinu meðal venjulegra  þegar flokksbundinna Sjálfstæðismanna og jók muninn milli manna í toppnum.

Nú þetta eru reglurnar og eftir þeim var farið. Ég velti því fyrir mér hvort eðlilegt verði talið í framtíðinni að formenn hagsmunafélaga sitji í bæjarstjórn hugsanlega í meirihluta með bæjarstarfsmönnum ? Verður þar eitthvað pláss fyrir fulltrúa venjulegra bæjarbúa ? Geta stjórnmálaflokkar leitt þessa þróun hjá sér ?

Prófkjörið fór hið besta fram og er ástæða til að óska forystufólkinu í félagsstarfinu til hamingju með það. Frambjóðendur lögðu sig alla fram um að hringja sitt lið á kjörstað og dáist ég að dugnaði þeirra allra.Vissulega má líka segja að þetta hafi verið eitt mesta pólitískt leðjukastsprófkjör sem nokkru sinni hefur farið fram en það er ekkert hægt að stjórna slíku þegar það fer af stað.365 miðlar fóru auðvitað í farabroddi gegn Gunnari Birgissyni og segir auðvitað sína sögu um afgerandi áhrif Samfylkingarinnar í þessu prófkjöri. Fróðlegt verður að fylgjast með úrsögnunum á næstunni, þegar innheimta skal 3000 kr.félagsgjöld af liðinu.

 Frambjóðendurnir passa flestir að láta ekki  bendla sig við neitt persónuníð. En  þeir sem það gerðu beinlínis samt virtust ekki græða mikið á því í heildina séð sem bendir til þess að almmenir kjósendur trúi ekki hverju sem er. 

Gunnar var felldur úr oddvitasætinu, það er staðreynd sem gleður örugglega Guðríði og Ómar Stefánsson. Gunnar er þó í öruggu 3. sæti og getur enn haft áhrif til framtíðar bæjarins.Ég held að Kópavogsbúar megi þakka honum fyrir mörg góð handtökin á tveggja áratuga ferli sem oddviti Sjálfstæðismanna í samstarfi við Framsóknarflokkinn. En allt hefur sinn tíma.

 Hvað svo verður veit ég ekki en fólkið hefur talað í þessari umferð.

 

 

 


Hvern styður Baugur ?

scanhjklkjh0001

"Víglínur í Kópavogi

Orðræða fer harðnandi fyrir prófkjör sjálfstæðismanna í Kópavogi í dag, laugardag. Þannig velti sjálfstæðismaður, sem samband hafði við blaðið, því fyrir sér hvort líklegt væri að Karen Halldórsdóttir, sem stefnir á fjórða sæti, yrði dugleg við að velta við steinum í uppgjöri bæjarins við fortíðina komist hún í bæjarstjórn. Hún er dóttir Halldórs Jónssonar verkfræðings, sem þegið hefur milljónagreiðslur fyrir störf fyrir bæinn síðustu ár. Hann er líka einn af trúnaðarmönnum Gunnars I. Birgissonar, sem slæst við Ármann Kr. Ólafsson um fyrsta sætið á lista flokksins í bæjarstjórnarkosningunum í vor."

Blaðið birtir haganlega uppsettan texta um prófkjörið í Kópavogi þar sem Gunnar I Birgisson slæst við Ármann Kr. Ólafsson um 1. sætið. Feitletrun og mynd af Ármanni undirstrika við hvað er að fást.

Auðvitað segir blaðið menn hafa efasemdir um að Karen Halldórsdóttir yrði dugleg við að velta við steinum úr fortíðinni komist hún í bæjarstjórn.Hún sé nefnilega dóttir mín sem sé uppvís af því að þiggja milljónagreiðslur  fyrir störf fyrir bæinn.

Það er auðvitað búið að rétta í prófkjörsmálum og dæma Gunnar Birgisson sekan um spillingu og auðvitað alla þá sem honum tengjast. Og Karen er dóttir mín og auðvitað er hún þar með aðili að spillingunni. Og ég hef leyft mér að skrifa óvirðulega um hvernig Guðríður Arnardóttir verður leiðtogi Samfylkingarinnar mótframboðslaust á innan við tvöhundruð atkvæðum.  

Með Baugstíðindum er svo borin út  stóreflis mynd af hinum glæsilega Ármanni Kr. Ólafssyni sem býður  nýja forystu og Nýjar áherslur. Ekki minnst á það að Ármann hefur í 12 ár verið liðsmaður í þeim góða meirihluta sem stjórnað hefur hinni ótrúlegu uppbyggingu í Kópavogi. Ekki ósvipað því að Jóhanna Sigurðardóttir er kynnt sem nýkomin á svið stjórnmálanna eins og hvítur stormsveipur til að hreinsa flórinn eftir síðustu ríkisstjórn.

Þetta er auðvitað allt saman tilviljun ein.

Baugur styður engann fram yfir annan ?

 


Eiga íþróttafélög að vera í pólitík ?

Í ljósi síðustu atburða þá spyr maður sig hvort íþróttafélög geti verið án beinna afskipta af pólitík ?

Tveir frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, þeir Aðalsteinn Jónsson og Sigurjón Sigurðsson lát taka mynd af sér bak í bak og leggja kapp á að fólk kjósi þá í 3. og 4. sæti. Myndin er sögð tilkomin vegna bragðvísi Þorsteins Einarssonar starfsmannastjóra Kópavogs og áhrifamanns í HK sem fékk Aðalstein til myndatökunnar á öðrum forsendum. Átti myndin að sýna samstöðu þessara íþróttafélaga, Breiðabliks og HK. en er svo notuð í framboðsmáli Sigurjóns formanns HK.  En stórveldisdraumar Þorsteins hafa löngum verið þeir að brjóta undir sig önnur íþróttafélög með afarkostum ef svo ber undir.

 

Í gærkvöldi héldu HK -menn stóran fund í félaginu þar sem þeir fóstbræður Ómar Stefánsson og Sigurjón Sigurðsson úthúðuðu Gunnar Birgissyni og kröfðust þess að hann yrði felldur í prófkjörinu á morgun vegna þess að hann játaði ekki skilyrðislaust að afhenda HK  Kórinn til eignar og umráða. Hafði Gunnar lýst þeirri skoðun sinni að slíkt mannvirki ætti að vera jafnt til afnota fyrir alla bæjarbúa í hvaða  íþróttafélagi sem þeir væru. Þetta féll ekki í kramið hjá tvístirninu og fluttu þeir margar ræður og skörulegar til að brýna menn til atlögu gegn Gunnari í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Með því að þessir heiðursmenn taki tvö sæti í bæjarstjórn Kópavogs þá eflist þetta íþróttafélag til vegs og virðingar og nái þá væntanlega stærri sneið af kökunni. Hvar verður þá fulltrúi Breiðabliks í bæjarstjórn Kópavogs ?

Verða ekki fleiri félög að tryggja sér öruggt sæti í bæjarstjórn svo að ekki verði yfir þau valtað ? Er það sú framtíðarsýn sem menn sjá fyrir sér um bæjarstjórn Kópavogs að þar sitji sem flestir bæjarstarfsmenn og formenn íþróttafélaga, hestmannafélaga, Lionsklúbba, Rotary eða jafnvel Lögreglukórsins ? 

 Eða á  þar að sitja fólk sem hefur framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið í heild  ? Fólk sem setur hagsmuni bæjarfélagsins í heild ofar þröngum sérhagsmunum ? Fólk sem hefur sannað það í verki að því má treysta ? Óeigingjarnt fólk sem vill gefa af sér í  þágu samfélagsins ?

 Auðvitað verða menn einhversstaðar að byrja í pólitík. En venjulega liggja einhver verk eftir það fólk sem  sækist eftir valdastöðum.  Verður það ekki  að hafa tiltrú fólksins til þess að það sé ekki bara í hagsmunagæslu fyrir sig og sína, íþróttafélög eða hagsmunaklúbba ?

Eða  vilja menn að íþróttafélög sjái bara um  pólitíkina milliliðalaust ?


Siðareglur Handknattleiksfélags Kópavogs

Á heimasíðu HK er að finna heilmikinn bálk um siðareglur félagsins. Þar er maðal annars að finna þessa klausu:

"Stjórnarmaður/starfsmaður:

1.     Stattu vörð um anda og gildi félagsins og sjáðu um að hvorttveggja lifi áfram meðal félagsmanna
2.     Komdu fram við alla félagsmenn sem jafningja, óháð kyni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, litarhætti og kynhneigð
3.     Hafðu lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri
4.     Haltu félagsmönnum vel upplýstum og gerðu félagsmenn að þátttakendum í ákvarðanatöku eins og hægt er
5.     Vertu ávallt til fyrirmyndar varðandi hegðun og framkomu, bæði innan félags og utan
6.     Taktu alvarlega þá ábyrgð sem þú hefur gagnvart félaginu og iðkendum
7.     Hafðu ávallt í huga að í félaginu er verið að byggja upp fólk
8.     Rektu félagið ávallt eftir löglegum og ábatasömum reikningsaðferðum
9.     Notfærðu aldrei stöðu þína hjá félaginu til eigin framdráttar á kostnað félagsins. "

Ástæða þess að ég tilfæri þetta hér er að í gærkvöldi bárust þær fréttir að félagaskrár HK hafi verið teknar og skráðar inn sem hundruðir í Sjálfstæðisflokkinn til þess að öðlast þáttökurétt í prófkjörinu á morgun. Ég sá svo bréf sem segir að Gunnar Birgisson hafi ekki viljað samþykkja að afhenda HK  Kórinn, sem er eitt stærsta íþróttamannvirki á landinu, en Breiðablik er annað stórt íþróttafélag í bænum sem þá teldi á sig hallað.

 Einhver Ólafur Þór Júlíusson skrifar síðan undir þetta dreifibréf til félaga í HK, þar sem þessi tregða Gunnar er tíunduð. HK verði því að stuðla að falli Gunnars í kosningunum. Félagar skuli kjósa Ármann í 1. sætið, Hildi Dungal í annað sætið og Sigurjón, sem er formaður HK,  í þriðja sætið. Það er nokkuð ljóst að þetta getur ekki verið flokkað sem  spilling eða atkvæðakaup frá Gunnari Birgissyni að minnsta kosti. 

Til viðbótar var mér sögð sú saga að þessi sami listi hafi verið notaður til að skrifa þetta sama fólk  inní Framsóknarflokkinn, þar sem Ómar Stefánsson hyggur á kjör sem forystumaður eftir viku.Maður veltir fyrir sér útá hvaða brautir prófkjörsbaráttur flokkanna eru að fara. Hvort Breiðablik hafi ráð á að láta HK um svona aðgerðir eða verði að grípa til varna ? Eða hestamannafélagið Gustur, Gerpla eða Lions.

Þetta eru nýir tímar svo ekki sé meira sagt.Það er fróðlegt að lesa allar siðareglur HK í ljósi hinar góðu baráttu sem formaður félagsins  heyr á stjórnmálasviðinu og einkar fróðlegt fyrir foreldra að velta fyrir sér athöfnum barna sinna á sama leiksviði.  Börnin virðast vera orðin það afl sem úrslitum ræður um það hverjir leiði lista Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í kosningunum í vor.

Fyrir félagið væri að minnsta kosti  við hæfi að taka siðareglurnar útaf heimasíðunni fram yfir prófkjör og fresta þeim þar með.  


Prófkjör í Kópavogi

Það er fjör í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Kópavogi. Einhverskonar nýr meirihluti í bæjarstjórn sendir fréttir á hverjum degi í Baugsmiðlana til að útlista fagrar dyggðir þess sem hér skrifar. Allt undir yfirskyni réttlætisins að sjálfsögðu, enda miðlarnir þeir hreinustu sem til er hvað varðar fjármál og skuldafrágang allan og er þar valinn maður í hverju rúmi.

Það er kannski von að gestir á þessu bloggi bíði eftir einhverjum útskýringum frá mér eftir stöðugan fréttaflutning um mitt illa innræti.  En það er auðvitað svo, eins og var í gamla daga, að vildu Kínverjar rakka niður Moskvuvaldið, þá skömmuðu þeir Albaníu. Auðvitað sjá menn í gegnum skothríðina á mig hvern drullan hæfir ef ég beygi mig. 

Þetta er nokkuð nýstárleg aðferð í prófkjörum hér í Kópavogi en eftir er að sjá hvaða áhrif þetta hefur. Öll leðja loðir eitthvað við þann sem fyrir verður en samt verða þeir sem kasta venjulega eitthvað blakkir á höndunum þá þeir sýni hvíta hanska útá við og þykist hvergi nærri koma.

En prófkjörið fer fram á næsta laugardag. Þar býður dóttir mín hún Karen sig fram í 4. sætið. Ég upplýsi það hér og nú, að hún er á eigin vegum en ekki fjarstýrð af mér eða minni landsþekktu spillingu, sem auðvitað er pundað út af sumum kosningaskrifstofunum. Hún er dásamlega góð dóttir en ákveðin í besta lagi og með munninn fyrir neðan nefið eins og sumir og hikar ekki við að brúka sig við kallinn ef svo ber undir. Ég reikna því ekkert með því að hagnast sérstaklega á hennar setu í bæjarstjórn eins aðdáendur mínir sjálfsagt halda. En ég held að Kópavogsbúar muni ekki tapa neitt meira á henni heldur en sumum þeim sem nú hæst láta. Miklu fremur mega þeir búast við að skoðanir heilbrigðrar ungrar móður og fjölskyldukonu sem er alin upp við mikla vinnu og ráðdeild, geti gagnast bæjarfélaginu. Á starfs-og námsferli sínum kynntist hún margvíslegum störfum, bílaviðgerðum og járnsmíði, og svo mörgu góðu fólki sem hún þekkir ágætlega enn í dag enda vinsæl manneskja. Mér þykir  verst ef ég má ekki brúka mig of mikið hennar vegna og víst er að einhverjir hafa notið hennar við.

Ég ætla ekki að elta ólar að sinni við fólkið á sem situr  á skítadreifaranum og keyrir um völlinn víðan. Ég sit á mér fram yfir helgi og vona að enginn verði yfir sig spenntur. En ég er alls ekki búinn að missa málið ef þeir halda það.

Prófkjörið verður næsta laugardag í Hlíðarsmára 19. Ég hvet alla Sjálfstæðismenn til að mæta.


Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 73
  • Frá upphafi: 3417881

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband