Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Einkaþota Egils Skallagrímssonar

ef hefði verið forvitnileg ef hann hefði fengið að panta slíkt verkfæri fyrir silfrið sitt.

Þessu veltir maður fyrir sér þegar maður sér eftirfarandi frétt um einkaþotu

Prins Alwaleed bin Talal sem tilheyrir konungsfjölskyldunni í Sádí-Arabíu og er fjárfestir. Einkaþota hans er af gerðinni Airbus A380 og er hún metin á 500 milljónir dala, um 60 milljarða króna. Grunngerðin kostar um 300 milljónir dala.

Búnaður vélarinnar er óvenjulegur:

  • Bílageymsla fyrir Rolls Royce bifreið prinsins 
  • Tónleikasalur með flygli fyrir 10 manns í sæti 
  • Stíur fyrir hesta og kameldýr 
  • Heilsulind 
  • Fimm herbergi með hjónarúmi, einkabaði og sturtu 
  • Bænaherbergi sem sjálfkrafa snýr alltaf í átt að Mekka
Hverju hefði Egill bætt við þetta eða skipt út? 
 
Andlegt atgerfi þessara jöfra og lýðræðisást hefur ef til vill svipað nokkuð saman. Þó fara engar sögur af kvennafjölda Egils en prinsinn er um vafinn kvennaljóma á  myndinni af honum og mýju þotunni. Stíurnar fyrir kameldýrin um borð finnast mér vera toppurinn á tilverunni. Flugvélin lyktar sjálfsagt dýrðlega eftir langa ferð.
 
Ég er stoltur af Agli frænda. Hann var höfðingi í lund og faldi silfrið þegar hann fékk ekki að eyða því að vild. 

 


Össur umboðsmaður

 

Evrópusambandsins Skarphéðinsson skrifar  um væntanlega „Gulldrengjastjórn“ þeirra Sigmundar og Bjarna á Pressunni. Þeir lýstu því nefnilega yfir að staða fjármála væri mun verri en ríkisstjórnin hefði haldið fram.

Það er ekki að undra að báðir mestu analfabetarnir í fjármálum, þeir Steingrimur og Össur, ásaka þá um að hafa ekki lesið heima.  Allt bixið lægi nefnliega fyrir í fjárlögum. 

Það er mála sannast að staðan er mun verri en þar kemur fram og fram hefur komið í fréttum.  Össur og Steingrímur hafa vandlega forðast að tala um viðskilnað sinn á ríkissjóði, En uppsafnaður rekstrarhalli þeirra nálgast 400 milljarða á þessum 4 árum. Þeir láta hinsvegar eins og þeir hafi rekið ríkissjóð hallalaust  og grobba sig af því á alþjóðasviði. En um bankahneykslin þegja þeir skiljanlega og líklega ekki hvað síst vegna þess að þeir skilja hvorki upp né niður í gjörðum sínum og Össur hefur líka ekki hunsvit á fjármálum að eigin sögn. Og um stærð snjóhengjunnar höfðu þeir hvorugur líklega nokkra hugmynd um en hún hefur vaxið mikið við síðustu rannsóknir.

Össsur reynir auðvitað að sletta skyrinu í þá sem núna dæmast til að moka flórinn eftir hann, Steingrím og Jóhönnu,  -ef hún þá var eitthvað frekar í síðustu stjórn en í hrunstjórninni. Hann skrifar:

 

„Þegar menn nefna ekki dæmi, þá eru þeir að dylgja. Alvörumenn dylgja ekki. Þeir tala umbúðalaust.

Fræðimaður við HR sagði hins vegar Stöð 2 að yfirlýsingar Sigmundar Davíðs kæmu henni á óvart.

Fyrir utan að allar helstu stærðir lægju fyrir í fjárlögum, þá væru mánaðarleg yfirlit yfir stöðu ríkisfjármála gefin út, og hagvaxtarspá á þriggja mánaða fresti. Auk þess væri kostnaðarumsögn sem fylgdi hverju einasta frumvarpi. Allt væri opið og gagnsætt. Engum ætti því að koma neitt á óvart – sem fylgdist með.

Í þessu felst kanski skýringin. Þeir gleymdu að fylgjast með.

Birgitta Jónsdóttir, höfuðkapteinn Pírata, birti sem frægt varð skömmu fyrir kosningar, lista yfir skrópagemlinga þingsins.

Meðal verstu skrópagemlinganna á Alþingi reyndust vera þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson. Sá fyrri sýnu verri en hinn.

Eitt er að skrópa – en allt annað að upplýsa að menn lásu ekki einu sinni heima.“

Þetta átti greinilega að  verða stórsniðugt mál hjá stóra Össuri.

Skróp Össurar voru 390 skráð á sama skalla  hjá Birgittu. Ekki er getið hversu varamenn sátu  oft fyrir hann en líklega gæti nú mætingin eitthvað breytast við það. Bjarni Ben skrópaði 455 sinnum samkvæmt skýrslu Birgittu sem er þó  aðeins 16 % verra en  hjá Össuri. Ef Össur gefur sjálfum sér 10 þá er Bjarni með 8.4 á sama skala. Sigmundur Davíð er með 524 fjarvistir eða þriðjungi meira en Össur. 

En það er ég viss um að þá starfaði þetta síðasta lánlitla Alþingi best þegar Össur var langdvölum í Brüssel við sölustörf á fullveldi Íslands  til Stefáns Fúla svo sem forfeður hans gerðu við hirð Hákonar gamla á fyrri tíð.


Jarðarberjaland

er fyrirtæki sem ég datt um í Reykholti í Tungunum í gær.

Fyrst kom ég auga á mikil gróðurhús sem mér sýndust vera klædd aðeins plasti Þetta vakti forvitni mína svo að ég fór nær . Jú það var aðeins strekkt plastklæðning en ógagnsæ á húsinu þannig að ég sá lítið inn . Og heldur þetta virkilega í íslensku roki hugsaði ég með mér.

Það var svo lítill einskonar brúsapallur úti við götuna þar sem jarðarberjaöskjum  með B-flokks berjum var til sölu í sjálfsafgreiðslu. Ég keypti eina. Þetta voru þvílík hlussuber að annað eins hef ég varla séð. Ég keyrði í burtu og fyrir utan Bjarnabúð smakkaði ég eitt og varð að orði að betri jarðarber hefði ég aldrei smakkað þó ég hafi víða farið. Eitt fylgdi af öðru  að sjálfsögðu þó ég hefði móral útaf honum Atkins.

Ég fór svo aftur á staðinn. Það voru nú bara 4 öskjur á pallinum  eftir sem ég keypti allar. Svo flautaði ég fyrir utan og innan skamms kom vörpulegur náungi út. Hann sagðist heita Ute og vera Hollendingur og vera eigandinn með henni  Astrid. Ég sagði honum að búðin væri tóm og varð hann glaður við og hljóp í risastóran kæligám á hlaðinu og sótti meira.

Ég bað hann um leyfi til að kíkja inn og sjá þessa ræktun á heimsins bestu jarðarberjum sem væri mitt álit. Hann bauð mér inn, kynnti mig fyrir Astrid  meðeiganda sínum.  Astrid útlistaði fyrir mér tæknina.

Þetta er á einum risastórum gólffleti. Jarðaberin eru upphengjum í bökkum sem eru í línum eftir endilöngu húsinu og eru raðirnar hlið við hlið. Undir bökkunum eru rennur þar sem vökvunarvatnið rennur burt. Frá risastórum kolsýrutanki  á hlaðinu kemur gróðurhúsaloftegundin CO2 og er dreift um húsið með stórum blásara. Berin á ýmsum þroskastigum lafa svo niður fyrir rennurnar þar sinnir starfsfólkið  tínslu og flokkun. Maður sér alla uppskerunaúr einu horni í annað. Þetta er mega flott fyrirtæki sem ég ber auðvitað ekkert skynbragð á. En víst er að þetta er mikil og krefjandi vinna, svo mikið skildi ég.

Ég fór að spjalla við þau meira  og sögðu þau mér að húsið hefði verið reist fyrir sjö átta árum og þau hefðu ræktað sérstök blóm fyrir hollenskan markað. Svo varð allt í einu kleyft að rækta þau í Hollandi og þá var ræktun hætt í stóra plasthúsinu. Eftir hlé langaði þau hinsvegar til að fara aftur til Íslands svo í fyrra keyptu þau húsið af fjölskyldu hennar held ég sem átti það og eru nú að fara af stað með ræktunina. Ég spurði hvernig A-berin væru úr því að B-berin væru svona góð. Þá var mér sagt að það sé sköpulag berjanna sem ráði  flokknum og má lítið útaf bera til að berið lendi í B-flokki.

Ég hafði skiljanlega mikinn áhuga á því hvernig húsið hefði reynst og sögðu þau að það hefði aldrei bilað. En hrædd hefðu þau orðið í einu veðrinu að allt kynni bara að fjúka til fjandans. En allt gekk það yfir. Bóndinn á ávallt allt sitt undir sól og regni eins og var á dögum Klettafjallaskáldsins. 

Ég kvaddi þessa ágætu hollensku Íslendinga. Framleiðsla Jarðaberjalands er alger toppur sem énginn verður svikinn af að kaupa. 


NýSovétið

er skilgreining Gunnars Rögnvaldssonar á ESB.

Hann segir á bloggi sínu:

"Evrópusambandið mun verða nýtt sovétríki. Það vissu lögfróðir menn þegar í innanríkisráðuneyti Stóra Bretlands árið 1961, gluggi menn í apríl-fundargerðabækur ríkisstjórnar þess lands það ár


1961; Although the Treaty of Rome does not express this explicitly, it has underlying political objectives, which are to be brought about by a gradual surrender of sovereignty

Síðan þetta var tekið niður og hraðritað í fundargerðabók ríkisstjórnar Stóra-Bretlands í apríl 1961, eftir að ríkisstjórn landsins lagði málið fyrir lagasérfræðinga ráðuneyta bresku krúnunnar, hafa bæst við margir nýir sáttmálar, heil nýsovésk stjórnarskrá og dómstólar sem herða snöruna fastar og fastar um hálsa allra í Evrópusambandinu. Bretland mun aldrei komast út úr ESB. Aldrei
 

Illa fengna umsókn Íslands inn í þetta hörmulega, en með vilja gerða stórslys rauntímans, verður umsvifalaust að afturkalla. Afmá verður umsóknina um aldur og ævi. Hún er smánarblettur á Lýðveldi Íslendinga. Hún er steyttur hnefi ESB-klíku framan í þjóðina ."

 

Hér rifjar Gunnar upp að menn hafa aldrei gengið að því gruflandi að ESB stefndi í átt til fullveldisafsals þjóðanna. Enda ætti það að vera lýðum ljóst eftir borgarastríðið í Bandaríkjunum að svona samband virkar ekki öðruvísi en að  fylkin séu aðeins fylki í þjóðríkinu.

ESB er ólíklegt til að efna til borgarastríðs við úrsögn einstakra þjóða. Það mun því liðast í sundur að svéskri fyrirmynd og verða að gömlu fullvalda þjóðunum aftur.

Það er mikill óþarfi hjá Íslendingum að láta sem að þetta blasi ekki við. Halda áfram að tala um hvaða samningar og sérkjör Íslandi bjóðist. Hætta að hlusta á Samfylkinguna og Össur Skarpéðinsson fyrrum sovétfræðing á Þjóðviljanum og hans fylgihnetti. 


Hver er dordingull?

ef ekki Össur Skarphéðinsson þegar kemur að fastlímdri utanríkisstefnu? 

..."„Í minni tíð tók Ísland hins vegar upp sjálfstæða utanríkisstefnu. Hún fól í sér að það er ekki lengur sjálfsagt að við héngum í hverju máli einsog dordinglar niður úr Bandaríkjunum,“ segir Össur Skarphéðinsson, fráfarandi utanríkisráðherra, um stefnu sína. "

Hafa menn frá tíð Hinriks Bjelke og Herlegs Dáð séð annað eins Evrópuþý og þennan utanríkisráðherra Íslands Össur Skarphéðinsson. Maðurinn og flokkur hans  sem vill selja ættjörðina hvaða verði sem er til Stefáns Fúla sem tekið hefur við kóngshlutverkinu í hugum þeirra Samfylkingarmanna? Og gildir þá einu hvort goldið er með makríl eða síld, allt skal lagt á hið mikla evrualtari.

Hver er dordingull ef ekki Össsur?

 


Ávallt það sem rangara reynist

er það sem kemur frá Steingrími J. Sigfússyni varð mér að orði þegar ég las í eftirfarandi frétt:

"Financial Times birtir á morgun aðsenda grein eftir Steingrím J. Sigfússon þar sem hann segir m.a.:

„Stjórnmálamenn í efnahagskreppu suður af Íslandi myndu gefa mikið fyrir árangur eins og okkar. Þó má gera ráð fyrir að þeir myndu ekki kæra sig um þá kosninganiðurstöðu sem ríkisstjórnarflokkarnir hlutu,“ segir Steingrímur í greininni sem birt verður í blaði Financial Times á morgun en birtist á vefnum í kvöld.

Steingrímur segir að um allan heim sé horft til Íslands sem fyrirmyndar um hvernig bregðast skuli við alvarlegum áföllum í efnahagslífinu en bendir á að alþjóðasamfélagið ætti líka að velta fyrir sér niðurstöðum Alþingiskosninganna.

„Þrátt fyrir að hafa stýrt landinu í gegnum erfitt en árangursríkt bataferli var ríkisstjórnarflokkunum sparkað. Flokkarnir sem var kennt um kreppuna unnu nauman meirihluta. Þetta vekur upp grundvallarspurningu:

Á tímum niðurskurðar og minni hagvaxtar, geta stjórnmálamenn notið hylli án ágóða bóluhagkerfisins? Orðum það öðruvísi: Getur nokkur stjórnmálamaður mætt óraunhæfum væntingum evrópskra kjósenda?“

Steingrímur segir að á Íslandi hafi ekki verið gripið til niðurskurðaraðgerða eins og nú sjáist svo víða í Evrópu. Lágtekjuhópar og atvinnulausir hafi verið verndaðir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi, mörgum að óvörum, hrósað Íslandi fyrir að viðhalda norrænu velferðarkerfi.

Ríkisstjórnarflokkarnir misstu 27,7 af fylgi sínu í kosningunum og bendir Steingrímur á að þetta fylgistap sé það mesta í Íslandssögunni. Flokkarnir tveir sem stuðluðu að því með stefnu sinni að hrun varð á Íslandi standi nú uppi sem sigurvegarar, sem sé með ólíkindum.

„Sumir segja að ríkisstjórnin hafi ekki stært sig nóg af árangri sínum. Óeining í samsteypustjórninni um innleiðingu erfiðra aðgerða var líka áhrifaþáttur. Aðrir segja að ríkisstjórnin hafi reynt að innleiða of margar breytingar of hratt - og það tekur tíma áður en íslensk heimili finna áhrif stefnubreytinganna,“ segir Steingrímur.

„Sannleikurinn er þó sá að umfang verkefnisins og væntinga almennings bar okkur ofurliði.“

Steingrímur segir að kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins feli í sér kunnuglega frasa um efnahagsbata með skattalækkunum og afnámi hafta. Óhóflegar aðgerðir hafi verið boðaðar til að pumpa upp neyslu þegar hagkerfið þurfi í reynd á því að halda að draga úr skuldum ríkissjóðs eftir taumlaust neyslufyllerí á árunum fyrir hrun.

„Atkvæðin voru greidd með skammtíma neyslu, í stað langtíma stöðugleika.“

Í þessu samhengi segir Steingrímur mikilvægt að velta því upp hvort ríkisstjórnir sem grípi til erfiðra aðgerða til að rétta úr kútnum geti haldið völdum nógu lengi til að fylgja löndum sínum út úr kreppunni, ef þær geta ekki samstundis fært almenningi samskonar lífsgæði og hann naut í bóluhagkerfinu.

„Niðurstöðurnar á Íslandi ættu að leiða til sjálfsskoðunar, ekki bara hjá stjórnmálamönnum heldur líka kjósendum. Eru væntingar okkar raunhæfar? Er eina leiðin til að mæta óseðjandi kröfum um hagvöxt sú að byggja hagkerfið á kviksyndi? Því það er uppskrift að endalausum vítahring af bólum sem þenjast út og springa.“ "

..."að halda að draga úr skuldum ríkissjóðs eftir taumlaust neyslufyllerí á árunum fyrir hrun...."

Breytir sú staðreynd engu að ríkissjóður var skuldlaus þegar koma að hruninu? Hvernig varð ríkissjóður skuldlaus? Á taumlausu neyslufylleríi? Hvað með 400 milljarða uppsafnaðan ríkissjóðahalla hans sjálfs eftir 4 ár í stjórn?

Ég hef lengi vitað að ósvífni þessa manns er einstök þegar kemur að stjórnmálum. Og sé honum ekki frýjað vits eins og Hvamms-Sturlu , þá er ástæða til að fara varlega í kring um hans málflutning.

Hann hafði að sönnu  vit á að skipta um formann í flokki sínum  fyrir kosningar. Kjósendur hefðu vafalaust sent VG undir 5 % markið og losað okkur við frekari ræðuhöld  Steingríms næsta kjörtímabil.  En því miður mun hann sitja næsta kjörtímabil á þingi vegna þessa herbragðs. Þar mun hann eyða tíma frá öðrum með endalausu froðufellandi ræðum og venjulegri rangupplýsingagjöf á borð við þær sem hann ber á torg fyrir umheiminn í skrifum sínum í FT. 

Á sínum tíma afgreiddu skynsamir menn á Alþingi Íslendinga, að tillögu Péturs Magnússonar, ofsafengin skrif Jónasar frá Hriflu með því að þegja hann. Þeir svöruðu í engu ásökunum hans eins og þær væru ekki frá heilbrigðum manni.   Það endaði með því að Jónas náði ekki lengur nægilega inn í umræðuna og fólk hætti að taka eins mikið mark á honum og fyrr. Sem hefur verið erfiðara fyrir þennan hinn mesta bardagamann landsins en stór högg og þung.

Ég held að það sé í þágu skilvirkni næsta kjörtímabils að afgreiða Steingrím J. Sigfússon með sama hætti. Láta hann þruma og þvæla sem hann vill en eyða ekki tíma í svara honum. Einbeita kröftunum í að leysa viðfangsefnin án þess að hlusta á leiðbeiningar hans og útleggingar. Hann er þátíð og best geymdur á öskuhaug sögunnar.

Það þjónar engum tilgangi fyrir nýja ríkisstjórn að eyða tíma í svör við órökstuddum áburði Steingríms J. Sigfússonar í pólitík.  Nýjasta ritsmíð hans í FT sannar að maðurinn vill hvort sem er hafa það sem rangara reynist í öllum málum. 

 

 


Skipting ráðuneyta

er vinsælt umræðuefni milli manna þessa dagana. Ég hef ekki spekúlerað mikið í því sjálfur enda auðvitað hef ég ekkert vit á því hvað það er að mynda stjórn.

En ég get virt fyrir mér pólitísk áhrif utanríkisráðherra síðustu áratugi. Mér hefur fundist að utanríkisráðherra sé kominn út á pólitískar hliðarlínur og það verði aðeins til að draga viðkomandi niður.

Ingibjörg Sólrún drap sjálfa sig á embættinu þegar hún fíflaðist í Öryggisráðsdæmið.

Össur Skarphéðinsson hefur fest sig í sessi sem pólitískur trúður og skrípill með starfsemi sinni í embætti með einsmáls stefnufesti sinni og takmarkalausri þjónkun við Stefán Fúla og hákirkjur Evrópusbandalagsins.

Halldór Ásgrímsson var búinn að fremja pólitískt harakiri í skugga Davíðs og Spaugstofunnar löngu áður en hann reyndi að endurreisa ímynd sína. En hún var þá slösuð til ólífis einsog menn muna og maðurinn er nú öllum gleymdur.

Að þessum hugleiðingum gegnum þá hef ég hneigst að því að annar hvor formaðurinn verði forsætisráðherra ( Já og get ég fyrir mig vel unnt Sigmundi Davíð þess enda hugsanlegt að slíkt sé til vinsælda fallið meðal kjósenda. En margir verða því auðvitað ósammála af mínum hörðustu flokksbræðrum). Sé ég þá fyrir mér að hinn formaðurinn verði fjármálaráðherra enda finnst mér að öllu skipti að þessir tveir starfi sem allra nánast saman. (Er ég ekki  eiginlega að heimta að þeir verði persónulegir vinir sem ég veit ekkert um og er kannski útilokað? Ég þekki nefnilega hvorugan neitt.)

Ég er ekki svo mikið að spá í það hverjir verði aðrir ráðherrar. Þeir verða hvort sem er fylgihnettir foringjanna og eiga að hafa vit á að brúka ekki kjaft við þá eða vera reknir ella. Þessi stjórn byggist á því trúnaðartrausti  sem er hægt að byggja upp á milli þessara tveggja flokka og formanna þeirra. Þeir sem ætla útaf sporinu í ráðherradrambi, fara að bulla um eigin samvisku og svoleiðis sérstöðu og spilla félagskapnum á að reka umsvifalaust. Nóg er af þingmönnunum.

En auðvitað hef ég ekkert vit á þessu máli hvernig á að skipta ráðuneytunum sem er auðvitað minnsta málið eftir málefnasamninginn. 

 

 


2400 mannslíf-

um er hægt að bjarga frá glötun ef gamli Kári klári fengi að ráða.

Mér þótti það skelfilegt á sínum tíma þegar gagnagrunnshugmynd hans var defakto eyðiögð með þessum flækjum frá persónuvernd, Það er engin leið að segja til um hversu mörg mannslíf hafa tapast að óþörfu ef þessi grunnur hefði verið settur upp eins og til stóð.

Öfund og tortryggni eyðilagði mest af því gagni sem hægt hefði verið að hafa af gagnagrunni á heilbrigðissviði. Allt fyrir nautheimsku og öfund sem birtist kristaltært undir yfirskini persónuverndar  í orðum einkagróðapungsins og grjótkastsstjórnandans Álfheiðar Ingadóttur. En hún spurði beint út við Kára hvort hann ætlaði að græða á því að ná sambandi við þessi 2400 mannslíf, og val yfirvaldanna var að að láta þau bara drepast ef svo bæri undir heldur en vara þau við hættunni.  Svona stjórnvöld eru hyski sem vonandi verður langt í að komist aftur til valda. 

Þegninn er í rauninni eign ríkisins frá vöggu til grafar. Hann fæðist með afskiptum ríkisins, elst upp og menntast á kostnað ríkisins, er skattstofn og fyrirvinna ríkisins, honum er hjúkrað  af ríkinu ef hann verður veikur og fær leg í kirkjugarði fyrir atbeina ríkisins. Hversvegna á hann bara aleinn skrokkinn sinn sjálfur? Ætti hann ekki frekar að falla í heilu lagi til líffæragjafa í þágu samborgaranna ef svo ber undir?

Er það einkamál  hjóna að geta ekki getið af sér nema fatlaða einstaklinga vegna genetískra eiginleika sem vita má fyrir? .Er það einkamál einstaklinga að breiða út kynsjúkdóma og HIV? Er það einkamál einstaklinga að vera haldnir arfgengri sjúdómaáhættu sem hægt er að vara við í tíma?

Persónuvernd gengur allt of langt í þessu þjóðfélagi sem heldur sakaskrá og kennitölur og njósnar um bankareikninga fólksins. Hundeltir fólk með hverskyns áreiti og eignaupptökusköttum eins og auðlindaskatti og bótaskerðingu við öll tækifæri.

Mér finnast 2400 mannslíf sem hægt er að bjarga með skynsemi vera einshvers meira virði  heldur en einhver hundalógíkk um heilaga persónuvernd. 


Þráhyggja

margra dreifbýlismanna stendur í vegi fyrir framförum. Við blasir að 12.5 km göng undir Fjarðarheiði eru bráðnauðsynleg fyrir alla landsmenn. Ekki bara Seyðfirðinga og Héraðsmenn, heldur alla þjóðina.

Í dag skrifar Þorkell Jóhannson í Mbl. um nauðsyn þess að grafa þessi göng strax að loknum Norfjarðargöngum. Áðurnefnd þráhyggja  veldur þessari þröngsýni mannsins. Með Héðinsfjarðargöngum og Vestfjarðargöngum þar áður var því komið inn hjá landsmönnum að göng væru einskonar  þjóðvegir sem enginn ætti að borga sérstaklega fyrir að keyra. Gott ef ekki að Suðurnesjamenn hafi komið þessu sjónarmiði á flot þegar þeir brenndu tollskýlið á Keflavíkurveginum fyrir margt löngu. Þeim fannst vegtollurinn svona  óréttlátur.

Í Ameríku er það viðtekin venja og þykir sjálfsögð að umferðin greiði fyrir afnot af greiðustu vegunum.Menn eru með tæki í bílrúðunni sem sér um að rukka í gegnum Visa-kortið. Svo miklar smáupphæðir að menn taka varla eftir því.

En á Íslandi  geta menn ekki hugsað sér að neitt sé gert nema sem allir landsmenn borgi hvort sem þeir nota þetta eða ekki. Því skrifar þessi annars framfara sinnaði Austfirðingur á þennan hátt. Það sér hver heilvita maður að það þarf að grafa þessi göng ekki seinna en strax ef ekki í gær.  Því til fyrirstöðu er ekki annað en þessi þráhyggja að ekki megi taka veggjald af notkun.

Það er engin ástæða til að bíða með þessa bráðnauðsynlegu framkvæmd sem er Fjarðarheiðargöng, sem er miklu meira aðkallandi en Vaðlaheiðargöng þó góð séu. Drífum okkur í þetta strax og látum göngin borga fyrir sig eins og Hvalfjarðargöngin gera. Við eigum að setja vegtolla um leið á öll önnur jarðgöng í leiðinni og þá verða þessi gangnagjöld laufalétt fyrir alla landsmenn.

Hættum að láta þráhyggjuna um frígöng tefja fyrir framförum í samgöngumálum þjóðarinnar.

 


Væntingar

virðast miklar hjá fólki til þess að ný ríkisstjórn birtist. Það er eins og einhver barnsleg trú sé ríkjandi í hugum fólks á það, að alger umskipti muni verða á högum hrjáðra og skuldsettra, skattpíndra ráðherra sem styrkþega. Með nýrri ríkisstjórn komi lausnir sem muni gerbreyta stöðu heimilanna og færa öllum björg í bú.

Vissulega eru þessar tilfinningar að vonum. Svo lengi hefur vonleysið þjakað sálirnar síðasta kjörtímabil. En er það varlegt að setja svo miklar væntingar til nýrrar stjórnar? Vita ekki allir að ástandið er grafalvarlegt. Snjóhengjan sem vofir yfir þjóðarbúinu í formi gjaldeyris sem vill yfirgefa landið skiptir þúsundum milljarða. Við eigum þá ekki til. Það er það eina sem við vitum  fyrir víst. Formennirnir okkar á Þingvöllum síðast eru ekki töframenn frekar en ég og þú.

Svo vitum við líka að á þessum tíma sendir slitastjórn Landsbankans út beiðni um að Seðlabankinn reiði fram 200 milljarða sem henni dettur í hug að greiða erlendum kröfuhöfum. Aðeins byrjun á slíkum greiðslum. Seðlabankinn segir skiljanlega nei.

Í fréttum hefur verið að bankastarfsmenn eru hér miklu fleiri  en erlendis gerist og bankaútbú líka miklu fleiri. Getur ekki verið að Landsbankanum sé hreinlega ofaukið. Einfaldast sé að lýsa bæði nýja Landsbankann og þann gamla gjaldþrota og skipa skiptastjóra. Sá fer yfir kröfurnar og greiðir út í hlutfalli. Í íslenskum krónum aðeins því eru þetta ekki íslensk fyrirtæki með skilaskyldu á gjaldeyri?

Féll krónan núna einungis af tilhugsun Seðlabankans einni til 200 milljarðanna sem ekki eru til? Hvað stýrði gengishækkuninni undanfarið? Var það meðvitað hjá einhverjum Guðjóni bak við tjöldin  til að bæta viðskilnað síðustu ríkisstjórnar og gera viðtökubú þeirrar nýju  verra?  Þarf nokkuð að vera að rekast í versluninni að lækka vöruverðið úr því að krónan er að dúndra niður aftur?

Þær voru ekki varanlegar væntingarnar um léttari tíð og lægra vöruverð ef allt stefnir lóðbeint niður aftur.  

Væntingar eru líka um vor í lofti. Birtan og sólskinið vekja ósjálfrátt væntingar í brjóstum okkar.Fuglarnir eru í mklum önnum. Hjá þeim er vorið komið.

Væntum betri tíðar góðir landsmenn, það eitt og sér léttir lundina.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 61
  • Frá upphafi: 3418280

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 61
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband