Leita í fréttum mbl.is

Þjóðhættulegar viðskiptabakteríur

leika lausum hala á Alþingi og í fjölmiðlum.

Sú fyrri er frumvarpið um brennivín í Bónus sem þjóðin er alfarið á móti.Ef við settum þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu þá yrði það kolfellt. Þjóðin treystir ekki Högum né prívatkaupmönnum til þess að bæta eitthvað ástand sem er bara í góðu lagi. Nei þá þarf endilega Sjálfstæðisflokkurinn að fæla frá sér fylgi að óþörfu með því að enga fólk til andstöðu við sig út af svona ómerkilegu máli.

Þetta er sú fyrri.

Sú næsta fjallar um innflutning á þjóðhættulegum alvöru ofurbakteríum til þess að þóknast sömu viðskiptabakteríunum og standa á bak við hinar fyrri.

Svo segir í leiðara Morgunblaðsins í dag:

"Alþjóðaheilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna, WHO, skoraði í upphafi vikunnar á ríkisstjórnir, vísindamenn og lyfjafyrirtæki að leggja áherslu á að finna ný lyf til að vinna á tólf fjölónæmum ofurbakteríum. Er óttast að bakteríur, sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum, geti valdið sprengingu í ólæknandi sjúkdómum. Sú staða er komin upp að sýkingar sem auðvelt var að lækna gætu orðið banvænar. WHO hefur varað við því að hætt sé við að tími sýklalyfjanna sé liðinn. 

»Möguleikarnir til meðferðar eru brátt á þrotum,« sagði Marie-Paule Kieny, aðstoðarframkvæmdastjóri WHO, þegar hún kynnti listann. »Ef við látum markaðsöflin ein um þetta verða nýju sýklalyfin, sem brýnust þörf er á, ekki þróuð í tæka tíð.«

 Í fréttum um áskorun WHO hefur verið vitnað í Sallie Davis, landlækni á Bretlandi, sem hefur sagt að fjölónæmar bakteríur séu sambærileg ógn við þjóðaröryggi og hryðjuverk. Thomas R.Frieden, sem nýlega lét af starfi stjórnanda sjúkdómavarnastofnunar Bandaríkjanna, CDC, sagði þær »eina alvarlegustu heilbrigðisógn« okkar tíma.

 Í liðinni viku sagði Mataröryggisstofnun Evrópu að ætla mætti að ofurbakteríur drægju 25 þúsund íbúa álfunnar til dauða á hverju ári. Að mati CDC deyja 23 þúsund Bandaríkjamenn árlega af völdum ofurbaktería.

Meginástæðan fyrir því að fjölónæmar bakteríur eru komnar á sjónarsviðið og valda slíkri ógn er ofnotkun sýklalyfja, jafnt í mönnum sem dýrum.

 Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, tók málið upp á fundi sem hann stóð fyrir um helgina. Þar voru frummælendur Karl Kristinsson, yfirlæknir á Landspítala, og Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Karl hefur áratugum saman gagnrýnt ofnotkun sýklalyfja í íslensku heilbrigðiskerfi og bent á hætturnar sem henni eru samfara.

 Vilhjálmur lýsti sérstöðu Íslands í þessum efnum í viðtali við Morgunblaðið á föstudag í liðinni viku. Þar minnti hann á að Ísland væri eyja og fyrir þær sakir ætti að vera auðvelt að verjast nýjum smitefnum. Nútímalifnaðarhættir hefðu veikt mikið þær varnir sem fælust í legu landsins en þó væri hægt að hafa áhrif með fyrirbyggjandi eða áhættuminnkandi aðgerðum. Óvenjuleg smitsjúkdómastaða Íslands í dýrum gerði að verkum að öllum innflutningi á ferskum dýraafurðum fylgdi ákveðin hætta á að smitefni bærist hingað og breiddist út. Hann segir í viðtalinu að það geti haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar að slaka á núgildandi heilbrigðiskröfum. Hætt sé við að tíðni matarsýkinga í mönnum á Íslandi aukist og sömuleiðis líkur á að »smitburður í dýr af óæskilegum sjúkdómsvöldum muni eiga sér stað fyrr eða síðar, hvort sem það verður með vörunum sjálfum eða þeim sem neyta þeirra«.

 Margrét Guðnadóttir, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, dró upp dökka mynd af ástandinu í viðtali við Morgunblaðið á fimmtudag í liðinni viku og varaði við innflutningi á hráu, ófrosnu kjöti og lifandi skepnum. Voru viðvörunarorð hennar tekin upp í leiðara í Morgunblaðinu daginn eftir.

 MÓSA er gott dæmi um alvarleika þessa máls. Þessi skammstöfun hljómar kannski ekki kunnuglega. Hún stendur fyrir Meticillin ónæmur <ská>Staphylococcus aureus. Á vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að bakterían <ská>Staphylococcus aureus lifi að staðaldri á húð og einkum í nefi 20-40% manna án þess að valda nokkrum einkennum eða skaða. Hún geti hins vegar valdið misalvarlegum sýkingum komist hún í sár. Til að verjast slíkum sýkingum hefur lyfið Meticillin helst verið notað. Hins vegar er orðið æ algengara að afbrigði bakteríunnar séu ónæm fyrir Meticillini og fleiri sýklalyfjum og þá vandast málið. Þessi afbrigði heita MÓSA. Þau geta hegðað sér með sama hætti og afbrigðin sem bregðast við sýklalyfjum. Vegna þess hve MÓSA er víða að finna á sjúkrahúsum erlendis hafa sjúkrahús hér á landi sett reglur um markvissa leit við innlögn sjúklinga sem stutt er síðan lágu á sjúkrahúsum erlendis. Sama á við um starfsmenn sem unnið hafa á sjúkrahúsum annarra landa.

 MÓSA er einnig að finna í dýrum erlendis. Í Danmörku er MÓSA landlægur í svínarækt og hefur greinst í þriðjungi pakkninga af hráu svínakjöti. Matreiðsla á slíku kjöti krefst mikillar varkárni og getur bakterían hæglega borist í menn, sem geta gengið með hana án þess að eftir verði tekið. Það er ekki fyrr en þær komast inn í líkamann í gegnum opin sár að voðinn er vís. Talið er að minnst sex manns hafi látist af völdum MÓSA í Danmörku.

 Talsmönnum þess að leyfa eigi óheftan innflutning á hrárri kjötvöru hættir til að gera lítið úr heilbrigðisröksemdum og gefa í skyn að þeir sem leggist gegn honum láti stjórnast af verndarhyggju og þvergirðingshætti. Málið er hins vegar alvarlegra en svo. Í fyrra kom út skýrsla á Bretlandi eftir Jim O&#39;Neill, hagfræðing og fyrrverandi ráðherra í bresku stjórninni, þar sem sagði að yrði ekkert að gert gætu tíu milljónir manna legið í valnum á ári af völdum ofurbaktería með sýklalyfjaónæmi. Þær væru þá orðnar algengari dánarorsök en krabbamein. Spám af þessu tagi ber að taka með varkárni en þær hljóta að gefa tilefni til að staldra við. Hingað til hefur tekist að halda þessum vágestum í burtu og er til mikils að vinna að halda því áfram."

Það er óskandi að eitthvað af þessu þingmannalið sem lifir annars í tilgangsleysi taki sig saman og fari að spá í alvarleika þessa máls í stað þess að fjandskapast út af tittlingaskít eins og búvörusamningunum.

Það eru þjóðhættulegar viðskiptabakteríur á ferð sem við verðum að varast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Halldór Jónsson
Halldór Jónsson

verkfræðingur, flugdellukall, tennis-og badmintonspilari

-ekki góður í neinu af þessu-

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 3418231

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband