Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Stefnumál Framsóknar ?

Ég fylgdist nú vel með samskiptum Alfreðs Þorsteinssonar og Ingibjargar Sólrúnar í R-listanum sáluga. Ég gat nú aldrei lesið annað útúr því en samstarfið byggðist helst á því hversu mikið Framsóknarmenn fengju í sinn hlut. Ginið á þeim  stóð uppglennt og Ingibjörg fleygði þjósunum stöðugt uppí þá  eins og þeir gera í sædýrasafninu við sæljónin. Ævintýrin með Tetra-Línu, Línu -Net´, risarækjuna og hvað þetta nú allt hét var nú skemmtilegt. Þó að örfáir milljarðar  hafi verið ómerkilegir  hjá Kaupþingsbraskinu síðarmeira.

Ég get ekki varist þeirri hugsun að hikið á Sigmundi Davíð sé stafi ekki af miklu öðru en þessu sama. Bara spurning hversu mikið hann fær í sinn hlut. Þannig hefur  Framsóknarflokkurinn  yfirleitt komið mér fyrir sjónir og sú skoðun mín hefur varla breyst mikið við framvindu síðustu daga. Helsta hugsjón Framsóknarflokksins er Framsóknarflokkurinn sjálfur og hefur verið svo í þau ellefuhundruðár sem hann hefur lifað á þjóðinni.

Annars er mér slétt sama hvað þessi stjórn gerir eða gerir ekki. Hún er bara brandari sem engu máli skiptir, hvorki fyrir mig eða þig. Allt gamalt og þreytt lið með gamlar klisjur. Það vantar Austurvallarindíánana með eldmóðinn  og pottlokin. En þeir koma inn næst með nýjum kvennalista. Það verður nú aldeilis fjör á skútunni þá, þegar verða fimm formennirnir á  eins og kallinn sagði.

Mér finnst nú allt í lagi að íhaldið athugi við þessi tímamót hvort þeir geti ekki boðið bara betur en Jóhanna og Skallagrímur. Ég held að þetta sé bara spurning um verð hjá Framsókn eins og fyrri daginn.

Það eru hinsvegar miklu meiri alvörutímar framundan en svo, að það taki því að æsa sig upp yfir þessum stjórnarmyndunarfarsa eins og hann skipti einhverju máli.

Hvað ætlum við að gera við tuttuguþúsund atvinnuleysingja ?

Framsóknarflokkurinn ætti að opinbera sín stefnumál í því máli þó hann vilji ekki sýna önnur spil.Kannske hefur hann bara engin önnur spil ?

 


Niðurskurður Framsóknar.

29.11.2008 skrifaði ég þessar línur :

"Hvenær er næsta virkjun og stóriðja möguleg ?  Af hverju er undirbúningurinn svona skammt kominn ?  Ætlum við að friða þorskinn og síldina við þessar aðstæður  og horfa á útflytjendur ráðstafa gjaldeyrinum framhjá landinu í von um gengisfellingu ?  Meiri kvóta strax til smáplássanna í kringum landið þar sem fáir róa á hverju skipi.   

Mér finnst staðan svo alvarleg að það þýði ekki að halda áfram að blaðra almennt  um ríkidæmi þjóðarinnar,   mannauðinn og mannkostina  . Fasteignir étur maður ekki  við  sulti.  Og mannauðurinn bara fer úr landi og eftir verða bara þeir aumustu þó mannkostamenn séu kannski taldir,  eins og gamalmennin okkar, öryrkjar og minnihlutahópar.   

Er það þetta sem við bíðum núna eftir Íslendingar ? Bíðum við hungurdauðans eða ætlum við að berjast ?

Þó að við sjáum ekki okkar  Roosewelt núna, þá vantar okkur  New Deal ! Stefna Hoovers gengur ekki við þessar aðstæður.   Lífeyrissjóðirnir okkar verða að kaupa ríkistryggð skuldabréf sveitarfélaga og ríkissjóðs. Þetta eru stríðsskuldabréf þjóðar í umsátri.  Það er stríð.

 Peningar verða að renna til mannfrekra framkvæmda í byggingariðnaði til að koma fólkinu af götunum. Ekki eyða í  vélavinnu,  jarðgangnagerð eða vegagerð.  Það er þjóðarvá fyrir dyrum ef við getum ekki startað efnahagsvélinni með eftirspurn eftir iðnaðarmönnum og verkamönnum.   Við erum annars bara að drepast sem þjóð .   Það mega allir reyna að sjá sem vilja sjá.

Það er enginn huggun í því að aðrir séu að drepast í löndunum í kringum okkur. Við verðum að bjarga okkar þjóð fyrst. Svo hinum. Reynum að duga frekar en að drepast "

Ástandið hefur snarversnað síðan þetta var. Við þessar aðstæður talar formaður Framsóknarflokksins um það ,að það verði að skera niður.  Og hann ræður eins og einn ágætur vöðvi í niðurskurði (niðurgangi) . Ekkert mun gerast hjá þessari kyndugustu  stjórn lýðveldisins nema hann segi til. Formaður Framsóknarflokksins ræður örlögum þjóðarinnar. En hann ætlar að láta hina spila út áður en hann segir stopp ! Hann sýnir ekki spilin sín. Kannske veit hann bara heldur ekki neitt frekar en nýju ráðherrarnir.

Hvað þýðir  niðurskurður við þessar aðstæður ?  Hvað þýða áfram óbreyttir stýrivextir ? Hvað þýðir stóraukið atvinnuleysi ? 14000 manns atvinnulausir núþegar og snarfjölgar. Verða hér risin neyðarskýli með súpugjöfum í maí ? Er það þess vegna  sem  Framsókn vill kjósa sem fyrst,  því þeir óttast að þeir verði líklegri  til að klúðra málunum þess lengur sem stjórnin lifir.

Við verðum að reyna að fá Ísfólkið (Icesave) til að kaupa af okkur ríkisskuldabréf til lengri tíma með góðum vöxtum. Og Jöklarana líka.  Við megum ekki þurfa að missa fé úr landi. Við megum ekki skera meira niður í ár né á því næsta þó að við megum auðvitað hagræða. Við megum ekki hækka skatta á lágmarkslaunum.  Við verðum að styrkja gjaldmiðilinn gagnvart öðrum.  Það gerist auðvitað um leið og innflutningurinn snarminnkar og þá mun verðbólgan ganga niður. Það er raunhæfasta kjarabótin fyrir alla. En minnki innflutningurinn áfram er líka hungrið á næsta leiti. Hvert leiðir það ?

Vöruskipti , fiskur-olía, fiskur-korn, fiskur-bílar,  allt eins og í gamla daga hjá vinstri stjórnunum þá. Allt til að hreyfa hlutina. Hjalmar Schacht kunni slíkar startaraaðgerðir sem vert væri að rifja upp.   

Við eigum að sameina alla þessa ríkisblanka(blankur banki = blanki) í einn, það er yfirdrifið af hafa bara eitt eintak af þessum vesalingum.   Við verðum að eyða til að skapa  störf fyrir fólkið.  Lífeyrissjóðir verða að kaupa stríðskuldabréf til 5 ára af ríki og bæjum í einhverjum mæli. Ekki til að grafa göng eða leggja götur heldur til  útlána til viðhalds mannvirkja og gjaldeyrisskapandi verkefna eins og aukinnar ferðamannaþjónustu.  Snardraga saman í utanríkisþjónustunni og kyrrsetja forsetann á Bessastöðum, hann á ekkert erindi úr landi við þessar aðstæður. Rjúfa einokun Baugs á prentmiðlun og skoðanamyndun í landinu þó að það sé nú  ekki áhlaupaverk.

Ekkert hefur gerst síðan í nóvember til að bæta ástandið. Hvað gerist þá á næstu þremur mánuðum ?  Grímuklæddir mótmælendur hoppa þess meira í kringum eldana sína sem þeir hafa minna fyrir stafni. Þeir myndu miklu heldur vilja vera við einhver störf. Auðvitað er fólkið reitt. Það hefur verið rænt og svikið. En reiðin ein sefar ekki hungrið sem við getur blasað.  

Er ekki betra að reyna að afstýra því verra meðan hægt er ? Það verður erfiðara eftir því sem tíminn líður og ástandið versnar. Þessi nýja stjórn  mun akkúrat ekkert gera nema blaðra og blaðra. Alveg eins og vinstristjórnir gera í besta tilfelli. Venjulega vinna þær beint tjón ef þær gera eitthvað.  

Þessvegna verða samtök atvinnulífsins að láta í sér heyra. Já,  allir sem einhver ráð kunna. 

Ekki bara drepast úr niðurskurði að hætti Framsóknar !


Ný ríkisstjórn.

Þá höfum við nýja ríkisstjórn.  Til hamingju með það. Í kvöld  munu  indíánarnir á Austurvelli væntanlega  stíga villtan dans við eldana sína og sprengja púðurkellingar. Hvað mun þessi nýja stjórn  afreka ?  Hverjar verða fyrstu ráðstafanir  nýrra stjórnar ? Ef hún þá þorir nokkuð að gera annað en tala um þjóðarhag.

Ég held hún athugi að stórhækka fjármagnstekjuskatt, setja á hátekjuskatt, hækka staðgreiðsluna, hækka öll gjöld og álögur til ríkisins , lækka vexti og verðtryggingu svo að sparnaður leitar frá bönkunum. Hún mun velta fyrir sér að auka útgjöld til félags-og heilbrigðismála. Við það vex verðbólgan  og gengið mun  líklega falla þar til að innflutningur stöðvast að mestu. Heimskreppan hefur áhrif á útflutninginn þannig að ekki blæs byrlega fyrir stjórninni.   Hún mun sjálfsagt auka veiðiheimildir og endurúthluta,   sem núna munu helst hækka fjallið af óseldum afurðum.

Hún mun líklega breyta einhliða  AGS samningum með auknum ríkissjóðshalla með óþekktum afleiðingum sem hljóta að leiða til aukinna hafta á landinu.   Verðbólgan  og atvinnuleysið geta því  auðveldlega farið í  óþekktar hæðir fyrr en varir.

Hugsanlega  mun þessi nýja stjórn fyrirskipa launa-og bótahækkanir yfir línuna. Þetta er jú ríkisstjórn Skallagríms og hins vinnandi fólks. Og svo auðvitað heilagrar Jóhönnu. 

Nema að stjórnin hafi vit á að gera helst ekkert eins og menn ásökuðu gömlu  stjórnina um að gera. Nema auðvitað að reka Davíð úr Seðlabankanum.

En geri hún eitthvað af ofansögðu þá hrynur hún ofan í rústakjallarann  í maí. Eftir kosningar fer næsta stjórn eins, en þá hafa  byltingaröflin og indíánarnir  bæst í ráðherrahópinn.

Loks þegar það er allt búið  fara menn að skima eftir leifunum af gamla íhaldinu. Menn fara að rifja upp gömul orð  Bjarna heitins Benediktssonar:  Munið það piltar, að þótt við séum vondir, þá eru aðrir verri.  Það munu menn um síðir sjá. 

2011 eða fyrr verða því aftur kosningar og þá fyrst held ég að Sjálfstæðisflokkurinn komi aftur að stjórn landsins. Þangað til verður langur tími og miklir erfiðleikar. Erfitt verður að koma fram pólitískum málflutningi fyrir ofurveldi Baugsmiðlanna. Pólitísk umræða mun því stjórnast að miklu leyti af hagsmunum Baugs. Nema að Sjálfstæðisflokkurinn fari loks að huga að nútíma fjölmiðlun. 

2015 hefur ástandið í USA hugsanlega lagast eitthvað og heimurinn þá líka .  En þá verður ESB umræðan löngu fyrir bí á Íslandi og enginn vill muna það sem hann segir  núna. 


Virkisvetur.

Það eru runnir upp tímar á Íslandi, sem mig hefði aldrei órað fyrir að koma myndu hér á landi.  Alþingi reynir að halda fund í eldsbjarma frá Austurvelli og taktfastur trumbusláttur dansandi mótmælendanna fyrir utan yfirgnæfir ræðuhöldin innanstokks. Rúður brotna og það er ráðist á lögregluna. Stærsti stjórnarmeirihluti Alþingis gefst upp og segir sig frá ógnvænlegum erfiðleikum sem hrannast að þjóðinni.

Við tekur nú einhverskonar stjórnmálabarátta í skini eldanna  frá samkomum "mótmælenda". Ný og óþekkt öfl munu taka við stjórn landsins. Ef því verður þá hægt að stýra því héðan af.  Sumum finnst svigna feiknstafir í framtíðarhorfum  landsins.   Verið getur að þær verði lygilegri en nokkurn órar fyrir á þessari stundu. Sjá menn fyrir sér að hér gæti orðið  hungursneyð á vori ?  Niðurbrot laga og réttar ? Skeggöld, skálmöld ?

Hinn nýi stíll gerendastjórnmálanna mun sjá til þess, að  venjulegir stjórnmálaflokkar munu vart geta haldið fundi án þess að óeirðir verði á fundarstað.  Í skugga alls þessa ætla menn á landsfundi, í prófkjör og svo Alþingiskosningar í byrjun maí.  Skyldu slíkir atburðir fá að fara fram án bálkasta og slagsmála ? Er engum hugsað til fyrri hluta síðustu aldar í Þýzkalandi ?

Napóleon mikli sá sig á sínum tíma tilneyddan að ríða inn í þinghúsið  og reka þingmenn frönsku byltingarinnar út með brugðnu sverði. Þeir höfðu þá prentað peninga handa fólkinu til að gera það ánægðara í eymdinni. Allt kom fyrir ekki.  Napóleon keisari setti alþýðuna í einkennisbúninga og hóf tveggja áratuga styrjaldir. Íslendingar eiga engan Napóleon, sem stillt getur til friðar ef fámennt lögreglulið okkar verður undir í átökum.     Hvað ætli við gerum  þá ? Burstum rykið af Gamla-Sáttmála, sem var víst aldrei sagt upp ? Biðjum um norsk langskip ?

Skyldum við gefast upp á lýðræðinu og fela öskurkórunum og grjótkösturunum völdin ?   Það virðist sama hvað gert er. Öllu er mótmælt með hávaða og ólátum. Jafnvel þó ríkisstjórnin sé fallin er haldið áfram. Gamlárskvöldsstemning ríkir  á torgum hvert einasta kvöld.  Ólæti ólátanna vegna.

 Virkisvetur.    

    


Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 3418223

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband