Leita í fréttum mbl.is

"Þá hló Marbendill

hið þriðja sinn er bóndi barði fjársjóðaþúfuna." Hafði þá Marbendill þrívegis orðið vitni að óvitaskap sjávarbóndans við (Vatnsleysu?)ströndina.

Út af þessu leggur höfundur Reykjavíkurbréfs í dag. Hvetur hann menn til að hlýða á Kastljósviðtal Helga Seljan við frú Rögnu Árnadóttur fyrrverandi dómsmálaráðherra í norrænu velferðarstjórninni og nú aðstoðraforsjóra Landsvirkjunar. 

Ég gerði það rétt í þessu og ég sé að ég þarf hvergi að breyta fullyrðingum mínum um að fluggögn þurfi ekki að vera samhljóða niðurstöðum úr tölvuforritum ef dæma skal flugskilyrði. En formaðurinn viðurkenndi að nefndin hefði ekki skoðað fyrri mælingar, bæði frá 2001 og frá fyrri tíð, og hefðu þau því ekki áhrif á fyrirliggjandi niðurstöðu nefndarinnar.

Áður hafði ég heyrt út undan mér Þorgerði Katrínu Gunnarasdóttur tala um nauðsyn þess að ég og mínir líkur myndum nú halda okkur á mottunni og fara ekki aftur í gömlu skotgrafirnar.

En þangað er ég nú kominn og skal nú hvergi hörfa heldur trúa áfram á málstaðinn og gæta þess að láta ekki púðrið blotna eins og gamli Cromwell ráðlagði sínum hermönnum.

Það styður að sönnu við áframhald Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri að ólíklegt má telja að opinberar fjárveitingar fáist til að halda áfram undirbúningi að flugvelli i Hvassahrauni. Jafnvel Dagur Bé. myndi verða í vandræðum að láta Borgarfulltrúa styðja við gerð flugvallar í öðrum sveitarfélögum.

Nú getum við séð nokkuð skýrt af niðurstöðu þessarar nefndar, að það var ekki endilega verið að leita einhverra sátta um flugmál höfuðborgarsvæðisins heldur því að finna eftir pólitískum geðþótta einhver haldbær rök fyrir því að loka Reykjavíkurflugvelli sem Dagur Bé. hefur löngu ákveðið að gera.

Sú staðreynd að Dagur Bergþóruson skuli hafa sest í nefndina og hver er pólitískur bakgrunnur formannsins Rögnu, var eitt og sér nóg til í upphafi til að gera nefndina eða stýrihóp eins og hún kallar sig, ótrúverðuga í mínum augum. Ég benti á ítrekað að þessi nefndarskipun  væri pólitísk kosningabrella Dags Bé.til að drepa flugvallarumræðu á dreif í kosningunum 2013.

 

Opinberlega var nefndin sögð stýrihópur ríkis og Reykjavíkurborgar. Alger þversögn á stjórnarsáttmálann eins og Reykjavíkurbréfið greinir. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir úr Hafnarfirði var skipuð í hópinn. Og svo einn flugreyndur maður Matthías Sveinbjörnsson af hálfu Icelandair. Þorsteinn Hermannsson frá Mannviti varð verkefnisstjóri. Meiri voru ekki tengslin við flugið sjálft.

En snúum að Reykjavíkurbréfinu:

"...Hér í hinu sólríka norðri var á hinn bóginn allt fremur kyrrlátt, og það jafnvel þótt stríðið um fundarstjórn forseta sé talið með.

Í lok vikunnar kynnti að vísu nefnd um flugvallarmál á höfuðborgarsvæðinu tillögur sínar. Formaður nefndarinnar mætti í Kastljós, þar sem Helgi Seljan ræddi við hann. Sá umsjónarmaður vill gjarnan þjarma að viðmælendum sínum, a.m.k. þeim sem eiga slíkt meira en skilið af pólitískum ástæðum, eftir frjálsu mati hans. Þó virtist í byrjun að Helgi vildi í einlægni fá það út úr viðmælanda sínum út á hvað þessar óvæntu tillögur gengju eiginlega. En það varð fljótlega ljóst að honum yrði ekki kápan úr því klæðinu.

Samtalið var næsta einstætt og er þeim sem af því misstu eindregið ráðlagt að láta eftir sér að hlusta á það í endurspilun. Það minnti helst á gamla grínþætti þar sem flutt voru tilbúin viðtöl við sérfræðinga eða sýslunarmenn.

Niðurstaðan í slíkum þáttum varð jafnan sú að hvorki spyrjandinn, viðmælandinn eða áheyrendur vissu hvort þeir væru að koma eða fara. Formaður staðsetningarnefndarinnar minnti helst á flugmann sem fljúgandi í svarta þoku hafði ákveðið að slökkva á blindflugskerfinu til öryggis.

Í Útvarpi Matthildi var einu sinni flutt svona viðtal við sérfræðing í málefnum eyrnasnepla. Vafalítið hafa stjórnendur Matthildar, í stjórnlausri sjálfumgleði sinni, talið að það viðtal yrði ekki slegið út, en þeir hljóta nú að vera nærri því að játa sig sigraða.

 

Núverandi stjórnarflokkar kusu að hafa stjórnarsáttmála sinn bæði langan og óljósan. Hann birtist sem blanda af vægt orðuðum viljayfirlýsingum, vangaveltum og eins konar tilmælum til þeirra sem væru að taka við landstjórninni. Þannig er auðvitað hægt að hafa stjórnarsáttmála. Muna má eftir löngum og efnismiklum stjórnarsáttmálum þar sem reynt var að bútasauma stefnu um allt, stórt og smátt. Það undirstrikaði hins vegar að rík tortryggni væri til staðar hjá þeim sem voru að skipta með sér verkum. Slíkt samstarf stóð sjaldan lengi og endaði oftast illa.

En í núgildandi stjórnarsáttmála var þó eitt ákvæði sem virtist sæmilega afgerandi, a.m.k. ef miðað er við önnur ákvæði hans:

„Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins. Til þess að hann geti áfram gegnt því mikilvæga þjónustuhlutverki sem hann hefur gert gagnvart landinu öllu þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu.“

(Var mikil fylgni Hönnu Birnu við þetta ákvæði þegar hún hóf leikinn? Hví gerði hún Degi og Gnarr þennan greiða? INNSK. BLOGGARA)

 

Þetta virðist allt þokkaleg ljóst. Reykjavíkurflugvöllur er sagður grundvallarþáttur í samgöngum landsins. Þeir sem hefðu kosið knappan og hnitmiðaðan stjórnarsáttmála hefðu látið þessi orð duga. En framhaldið virtist ekki skaðlegt.

Ekki leið þó á löngu áður en farið var að gefa í skyn að einhverjir hefðu samþykkt þessa yfirlýsingu með lygamerki fyrir aftan bak. Þeir gætu leyft sér að túlka niðurlag yfirlýsingarinnar þannig að tryggja mætti tilveru og „mikilvægt þjónustuhlutverk“ Reykjavíkurflugvallar með því að flytja hann eitthvert! Það minnir óneitanlega á gamalkunna klisju krata um að eina leiðin til að tryggja fullveldið sé að deila því með öðrum.

Engum datt í hug að klisja af því tagi yrði yfirfærð yfir á flugvelli af núverandi ríkisstjórn.

Ekki leið þó á löngu þar til fréttist að innanríkisráðherrann og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefði ákveðið að gera samning við Jón Gnarr og Dag B. Eggertsson sem tryggði þeim að flugvallarmálið yrði þeim ekki erfitt kosningamál vorið 2014 og hafa þar með yfirlýsinguna í stjórnarsáttmálanum að engu. Allt var þetta kynnt á blaðamannafundi og í lokin kjassaði innanríkisráðherrann þá tvo svo myndarlega í útsendingunni að ósanngjarnt var að gera kröfur um að það yrði betur gert. Nú hefur nefnd ríkisins og Reykjavíkurborgar skyndilega gert tillögu um að flytja Reykjavíkurflugvöll suður fyrir Straumsvík.

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík virtist koma af fjöllum þegar þetta var tilkynnt en gaf þó strax til kynna að hann myndi algjörlega skoðanalaus taka á móti þessum hugmyndum. Virtist hann dulítið stoltur yfir þeim viðbrögðum. Og auðvitað má segja að þau séu ekki stílbrot á framgöngu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í öðrum málum síðustu árin. Flokkurinn hefur reynt að slá um sig skjaldborg gegn hættu á vaxandi fylgi og hefur árangurinn orðið betri en nokkur þar á bæ hefði getað þorað að vona.

Frægasta vera sem tengist nágrenni umrædds flugvallarstæðis er sennilega Marbendill sá sem hló svo frægt varð. Ekki skal spáð til um það nú hvort Marbendli sé hlátur í huga eða hvort fjársjóður finnist í þúfum Hvassahrauns, en land þar mun þó nú fáanlegt til kaups. Það er skemmtileg tilviljun og ástæðulaust að bendla Marbendil við hana."

Og þegar svo er komið að framtíð flugs frá Reykjavík er búið að vísa á slóðir Stapadraugsins, þá er það í stíl að hafa samband við aðrar huldar vættir.

Morgunblaðið greinir einnig svo frá í sambandi við þetta mál:

"Ragn­hild­ur Jóns­dótt­ir í Álfag­arðinum í Hell­is­gerði seg­ir mikla byggð álfa og huldu­fólks vera á því svæði Hvassa­hrauns sem stýri­hóp­ur rík­is, Reykja­vík­ur­borg­ar og Icelanda­ir tel­ur henta einna best fyr­ir nýj­an inn­an­lands­flug­völl. Seg­ir hún það al­veg ljóst að álf­ar vilji ekki flug­völl inn á sitt byggðasvæði.

„Hvað álfa snert­ir þá er þessi hug­mynd al­veg hræðileg,“ seg­ir Ragn­hild­ur í sam­tali við mbl.is og bend­ir á að í Hvassa­hrauni sé blóm­leg byggð álfa og huldu­fólks. En á því svæði sem stýr­i­n­efnd tel­ur henta vel und­ir nýj­an inn­an­lands­flug­völl seg­ir Ragn­hild­ur álfa stunda at­vinnu­starf­semi, land­búnað og sjó­sókn auk þess sem fjöl­marg­ir álf­ar eigi þar fasta bú­setu árið um kring."

Er ekki við hæfi  eftir efninu að gleyma ekki hinum huldu sjósóknurum landsins, utan kvótakerfis,  þegar flugmál eru annars vegar? Veit nokkur nema álfar nýti sér flug líka?

Eru ekki endalausar deilur um nauðsyn flugvalla og flugs ekki að valda því að við gleymum honum  Marbendli og hinum huldu vættum landsins? Yrði leiðsögn þeirra í grunninum nokkuð óskynsamlegri en þeirra Dags Bé. EssBjarnar og Halldórs Pírata í flugmálum þjóðarinnar?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 3418216

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband