Leita í fréttum mbl.is

Ég er stoltur

af því að vera Sjálfstæðismaður í dag eftir að hafa hlustað á Bjarna Benediktsson, formann flokksins míns, á Sprengisandi á Bylgjunni rétt í þessu.

Bjarni sýndi í þessu viðtali, og er raunar búinn að sýna það undanfarið hvar sem til hans hefur heyrst, að hann hefur gersamlega aðra sýn á framtíð þessa lands heldur en þingmenn stjórnarflokkanna. Það var sama hvar borið var niður, það var sama hvað Sigurjón reyndi að þvæla honum upp úr staðalspurningum vinstra liðsins og fjölmiðlanna, Bjarni Benediktsson hafði yfirveguð svör við öllu.

Það er ekki spurning í hans huga um hvað Sjálfstæðisflokkurinn er að mælast með í fylgi um þessar mundir. Það sem mælt er núna dugar flokknum til að ná 26 þingmönnum sem er mesti þingmannafjöldi sem hann hefur nokkru sinni náð í sögu sinni. Auðvitað er meira betra. En á formaður flokksins að liggja í svona pælingum eða á hann að tala við fólkið í landinu og skýra það fyrir því hvað flokkurinn vill gera í ríkisrekstrinum, í atvinnumálunum, í málefnum heimilanna, í peningamálum?

Bjarni fór yfir öll helstu vandamál þjóðarinnar okkar af yfirvegun og festu. Hann sýndi í einföldu máli hversvegna það hefur engan tilgang að velta sér stöðugt upp úr staðalspurningum fjölmiðlanna. Það er heildarmyndin sem skiptir máli og samhengi hlutanna. Hann kvaðst sannfærður um að hann hefði gefið kost á sér til að leiða Sjálfstæðisflokkinn af því að að hann tryði því að hann gæti það og væri best til þess fallinn um þessar mundir með 10 ára þingreynslu að baki.

Bjarna rak hvergi í vörðurnar svo að ég, sem hinn smæsti af öllum smáum flokksmönnum, tendraðist bókstaflega upp og fann til stolts að eiga foringja sem þannig getur talað eins og beint út úr mínu hjarta. Að mínu viti er Bjarni að tala mál sem þjóðin getur skilið ef hún nennir að hlusta. Bjarni bæði getur og vill.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn skyldi ætla að reka virka áróðursdeild þá er efniviðurinn fyrir hendi til að berjast með. Það verður nálægð formanns flokksins við almenning sem mun skipta máli. Og hún mun væntanlega vaxa þegar nær dregur kosningum.

Ég skora bara á fólk að spila upptökuna af seinni hluta Sprengisands í dag og dæma sjálft. Það er vænlegra heldur en að ég sé að leika einhvern millilið hér á mínu litla bloggi.

En í dag er ég stoltur af Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Björnsson

Foringjadýrkun ykkar sjálfstæðismanna er afar áhugavert fyrirbæri, svona útfrá sálfræðilegum pælingum.

Þetta virðist helst einkenna íhaldssamt, þjóðernissinnað og guðhrætt fólk sem skortir sjálfstæða hugsun og sem þykir gott að láta teyma sig á asnaeyrunum. Oft fylgir þessu fána-blæti og dálæti á einkennisbúningum.

Verst er að foringjarnir reynast oft siðlausir glæpahundar auðvaldsins sem notfæra sér grandvaraleysi almúgans til að innleiða fasisma.

Hér í Þýskalandi var fólk afar stollt af sínum foringja á sínum tíma og öskraði svo því lá við yfirliði...Ein Reich, Ein Volk, Ein Führer!

Það fór sem fór...

Róbert Björnsson, 2.12.2012 kl. 14:16

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll Herr Robert

Það vill nú svo til að ég bjó 5 ár í Þýskalandi og veit að fólkið þar ber yfirleitt virðingu hvort fyrir öðru þó að skoðanaágreiningur sé milli manna eins og gengur. Vonandi lærir þú eitthvað af þessu með lengri dvöl í landinu.

Trier var ein af mínum uppáhaldsborgum meðan ég vandi komur mínar til Þýskalands. Nú liggja mínar leiðir meira til FLorida þar sem verðlag er enn lágt. Bandaríkjamenn eru yfirleitt kurteisir og tillitssamir og þægilegir í umgengni.

Ég nenni ekki að svara þér að öðru leyti því ég held að það sé ekki til neins. Ég get ekki greint í hvaða einkennisbúningi þú ert en mér sýnist þú ekkert óánægður með þig til líkama eða sálar.

Halldór Jónsson, 2.12.2012 kl. 14:35

3 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Halldór, þú hefur bent á að þeir sem gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn hvað mest, þekkja hann ekki neitt.

Það er slæmt því flokkurinn þarf að fá málefnalega gagnrýni og það er gott ef hún kemur frá andstæðingum hans. Gallinn er sá að okkar andstæðingar kunna hvorki á staðreyndir né vitrænar rökræður, þeir fáu sem kunna það þora ekki að tjá sig af ótta við hina.

Augljóst er að Róbert þekkir ekkert til Sjálfstæðisflokksins, miðað við það sem hann segir í ofanritaðri athugasemd.

Foringjadýrkun hefur aldrei þekkst í Sjálfstæðisflokknum, en við höfum oft átt góða foringja sem óhjákvæmilegt er að bera virðingu fyrir. Virðing og dýrkun er ekki það sama.

Ólafur Thors var óumdeildur leiðtogi, en hann þurfti oft að taka slaginn við flokksmenn, nefna má stofnun fjárhagsráðs, þá klofnað flokkurinn og Lýðveldisflokkurinn var stofnaður. Svo getum við farið nær okkur í tíma og nefnt að Geir Hallgrímsson var felldur í prófkjöri. Davíð Oddsson var gerður afturreka með hugmyndir sínar varðandi dreifða eignaraðild á bönkuunum, sumir trúa því samt enn að hann hafi ráðið öllu, en sjálfstæðismenn heita m.a. sjálfstæðismenn vegna þess að við höfum sjálfstæðar skoðanir og flokksmenn er langt frá því að vera einhuga varðandi sína foringja.

Svo fram til nútímans, núverandi formaður samþykkti Icesave III. og hann þurfti af þeim sökum að þola harðar skammir frá sínum samflokksmönnum og margir hafa ekki fyrirgefið honum það ennþá.

Þótt bent sé á það sem formaðurinn gerir vel, Bjarni hefur sína styrkleika eins og allir og hann á vonandi eftir að sanna sig mun betur, en það getur hann ekki gert fyrr en hann fær tækifæri til að leiða ríkisstjórn.

Ef menn upplifa það að sitja landsfund, þá komast þeir að sannleikanum. Á landsfundinum árið 2010 var forystan gerð afturreka með tillögu sína varðandi ESB.

Það er hægt að koma með fjölmörg dæmi sem afsanna bullið varðandi Fpringjadýrkun okkar sjálfsæðismanna, en lygin er lævís og lipur og hún smígur alltaf lymskulega í umræðuna því mörgum finnst hún hljóma betur en sannleikurinn.

Jón Ríkharðsson, 2.12.2012 kl. 14:39

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Fyrirgefðu Halldór minn, ég er alltaf að flýta mér á lyklaborðinu.

Vitaskuld átti að standa í þriðju neðstu málsgreininni: "Þótt bent sé á það sem formaðurinn gerir vel, þarf það ekki að vera foringjadýrkun".

Og í neðstu málsgrein átti að standa "foringjadýrkun" en ekki Fbringajdýrkun, biðst velvirðingar á því.

Jón Ríkharðsson, 2.12.2012 kl. 14:44

5 Smámynd: Róbert Björnsson

Hehe takk fyrir góð tilsvör Halldór - og jú rétt er það, ég verð víst að læra að umbera ykkur hægrimennina og hætta að stríða ykkur...allavega gera það á kurteisari máta enda sjaldnast illa meint! ;)

Það veit hamingjan að nóg er af kaþólskum kristilegum-demókrötum hérna sem stundum ganga alveg fram af mér guðlausum ESB-sósíal-demókratanum!

Og jú, verðum við ekki allir að hafa smá húmor fyrir sjálfum okkur?

Sammála þér með Ameríkanana, þótt skrítnir séu, þá eru þeir þó yfirleitt þægilegir í umgengni og kurteisir. Flórída er dýrðarstaður, sérstaklega Key West og Cape Canaveral þar sem auðvelt er fyrir flug- og tækni nörda eins og okkur að gleyma sér í nokkra daga. Samt gæti ég ekki fyrir mitt litla líf búið í sunnanverðum bandaríkjunum innanum alla þessa Repúblikana...fékk nóg af því í 2 ár í Oklahoma. Kunni betur við mig í Minnesota þar sem ég bjó í ein 6 ár.

Bestu kveðjur,

Róbert Björnsson, 2.12.2012 kl. 15:01

6 identicon

Hér þykir mér Lilja dýrt kveðin.

Hámark snilldarinnar eru þó gullkornin hans Nonna  Ríkharðs:

"Foringjadýrkun hefur aldrei þekkst í Sjálfstæðisflokknum, en við höfum oft átt góða foringja sem óhjákvæmilegt er að bera virðingu fyrir."

Sennilega er Styrmir gáttaður á þessum málatilbúnaði! 

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 2.12.2012 kl. 17:59

7 identicon

Sælir æfinlega; Halldór fornvinur - og aðrir góðir gestir, þínir !

Hilmar stórfrændi minn Hafsteinsson !

Jah; ég veit svo sannarlega ekki, hvar ég ætti að byrja, í andmælum mínum, á þessrri tignun Halldórs; hins mæta verkfræðings, á Engeyjar lúpunni; þér að segja.

Kannski; ég taki bara upp á því, að tilbiðja Baal karlinn, sem hvað vinsælastur var Guða, austur í Miðjarðarhafs botnum, framan af Fornöldinni, og inneftir, Hilmar minn ?

Trú vart öðru; fyrr en ég tek á, að Halldór sé einfaldlega, að hæðast að dreng skömminni úr Engey, á svona hárfínan hátt, sem Bjarna tetrið verðskuldar, svo fullkomlega.

Af hverju; dettur mér jafnan í hug, Marglyttur undirdjúpanna, þegar þetta mannkerti ber á góma, sem Bjarni Benediktsson heitir, piltar ?

Með beztu kveðjum; sem öðrum fyrri - úr Árnesþingi / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.12.2012 kl. 18:19

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Ég vil bæta við hér, án þess að svara hverjum og einum lið fyrir lið, að standi maður sig vel í einhverju þá stendur ekki á mér að viðurkenna það. Bjarni stóð sig afburða vel í dag en enginn ykkar hefur lagt á það persónulegt mat. Það á ekkert skylt við dýrkun í mínum huga heldur mat á frammistö0ðu. Ég var ekki sammála Bjarna í afstöðunni til Icesave og þjóðin ekki heldur. Varla telst það dýrkun af minni hálfu.

Ég hafði stundum gaman af því að hlusta á Steingrím J. hér í gamla daga. kjafturinn var stundum kyngimagnaður og skemmtilegur. Ég var ekkert feiminn við að hrósa honum þegar það átti við. Eins var þetta með Jón Baldvin, hann var oft með skemtilegan strigakjaft sem ég hafði gaman af og hrósaði oft upphátt. En að ég dýrki þessa kalla væri ofsagt. Þetta blaður um foringjadýrkun er bara heimskuleg. Ég sé ekki einu sinni "forstokkaða ESB guðleysingja" dýrka Jóhönnu Sig eða Merkel, menn dýrka ekki Obama eða Clinton eða Reagan þó menn haldi mismikið upp á þá. Jón Ríkharðsson fer með yfirvegað mál um Sjálfstæðisflokkinn og þeir sem nenna að liggja í að snúa útúr öllu sem viðkemur þeim flokki en láta aðra í friði, þeir verða bara að fá að verða sér til skammar vegna augljósrar heimsku sinnar eða götustrákseðli.

Við gætum alveg farið í keppni í fúkyrðum og ég rakkað niður allt sem þið viljið verja, en ég sé ekki nein tilgang í því.

Óskar min fornvinur. Ætlar þú vinsamlegast að hlusta á upptökuna frá í dag. Af gunnmúruðu hyggjuviti þínu sem stutt er afburða þekkingu á hinum fornu stoðum menningar vorrar þá hygg ég að þú munir sjá að skörulega er flutt og mannvit mikið að finna í orðum Bjarna burtséð frá hvaða eyjar þú kannt að vilja kenna hann við og ættboga.

Halldór Jónsson, 2.12.2012 kl. 19:29

9 identicon

Komið þið sælir; á ný !

Halldór verkfr. !

Þakka þér fyrir; vel meintar ályktanir þínar, um þekkingu mína á fornum fræðum, en,............. ætli ég geti ekki, gert orð Sókratesar heitins að mínum ''að því meira sem hann las, því gjörla vissi hann, hversu lítt hann kunni - og vissi'' , fornvinur góður.

Hvar; ég hefi öngva tiltrú lengur - né framar, á íslenzkum stjórnmálamönnum, eftir þá sviksemi og hrakvirki, sem þeir hafa sýnt almenningi hérlendis, hvað þá Gylliboða- og loforða flaum ýmsan, sé ég ekki nokkra ástæðu til, að fara að þinni vel meintu og drengilegu ábendingu, um að hlýða á Bjarna í Bylgju samtalinu árdegis, hvar; ég hefi það orðið fyrir reglu, að skrúfa niður í Sjónvarpi / Útvarpi og Tölvu þegar þetta, fólk tekur til, að láta móðann mása Halldór minn.

Því; miður, fornvinur sæll.

Með sízt lakari kveðjum; en þeim fyrri - og áður /  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.12.2012 kl. 21:47

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Óskar fornvinur góður

Í Svartaskóla sem ég gekk á fyrir margt löngu var mér kennt heilræðavísa sem ég man nú aðeins eina línu úr:

"En þursinn heimskur þegja hlýtur, sem þrjóskast við að læra."

Maður verður aldrei svo gamall að maður geti ekki eitthvað lært. En til þess er ekki góð byrjun að ljúka nösum og eyrum. Audite alterior parte eða einhvernveginn þannig því látínan er mér orðin hverful

sem stefnuskrá Vinstri Grænna í túlkun Steingríms, sögðu látínuspekingar í fornöld þegar Íslendingar voru þeir menn að sögn Erlings að það fóru 10 í Gretti og höfðu hann ekki.

Það hefur verið fagurt í 'Arnesþingi þetta haust og ég vona að þú lítir til lofts og fyllist bjartsýni á betri tíð, þegar Bjarni fer að hafa meiri áhrif fyrir land og lýð og vatnshverflahjól mikil ryðjast ofan í Þjórsá neðri.

Halldór Jónsson, 2.12.2012 kl. 23:13

11 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Heilræðavísur Hallgríms voru gott veganesti sem amma sáluga gaf mér til að geta skilið lífið betur.

"Oft er sá í orðum nýtur,

er iðkar menntun kæra,

en þursinn heimskur þegja hlýtur,

sem þrjóskast við að læra."

En Hallgrímur sá ekki margar aldir fram í tímann og hann sá ekki netið fyrir. Nú eru þursarnir heimsku, sem Hallgrímur vitnar til farnir að tjá sig á fullu og þykjast ansi góðir. Ágætt dæmi er Hilmar Hafsteinsson, sem gerir gys að því sem ég sagði um meinta foringjadýrkun sjálfstæðismanna sem aldrei hefur verið til staðar. Vafalaust má finna sjálfstæðismenn sem iðka foringjadýrkun en þeir eru ekki margir.

Í stað þess að benda á dæmi, þá kaus hann að hæðast að mér. Hæðnin býtur ekki, heldur hugsa ég til visku Hallgríms, en hann sá fyrir mannlegt eðli þótt hann hafi ekki séð allt fyrir, enda var hann mannlegur eins og við öll.

Jón Ríkharðsson, 2.12.2012 kl. 23:40

12 Smámynd: Halldór Jónsson

Góði vinur Jón Ríkharðsson

Ég gerði mér ferð á bloggsíðu Hilmars hafsteinssonar. Þar standa sessi orð:

"Þrátt fyrir mikilfenglegan og stanslausan áróður Móaillfyglisins DO og hans hyskis, þ.á.m. leigupennans Palla Vill, hafa einungis 9426 ruglaðir landsmenn séð ástæðu til að hvetja til stjórnarskrárbrots.

FLokkurinn ærulausi og margdæmdi kippir sér hins vegar ekki upp við að hvetja réttkjörin stjórnvöld til að afsala sér völdum, þrátt fyrir að stjórnarandstaðan hafi runnið eftirminnilega á rassinn með vantrauststillögu og þori ekki fyrir sitt litla líf að leggja aðra fram!

Réttast væri að villuráfandi Íslendingar á www.kjosendur.is vendu sínu kvæði í kross og skoruðu á ritstjóra Móafrétta að ganga á fund eigenda blaðsins (les: LÍÚ) og biðjast lausnar fyrir sig og ritstjórn sína - farið hefur fjárdráttur minni."

Segir þetta ekki talsvert um innréttingu mannsins og hugarheim? Hvernig skyldi honum líða dags daglega?

Halldór Jónsson, 3.12.2012 kl. 08:23

13 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Kæri vinur, ég las þetta hjá stráknum og gat ekki annað en brosað.

Ég gæti trúað að honum líði nokkuð vel, svona dags daglega og sé ansi kátur með sig svo getur líka verið að honum líði illa sökum minnimáttarkenndar. Kanski hefur hann verið lagður í einelti í æsku og vill hefna sín, hver veit? Erfitt er að segja til um innrætið því ég þekki hann ekki neitt, en hafi hann góða greind, þá fer hann afskaplega dult með hana.

Ég var til skammst tíma með manni á sjó sem tjáði sig á svipuðum nótum, nema að hann vildi hengja "helvítis lessuna, rauðgrana og sköllóttu kellinguna", svo vildi hann skjóta alla þingmenn Sjálfstæðisflokksins, kjöldraga þá og limlesta eins mikið og mögulegt er.

Þetta er alveg prýðiskall, þótt hann tjái sig á þessum nótum. Oft bað ég hann um rök, en hann hafði engin því hann nennti ekki að kynna sér staðreyndir.

Við vorum ágætir vinir. Á togurunum eru tveir saman á hlera og í lestinni, við vorum oftast saman og það gekk vel. Sem betur fer hefur þessi ágæti maður hvorki aðgang að tölvu né áhuga á að tjá sig á netinu, ég hrósaði honum oft fyrir að vera svona gamaldags í hugsun.

Það eru því miður margir sem slá einhverju fram, án þess að vita hvað þeir eru að segja. Hilmar Hafsteinsson getur þess vegna verið ágætis náungi sem hefur gaman af að stuða.

Hann hefur allavega vit á að birta ekki mynd af sér, þannig að honum er þá ekki alls varnað.

Jón Ríkharðsson, 3.12.2012 kl. 10:30

14 Smámynd: Halldór Jónsson

Satt segirðu Jón.

Það er oft lítið að marka hryssingslegt yfirbragð og fúkyrðaflaum. "Sérhver maður hefur eitthvað gott við sig" sagði ein þýsk vinkona mín við mig eitt sinn,"maður verður bara að finna það". Orð sem hún tók áreiðanlega ekki eftir þegar hún sagði það en þau festust í mér og lifa þó hálf öld sé liðin. Að greina hismið frá kjarnanum er önnur mynd hugsunar sem maður þarf að temja sér. Það er sjaldan allt sem sýnist við fyrstu sýn og venjulega eru vandamálin eins mikil og þau kunna að virðast við fyrstu skoðun.

Halldór Jónsson, 3.12.2012 kl. 12:07

15 Smámynd: Halldór Jónsson

vandamálin ekki eins mikil átti það að vera

Halldór Jónsson, 3.12.2012 kl. 12:08

16 identicon

Ég er stoltur!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 3.12.2012 kl. 13:51

17 identicon

„Ég er búinn að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ (Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi Morgunblaðsritstjóri)

Verkfræðingurinn og vinur hans hafa ekkert lært. Þeir eru innvígðir og innmúraðir ógeðslegir uppklapparar ógeðslega þjóðfélagsins.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 3.12.2012 kl. 16:08

18 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Sammála þér Halldór minn og nú skulum við leyfa Hilmari að eiga sviðið.

Það er skrambi gott hjá honum að vitna orðrétt í Styrmi, hann sýnir þó lit og vitnar í heimildir. Það er meira en margur af hans sauðahúsi gerir.

Jón Ríkharðsson, 3.12.2012 kl. 18:19

19 identicon

Komið þið sælir á ný; piltar !

Hilmar stórfrændi; af Gamla Hrauns meiði !

Ég frábið mér; þau stóru orð, sem þú viðhefur, um Halldór fornvin minn Jónsson; þér, að segja.

Við Halldór; höfum raunar aldrei hitst, en hann er einn minna gegnheilu spjallvina, og af góðu og gegnu fólki kominn, Hilmar minn.

Þú mátt alveg; punda á Kalda stríðs jálkinn Styrmi, mér; að meinalausu, enda minnir hann mig jafnan, á þá Ulbricht gamla - svo og Honecker, hina Austur- Þýzku, þegar hann kemur fram, í ýmsum fjölmiðla, blessaður karlinn.

Þeir; hollvinir mínir, Halldór verkfr., svo og hinn mæti Sæfari, Jón Ríkharðsson, munu eflaust sjá sína villu, þegar við þeim blasir skíman, við enda ganganna, en HVORUGUR þeirra verðskulda illyrði, á nokkurn handa máta.

Jóni Ríkharðssyni; kynntist ég, Sumarið 2010 - og þar fer vandaður og gegnheill drengur, Hilmar minn.

Þeir Halldór; eiga að hafa sinn tíma, sem þeir þurfa til, að sjá við frjálshyggju forynjunni, frændi minn góður.

Ekki síðri kveðjur; en öllum öðrum - og fyrri /   

 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 3.12.2012 kl. 21:07

20 identicon

Ávallt sæll Bergsættarmeistari.

Fyrir þín orð þá mun ég gefa þessum villuráfandi sauðum afréttarland á norð-austanverðu landinu, fjarri allri mannabyggð.

Þar mega þeir, sakir vináttu við þig, leita að bláum forystuhrúti svo lengi sem jörð skelfur og fjalldrapinn grær.

Framvegis mættir þú þó endurskoða vináttu þína við blámenn.

Megi landvættirnir blessa þig og tröll og huldufólk tigna þig frændi.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 3.12.2012 kl. 21:35

21 Smámynd: Halldór Jónsson

Óskar minn Helgi

Það sannast enn hið fornkveðna að berr sé hver að baki nema sér bróður eigi. Ég vil þakka þér fyrir að ganga á hólm við drekann Hilmar fyrir mínar sakir og annarra blámanna.

Það hafa margir góðir menn í aldanna rás liðið píslarvætti eins og þeir Jesús og Brúnó. Báðir féllu fyrir heimskunni og trúgirninni eins og blessuð gamla konan sem lagði sprekið sitt í bálköst Gordíanós. Og hann sagði aðeins: Ó þú heilaga einfeldni. Gæti einn meiður í Hraunsætt nokkuð verið komin frá Ítalíu?

Halldór Jónsson, 3.12.2012 kl. 23:38

22 Smámynd: Halldór Jónsson

PS Hilmar

Er þetta nýleg ljósmynd af þér sem þú notar?

Halldór Jónsson, 3.12.2012 kl. 23:39

23 identicon

Ó Jesús, Brúnó besti

og blámaðurinn mesti.

Æ lof mér sprek að láta

á lastabál þitt káta.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.12.2012 kl. 08:52

24 identicon

"Þegar kom að því að greina frá því hvenær það var sem hann skrifaði undir brást hins vegar minni Bjarna. „Ég man það ekki nákvæmlega. [...] Það hefur verið mánudaginn 11. febrúar 2008 eða þriðjudaginn 12. febrúar.“ Hann skýrði svo frá því að hann myndi það ekki sjálfur en dagsetningarnar séu byggðar á samtali við Einar Sveinsson, sem átti í félögunum."

(Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag)

Arnarnesveikin, sem hrelldi Steingrím Hermannsson fyrir rétti um árið, virðist hafa heltekið hann Bjarna þinn.

Mikið hlýtur þú að vera stoltur af manni sem kann ekki, veit ekki, skilur ekki og man ekki! 

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.12.2012 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 3418431

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 65
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband