Leita í fréttum mbl.is

Misskilningur í Mogga

kemur fram í leiðaranum á 17.0kt.2014.  Mann grunar helst að Davíð hafi brugðið sér af bæ úr því að svona leiðari birtist í Mogganum sem venjulega  aldrei lýgur.

Þarna segir:

"Landsvirkjun er eitt mikilvægasta fyrirtæki á Íslandi og hefur í eðli sínu slíka yfirburðastöðu og einokunarstöðu, að eðlilegast er að það sé í ríkisins eigu eða í sameign ríkisins og helstu sveitarfélaga, eins og áður var og fór vel á. Það er heldur ekki óeðlilegt að fyrirtækið horfi til þeirra sjónarmiða sem mestan stuðning hafa á Alþingi og í ríkisstjórn á hverjum tíma, þ.e. í málefnum virkjanakosta og stærstu viðskiptavina. En þar með hefur fyrirtækið ekki afsalað sér því að láta sjónarmið sín heyrast, þótt þau kynnu að vera önnur en fyrrnefnd sjónarmið.

 

Á síðasta kjörtímabili gekk Landsvirkjun lengra í þjónkun sinni við stjórnvöld en áður hefur gerst. Það var ekki aðeins, að fyrirtækið gerði aldrei nokkurn ágreining við stöðnunarstefnu fyrrverandi ríkisstjórnar í málefnum sem snertu fyrirtækið. Forystumenn þess gengu miklu lengra en það. Þeir gerðu tortryggilega stefnu þeirra, sem áður höfðu komið að uppbyggingu Landsvirkjunar með glæsibrag og gert hana að því stórveldi sem hún er í dag. Gengið var lengra. Látið var undan þrýstingi stjórnvalda og tekið þátt í því að magna upp hræðsluáróður um þau ósköp sem myndu gerast leyfði þjóðin ekki þeim Jóhönnu og Steingrími að troða Icesave-samningunum ofan í kokið á sér. Var sú framkoma með ólíkindum.

 

Vindmyllubreiður sem útbía landslagið víða erlendis eru neyðarbrauð þjóða sem búa við slaka kosti í raforkumálum. Þær eru síst ásjálegri en raforkumöstur sem fara í taugarnar á mörgum hér á landi og hægt er að fækka smám saman, þar sem kostnaður við jarðstrengi fer lækkandi. En ókostir vindmylla, sem möstrin hafa ekki, eru margir. Þeim fylgir mikill og óþægilegur hávaði og þær sálga milljónum fugla árlega.

 

Íslendingar þurfa sem betur fer ekkert á vindmyllum að halda. Þó ákvað Landsvirkjun í bríaríi að reisa tvær slíkar. Einu rökin fyrir því, að kasta hundruðum milljóna á glæ í slíkt verkefni, gat verið ef Landsvirkjun taldi óupplýst, hvort vindar blésu á Íslandi og treysti ekki Veðurstofunni til að veita upplýsingar um það.

 

Ákafi fyrirtækisins við að vinna við svokallað »sæstrengsverkefni« er eiginlega enn skrítnari, þótt þar fylgi hvorki hávaðamengun né fugladráp. Það mál er kynnt í óskiljanlegum sefjunarstíl, sem er þessu mikla fyrirtæki ekki sæmandi.

 

Það er ágætt að Landsvirkjun hefur ekki klínt sér pólitískt með sama hætti utan í núverandi ríkisstjórn eins og hina síðustu. En óneitanlega er skrítið að hún sé enn föst þar...."

Þarna eru fullyrðingar á ferð sem eru bæði byggðar á bulli og rangupplýsingum þót niðurlagið sé ágætt.

Í fyrsta lagi þurf Íslendingar á vindorku að halda. Virkjanlegt vatnsafl er takmarkað.  Hitasvæðin eru óstöðug og takmörkuð af afli. Vindurinn er ótakmörkuð auðlind á landinu okkar og hefur verið það nokkuð lengi.

Búðarhálsvirkjun var 98 Mw og kostaði 28 milljarða. Vindmyllur Landsvirkunar eru kostuðu 300 milljónir á Megawattið. Nánast sama í stofnkostnað og vatnsaflið. Vindmyllan slitnar ekki þegar hún snýst ekki í meira en helminginn af tímanum. Sé skrúfaðir 150 boltar þá er vindmyllan farin og ekkert sést eftir í náttúrunni. Hvað þarf til að eyða umhverfisáhrifum frá Búðarhálsvirkjun? Hvað kostar endurrheimtin á náttúrugæðunum ef við látum kjarnorkuna leysa vatnsorkuverin af hólmi þegar tímar líða? 

Skríbent Moggans hefur greinilega ekki farið að skoða eða hlusta á myllur Landsvirkjunar. Þær eru með nýjustu tækni nánast hljóðlausar. Og mér vitanlega hefur enginn fugl drepist. Leðurblökur í Danmörku fljúga á vindmyllur í myrkri þar sem þær fljúga blindflug eftir sónar.

Íslenskir fuglar eru flestir farfuglar sem eru hér bjarta tímann. Þegar þeir koma hingað hafa þeir séð fleiri vindmyllur og vindmyllugarða en þessi velmeinandi Moggahöfundur. Ég hef unnið við vindmyllur í Þykkvabæ núna mánuðum saman. Mér vitanlega hefur ekki einn fugl flogið á þær. Álftahópur flaug í fylkingu milli þeirra í lægri hæð  en snúningsöxullinn og það er til mynd af honum. Flugvélar fljúga í kringum þær og á milli þeirra. Grasigróið land er í kring um þær og kýr, hestar og kindur eru á beit án þess að líta upp.

Auðvitað má blaðamanni finnast vindmyllur forljótar og ljótari en háspennumöstur. En mér rennur meira til rifja að sjá hvernig Orkuveitan er að eyðileggja háspennumöstrin okkar allra á Hellisheiði með brennisteinsútblæstri frá Hellisheiðarvirkjun. Þeim væri held ég nær að búa til brennisteinssýruí stað þess að vera að búa til jarðskjálfta með einhverri misvellukkaðri niðurdælingu. Horfið bara á möstrin og spyrjið ykkur hver eigi að borga? Hjá hverjum reikningurinn?

Það er líklega líkt með Moggann og Geir sáluga í Eskilhliíð. Hann sagði við einn vin sinn: "Veistu ég hef aldrei verið nótt að heiman. Ég fór einu sinni dagpart austur fyrir fjall. Og það get ég sagt þér Grímur, að það var allt komið í vitleysu þegar ég kom heim aftur."

Davíð fer vonandi að koma heim bráðum aftur  svo að lesendur þurfi ekki að lesa svona misskilningsleiðara í Mogga mikið oftar því laugardagsleiðarinn var heldur ekki mikið betri svona í framhjáhlaupi. 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 3418266

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband